Evrópuráðsþingið samþykkti á vorþingi sínu í Strassborg í síðustu viku þingsályktun og tilmæli til aðildarríkja Evrópuráðsins um aðgerðir til þess að berjast gegn kynferðislegri áreitni og ofbeldi í pólitík. Nokkuð var fjallað um málið í íslenskum fjölmiðlum en ætla má að það sé gríðarlega mikilvægt fyrir fjölda fólks sem starfar á þjóðþingum víðsvegar um Evrópu.
Þingflokksformaður Pírata og formaður laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþings, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, var framsögumaður skýrslu um aðgerðir gegn kynferðisofbeldi og -áreitni á þjóðþingum. Hún mælti jafnframt fyrir þingsályktuninni og kom fram með tilmælin til aðildarríkjanna.
Kynferðisleg áreitni snýst frekar um völd
Þórhildur Sunna segir í samtali við Kjarnann að skýrslan hafi mikið vægi fyrir ríki sem ekki eru komin jafn langt í jafnréttismálum og Ísland. „Á mörgum stöðum er kynferðisleg áreitni ekki einu sinni viðurkennd,“ segir hún.
Á mörgum stöðum er kynferðisleg áreitni ekki einu sinni viðurkennd.
„Þess vegna er þetta svona mikilvægt fyrir konur í pólitík – sérstaklega í miðri og austanverðri Evrópu,“ segir hún og bætir því við að kynferðisleg áreitni og ofbeldi hafi lítið með kynlíf að gera og snúist frekar um völd. „Það er ráðist á þær fyrir það eitt að vera konur í pólitík,“ segir Þórhildur Sunna. Þess vegna sé þessi samþykkt svo mikilvæg því þarna fái þessar konur ákveðin verkfæri í hendurnar. Hún segist vera stoltust af því að fá að taka þátt í að gefa þeim það.
Sláandi niðurstöður
Skýrsla Þórhildar Sunnu byggir á rannsókn Evrópuráðsins og Alþjóðaþingmannasambandsins. Í henni voru tekin viðtöl við 123 konur frá 45 Evrópulöndum en 85,2 prósent þingkvenna sögðust hafa orðið fyrir andlegu ofbeldi á meðan þær sátu á þingi og 25 prósent kynferðisofbeldi. Tæp 47 prósent kvenna sem spurðar voru höfðu orðið fyrir líflátshótunum og/eða hótunum um barsmíðar og 58 prósent þeirra höfðu orðið fyrir árásum á netinu sem höfðu kynferðislegan undirtón.
Tæp 15 prósent kvennanna sögðust hafa orðið fyrir líkamlegu ofbeldi og 40,5 prósent þeirra kváðust hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni á meðan þær voru við störf í þinginu. Í 69 prósent tilfella voru karlkyns þingmenn að verki samkvæmt svörum kvennanna í rannsókninni.
Áhersla lögð á viðurlög við brotum
Aðgerðirnar sem samþykktar voru í síðustu viku eru þríþættar. Í fyrsta lagi stendur til að efla fræðslu og rannsóknir og koma á fót átaksverkefnum til vitundarvakningar. Átakið #NotInMyParliament hefur þegar verið sett á laggirnar en það snýst um að hvetja þingmenn til að fordæma áreitni og ofbeldi á þingi.
Í öðru lagi eru gerð tilmæli til aðildarríkja Evrópuráðsins að setja upp óháða nefnd eða stofnun fyrir þá sem verða fyrir áreitni eða ofbeldi. Sá vettvangur yrði hugsaður sem stuðningur við þolendur.
Í þriðja lagi verður lagt til að þing uppfæri siðareglur sínar og setji lög sem muni ná yfir þingmenn sem og starfsmenn þjóðþinganna. Enn fremur verður lögð áhersla á að viðeigandi viðurlög verði sett við slíkri ósæmilegri hegðun í samræmi við brotið.
Málið í gegn á methraða
Þórhildur Sunna segist gríðarlega ánægð með tilmælin. Liðin séu næstum tvö ár frá því metoo-umræður hófust fyrir alvöru án þess að teljandi viðbrögð hafi borist frá Evrópuráðinu. Hún bendir á að málið hafi farið í gegnum þingið á methraða og telur hún þann árangur vera ærinn. Þingsályktunartillagan sjálf hafi fengið mjög góð viðbrögð en 75 þingmenn voru á henni og samþykkti yfirgnæfandi meirihluti hana. „Þetta var tekið alvarlegar og fastari tökum en ég átti von á,“ segir hún.
Þetta var tekið alvarlegar og fastari tökum en ég átti von á.
Hún segir það skipta máli að tala hátt og skýrt um hlutina eins og þeir eru en hún hafði upplifað að jafnréttismál fengju minni athygli á þinginu.
Varðandi það hvernig Íslendingar standa sig í þessum málum þá segir Þórhildur Sunna að þeir uppfylli ekki þær kröfur sem ætlast sé til. Til að mynda séu engin viðurlög við að brjóta gegn fólki og engin sjálfstæð stofnun sem tekur við ferlinu. Hún bendir á að sjálfstæð rannsókn sé í burðarliðnum um hvernig málum sé nákvæmlega háttað á Alþingi Íslendinga og fagnar hún því. Þó sé ýmislegt ógert.