Styrkur ríkisfyrirtækis við WOW air tapast
Í gær komst dómstóll að því að leigusali WOW air þurfi ekki að greiða skuld hins gjaldþrota félags við ríkisfyrirtækið Isavia. Því virðast skattgreiðendur, eigendur Isavia, sitja uppi með það tap sem verður. Á meðal kröfuhafa eru ásakanir um blekkingar og svik og endurskoðendur rannsaka nú það sem átti sér stað síðustu mánuði.
Þótt WOW air sé gjaldþrota þá eru enn margir þræðir í sögu félagsins óhnýttir. Nú virðist blasa við að Isavia, sem er í eigu íslenskra skattgreiðenda, muni tapa um tveimur milljörðum króna á því að veita félaginu fyrirgreiðslu og hluti þeirra fjárfesta sem keypti skuldabréf í útboði WOW air í september telja að þeir hafi verið blekktir.
Á meðan súrna eftirstandandi eignir WOW air dag frá degi og afar ólíklegt er orðið að af endurreisn þess verði.
Skuldabréfaútboðið sem var ekki eins og það sýndist
Þann 15. ágúst 2018 birti Kjarninn fjárfestakynningu sem norska verðbréfafyrirtækið Pareto Securites hafði útbúið fyrir WOW air. Þar var hægt að sjá nákvæmari upplýsingar um fjárhag WOW air en höfðu birst áður.
Forsvarsmenn Pareto voru ósáttir við birtinguna, og sendu tölvupóst til blaðamanns Kjarnans, þar sem þess var krafist að upplýsingarnar yrðu teknar tafarlaust úr birtingu. Ef það yrði ekki gert þá myndi Pareto grípa til viðeigandi lagalegra aðgerða.
Kjarninn benti á það í svari, að Pareto hefði sjálft birt kynninguna á opnu svæði á internetinu, og því væri krafa fyrirtækisins ekki viðeigandi. Auk þess væri það mat Kjarnans að upplýsingarnar ættu erindi við almenning og því yrði ekki orðið við því að taka upplýsingarnar úr birtingu. Eftir það heyrðist ekki meira frá Pareto.
Sú mynd sem þar var dregin upp var frekar dökk. WOW air átti augljóslega ekki nægt eigið fé til að takast á við þær áskoranir sem félagið var þegar að takast á við, og sannarlega ekki til að mæta þeim sem voru framundan. Eigið fé þess var komið undir fimm prósent í júní 2018.
Pareto hafði það hlutverk að ná í brúarfjármögnun fyrir WOW air þangað til að hægt yrði að skrá félagið á markað. Það átti að gera í gegnum skuldabréfaútboð. Til stóð að ná í 56 til 112 milljónir dala. Auk Pareto voru Arion banki og Arctica Finance ráðgjafar WOW air við framkvæmd skuldabréfaútboðsins.
Verulega erfiðlega gekk að loka skuldabréfaútboðinu, en það hafðist þó skömmu eftir miðjan september í fyrra. Alls náðist að safna 60 milljónum evra.
Fljótlega varð ljóst að það fjármagn nægði alls ekki til og þá hófust tilraunir til að finna kaupanda að WOW air. Icelandair fór tvívegis í viðræður um að kaupa félagið og viðræður við Indigo Partners stóðu yfir mánuðum saman. Hvorugur aðilinn taldi það þó á endanum skynsamlegt að fjárfesta í WOW air.
Telja sig blekkta
Þegar skuldabréfaútboðinu var lokað á sínum tíma var ekki greint frá því opinberlega hverjir hefðu keypt. Einungis sagt frá því að um innlenda og erlenda aðila væri að ræða. Síðar kom í ljós að Skúli Mogensen, eigandi og forstjóri WOW air, hafði tekið þátt ásamt nokkrum af helstu kröfuhöfum félagsins. Á meðal þeirra var Arion banki, einn stærsti kröfuhafi WOW air, sem keypti skuldabréf fyrir 4,6 milljónir evra.
Nú telja margir þeirra fjárfesta sem settu raunverulegt fjármagn í að kaupa skuldabréf WOW air að þeir hafi verið blekktir í útboðinu. Sumir þeirra telja svo illa á sér brotið að um fjársvik sé að ræða.
Þeim hafi ekki verið kunnugt um að stærstur hluti þeirrar fjárhæðar sem safnaðist í útboðinu hafi ekki verið nýtt fjármagn, heldur umbreyting á kröfum í skuldabréf. Það átti til að mynda við um þær 4,6 milljónir evra sem Arion banki keypti fyrir. Samhliða þeim kaupum hafi verið gerður baksamningur milli bankans og WOW air um að fella niður yfirdráttarskuld upp á sömu upphæð. Arion breytti því í raun yfirdráttarskuld í skuldabréf, en setti ekkert nýtt fé inn í félagið.
Skuldabréfaeigendur sem settu raunverulegt fé inn í WOW air hafa óskað eftir því að fá upplýsingar frá skiptastjórum WOW Air hverjir skilmálar ábyrgðartryggingar stjórnenda félagsins séu, þar sem að þeir telja að stjórnendurnir hafi mögulega bakað sér persónulega skaðabótaskyldu á grundvelli þess að hafa ekki veitt fullnægjandi upplýsingar um stöðu WOW air og eðli skuldabréfaútboðsins þegar það fór fram.
Samkvæmt heimildum Kjarnans er endurskoðunarfyrirtækið Deloitte nú að vinna að úttekt á þessum málum og fleirum sem tengjast WOW air og á niðurstaða að liggja fyrir í lok júní. Sú niðurstaða verður síðan kynnt á skiptafundi í búi WOW air sem fyrirhugað er að halda 16. ágúst næstkomandi.
Isavia tapar milljörðum
Annað óleyst mál tengt WOW air er sú fyrirgreiðsla sem Isavia, sem er ríkisfyrirtæki, veitti félaginu.
Isavia og WOW air gerðu samkomulag um það í lok september 2018, skömmu eftir að skuldabréfaútboði í WOW air hafði verið lokið, hvernig félagið átti að greiða upp skuld sína við Keflavíkurflugvöll. Skuld WOW air við Isavia hafði vaxið hratt mánuðina á undan, og stóð í rúmlega milljarði króna í lok júlí 2018. Þá hafði hún tvöfaldast á rúmum mánuði.
Viðskiptablaðið greindi frá því í vikunni, og byggði það á fundargerðum stjórnar Isavia, að mánuði áður en greint var frá skuldabréfaútboði WOW air hafi verið gefin heimild fyrir rekstrarlánalínu og/eða yfirdráttarláni á stjórnarfundi Isavia upp á tvo milljarða króna.
Isavia taldi sig geta tryggt að skuldin fengist greidd með vegna þess að ákvæði loftferðalaga ættu að heimila fyrirtækinu að kyrrsetja vél WOW air til að tryggja greiðslu gjalda sem væru gjaldfallinn.
Þegar WOW air fór svo loks í þrot í lok mars var skuld félagsins við Isavia um tveir milljarðar króna. Vélin sem var kyrrsett fyrir greiðslu þeirrar skuldar, og WOW air hafði haft til umráða, var hins vegar ekki í eigu WOW air heldur hafði félagið leigt hana. Eigandinn var Air Lease Corporation (ALC) og hann hafði engan áhuga á því að borga skuld WOW air til að losa vélina sína.
Deilur vegna þessa rötuðu fyrir Héraðsdóm Reykjanes og í gær komst hann að þeirri niðurstöðu að ALC þyrfti ekki að greiða allar þær skuldir WOW air gagnvart Isavia sem safnast höfðu upp heldur einungis þær skuldir sem tengdust beint þotunni sem kyrrsett var. Þær nema 87 miljónum króna. Haldi sú niðurstaða mun Isavia því tapa þorra þeirra fjármuna sem ríkisfyrirtækið í raun lánaði WOW air til að leyfa félaginu að halda áfram starfsemi á síðasta ári og fram eftir árinu 2019.
Stjórnvöld vildu ekki setja WOW í þrot
Þeir sem sitja í stjórn Isavia eru skipaðir af stjórnarmálaflokkum sem sæti eiga á Alþingi. Ríkisstjórnin hefur auk þess verið upplýst um þá stöðu sem uppi var vegna skulda WOW air við Isavia síðustu mánuði, en ekki var vilji til þess að grípa inn með afgerandi hætti. Stjórnvöld vildu einfaldlega ekki vera sá aðili sem setti WOW air í þrot.
Á bakvið þá ákvörðun lá vilji til að gefa WOW air slaka til að bjarga sér með því að finna fjárfesta eða nýja eigendur. Tíminn sem vannst, frá síðasta hausti og til loka marsmánaðar þegar WOW air fór loks í þrot, nýttist líka vel sem aðlögunartími. Umfang starfsemi flugfélagsins dróst verulega saman. Vélum var fækkað, starfsfólki sagt upp og flugleiðum hætt. Allt gerði þetta það að verkum að höggið við sjálft gjaldþrotið varð mildara. Þá hafði Isavia vitaskuld tekjur af starfsemi WOW air á meðan að félagið starfaði.
En eftir stendur að ríkisfyrirtæki veitti flugfélagi í samkeppnisrekstri fyrirgreiðslu upp á tvo milljarða króna. Fyrirgreiðslu sem nú virðist ekki verða innheimtanleg, og mun því geta flokkast sem tapaður ríkisstyrkur.
Ein afleiðingin þessa er sú að Björn Óli Hauksson, sem hafði verið forstjóri Isavia í áratug, hætti störfum 17. apríl síðastliðinn. Hann hætti samstundis. Heimildir Kjarnans herma að hann hafi verið rekinn.
Jón Ásgeir og Pálmi á meðal fundarmanna
Nánast samstundis og WOW air fór á hausinn, sem gerðist 28. mars, byrjuðu ýmsir að máta sig við endurreisn félagsins. Sá sem hefur borið mest á þar er Skúli Mogensen.
Í viðskiptaáætlun sem er dagsett 3. apríl, og hefur verið dreift víða innan íslensks viðskiptalífs í von um að einhverjir með fjármuni á milli handanna hafi áhuga á að taka þátt í verkefninu, sem stýrt ef af Skúla og nokkrum fyrrverandi lykilstjórnendum WOW air, er rakið hvað myndi felast í slíkri endurreisn og það sem aflaga fór síðast með þeim afleiðingum að WOW air fór í þrot.
Hið endurreista félag átti að kaupa ýmis verðmæti úr þrotabúi WOW air, meðal annars vörumerkið og bókunarkerfið. Svo var stefnt að því að taka þátt í leiguverkefnum í tólf vikur fyrir stórt evrópskt flugfélag en frá júnílokum 2019 á hið endurreista félag að fljúga til 13 áfangastaða í Evrópu og Bandaríkjunum (London, París, Amsterdam, Berlín, Kaupmannahöfn, Dublin, Tenerife, Alicante, Frankfurt, Barcelona, New York, Baltimore og Boston).
Upprunalega átti að gera þetta með því að nota fimm Airbus-vélar en strax á næsta ári á þeim að fjölga í sjö og svo í tíu vorið 2021. Samkvæmt áætlun átti hið nýja WOW air að geta flutt tæplega 600 þúsund farþega á síðari helming þessa árs, um 1,5 milljónir á næsta ári og rúmlega tvær milljónir árið 2021. Til samanburðar flutti WOW air 3,5 milljónir farþegar í fyrra.
Verðmætin súrna
Til þess að láta þessa hugmynd ganga upp þá hafa Skúli og teymið hans, ásamt fulltrúum frá Arctica Finance, verið að funda með fjölmörgum fjárfestum síðustu vikurnar. Þeim vantar nefnilega 40 milljónir dali, um 4,8 milljarða króna, til að láta dæmið ganga upp.
Enn sem komið er hefur enginn bitið á agnið. Mánudaginn 8. apríl var haldinn fundur í húsakynnum Arctica Finance þar sem fjölmörgum fjárfestum úr mismunandi áttum var boðið að mæta og kynna sér það að fjárfesta í endurreisn WOW air.
Á meðal þeirra sem sátu fundinn, samkvæmt heimildum Kjarnans, var Pálmi Haraldsson, fyrrverandi eigandi Iceland Express Jón Ásgeir Jóhannesson, fjárfestirinn Guðni Eiríksson, Bogi Guðmundsson, stjórnarformaður Bustravel Iceland og ýmsir aðrir tengdir íslenskri ferðaþjónustu. Þar var einnig fulltrúi frá KEA-hótelum. Alls voru vel á annan tug aðila á fundinum þegar teymið sem var á vegum Skúla og Arctica Finance var með talið. Fundurinn skilaði engri eiginlegri niðurstöðu og ekki var áhugi hjá að minnsta kosti þorra þeirra sem sátu hann að koma með fjármuni inn í nýtt WOW air.
Viðmælendur Kjarnans úr fjármálageiranum sögðu þá að endurreisnin þyrfti helst að klárast fyrir páska ef hún ætti að eiga einhverja von.
Það gerðist ekki og með hverjum deginum súrna verðmætin sem eftir eru í þrotabúi WOW air.
Lestu meira:
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
7. janúar 2023Dreifing Fréttablaðsins fer úr 80 þúsund í 45 þúsund eintök á dag eftir breytingarnar
-
7. janúar 2023Tæknispá 2023: Tími gervigreindar er kominn og samfélagsmiðlar verða persónulegri
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
4. janúar 2023Hálfgerð Eurovision-stigagjöf hjá matsnefnd Hörpu sögð óhefðbundin
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
1. janúar 2023Þrennt sem eykur forskot Íslands
-
30. desember 2022Verslun í alþjóðlegu umhverfi