Giannis Antetokounmpo skoraði í gær 39 stig, tók 16 fráköst og gaf fjórar stoðsendingar á félaga sína í Milwaukee Bucks í NBA deildinni, þegar liðið vann sterkt lið Boston Celtics og komst í 3 - 1 í einvígi liðanna í undanúrslitum austurdeildarinnar.
Það yrði magnaður árangur hjá Milwaukee Bucks ef liðið kæmist í úrslit austurdeildarinnar, og auðvitað enn meira afrek ef liðið færi alla leið í úrslit.
Eitt er alveg öruggt: Leikur liðsins mun standa og falla með því hvernig Giannis Antetokounmpo mun spila. Hann hefur verið stórkostlegur í allan vetur og sýnt og sannað að fáir - ef þá einhverjir - geta ráðið við hann þegar hann er upp á sitt besta.
Þyrnum stráð
Óhætt er að segja að ferð Giannis á toppinn í NBA deildinni sé þyrnum stráð, og til marks um hversu mikið sumir þeirra sem ná langt í íþróttum þurfa að leggja á sig.
Giannis er með grískt ríkisfang, en fékk það ekki fyrr en seint og um síðir, þrátt fyrir að hafa verið alinn upp í Grikklandi og fæðst þar 6. desember 1994. Foreldrar hans fluttu frá Lagos í Nígeríu og bjuggu við sára fátækt í Grikklandi, í Sepolia hverfinu í Aþenu.
Framan af ævinni eyddi Giannis drjúgum tíma á hverjum degi í að reyna að afla tekna fyrir fjölskylduna, ásamt þremur bræðrum sínum, með því að selja varning á götuhornum. Svo sem úr og ýmislegt smálegt, sem faðir hans hafði komist yfir.
Í Grikklandi öðlast fólk ekki sjálfkrafa grískan ríkisborgararétt með fæðingu í landinu, og því voru bræðurnir - þrátt fyrir að hafa fæðst í Grikklandi og alist þar upp - ríkisfangslausir lengst af, og með stöðu flóttafólks. Einn bróðirinn var skilinn eftir í Nígeríu en hann ólst upp hjá ömmu og afa.
Í þessum aðstæðum dró fjölskyldan fram lífið, frá degi til dags. Í sárri fátækt, ríkisfangslaus og í raun alls laus. Litla vinnu var að fá fyrir foreldrana, alveg frá fyrsta degi þeirra í landinu.
Miklir hæfileikar
Snemma varð ljóst að Giannis var enginn venjulegur hæfileikamaður þegar kom að körfubolta. Hann var hávaxinn eftir aldri og gríðarlega kraftmikill.
Grikkland hefur áratugum saman verið hálfgerð vagga körfuboltans í Suður-Evrópu, og lengi hafa verið þar sterk félagslið og hefð fyrir miklum gæðum í deildarkeppni, líka á meðal yngri leikmanna.
Giannis var réttur maður á réttum stað, í Aþenu.
Hann skaraði fljótt fram úr og var orðinn hluti af aðalliði Filathlitikos 18 ára gamall, og spilaði til að byrja með í grísku 2. deildinni. Hann skrifaði undir samning við Real Zaragoza á Spáni árið 2013, en var með ákvæði í samningnum um að innganga í NBA væri möguleiki fyrir hann. Samningurinn gerði ráð fyrir að hann kæmi til Zaragoza fyrir tímabilið 2013/2014.
Á þessum tímapunkti gerðust hlutirnir hratt, eins og stundum vill verða hjá mönnum á þessum aldri sem hafa mikla hæfileika. Mikið æði greip um sig í Grikklandi, þar sem þessi 18 ára gamli leikmaður varð betri með hverjum leiknum.
Family. Loyalty. Legacy. Excited to announce my long-term partnership with @NikeBasketball #FamilyOverEverything @Thanasis_ante43 pic.twitter.com/remyaTVuhZ
— Giannis Antetokounmpo (@Giannis_An34) November 7, 2017
Svo fór að lokum, að hann varð hluti af nýliðavalinu í NBA deildinni fyrir tímabilið 2013/2014, og því varð ljóst að hann væri ekki á leið til Zaragoza.
Saga Giannis heillaði marga í Bandaríkjunum, en samt sem áður er oft erfitt að keppa um athygli fjölmiðla í nýliðavalinu, ef þú kemur ekki úr bandarískum háskólum. Svo fór að lokum að Giannis var valinn númer 15 í röð nýliða inn í deildina af Milwaukee Bucks, liðinu sem hann hefur síðan leikið með.
Ógnvekjandi leikmaður
Óhætt er að segja að Giannis sé óvenjulegur leikmaður. Þjálfari hans, Mike Budenholzer, hefur sagt að Giannis sé einstakur og óútreiknanlegur sem leikmaður. Hann er með ógnvekjandi hraða, miðað við hversu hávaxinn hann er, hefur góða boltameðferð og gegnumbrotshæfileikar hans eru sérstakir.
Hann leitar ekki mikið eftir langskotum, en hefur þó bætt sinn leik einkum með því að opna fyrir aðra og bæta ákvarðanatöku, þegar mest liggur við.
Þessi 24 ára gamli leikmaður er einnig orðinn að leiðtoga, sem dregur vagninn fyrir sitt lið þegar þess þarf. Oft lýkur hann sóknum með því að troða boltanum af afli í körfuna, án þess að nokkur geti gert neitt til að hindra það. Það virkar einfalt, en er það ekki.
Á þessu keppnistímabili skoraði Giannis 27,7 stig að meðaltali í leik, hitti úr 57,8 prósent skota sinna og tók 12,5 fráköst.
Hann hefur leikið enn betur í úrslitakeppninni og engin bönd hafa haldið honum í skefjum. Framundan er síðasti kaflinn á tímabilinu, þar sem bestu leikmennirnir stíga oftar en ekki upp og sýna listir sínar á stærsta sviðinu.
Flóttamaðurinn frá Nígeríu - sem fékk grískt ríkisfang 18 ára, eftir að hafa verið alinn upp ríkisfangslaus á götum Aþenu - er að skrifa nýjan kafla í NBA-sögubækurnar með stórbrotinni frammistöðu sinni á vellinum.
Hvort sem hann stendur uppi sem sigurvegari eða ekki, þegar úrslitakeppninni lýkur, þá hefur Giannis sýnt það á sínum ferli að draumar geta ræst, jafnvel þó aðstæðurnar í æsku gefi ekki mikla von um það.
Að því leytinu til er Giannis mikilvæg fyrirmynd fyrir aðra sem eiga erfitt með að skilja erfiðar aðstæður flóttamanna og innflytjenda, ekki síst í stórborgum.