Ísland er með mestu losun frá hagkerfi á einstakling innan ESB og EFTA svæðisins samkvæmt tölum Hagstofunnar frá 2016. Í takt við aukna umhverfisvitund og stefnumótun í umhverfismálum kolefnisjafna sífleiri einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir sig.
Kolefnisjöfnun fellst í því að reikna út hversu mikið einstaklingur, fyrirtæki eða stofnun menga mikið, til dæmis hversu mikil losun koltvísýrings á sér stað við flug eða akstur. Einstaklingurinn, fyrirtækið eða stofnunin greiðir fyrirtæki eða sjóði fyrir að planta trjám eða endurheimta votlendi sem í staðinn bindur sama magn af kolefni.
Endurheimt votlendis
Alls hafa 18 fyrirtæki og stofnanir kolefnisjafnað sig með framlagi til Votlendissjóðs, þar af níu fyrirtæki á þessu ári. Á síðasta ári greiddu 45 einstaklingar til sjóðsins en nú hafa alls 96 einstaklingar greitt til hans, að því er kemur fram í svari við fyrirspurn Kjarnans. Sumir einstaklinganna greiddu fleiri en eina greiðslu og flestir eru líklega að kolefnisjafna ferðir og lífsstíl sinn, segir í svarinu.
Bjarni Jónsson, framkvæmdastjóri Votlendissjóðs, segist finna fyrir verulega auknum áhuga einstaklinga á kolefnisjöfnun. „Ég skynja einnig áhuga fyrirtækja á að taka ábyrgð á fótspori rekstrar og tel að þau munu í síauknum mæli leita til Votlendissjóðsins með jöfnun þar sem endurheimt votlendis er tiltölulega einföld en mjög áhrifamikil aðgerð sem skilar sér á nokkrum vikum eða í mesta lagi mánuðum,“ segir Bjarni í svarinu.
Á heimasíðu Votlendissjóðs eru fjórar leiðir nefndar sem hægt er að nýta. Til að mynda er hægt að leggja inn á votlendissjóðinn sem sér um að endurheimta votlendið, í öðru lagi geta landeigendur endurheimt votlendi á eigin vegum á eigin landi, einnig er hægt að endurheimta votlendi á annarra landi sem henti til að mynda félagasamtökum eða verktakafyrirtækjum og að lokum geta stórkaupendur styrkt sjóðinn tl að endurheimta stórt svæði.
Skógrækt vinsæll kostur
Kolviður áætlar að um 80 fyrirtæki kolefnisjafni sig árið 2019. Árið 2018 kolefnisjöfnuðu um 45 fyrirtæki sig og 2017 rétt rúmlega 30 fyrirtæki, að því er kemur fram í svari Kolviðar við fyrirspurn Kjarnans.
66 einstaklingar kolefnisjöfnuðu sig á árinu 2018 en um 300 einstaklingar hafa kolefnisjafnað sig það sem af er ári 2019. Því er ljóst að vinsældir kolefnisjöfnunar hafa aukist gífurlega. Í svari við fyrirspurn Kjarnans segir fyrirtækið sig finna fyrir miklum áhuga á kolefnisjöfnun.
Á heimasíðu Kolviðar er hægt að sjá lista yfir fyrirtæki sem hafa kolefnisjafnað sig. Jafnframt er hægt að reikna sitt eigið kolefnisspor. Til dæmis kostar um þúsund krónur að kolefnisjafna flug fram og til baka til Kaupmannahafnar. Á heimasíðu Kolviðar stendur að einstaklingar geti kolefnisjafnað losun af ökutækjum sínum eða flugi og siglingum.
Bláa Lónið skrifaði nýverið undir samning við Kolvið sem er jafnframt stærsti samningur Kolviðar hingað til að því er segir í fréttatilkynningu Bláa Lónsins. Áætlað er að 18.000 tré verði gróðursett árlega til að tryggja kolefnisbindinguna.
Ríkið tekur þátt
Stjórnarráð Íslands hyggst raga úr losun sinni á koltvísýring um samtals 40 prósent fyrir árið 2030 og stefnir það á að hafa verið kolefnishlutlaust í meira en tíu ár árið 2030 og binda að auka meira CO2 en það losar.
Í frumvarpi Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, er lögð sú skylda á Stjórnarráð Íslands, stofnanir ríkisins og fyrirtæki í meirihlutaeigu ríkisins að þau skuli setja sér loftslagsstefnu.
Íslendingar menga mikið
Samkvæmt Hagstofunni var Ísland með mestu losun frá hagkerfi á einstakling innan ESB og EFTA svæðisins árið 2016.
Losun Íslands kemur að stærstum hluta frá flugi og framleiðslu málma.
Íslendingar henda líka mikið af fötum. Samkvæmt Umhverfisstofnun fer 60 prósent af vefnaðarvöru á Íslandi í ruslið og endar annað hvort í urðun eða brennslu. Aðeins 40 prósent fer í endurnotkun og endurnýtingu.
Íslendingar fljúga einnig mikið. Til að mynda var heildarlosun Stjórnarráðsins 1.377 tonn árið 2018, þar af var losun vegna flugferða á vegum ráðuneytanna og Rekstarfélags Stjórnarráðsins 963,4 tonn. Mest var losun utanríkisráðuneytisins eða alls 403 tonn af koltvísýring vegna flugferða í fyrra.