Jennifer Lynn Lopez fæddist í Bronx í New York þann 24. júlí 1969. Foreldrar hennar höfðu, líkt og hundruð þúsunda íbúa Púertó Ríkó flutt til Bandaríkjanna í von um betra líf. Foreldrarnir, Guadalupe Rodriguez og David Lopez vissu að í Bandaríkjunum yxu peningarnir ekki á trjánum en voru staðráðin í að skapa sér framtíð í nýja landinu. Hjónin eignuðust þrjár dætur og fyrstu árin í Bandaríkjunum vann David sem næturvörður en Guadalupe sá um heimilið. Hún varð síðar leikskólakennari en David fékk starf í tölvudeildinni hjá fyrirtækinu sem hann hafði unnið hjá sem næturvörður.
Þegar fjölskyldan hafði búið í New York í nokkur ár flutti hún úr litlu blokkaríbúðinni í tveggja hæða hús, sem mikil vinna og ráðdeild gerði hjónunum kleift að eignast. Dóttirin Jennifer sagði síðar að foreldrarnir hefðu verið sín fyrirmynd. Þeir hefðu innprentað dætrunum að leggja sig fram við það sem þær tækju sér fyrir hendur „því hef ég aldrei gleymt.“
Fimm ára í dans- og söngskóla
Þegar Jennifer var fimm ára ákváðu foreldrarnir að senda hana í dans- og söngskóla. Þar kom í ljós að sú stutta hafði mjög gaman af því að syngja og dansa fyrir áhorfendur. Sjö ára gömul var hún valin í söng-og danshóp skólans sem skemmti í öðrum skólum borgarinnar.
Jennifer sagði síðar frá því að systurnar hefðu sett upp sýningar „heima í stofu“ þar sem þær sungu og dönsuðu hver fyrir aðra og þrjár saman. Foreldrarnir lögðu mikla áherslu á að dæturnar gætu talað lýtalausa ensku, þær gengu allar í kaþólska skóla. Jennifer gekk ágætlega í skólanum og lauk menntaskólaprófi (High School) en hafði þó meiri áhuga fyrir íþróttum, söng og dansi en bóknáminu.
Fyrsta kvikmyndahlutverkið 17 ára
Á lokaári Jennifer í menntaskólanum frétti hún að kvikmyndafyrirtæki væri að leita að nokkrum stúlkum í aukahlutverk í kvikmynd. Jennifer skráði sig og fékk hlutverk í myndinni. Þessi kvikmynd „My Little Girl“ var frumsýnd í ársbyrjun 1987 og fékk ágæta dóma. Jennifer var, eftir þessa reynslu, ákveðin í að verða leikkona en það þótti foreldrunum ekki góð hugmynd „fólk eins og við fer ekki þessa leið“.
Jennifer skráði sig, vegna þrýstings frá foreldrunum, í háskólanám en hætti eftir eina önn. Foreldrarnir voru ósáttir við þá ákvörðun, en Jennifer sat við sinn keip og flutti að heiman, niður á Manhattan. Næstu árin fékk hún nokkur tímabundin smáhlutverk í söngleikjum, t.d. Jesus Christ Superstar og Oklahoma. Ennfremur tók Jennifer þátt í fimm mánaða ferðalagi bandarísks leikflokks um Evrópu, flokkurinn sýndi brot úr þekktum Broadway söngleikjum. Þegar því lauk var henni boðinn samningur í Japan, í söngleiknum Syncronicity. Þar söng hún og dansaði og samdi jafnframt dansana í sýningunni.
New Kids On The Block og In Living Color
Nú fóru hjólin fyrir alvöru að snúast. Árið 1991 tók Jennifer þátt í flutningi hljómsveitarinnar New Kids On The Block á laginu Games við afhendingu Bandarísku tónlistarverðlaunanna og sama ár var hún, úr hópi tvö þúsund umsækjenda, ráðin sem dansari í sjónvarpsþáttunum „In Living Color“. Þættirnir, sem voru sýndir á Fox sjónvarpsstöðinni, nutu mikilla vinsælda. Árið 1993 sagði Jennifer upp sem dansari í „In Living Color“ og flutti til Los Angeles.
Um líkt leyti tók hún þátt, sem dansari, í nokkrum tónleikum Janet Jackson en afþakkaði boð hennar um samning í þátttöku í tæplega tveggja ára söngferðalagi. „Það var komið að mér að standa á eigin fótum og gera það sem ég vildi,“ sagði Jennifer síðar. Hún hafði á sínum tíma sagt foreldrum sínum að hún vildi verða leikkona og það var næsta skref hennar á frægðarbrautinni.
Sama árið og Jennifer flutti til Los Angeles fékk hún fyrsta hlutverk sitt sem leikkona, það var í sjónvarpskvikmyndinni „Lost in the Wild“.
Í kjölfarið fylgdu hlutverk í fleiri sjónvarpskvikmyndum og þáttaröðum og nú fóru tilboð um stærri kvikmyndahlutverk að berast. Leikstjórar og framleiðendur, sem sífellt leita að nýju hæfileikafólki voru farnir að veita Jennifer Lopez athygli.
Selena
Á árunum 1995 og 1996 lék Jennifer í þremur kvikmyndum. Þar var hún í hópi þekktra leikara, þar á meðal Jack Nicholson og Robin Willams. Þessar þrjár myndir fengu misjafna dóma en gagnrýnendur sögðu að komin væri fram á sjónarsviðið leikkona sem vænta mætti mikils af. Sú héti Jennifer Lopez. Þegar henni byðist hlutverk sem nýtti hæfileika hennar yrði hún stórstjarna.
Þetta tækifæri kom árið 1997. Þá var Jennifer valin til að leika titilhlutverkið í kvikmyndinni Selena. Myndin byggir á ævisögu söngkonunnar Selenu Quintanilla-Pérez sem skotin var til bana aðeins 23 ára að aldri. Myndin fékk góða dóma og gagnrýnendur sögðu að þar færi saman áhugaverð, en jafnframt sorgleg, saga efnilegrar söngkonu. Jennifer Lopez fékk mikið lof fyrir frammistöðu sína og gagnrýendur sögðu að komin væri fram á sjónarsviðið ný stórstjarna, sem væri jafnvíg á söng, dans og leik. Þetta reyndust orð að sönnu.
Síðan 1997 hefur Jennifer Lopez leikið í á fjórða tug kvikmynda og framleitt sex þeirra sjálf. Hún hefur sagt að Selena hafi rutt kvikmyndabrautina, sú mynd hafi komið henni „á kortið“. Auk kvikmyndanna hefur Jennifer leikið í mörgum sjónvarpsþáttum og þáttaröðum.
Jennifer sagði fyrir nokkru frá því í blaðaviðtali að þekktur kvikmyndaframleiðandi hefði sagt við sig í „atvinnuviðtali“ að hann þyrfti að sjá á henni brjóstin til að vita hvort hún passaði í hlutverkið. Jennifer neitaði og svaraði því til að brjóstin væru tvö og ósköp venjuleg.
Hljómplötur í tugmilljónatali
Eins og minnst var á fyrr í þessum pistli sagði Jennifer, ung að árum, foreldrum sínum að sig langaði til að verða leikkona. Foreldrunum leist ekki vel á það en faðir hennar nefndi að „kannski ætti hún að reyna fyrir sér sem söngkona.“ Þessum orðum gleymdi Jennifer ekki og árið 1999 ákvað hún að nú væri rétt að slá til og gefa út plötu.
„Ég vissi að ástæða þess að ég fékk útgáfusamning væri sú að ég væri orðin þekkt leikkona. Mér var líka ljóst að ég væri að taka ákveðna áhættu með að gefa út plötu, þess vegna vandaði ég vel til verka,“ sagði hún. Platan „On the 6“ kom út 1. júní 1999 og hafi Jennifer óttast að valda vonbrigðum reyndist sá ótti ástæðulaus. Platan fékk góða dóma og til að gera langa sögu stutta hefur Jennifer nú sent frá sér átta plötur og 63 smáskífur, sem samtals hafa selst í um 80 milljónum eintaka.
World of Dance
Árið 2017 hóf sjónvarpsstöðin NBC sýningar á þáttaröðinni World of Dance. Eins og nafnið gefur til kynna snúast þættirnir um dans, þar sem þátttakendur frá fjölmörgum löndum sýna færni sína á dansgólfinu, og keppa um verðlaun. Samtals hafa verið sýndir 37 þættir og ný syrpa er nú í undirbúningi, hún kemur á skjáinn á næsta ári. Hugmynd, og uppbygging þessara þátta er komin frá Jennifer Lopez sem er jafnframt framleiðandi og einn þriggja dómara. Þættirnir hafa verið sýndir víða um lönd og áhorfendur samtals á annan milljarð.
Fjögur hjónabönd og tvíburar
Jennifer Lopez hefur reglulega verið umfjöllunarefni bandarískra fjölmiðla, þeirra sem fjalla um ríka fólkið. Jennifer er fjórgift og á tvö börn, tvíbura fædda 2008. Faðir þeirra er leikarinn Marc Antony en þau Jennifer voru gift frá 2004 til 2011.
Hefur rutt brautina
Í tilefni fimmtugsafmælis Jennifer Lopez hafa margir fjölmiðlar fjallað ítarlega um ævi hennar og störf. Allir virðast sammála um fjölhæfni hennar og dugnað. Þetta getur átt við marga fleiri. En það sem aðskilur Jennifer Lopez frá öllum öðrum er að hún ruddi brautina fyrir konur frá rómönsku Ameríku.
Það hefur lengst af verið hlutverk rómansk amerískra kvenna að gæta barna hvítra Ameríkana, vinna við hreingerningar og fleira í þeim dúr. Leikarar, einkum konur, frá rómönsku Ameríku sáust vart í sjónvarpi og kvikmyndum þangað til Jennifer Lopez kom fram á sjónarsviðið. Henni hefur tekist það sem svo marga frá rómönsku Ameríku hefur dreymt um. Og hún hefur aldrei gleymt upprunanum.
Blaðamaður The Guardian í Bretlandi skrifaði í umfjöllun sinni um Jennifer að fólk í okkar heimshluta eigi kannski erfitt með að átta sig á hve mikilvægt brautryðjendastarf hennar í þágu kvenna frá rómönsku Ameríku hafi verið. Danskur sérfræðingur í málefnum rómönsku Ameríku tók í sama streng.
Í hópi þeirra ríku
Jennifer Loopez hefur sannarlega kunnað að ávaxta sitt pund. Auk þess sem að framan er talið hefur hún hagnast vel á „tískubransanum“. Fatnaður, snyrtivörur, gleraugu og margt fleira sem ber nafn hennar hefur fært henni miklar tekjur. Tugmilljarða. Jennifer hefur þó ekki varðveitt það allt á bankabókinni því hún hefur varið hundruðum milljóna til margs konar málefna, meðal annars rannsókna á HIV veirunni. Galdurinn á bak við velgengnina segir Jennifer Lopez í raun engan galdur. „Ég hef alltaf unnið mikið og aldrei hallað mér aftur á bak í sófanum. Vinna og aftur vinna, ásamt heppni, hefur skilað mér þangað sem ég er.“
Þess má að lokum geta að Jennifer Lopez er nú á tónleikaferðalagi, að hennar eigin sögn, í tilefni fimmtugsafmælisins. Tónleikarnir, sem nefnast „It´s My Party“ verða samtals 38, þeir fyrstu voru í Inglewod í Kaliforníu 7. júní og þeir síðustu verða í Sankti Pétursborg í Rússlandi 11. ágúst.