Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Anna Kolbrún Árnadóttir og Bergþór Ólason, þingmenn Miðflokksins, telja Alþingi í sama hlutverki og öryggislögregla í ógnarstjórnarríkjum. Þau segja stjórnarandstæðinga nýta sér aðstöðu sína sem kjörnir fulltrúar að bæta í þá grimmilegu refsingu sem þau hafi þegar hlotið, auk þess telja þau sig þolendur glæps en ekki gerendur. Þetta kemur fram í andsvörum þeirra við áliti siðanefndar Alþingis sem þau sendu forsætisnefnd.
Bergþór og Gunnar Bragi, brutu siðareglur alþingismanna með ummælum sem þeir létu falla á barnum Klaustri þann 20. nóvember síðastliðinn, að því er kemur fram í áliti siðanefndar.
Telja fulltrúar löggjafans refsa þolendum
Í sameiginlegu bréfi Önnu Kolbrúnar, Bergþórs, Gunnars Braga og Sigmundar Davíðs segir að í málsmeðferð siðanefndar felist alvarleg brot á lögum og grundvallarreglum réttarríkja. „Í stað þess að verja þolendur alvarlegs glæps hafa fulltrúar löggjafans leitað allra leiða til að refsa þolendunum,“ segir orðrétt í bréfinu.
„Þolendur afbrotsins sem málatilbúnaðurinn byggir á, vinir þeirra og vandamenn, hafa þegar mátt þola grimmilegri refsingu en heimiluð er í nútíma samfélagi. Markmið pólitískra andstæðinga virðist vera að nýta aðstöðu sína sem kjörnir fulltrúar til að bæta þar í,“ segir í bréfinu. Þá segir jafnframt að málið hafi ekki heyrt undir siðareglur Alþingis og það að litið hafi verið fram hjá því undirstriki „einbeittan vilja til að nýta málið með pólitískum hætti.“
„Slíkt á ekki að geta gerst í lýðræðisríki“
„Frá upphafi hefur málið verið pólitísks eðlis og gengið út á að nýta opinbera stöðu til að refsa flokki í minnihluta án stoðar í lögum og reglum. Slíkt á ekki að geta gerst í lýðræðisríki,“ segir í sameiginlega bréfi þingmannanna fjögurra. Þau skrifa að fordæmið sem gefið sé með því að löggjafinn „nýti lögbrot í þágu pólitískra markmiða“ muni óhjákvæmilega skaða störf þingsins.
Í bréfinu segir: „Af hálfu hlutaðeigandi var Alþingi Íslendinga í raun sett í sama hlutverk og öryggislögregla í ógnarstjórnarríkjum með því að reyna að finna í illa fenginni upptöku af einkasamtali tækifæri á að koma pólitísku höggi á andstæðinga.“
Telja sig þolendur tvöfalds brots
„Ekki aðeins er leitast við að refsa þolendum alvarlegs afbrots heldur einnig að refsa mönnum fyrir að hafa í einkasamtali sagt frá áreitni sem þeir urðu fyrir. Þannig er leitast við að refsa þolendum tvöfalds brots,“ skrifa fjórmenningarnir.
„Af þremur fulltrúum í siðanefnd, sem allir tóku sæti eftir að málsmeðferð hófst, hafði einn fallist á að málið félli ekki undir siðareglurnar. Annar fékk ekki tækifæri til að leggja mat á það en sagði sig svo frá málinu af pólitískum ástæðum. Niðurstaðan byggir því á mati minnihluta siðanefndarinnar, eins fulltrúa sem var skipaður til verksins af aðilum sem þegar höfðu lýst sig vanhæfa,“ segir í bréfinu. „Í ljósi þess að Jón Kristjánsson, sem skipaður var formaður varasiðanefndar í málinu sagði sig frá því af pólitískum ástæðum vekur undrun að 7. og 8. varaforseti (ólöglega kjörnir) skuli telja sig bæra til að úrskurða um málið en báðir eru þeir starfandi pólitískir andstæðingar allra þeirra sem um er fjallað.“
„Í ljósi þess hvernig hluti varasiðanefndar nálgast málið má velta fyrir sér hvort frá upphafi hafi verið ætlunin að styðjast fyrst og fremst við pólitíska umfjöllun um málið. Gildishlaðnar athugasemdir um hugarfar þeirra sem um var fjallað gefa það til kynna. Í handriti því sem Alþingi sjálft lét vinna sést enda að ótal fullyrðingar um eðli samtalsins voru villandi og rangar. Klipptir voru út bútar til að draga upp þá mynd að samtalið hefði fyrst og fremst markast af „fordómum í garð minnihlutahópa“. Að minnsta kosti einn fulltrúi í varasiðanefnd virðist nálgast málið út frá þeirri fyrir fram gefnu mynd í stað þess að líta á heildarsamhengið. Þetta er til að mynda áberandi þar sem þingmenn fá ákúrur fyrir að lýsa áreitni sem þeir urðu fyrir,“ skrifa þingmennirnir.
Fjórmenningarnir telja að brotin hafi verið ein mikilvægasta regla réttarríkisins gegn þeim vegna þess að þeir hafi ekki fengið að hlýða á þau gögn sem í upphafi voru lögð til grundvallar málsmeðferðinni.
Málið vekur óhug Klaustursmanna
„Mál þetta allt vekur óhug af fjölmörgum ástæðum. Með því er leitast við að refsa þolendum glæps. Það er rekið áfram af pólitískum andstæðingum þeirra sem fyrir urðu og löggjafarsamkoman notuð í þeim tilgangi. Eðlilegri málsmeðferð hefur hvergi verið fylgt. Farið hefur verið á svig við lög eftir að upphaflegir aðilar höfðu gert sig vanhæfa. Hinir sömu hafa þó áfram hlutast til um málsframvinduna. Samræmis er hvergi gætt. Tilgangurinn helgar meðalið. Skaðinn fyrir okkur og fjölskyldur okkar er mikill en verst er að þeir sem fara með vald skuli hafa leitast við að misnota það með svo alvarlegum hætti. Við verðum að vona að slíkt sé ekki til marks um það sem koma skal í íslensku samfélagi,“ skrifa fjórmenningarnir.
„Pólitísk réttarhöld“ siðanefndar
Í andsvari Sigmundar Davíðs skrifar hann að það hljóti að slá einhvers konar met í aðför að persónu- og málfrelsi þegar leitast sé við að nýta ólögmæta upptöku af einkasamtali.
Í bréfi Gunnars Braga segir: „Hin pólitískt skipaða siðanefnd kemst að þeirri niðurstöðu að undirritaður hafi brotið siðareglur Alþingis. Því hafna ég algerlega sem og aðdróttunum um viðhorf mitt til kvenna.“ Hann skrifar einnig að hvergi í lýðræðisríki geti það talist eðlilegt að pólitískir andstæðingar fái vald til að dæma andstæðinga sína.
Anna Kolbrún segir í andsvari sínu að allur málatilbúnaður þessa máls hafi verið mjög sérstakur og „virðist rekinn af sérstaklega miklum þrótti af forseta Alþingis svo ekki er annað hægt að álykta sem svo en að forseti Alþingis sé á persónulegri pólitískri vegferð. Haldið var áfram með málið þrátt fyrir að Persónuvernd hafi dæmt gögnin og öflun þeirra ólögmæt. Ég viðraði álit mitt á ferli málsins í viðtali við RÚV. 16. janúar 2019.“
Í bréfi Bergþórs segir: „Það vekur undrun og óhug ef það að ég leyfi mér að fá dálitla útrás fyrir það sem ég hef gengið í gegnum og tjái mig um málið með þeim hætti sem ég treysti mér til, að því er ég taldi í öruggu umhverfi, sé það notað gegn mér í pólitískum réttarhöldum.“
Bergþór fer hörðum orðum um siðanefnd og segir það hryggja sig að nefnd Alþingis skuli ætla sér að hans mati nýta sér glæp til að refsa þolendum brotsins og um leið þolendum kynferðisbrots. Hann sagði álit siðanefndar jafnframt hafa „gildishlaðinn tón.“
Bergþór vill leysa upp siðanefnd
„Stjórnmálamenn eru í þeirri stöðu að kveða upp dóm yfir pólitískum andstæðingum sínum og einhvern vegin hefur þeim sem á hafa haldið tekist að klúðra málum þannig að öll eðlileg viðmið hvað réttindi þeirra sem málarekstur beinist að hafa verið látin víkja,“ segir í bréfi Bergþórs.
„Í kjölfar þeirra tveggja mála sem forsætis-og siðanefnd hafa klárað og kannski sérstaklega vegna þeirra mála sem forsætisnefnd hefur ekki klárað, tel ég rétt að það verði skoðað alvarlega að leysa upp siðanefnd Alþingis og þann feril sem nefndinni fylgir,“ skrifar hann.