selabankinn_15367564864_o.jpg

Seðlabankinn og réttur almennings til að vita

Seðlabanki Íslands getur, umfram flestar aðrar stjórnsýslueiningar, beitt þagnarskylduákvæði sérlaga um sig til að veita fjölmiðlum ekki upplýsingar. Nýverið stefndi bankinn blaðamanni úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafði sagt að ætti að fá það sem hann óskaði eftir. Fjölmörg önnur dæmi eru um að bankinn telji þagnarskyldu við starfsmenn og viðskiptamenn æðri rétti almennings til að vita hvernig hann starfar.

Seðla­banki Íslands stefndi í síð­ustu viku blaða­mann­inum Ara Brynj­ólfs­syni, sem starfar hjá Frétta­blað­inu, vegna fyr­ir­spurnar sem hann lagði fyrir bank­ann í nóv­em­ber 2018. Fyr­ir­spurnin snérist um að fá upp­lýs­ingar um samn­ing sem bank­inn hafði gert við Ingi­björgu Guð­bjarts­dótt­ur, sem starf­aði þá sem fram­kvæmda­stjóri gjald­eyr­is­eft­ir­lits bank­ans, um styrk og laun í náms­leyfi henn­ar. Ingi­björg stund­aði MPA-­nám í Banda­ríkj­unum sem Seðla­bank­inn greiddi fyrir en hún kom ekki aftur til starfa hjá bank­anum þegar því námi var lok­ið. Frétta­blaðið seg­ist hafa heim­ildir fyrir því að virði samn­ings­ins sé á annan tug millj­óna króna og að um sé að ræða mun hærri náms­styrk en öðru starfs­fólki bank­ans hafi boð­ist. 

Seðla­bank­inn neit­aði að láta blaða­mann­inn fá umræddan samn­ing og hann skaut mál­inu til úrskurð­ar­nefnd um upp­lýs­inga­mál sem, eftir átta mán­uði, komst að þeirri nið­ur­stöðu að afhenda ætti gögn­in. Úrskurð­ur­inn hefur þó enn ekki verið birtur á vef nefnd­ar­innar þar sem málið er enn í ágrein­ingi. Í honum felst að Seðla­bank­inn taldi að mál­efna­leg rök stæðu til þess að óska eftir því við úrskurð­ar­nefnd­ina að fresta rétt­ar­á­hrifum úrskurð­ar­ins og vísa  honum til dóm­stóla. 

Í grein sem Stefán Jóhann Stef­áns­son, rit­stjóri Seðla­bank­ans, birti á vef Frétta­blaðs­ins á föstu­dag segir að sá blaða­maður sem óskað hefur upp­lýs­inga hafi „að mínu viti unnið verk sitt í þessum efnum vel og sam­visku­sam­lega og þótt formið krefj­ist þess að honum verði birt stefna, sem ýmsum kynni að finn­ast óþægi­legt, þá er ekki verið að veit­ast að honum per­sónu­lega, og reynt er að milda honum leið­ina eins og fram kemur í stefn­unni og birt­ist m.a. í því að  Seðla­bank­inn gerir ekki kröfu um greiðslu máls­kostn­aðar þó svo hann myndi vinna mál­ið.“

„Leynd­ar­hyggja og kúg­un­ar­til­burðir"

Blaða­manna­fé­lag Íslands for­dæmdi vinnu­brögð Seðla­banka Íslands harð­lega í yfir­lýs­ingu sem birt var á fimmtu­dag. Þar segir að öllum megi vera „ljóst að þessi mál varða almenn­ing í land­inu og því frá­leitt hjá stjórn­endum Seðla­bank­ans að neita að veita þessar upp­lýs­ing­ar. Af fréttum að dæma virð­ist hér vera um að ræða sér­stakt mál innan bank­ans sem ekki styðst við neinar þekktar reglur eða for­dæmi og því enn mik­il­væg­ara að upp­lýsa mál­ið. Seðla­bank­inn er opin­ber stofnun og getur ekki hundsað að veita almenn­ingi í land­inu upp­lýs­ingar um starf­semi sína, ákvarð­anir stjórn­enda bank­ans og með­ferð opin­bers fjár.“

Þá for­dæmir Blaða­manna­fé­lag Íslands sér­stak­lega það sem það kallar frá­leita til­raun stjórn­enda Seðla­bank­ans „til að þagga niður málið með því að stefna umræddum blaða­manni Frétta­blaðs­ins fyrir dóm með það fyrir augum að stöðva umfjöllun hans um Seðla­bank­ann. Þessi vinnu­brögð bank­ans bera keim af leynd­ar­hyggju og kúg­un­ar­til­burðum sem á ekki að við­gang­ast hjá opin­berum stofn­un­um. Að mati Blaða­manna­fé­lags Íslands er ólíð­andi að blaða­menn þurfi að standa í lang­vinn­um, dýrum og tíma­frekum mála­rekstri til að fá upp­lýs­ingar frá opin­berum aðilum sem þeir eiga rétt á að fá sam­kvæmt upp­lýs­inga­lög­um.“ Undir til­kynn­ing­una skrifar Hjálmar Jóns­son, for­maður Blaða­manna­fé­lags­ins. 

Segir við lög­gjafann að sakast

Seðla­banki Íslands er í þeirri stöðu að vera með ákvæði í sér­lögum um starf­semi sína um þagn­ar­skyldu þegar kemur m.a. að upp­lýs­ingum um fjár­hags­leg mál­efni við­skipta­manna og starfs­manna. Því ákvæði hefur bank­inn beitt óspart á und­an­förnum árum þegar fjöl­miðlar hafa leitað eftir upp­lýs­ingum sem þeir telja að eigi skýrt erindi við almenn­ing, og snerta starf­semi bank­ans eða atburði sem áttu sér stað við og í kjöl­far efna­hags­hruns­ins.

Stefán Jóhann segir í grein sinni á vef Frétta­blaðs­ins að fjöl­miðla­fólk sé vel upp­lýst um lagaum­hverfið og að það vísi­oft til laga­á­kvæða til rök­stuðn­ings upp­lýs­inga­beiðnum sín­um. Þetta fólk veit líka mæta­vel að lög geta meinað stofn­unum að veita upp­lýs­ing­ar, t.d. um per­sónu­leg eða við­skipta­leg mál­efni. Það er því ekki merki um neina mann­vonsku eða kúg­un­ar­til­burði, svo vitnað sé til orða­lags álykt­unar Blaða­manna­fé­lags Íslands, þótt fólk reyni að vanda sig og fara að lög­um. Það vita flestir og skilja. Upp­lýs­inga­lögum er ætlað að vera bæði blaða­mönnum og stofn­unum rammi og leið­bein­ing. Ef ein­hver er ósáttur við þau lög og þann far­veg sem þau bjóða upp á eru hin réttu við­brögð að ræða um mögu­lega breyt­ingu á þeim.

Þagn­ar­skylda um stór mál

Kjarn­inn hefur margoft verið í þeirri stöðu á und­an­förnum árum að leita upp­lýs­inga hjá Seðla­bank­anum en ekki fengið aðgengi að þeim vegna þess að hann hefur borið fyrir sig þagn­ar­skyldu­á­kvæð­ið. 

Árið 2016, í kjöl­far þess að Kjarn­inn tók þátt í vinnu við opin­berum upp­lýs­inga um Íslend­inga sem var að finna í Panama­skjöl­unum fór hann fram á að fá upp­lýs­ingar um skulda­upp­gjör þar sem þekktum íslenskum athafna­manni var heim­ilt að nota íslenskar skulda­bréfa­eignir aflands­fé­lags í eigu eig­in­konu hans til að gera upp skuld íslenskra félaga sinna á fullu verði þrátt fyrir að höft væru við lýði og að slík leið byð­ist ekki almennt. Sér­fræð­ingar sem rætt var við sögðu upp­gjörið afar óvenju­legt. Seðla­bank­inn tók sér tvo mán­uði til að svara fyr­ir­spurn­inni og gerði það loks með því að vísa til þagn­ar­skyldu­á­kvæð­is­ins. 

Árið 2017 óskaði Kjarn­inn eftir því að fá afrit af sam­tali Dav­íðs Odds­son­ar, þáver­andi seðla­banka­stjóra, og Geirs H. Haar­de, þáver­andi for­sæt­is­ráð­herra, þar sem þeir ræddu um afgreiðslu neyð­ar­láns til Kaup­þings 6. októ­ber 2008. Seðla­bank­inn hafn­aði beiðn­inni og vís­aði í að þagn­ar­skylda hvíldi á umræddum upp­lýs­ing­um. 

Kjarn­inn ákvað í kjöl­farið að stefna Seðla­­­­banka Íslands fyrir dóm­stóla til að reyna að fá ákvörðun Seðla­­­­bank­ans hnekkt og rétt sinn til að nálg­­­­ast ofan­­­­greindar upp­­­­lýs­ingar við­­­­ur­­­­kenndan á grund­velli upp­­­­lýs­inga­laga.

Seðla­­­banki Íslands ákvað að taka til varna í mál­inu og var það þing­­­fest. Áður en kom að fyr­ir­töku þess gerð­ist það hins vegar að Morg­un­­­blaðið birti afrit af sím­tal­inu í nóv­em­ber 2018. Davíð Odds­­­­son er í dag rit­­­­stjóri Morg­un­­­­blaðs­ins.

Í fram­hald­inu náð­ist sam­komu­lag milli Kjarn­ans miðla, móð­­­ur­­­fé­lags Kjarn­ans, og Seðla­­­banka Íslands um dómsátt í mál­inu. Í dómsátt­inni sagði að fyrir liggi „að end­­­ur­­­rit af sím­tali því sem stefn­andi krefst aðgangs að í máli þessu frá stefna birt­ist í Morg­un­­­blað­inu eftir þing­­­setn­ingu máls­ins þ.e. 18. nóv­­­em­ber sl. Eru því ekki efni til þess lengur að synja stefn­anda um afhend­ingu þess. Stefndi mun því afhenda það til stefn­anda. Í þeirri athöfn felst engin við­­­ur­­­kenn­ing á rétt­­­mæti mála­til­­­bún­­­aðar stefn­anda í mál­in­u.“

Fjár­fest­ing­ar­leiðin og ESÍ

Árum saman hefur Kjarn­inn leitað eftir upp­lýs­ingum um fjár­fest­ing­ar­leið Seðla­banka Íslands, sem stóð til boða á árunum 2012 til 2015. Á meðal þeirra upp­lýs­inga sem Kjarn­inn hefur farið fram á að fá eru um það hvaða ein­stak­lingar og lög­að­ilar nýttu sér fjár­fest­ing­ar­leið bank­ans og hversu háar fjár­hæðir hver og einn flutti til lands­ins eftir þeirri leið. Seðla­bank­inn hefur neitað að veita efn­is­leg svör og vísað í þagn­ar­skyldu­á­kvæð­ið. 

Kjarn­inn kærði þá synjun til úrskurð­ar­nefndar um upp­lýs­inga­mál sem komst að þeirri nið­ur­stöðu í jan­úar síð­ast­liðnum að for­taks­laus þagn­ar­skylda Seðla­banka Íslands gagn­vart við­skipta­mönnum sínum komi í veg fyrir að slíkar upp­lýs­ingar séu gerðar opin­berar „óháð hags­munum almenn­ings af því að fá að kynna sér þær.“

Kjarn­inn hefur einnig farið fram á að fá ýmsar upp­lýs­ingar um Eign­ar­safn Seðla­banka Íslands (ESÍ) og dótt­ur­fé­lag þess Hildu. Þessi félög heyra ekki undir sömu lög og Seðla­banki Íslands og þurftu að fá sér­staka und­an­þágu frá upp­lýs­inga­lög­um. Sig­­mundur Davíð Gunn­laugs­­son, þáver­andi for­­sæt­is­ráð­herra, veitti félög­unum und­an­þágu frá upp­­lýs­inga­lögum 27. nóv­­em­ber 2015.  Sú und­an­þága rann hins vegar út 15. des­em­ber 2018. Seðla­bank­inn hafði þá ekki svarað fyr­ir­spurnum Kjarn­ans um mál­efni ESÍ og Hildu mán­uðum saman þrátt fyrir ótví­­ræða laga­­skyldu sam­­kvæmt stjórn­sýslu­lögum um að veita svör við fyr­ir­­spurnum sem þess­­um. Meg­in­regla stjórn­sýslu­laga er sú, að stjórn­­­sýslan skuli vera gagnsæ og fyr­ir­­spurnum svarað fljótt og vel, er varða almanna­hags­muni.

Efn­is­­leg svör hafa ekki borist við fyr­ir­­spurn­um, meðal ann­­ars um yfir­­lit um kaup á lög­­fræð­i­­þjón­­ustu hjá félög­un­­um.

Í árs­­reikn­ingum félags­­ins hafa ekki komið fram ítar­­legar upp­­lýs­ingar um starf­­semi félag­anna, og var beiðnin meðal ann­­ars send af þeim ástæð­um, enda miklir almanna­hags­munir í húfi þar sem félögin hafa stundað eigna­um­­sýslu bak við luktar dyr leynd­­ar, árum sam­an, með mörg hund­ruð millj­­arða króna eignir almenn­ings. 

Hefur starf­­semin meðal ann­­ars verið að miklu leyti utan sjóna almenn­ings, þar sem starf­­semin hefur hangið saman við umfangs­­mikla vinnu við upp­­­gjör á slita­búum föllnu bank­anna, Kaup­­þings, Lands­­bank­ans og Glitn­is, sem nú er lok­ið.

Þrátt fyrir að und­an­þágan hafi runnið út hefur efn­is­legum spurn­ingum Kjarn­ans enn ekki verið svar­að. 

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar