Hlutaðeigendur innan kvikmyndaiðnaðarins hafa sumir hverjir sett sig upp á móti breytingum á endurgreiðslum vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Drög að frumvarpi þess efnis var sett á samráðsgátt stjórnvalda í sumar en sjö umsagnir um frumvarpið bárust frá hinum ýmsu aðilum.
Í frumvarpsdrögunum kemur fram að markmiðið með lagasetningunni sé að styðja áfram við kvikmyndagerð, þó með því að þrengja þau skilyrði sem þarf að uppfylla til þess fá endurgreiðslu.
„Það verður gert á þann hátt að aukin áhersla verður lögð á uppbyggingu kvikmyndaiðnaðarins á Íslandi með því að laða að erlenda aðila til framleiðslu kvikmynda og sjónvarpsefnis hér á landi. Þá er lagt til að breyta lögum og reglugerð þannig að skilyrði fyrir endurgreiðslu takmarkist við kvikmyndir í fullri lengd, leiknar sjónvarpsmyndir eða röð leikinna sjónvarpsþátta og heimildarmyndir. Ef af þessum breytingum verður falla út spjallþættir, raunveruleikaþættir og skemmtiþættir, en á undanförnum árum hafa endurgreiðslur til slíkra þátta aukist töluvert,“ segir í drögunum.
Vilja nýta fjármuni sem fara í endurgreiðslur betur
Í skýrslu sem starfshópur skilaði til Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, á vormánuðum var lagt til að þak verði sett á ársgreiðslu til einstakra verkefna, að krafa verði um að öll verkefni lúti endurskoðun á kostnaði og að skilin á milli endurgreiðslukerfisins og úthlutunar úr Kvikmyndasjóði verði skýrari.
Þá segir í frumvarpsdrögum að með þessum tillögum sé bæði lögð áhersla á bætta nýtingu þeirra fjármuna sem fara í endurgreiðslur og á lækkun heildarupphæðar endurgreiðslna. Tillögurnar miði að því að horfa í auknum mæli til upphaflegs markmiðs og tilgangs laganna og gera viðeigandi breytingar á kerfinu með það fyrir augum að gera greinina sjálfbærari til lengri tíma.
Lýsir yfir þungum áhyggjum
Í umsögn Sagafilm lýsir fyrirtækið yfir þungum áhyggjum af áformum stjórnvalda og vonbrigðum með fyrirhugaðar breytingar og skora á þau að láta breytingarnar vera, kvikmyndaiðnaðinum til heilla.
„Þó áformin virðist við fyrstu sín þykja einföld og skorinort, myndu afleiðingar þeirra vera víðfeðmar og grafalvarlegar fyrir kvikmyndaiðnað landsins og sérstaklega hafa áhrif á sjálfstæða framleiðendur. Það er Sagafilm því mikið kappsmál að gera stjórnvöldum grein fyrir alvarleika málsins á skýran og greinargóðan hátt og þeim afleiðingum sem lögfesting áformanna myndi hafa í för með sér fyrir sjálfstæða íslenska framleiðendur, efnahaginn sem þeir hafa búið sér og framleiðslu menningarefnis á Íslandi,“ segir í umsögn Sagafilm.
Þvert á áherslur menntamálaráðherra
Grein var frá því í frétt RÚV að Samtök iðnaðarins og Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda hefðu alfarið lagst gegn nokkrum breytingum sem boðaðar eru í fyrrnefndum frumvarpsdrögum.
Í sameiginlegri umsögn þeirra segir að ef endurgreiðsla eigi að takmarkast við kvikmyndir í fullri lengd, leiknar sjónvarpsmyndir eða röð leikinna sjónvarpsþátta og heimildarmyndir, líkt og boðað sé í frumvarpinu, þá falli út spjallþættir, raunveruleikaþættir og skemmtiþættir. Endurgreiðslur til slíkrar þáttagerðar styðji almennt við framleiðslu á íslensku efni. Ef draga eigi úr henni sé það, að þeirra mati, þvert á áherslur menntamálaráðherra um mikilvægi þess að setja íslenska tungu í öndvegi.
Glapræði að leggja niður skemmti-, menningar- og lífsstílsþætti
Hugi Halldórsson, sjálfstæður framleiðandi, segir í umsögn sinni það vera algjört glapræði að leggja niður skemmti-, menningar- og lífsstílsþætti. „Þetta mun þýða að veruleg hætta er á að margar framleiðslur munu leggjast niður og einfaldlega ekki verða að veruleika.
Afleiðingin yrði að litlir sjálfstæðir framleiðendur munu leggjast hreinlega af verði verkefni þeirra ekki að veruleika. Sú þróun yrði skelfileg afturför fyrir kvikmyndaiðnaðinn sem byggir á að sem flestir þrífist faginu. Ég þarf varla að mállengja hversu mikilvæg framleiðsla á íslensku sjónvarpsefni er fyrir iðnaðinn, íslenska tungu og menningu,“ skrifar Hugi.
Rekstrargrundvelli kippt undan fyrirtækinu
Framleiðslufyrirtækið, Skot Productions ehf., kemur sínum athugasemdum einnig á framfæri í samráðsgáttinni. Í umsögn fyrirtækisins segir að verði frumvarp það sem hér um ræðir að lögum, sé rekstrargrundvelli Skots þar með kippt undan fyrirtækinu og muni það ekki geta haldið starfsemi sinni gangandi áfram. Fyrirtækið harmi að slíkur forsendubrestur verði því – og öðrum fyrirtækjum í ámóta rekstri – að falli.
„Hlutverk fjölmiðla er ekki einungis að miðla daglega til áhorfenda fréttum og fréttatengdu efni heldur einnig menningarefni af ýmsu tagi og í ýmsum formum þátta, s.s. viðtalsþáttum, rannsóknarþáttum, heimildaþáttum, raunveruleikaþáttum, skemmtiþáttum og leiknu efni. Allir þessir þættir þjóna íslenskri menningu, samfélagi og fjölmiðlun og þeir skapa umræður og hafa áhrif.
Telur Skot það síður en svo vera hins opinbera að ákveða eða stuðla að því að sumar tegundir menningarefnis í sjónvarpi fái endurgreiðslu en aðrar ekki, með öðrum orðum er það ekki hlutverk Alþingis að stýra dagskrá einkarekinna sjónvarpsstöðva og efnisveita. Slík stýring stuðlar að einsleitni og rímar engan veginn við yfirlýst markmið stjórnvalda um fjölræði,“ segir í umsögninni.
Undir umsögn Skots skrifa Inga Lind Karlsdóttir, stjórnarformaður fyrirtækisins, og Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri.
Íslenskar sjónvarpsstöðvar í harðri samkeppni við erlendar efnisveitur
Þórhallur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Miðla, kemur á framfæri efasemdum um fyrirhugaðar breytingar. „Ég tel að verði frumvarpið að veruleika geti það haft alvarlegar afleiðingar fyrir íslenska sjónvarpsþáttagerð, bitni harkalega á sjálfstæðum framleiðendum sjónvarpsefnis og einnig einkareknum sjónvarpsstöðvum. Það má fullyrða að stór hluti íslenskra framleiðslufyrirtækja neyðist til að draga saman seglin og jafnvel einhver þeirra þurfi að hætta starfsemi njóti þau ekki endurgreiðslna,“ skrifar hann.
Hann telur enn fremur að íslenskar sjónvarpsstöðvar eigi í harðri samkeppni við erlendar kvikmyndir, sjónvarpsþætti, tölvuleiki, erlendar sjónvarpsstöðvar og efnisveitur. Það sé öllum ljóst hversu mikilvægt íslenskt sjónvarpsefni sé til þess að viðhalda og efla íslenska tungu og menningu.
„Verði endurgreiðslu hætt er líklegt að íslensk sjónvarpsframleiðsla dragist saman og efnistökin verði einsleitari,“ segir Þórhallur. Hann telur jafnframt að endurgreiðsla vegna framleiðslu á sjónvarpsefni hafi haft jákvæð áhrif á sjónvarpsþáttagerð á Íslandi á undanförnum árum og hafi stuðningurinn átti sinn þátt í því að hvetja sjónvarpsstöðvar og sjálfstæða framleiðendur til þess að framleiða metnaðarfullt íslenskt sjónvarpsefni. „Þau áform stjórnvalda að hætta endurgreiðslum til sjálfstæðra framleiðenda geta valdið miklu og varanlegu tjóni á kvikmyndaiðnaðinum í heild sinni.“
Álíta að ríkið spari ekkert með því að veita minna fjármagn til endurgreiðslna
Framleiðslufyrirtækið Pegasus sendir einnig inn umsögn en fyrirtækið hefur frá upphafi haft meirihluta tekna af erlendri kvikmyndagerð. „Við þekkjum því mæta vel hvaða áhrif endurgreiðslan hefur haft á þennan iðnað. Áður en endurgreiðslan komst á var lítill kjarni kvikmyndagerðarmanna sem hafði heilsárs atvinnuvinnu af innlendri kvikmyndagerð og þjónustu við erlenda kvikmyndagerðarmenn sem höfðu valið íslenskt landslag sem bakgrunn fyrir auglýsingar.“
Telja þau hjá Pegasus að ríkið spari ekkert með því að veita minna fjármagn til endurgreiðslu kostnaðar af kvikmyndaframleiðslu, þvert á móti muni skattheimta minnka ef kvikmyndageirinn dragist saman. Það muni einnig koma fram hjá ferðaþjónustuaðilum og ýmsum afleiddum störfum sem kvikmyndagerð hafi skapað.