Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, undirritaði í gær breytingar á reglugerð sem gerir það að verkum að sveitarfélög, einstaklingar og óhagnaðardrifin félög á landsbyggðinni muni fljótlega geta tekið lán hjá Íbúðalánasjóði til húsnæðisuppbyggingar á stöðum þar sem önnur fjármögnun er ekki í boði.
Í svari félagsmálaráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans kemur fram að í þessu felist að sveitarfélög, einstaklingar og félög sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni geti fengið lán hjá Íbúðalánasjóði til að byggja íbúðarhúsnæði ef skortur sé á húsnæði af því tagi sem eigi að byggja í viðkomandi sveitarfélagi, samkvæmt húsnæðisáætlun sveitarfélagsins sem hafi verið staðfest af Íbúðalánasjóði.
„Þetta er aðgerð til að bregðast við markaðsbresti þar sem lánveitingin er ávallt skilyrt því að ekki fáist lán til byggingarinnar á eðlilegum markaðskjörum hjá öðrum lánastofnununum vegna ástands fasteignamarkaðar í viðkomandi sveitarfélagi,“ segir í svarinu.
Vextir ákveðnir af stjórn Íbúðalánasjóðs
Þá kemur fram hjá ráðuneytinu að vextir lánanna verða ákveðnir af stjórn Íbúðalánasjóðs og verða þeir í samræmi við markaðsvexti á almennum fasteignalánum á hverjum tíma.
Veðrými lánanna geti orðið allt að 90 prósent af markaðsvirði en almenn lán miða yfirleitt við 80 prósent. Með þessu sé verið að koma til móts við misvægi á byggingarkostnaði og markaðsverði.
Í grunninn snýst þetta um að mismuna ekki lántakendum eftir staðsetningu ef þeir eru á óvirkum markaðssvæðum, að því er fram kemur í svari Íbúðalánasjóðs við fyrirspurn Kjarnans. „Þannig eru vextir lánana ákvarðaðir á þann hátt að þeir fari ekki langt yfir það sem lántakandanum myndi bjóðast á virkari markaðssvæðum fyrir sambærilegt verkefni, og er þá bæði tekið mið af lífeyrissjóðs- og bankalánum,“ segir í svarinu.
Fjármögnun háð því að um nýbyggingar sé að ræða
Í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu segir að bæta þurfi aðgengi að lánsfjármagni á landsbyggðinni til að bregðast við þeim húsnæðisvanda og stöðnun í húsbyggingum sem þar ríki. Fjármögnunin sé háð því að um nýbyggingar sé að ræða og sé aðeins í boði á þeim stöðum þar sem opinber húsnæðisáætlun, staðfest af Íbúðalánasjóði, sýni að skortur sé á húsnæði af því tagi sem byggja á. Einnig sé skilyrði fyrir því að geta fengið áðurnefnd lán að lántaki sýni fram á að hann fái ekki lán hjá öðrum lánastofnunum eða fái einungis lán á verulega hærri kjörum en almennt bjóðast á öðrum markaðssvæðum.
Í reglugerðinni kemur fram að markmið lánveitinganna sé að tryggja eðlilega fjölgun íbúða á þessum svæðum, aukið húsnæðisöryggi óháð búsetu auk þess að stuðla að heilbrigðum húsnæðismarkaði og viðskiptum með íbúðarhúsnæði.
Ásmundur Einar sagði við tilefnið að það lægi fyrir að á mörgum stöðum hefði ekkert eða mjög lítið verið byggt um árabil, þrátt fyrir að eftirspurnin væri mikil og greiðslugeta hjá íbúum svæðisins góð. Sveitarfélögin hefðu sérstaklega bent á skort á viðeigandi leiguhúsnæði.
„Með reglugerðarbreytingunni, sem ég undirritaði í morgun, verður hægt að fá lán til byggingar nýs húsnæðis á svæðum sem glíma við þetta sérstaka misvægi í byggingarkostnaði og markaðsverði. Það mun styðja við atvinnuuppbyggingu á mörgum stöðum og hefur reynslan af sambærilegum lánveitingum á Norðurlöndum verið góð. Ég hlakka til að sjá fólk komast í viðeigandi húsnæði sem starfar og býr á þeim svæðum sem lánaflokkurinn tekur til,“ sagði hann.
Stöðnun algengt vandamál
Félags- og barnamálaráðherrann lagði fram í sumar tillögur að aðgerðum til þess að styrkja húsnæðismarkaðinn á landsbyggðinni og koma til móts við áskoranir sem fjölmörg sveitarfélög standa frammi fyrir í húsnæðismálum.
Meðal þessara aðgerða er að rýmka heimildir um viðbótarframlag sem heimilt er að veita vegna íbúða á svæðum þar sem bygging hefur verið í lágmarki og skortur er á leiguhúsnæði, veita styrki til uppbyggingar á köldum markaðssvæðum, liðka á kröfum innan stjórnsýslunnar til þess að lækka byggingarkostnað og að auka samstarf hagsmunaaðila, sveitarfélaga og Íbúðalánasjóða.
Samkvæmt Íbúðalánasjóði er stöðnun algengt vandamál í þessum sveitarfélögum og víða hefur ekkert íbúðarhúsnæði verið byggt í einn til tvo áratugi. Mun meira var byggt á landsbyggðinni frá aldamótum og fram að hruni, heldur en síðustu ár. Sérfræðingar Íbúðalánasjóðs sjá merki um markaðsbrest á mörgum svæðum enda ráðist fáir í að reisa nýtt íbúðarhúsnæði þrátt fyrir að atvinna sé víðast hvar næg og eftirspurn eftir íbúðum mikil.
Þeir fáu sem vilja byggja í smærri sveitarfélögum komi oft og tíðum að lokuðum dyrum á lánamarkaðnum. Dýr og erfið fjármögnun, skortur á byggingaraðilum og misvægi milli húsnæðisverðs og byggingarkostnaðar hafi valdið því að lítið eða ekkert er byggt.