Mynd: Bára Huld Beck

Fyrir einu ári síðan: „Við eigum Ísland, það eina sem við eigum eftir að gera er að taka það“

Lífeyrissjóðir landsins eiga stóran hluta af íslensku atvinnulífi. Hávær krafa hefur lengi verið um að þeir verði virkari eigendur og nýti sér þau völd sem í því felast til að beita sér fyrir lífsgæðum sjóðsfélaga í nútíð ekki síður en í framtíð. Sú krafa kemur fyrst og fremst frá fulltrúum launafólks, verkalýðshreyfingum landsins. Kjarninn fjallaði ítarlega um þessa stöðu fyrir einu ári síðan, þann 20. september 2018.

Stundum þegar ég vil fá jarð­teng­ingu við hvað ég er að gera þá fer ég í bækur sem hafa verið skrif­að­ar, t.d. saga verka­lýðs­fé­lag­anna. Fyrsta verka­lýðs­fé­lagið fyrir austan er stofnað 1896. Þegar maður les fund­ar­gerðir frá fyrstu fund­unum ... þetta er fólk sem bjó í nán­ast mold­ar­kof­um, áhyggju­efnin voru hvort að börnin fengu mat dag­inn eft­ir. Menn voru settir út á kaldan klaka og fengu ekki atvinnu ef þeir voru í for­ystu fyrir verka­lýðs­fé­lag­ið. Í dag, félögin sem þetta fólk stofn­aði, við eigum Ísland. Það eina sem við eigum eftir að gera er að taka það.“

Þetta sagði Sverrir Mar Alberts­son, fram­kvæmda­stjóri AFLs starfs­greina­sam­bands, og annar þeirra sem boðið hafði sig fram til for­seta Alþýðu­sam­bands Íslands (ASÍ) á fundi sem Efl­ing stóð fyrir með for­seta­fram­bjóð­endum í sept­em­ber 2018. Mót­fram­bjóð­andi Sverris, Drífa Snædal, sagð­ist vera honum sam­mála. Drífa var á end­anum kjörin í emb­ætt­ið.

Ummælin féllu í umræðum um hvort að líf­eyr­is­sjóðir ættu að taka að sér stærra sam­fé­lags­legt hlut­verk. Ástæðan fyrir umræð­unum er sú að stærstu eig­endur íslensks atvinnu­lífs eru íslenskir líf­eyr­is­sjóð­ir. Og eig­endur líf­eyr­is­sjóð­anna er almenn­ingur í land­inu.

Höft kenna nöktum sjóðum að spinna

Hlutur líf­eyr­is­sjóða­kerf­is­ins í heild íslensku atvinnu­lífi hefur auk­ist gríð­ar­lega á und­an­förnum árum. Fyrir því eru þrjár ástæð­ur. Sú fyrsta er að þeir tóku virkan þátt í end­ur­reisn íslensks atvinnu­lífs eftir banka­hrun­ið, þegar lítið var um stóra sjóði til að taka að sér slíka end­ur­reisn. Til að setja það verk­efni í sam­hengi var það mat Sam­keppn­is­eft­ir­lits­ins að um 70 pró­sent allra fyr­ir­tækja í land­inu hefði þurft á ein­hvers­konar fjár­hags­legri end­ur­skipu­lagn­ingu að halda eftir hrun­ið. Og á meðal þeirra voru mörg mik­il­væg­ustu þjón­ustu­fyr­ir­tæki lands­ins.

Önnur ástæðan er sú að líf­eyr­is­sjóð­irnir voru, eins og aðrir sem búa og starfa á Íslandi, fastir innan fjár­magns­hafta frá haustinu 2008 og fram á síð­ustu ár. Þeir máttu því ekki ráð­ast í nýfjár­fest­ingar utan lands­stein­anna.

Þriðja ástæðan er sú að inn­greiðslur í líf­eyr­is­sjóð­ina hafa auk­ist umtals­vert á und­an­förnum árum og eignir þeirra ávaxt­ast vel sam­hliða. Í lok árs 2010 átti kerfið allt 1.920 millj­arða króna. Í lok júlí síð­ast­lið­ins námu eignir líf­eyr­is­sjóða 4.093 millj­örðum króna. Þær hafa því rúm­lega tvö­fald­ast á átta og hálfu ári.

Sjón­vörp og þvotta­vélar

Á umræð­u­fundi um eign­­ar­hald á at­vinn­u­­fyr­ir­tækj­um, hlut­verki líf­eyr­is­­sjóða og áhrif á sam­keppni sem hald­inn var á Hilton Reykja­vik Nor­d­ica í maí 2016 á vegum Sam­keppn­is­eft­ir­lits­ins náði Flóki Hall­­dór­s­­son, fram­­kvæmda­­stjóri ­sjóð­­stýr­ing­­ar­­fyr­ir­tæk­is­ins Stefn­is, að kjarna þá stöðu sem var uppi ágæt­lega. Þar sagði hann að ef líf­eyr­is­sjóð­unum yrði ekki bráðum heim­ilað að fjár­festa utan Íslands væru þeir farnir að kaupa „sjón­vörp og þvotta­­vél­­ar“ eftir nokkur mis­s­eri. Allir aðrir fjár­­­fest­inga­­kostir verð­i ­upp­­­urn­­ir.

Nokkrum dögum síðar var líf­eyr­is­sjóð­unum veitt heim­ild til að versla utan hafta og í fyrra­vor var höftum að mestu lyft. Síðan þá hefur áhersla þeirra verið á að kaupa erlendar eign­ir.

Úr sex pró­sentum í 41 pró­sent

Tæpur ára­tugur innan hafta skil­aði hins vegar því að líf­eyr­is­sjóðir lands­ins urðu allt um lykj­andi í íslensku atvinnu­lífi. Í skýrslu sem Hag­fræði­stofnun Háskóla Íslands vann um þá stöðu, og birt var í jan­úar síð­ast­liðn­um, kom fram að á árinu 2006 hafi sjóð­irnir átt um sex pró­sent allra skráðra hluta­bréfa í íslensku kaup­höll­inni. Ára­tug síðar áttu þeir 41 pró­sent slíkra.

Líf­eyr­is­sjóð­irnir voru líka búnir að kaupa upp nær öll skulda­bréf á mark­aði. Árið 2006 áttu þeir 41 pró­sent slíkra en 2016 var hlut­fall þeirra í mark­aðs­skulda­bréfum komið í 71 pró­sent.

Morg­un­ljóst var, eftir margra ára gjald­eyr­is­höft, að íslensku líf­eyr­is­sjóð­irnir voru búnir að kaupa nær allt sem þeir gátu keypt á Íslandi.

Í skýrsl­unni kom líka fram að ef líf­eyr­is­sjóð­irnir skili 3,5 pró­­sent raun­á­vöxtun á ári mun hlutur þeirra í heild­­ar­fjár­­muna­­eign á Íslandi fara í 35 pró­­sent árið 2030. 30 árum síð­ar, árið 2060, er reiknað með að sjóð­irnir muni eiga 40 pró­­sent af heild­ar­fjár­munum á Íslandi.

Þannig á þjóðin óbeint þessar eignir þótt hún hafi ekki beinan ráð­stöf­un­ar­rétt yfir því fjár­magni sem er inni í líf­eyr­is­sjóða­kerf­inu þar til að það er greitt út sem líf­eyr­ir.

Nútíð eða fram­tíð?

Mörg þeirra fyr­ir­tækja sem líf­eyr­is­sjóð­irnir eru stórir eig­endur selja vöru eða þjón­ustu sem flestir eig­endur líf­eyr­is­sjóð­anna þurfa að nýta sér nær dag­lega. Má þar nefna dag­vöru­versl­an­ir, elds­neyt­is­sala, trygg­inga­fé­lög og flutn­inga­fyr­ir­tæki, hvort sem er í lofti eða á láði. Því eru sjóð­irnir í þeirri  vanda­sömu stöðu að þeir þurfa að velja á milli þess að hámarka arð­semi fjár­fest­inga sinna, sjóðs­fé­lögum til lang­tíma­heilla, eða beita sér fyrir því að sjá þeim fyrir sem lægstu verði á vörum og þjón­ustu, sem gagn­ast sömu sjóðs­fé­lögum sann­ar­lega betur til skamm­s­tíma. Hingað til hefur áherslan verið á hið fyrr­nefnda. En þrýst­ingur er á að líf­eyr­is­sjóð­irnir ein­beiti sér ekki síður að því að bæta lífs­gæði lands­manna í nútíð.

Launa­fólk og atvinnu­rek­endur stýra saman

En hvernig teng­ist þetta allt saman ASÍ og fjölda­hreyf­ingum launa­fólks? Jú, vegna þess að stjórnir flestra líf­eyr­is­sjóða eru sam­an­settar af ann­ars vegar full­trúum atvinnu­rek­enda og hins vegar full­trúum launa­fólks. Þeir full­trúar skipt­ast svo á for­mennsku í stjórn­un­um. Ástæðan er sú að til­vera þeirra grund­vall­ast af kjara­samn­ingi milli ASÍ og því sem nú heitir Sam­tök atvinnu­lífs­ins (SA) árið 1969.

Á grund­velli þessa fyr­ir­komu­lags eru nú níu líf­eyr­is­sjóðir á samn­ings­sviði ASÍ og SA. Þar á meðal eru tveir af stærstu sjóðum lands­ins, Líf­eyr­is­sjóður verzl­un­ar­manna og Gildi líf­eyr­is­sjóð­ur, sem báðir eru á meðal stærstu eig­enda margra stórra fyr­ir­tækja á Íslandi.

Verka­lýðs­hreyf­ingin hefur því umtals­verð áhrif innan líf­eyr­is­sjóða­kerf­is­ins. Hún hefur hins vegar legið undir gagn­rýni, meðal ann­ars frá nýjum og rót­tæk­ari for­ystu­mönnum stétt­ar­fé­laga á borð við Ragnar Þór Ing­ólfs­son, for­mann VR, og Sól­veigu Önnu Jóns­dótt­ur, for­manns Efl­ing­ar. Þau hafa til að mynda gagn­rýnt harð­lega launa­kjör stjórn­enda skráðra félaga sem líf­eyr­is­sjóð­irnir eiga hlut í og hvatt til auk­innar aðkomu líf­eyr­is­sjóða að lausnum á hús­næð­is­mark­aði.

Allt á fleygi­ferð

Guð­rún Haf­steins­dótt­ir, var stjórn­ar­for­maður Lands­sam­taka líf­eyr­is­sjóða og Líf­eyr­is­sjóðs verzl­un­ar­manna fyrir einu ári síð­an, og sagði í sam­tali við Kjarn­ann að hlut­hafa­stefnur líf­eyr­is­sjóð­anna væru síkvikar stefnur sem taki mið af sam­fé­lag­inu hverju sinni. Slíkt ferli sé á fleygi­ferð og nú séu nær allir sjóðir með end­ur­skoðun á þeirri stefnu í gangi þar sem verið sé að ramma inn þætti sem snúa að meiri sam­fé­lags­legri ábyrgð. „Hluti af því er til dæmis krafa um að til­nefn­ing­ar­nefndir séu starf­andi innan þeirra skráðu félaga sem sjóð­irnir eiga hluti í.“

Líf­eyr­is­sjóður verzl­un­ar­manna er næst stærsti sjóður lands­ins á eftir Líf­eyr­is­sjóði starfs­manna rík­is­ins (LS­R). Guð­rún benti á að sjóð­ur­inn væri að­ili að reglum Sam­ein­uðu þjóð­anna um ábyrgar fjár­fest­ingar (Princip­les for Responsi­ble Invest­ment). Þær reglur voru samdar af leið­andi líf­eyr­is­sjóðum og eigna­vörslu­fyr­ir­tækjum víða um heim í sam­starfi við Sam­ein­uðu þjóð­irnar og hafa margir af stærstu líf­eyr­is­sjóðum Vest­ur­landa und­ir­geng­ist regl­urn­ar. Þær fela í sér að að þátt­tak­endur skuld­binda sig til að taka til­lit til umhverf­is­legra og félags­legra þátta við fjár­fest­ingar sín­ar, auk þess sem lögð er áhersla á góða stjórn­ar­hætti fyr­ir­tækja sem fjár­fest er í. „Þessar reglur leggja þá skyldu á líf­eyr­is­sjóð­ina sem und­ir­gang­ast þær að þeir séu virkir eig­endur með góða eig­enda­stefn­u,“ sagði Guð­rún.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar