Þegar nafni Gretu Thunberg er flett upp í leitarvélinni Google þá birtast 240 milljónir niðurstaðna. Til samanburðar má nefna að þegar nafn Kim Kardashian er slegið inn þá koma 167 milljónir niðurstaðna í ljós. Þessi tala hækkar um milljónir á hverjum degi sem lýsir vel athyglinni sem þessi unga kona fær. En hver er Greta Thunberg og hvað vill hún segja heiminum?
Greta er fædd í Stokkhólmi þann 3. janúar 2003 og er dóttir leikarans Svante Thunberg og söngkonunnar Malena Ernman. Afskipti hennar af loftslagsmálum byrjuðu fyrir alvöru í maí árið 2018 þegar hún var meðal vinningshafa í ritgerðasamkeppni sem Svenska Dagbladet efndi til. Þar á eftir höfðu ýmsir samband við hana og næstu vikur var lagt á ráðin um aðgerðir sem skólakrakkar gætu gripið til til að vekja athygli á loftslagsmálum.
Hún hafði hins vegar aðrar hugmyndir en hún sá ekki fram á að þær aðgerðir myndu gera mikið gagn, þannig að hún ákvað að gera þetta eins síns liðs. Það fyrsta sem hún gerði var að útbúa stórt spjald á stofugólfinu heima hjá sér með áletruninni „Skolstrejk för klimatet“ eða „Skólaverkfall fyrir loftslagið“.
Verkfall á hverjum föstudegi
Þann 20. ágúst árið 2018 skrópaði Thunberg í skólanum og sat ein með spjaldið fyrir utan þinghúsið í Stokkhólmi. Hún var ákveðin í að vera þar á skólatíma hvern einasta dag fram yfir sænsku þingkosningarnar þann 9. september. Krafa hennar var einföld: Að ríkisstjórn Svíþjóðar myndi draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við Parísarsamkomulagið.
Eftir 9. september fór Thunberg að mæta í skólann fjóra daga í viku og ákvað hún að vera í verkfalli á föstudögum. Eftir því sem tíminn leið fór fólk að taka eftir Thunberg og veita verkfallinu athygli, ekki einungis í Stokkhólmi eða Svíþjóð, heldur út um allan heim.
Bókin Húsið okkar brennur kom út í fyrra en hana skrifar fjölskylda Thunberg. Hægt er að nálgast hana á íslensku en Eyrún Edda Hjörleifsdóttir þýddi. Í bókinni segir Thunberg og fjölskylda hennar sögu sína, sögu af daglegu lífi sem snýst um Aspergerheilkenni, átröskun, ADHD, óperusöng og – ekki síst – umhverfisvernd.
Í lýsingu á bókinni á vefsíðu útgefandans segir að Húsið okkar brennur sé einlæg og óhefðbundin frásögn af glímu fjölskyldunnar við óvægið samfélag nútímans. Það sé móðir Gretu, Eurovisionstjarnan Malena Ernman, sem lýsir því hvernig dóttir hennar yfirsteig mikla erfiðleika til að berjast gegn stærstu ógn sem nokkurn tímann hefur steðjað að mannkyninu.
„Þetta er fyrst og fremst sagan um það neyðarástand sem ríkir í heiminum og snertir okkur öll. Neyðarástand sem við mannkynið höfum kallað yfir okkur með lífsháttum okkar; ósjálfbærum lífsháttum sem eru úr tengslum við náttúruna sem við erum öll hluti af. Við getum kallað það ofneyslu eða hamfarahlýnun. Flestir virðast telja að þetta neyðarástand ríki einhvers staðar langt héðan og að það muni ekki hafa áhrif á okkur fyrr en eftir langan tíma. En það er ekki rétt,“ segir í inngangi bókarinnar.
Flestir virðast telja að þetta neyðarástand ríki einhvers staðar langt héðan og að það muni ekki hafa áhrif á okkur fyrr en eftir langan tíma. En það er ekki rétt.
Neitar að ferðast með flugvél
Thunberg hefur verið harðákveðin að fljúga ekki til að sýna öðrum fordæmi en athygli vakti þegar Greta ferðaðist með lest til Katowice í desember síðastliðnum – þar sem hún ávarpaði aðildarríkjafundinn COP-24 – og aftur til Davos í janúar til að ávarpa árlegan fund Alþjóðaviðskiptaráðsins.
Hún lét þó ekki þar við sitja í andófi sínu gegn flugi en hún ferðaðist með umhverfisvænni skútu til Bandaríkjanna í lok sumars. Hún mætti til New York eftir fimmtán daga siglingu yfir Atlantshafið og var henni vel tekið á hafnarbakkanum.
Skýr skilaboð
Á nýyfirstaðinni loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í New York var Greta með skýr skilaboð til heimsleiðtoganna: Að almenningur væri að fylgjast með þeim. Thunberg var gestur ráðstefnunnar. Tilfinningaþrungin ræða hennar fór sem eldur í sinu um hinn vestræna heim.
„Ég á ekki að þurfa að vera hér á sviðinu. Ég á að vera í skólanum handan Atlantshafsins. En þið snúið ykkur alltaf til okkar unga fólksins til þess að öðlast von. Hvernig dirfist þið?
Þið hafið rænt draumum mínum og æsku minni með innantómum orðum. En ég er einna heppnust. Fólk þjáist og fólk deyr. Heilu vistkerfin eru hrynja. Við sjáum fram á fjöldaútrýmingu og það eina sem þið getið talað um eru peningar og tröllasögur um endalausan hagvöxt. Hvernig dirfist þið?“
„Í meira en þrjátíu ár hafa vísindin verið á hreinu. Hvernig dirfist þið að líta undan og koma hingað og fullyrða að þið séuð að gera nóg, þegar stefnumörkunin og lausnirnar eru hvergi sjáanlegar?
50 prósent er kannski ásættanlegt fyrir ykkur, en sú tala gerir ekki ráð fyrir vendipunktum, flestum svörunarkerfum og aukinni hlýnun vegna mengandi efna í andrúmsloftinu, eða sjónarhornum sanngirni og loftlagsréttlætis.
Tölurnar treysta einnig á að mín kynslóð sjúgi milljarða tonna af ykkar koltvísýringi úr andrúmsloftinu með tækni sem naumast er til. Þetta er einfaldlega ekki ásættanlegt fyrir okkur sem þurfum að lifa með afleiðingunum.
Hvernig dirfist þið að láta sem svo að vandamálið verði leyst með hefðbundnum viðskiptaháttum og tæknilegum lausnum? Það verða engar lausnir eða áætlanir hér í dag því þessar tölur eru of óþægilegar og þið eruð ekki enn nógu viss í ykkar sök til að vera hreinskilin með það.
Þið eruð að bregðast okkur en unga fólkið er að átta sig á svikum ykkar. Augu allra framtíðarkynslóða eru á ykkur. Ef þið veljið að svíkja okkur þá munum við aldrei fyrirgefa ykkur,“ sagði Thunberg og uppskar klapp aftast í salnum. „Við munum ekki leyfa ykkur að komast upp með þetta. Hér og nú drögum við línuna. Breytingarnar munu verða, hvort sem ykkur líkar það eða ekki!“
Þannig endaði Thunberg ræðu sína á loftslagsráðstefnunni fyrr í vikunni í New York. Eins og áður segir vakti ræðan gríðarlega athygli og skiptist fólk í að mæra hana eða dæma.
Hvernig dirfist þið að líta undan og koma hingað og fullyrða að þið séuð að gera nóg, þegar stefnumörkunin og lausnirnar eru hvergi sjáanlegar?
Bandaríkjaforseti hæðist að Thunberg
Einn af þeim sem gerðu grín að Thunberg var forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, en hann hæddist að henni í Twitter-færslu seinna um kvöldið.
„Hún virðist hamingjusöm ung stúlka, sem hlakkar til bjartrar og dásamlegrar framtíðar. Svo indælt að sjá!“
Ekki virðist sem Thunberg hafi tekið þessi ummæli forsetans inn á sig en hún gaf lítið fyrir þau í viðtali við sænsku sjónvarpsstöðina SVT og sagði að hún hefði vitað að hann myndi segja eitthvað um sig og að það sem hann segir um hana skipti eiginlega engu máli.
Thunberg á að vera sýnd virðing
Í kjölfar holskeflu af niðrandi ummælum um hina 16 ára gömlu Thunberg á netinu þótti UNICEF á Íslandi nóg um og setti stöðuuppfærslu á Facebook þar sem fólk var hvatt til að sýna henni virðingu. UNICEF vonaðist til að fólk á samfélagsmiðlum svaraði vinsamlegu ákalli þeirra um að hugsa sig tvisvar um áður en það skrifar athugasemdir um Gretu Thunberg.
Þá sögðu þau að Thunberg væri manneskja sem njóti réttar síns sem barn og sem manneskja til að láta rödd sína heyrast í loftslagsumræðunni.
Fram kom í færslu UNICEF að því miður væru margir fullorðnir að skrifa niðrandi og hatursfullar athugasemdir um hana sem manneskju. Það væri ekki ásættanlegt. Sem loftslagsaðgerðarsinni, sem barn og sem manneskja ætti Greta, ásamt öðrum, rétt á að láta rödd sína heyrast.
„Við viljum biðja fólk um að hugsa sig tvisvar um áður en það skrifar athugasemdir á samfélagsmiðla. Hér er um að ræða manneskja sem á að vera sýnd virðing. Líka á internetinu,“ sagði í færslunni.
Jafnframt kom fram að UNICEF styddi börn sem berjast fyrir betri framtíð. Þau hefðu rétt á að vera vernduð gegn hatri. UNICEF impraði á að það væri á allra ábyrgð.
„Við vonum að þú munir hjálpa Gretu, og öllum þeim mögnuðu og hugrökku börnum sem eru að tjá sig, að njóta réttar síns og hlusta.“
Ungt fólk hér á landi fer í verkfall
Íslendingar hafa ekki farið varhluta af áhrifum Thunberg en skólaverkföll á borð við þau sem hún boðar hafa verið haldin víða um land.
Til að mynda mótmælti gríðarlegur fjöldi á Austurvelli í mars síðastliðnum aðgerðum stjórnvalda vegna loftslagsbreytinga en þetta voru fjórðu mótmælin sem haldin voru. Stemningin var rafmögnuð þegar hundruð barna og unglinga hrópuðu: „Aðgerðir: Núna!“
Mikil stemning var meðal ungmennanna og voru kröfurnar skýrar; þau vilja aðgerðir í loftslagsmálum og þau vilja þær núna. Einnig hrópuðu þau í takt: „Við erum bara börn, framtíð okkar skiptir máli!“
Á Facebook-síðu viðburðarins kom fram að um verkfall væri að ræða og að það væri innblásið af Thunberg. „Við viljum sýna stjórnvöldum að almenningur sé meðvitaður um alvarleika málsins og vilji róttækar aðgerðir,“ skrifuðu þau.
Þau bentu á að stjórnvöld hefðu sett sér aðgerðaráætlun í loftslagsmálum til ársins 2030 sem geri meðal annars ráð fyrir kolefnishlutleysi fyrir árið 2040. „Við viljum styðja við bakið á þeim aðgerðum, en betur má ef duga skal. Núverandi aðgerðaáætlun er ekki í samræmi við markmið um að halda hlýnun innan 1,5 gráðu á heimsvísu og við krefjumst aðgerða sem eru líklegar til að skila þeim árangri.“
Ljóst væri að stórauka þyrfti fjárframlög til loftslagsaðgerða. Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (IPCC) reiknaðist til að verja þyrfti 2,5 prósent af heimsframleiðslu til loftslagsmála á ári til ársins 2035 til að halda hlýnun innan við 1,5 gráður. Núverandi áætlun væru upp á 0,05 prósent af þjóðarframleiðslu á ári næstu fimm árin.
Þau kröfðust þess að Ísland tæki af skarið, hlustaði á vísindamenn, lýsti yfir neyðarástandi og léti hið minnsta 2,5 prósent af þjóðarframleiðslu renna beint til loftslagsaðgerða. Þar yrði atvinnulífið jafnframt að axla ábyrgð og til þess yrði ákveðin viðhorfsbreyting að eiga sér stað.
„Við viljum afdráttarlausar aðgerðir. Núna. Fyrir komandi kynslóðir. Fyrir loftslagið!“
Mótmæla enn
Verkföll ungmenna á Íslandi og víða um heim halda áfram en ennþá mótmæla þau á hverjum einasta föstudegi og ekki er fyrirséð að þau hætti í náinni framtíð á meðan kröfum þeirra er ekki mætt.
En hvað sem verður – hvort Thunberg hverfi af sjónarsviðinu eins fljótt og hún birtist – þá hafa áhrif hennar, boðskapur og ímynd rækilega breiðst út og verður hugsunarháttur margra gagnvart loftslagsmálum ekki samur eftir komu hennar á sjónarsviðið.
Lesa meira
-
10. janúar 2023Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
5. janúar 2023Öfgafullar hitabylgjur 160 sinnum líklegri vegna loftslagsbreytinga
-
4. janúar 20232022: Ár raunsæis
-
23. desember 2022Trú og náttúra
-
22. desember 2022Tíu jákvæðar fréttir af dýrum
-
18. desember 2022Kemur að skuldadögum
-
17. desember 2022Vilja flytja út íslenska orku í formi fljótandi metangass
-
13. desember 2022Vindurinn er samfélagsauðlind