Árið 1949 kom út í Bandaríkjunum bók sem bar heitið The Story of the Trapp Family Singers. Hún hafði að geyma endurminningar Marie von Trapp, sem fæddist og ólst upp í Austurríki. Eiginmaður hennar, Georg von Trapp, sem var af ungverskum ættum, hafði látist tveimur árum fyrr og Marie vonaðist til að bókin myndi afla henni tekna. Þegar Marie og Georg Trapp giftust átti Georg, sem var ekkjumaður og 22 árum eldri en Marie, sjö börn og síðar eignuðust þau þrjú til viðbótar. Fjölskyldan flúði til Bandaríkjanna árið 1938 skömmu áður en síðari heimsstyrjöldin braust út. Fjölskyldan hafði þá um nokkurra ára skeið aflað tekna með söng og hélt því áfram eftir flutningana vestur um haf.
Trapp family singers eins og þau nefndu sig nutu vinsælda og fjölskyldan ferðaðist víða um lönd. Eftir að stríðinu lauk stofnuðu Trapp hjónin sjóð, sem styrkti fátækt fólk í Austurríki. Georg lést, eins og áður sagði 1947 en Trapp fjölskyldan söng inn á nokkrar hljómplötur á árunum eftir 1950 en hætti störfum árið 1957. Marie von Trapp lést 28. mars 1987.
The Trapp family og The Trapp family in America
Fljótlega eftir útkomu bókarinnar The Story of the Trapp Family Singers vildu tveir kvikmyndaframleiðendur í Hollywood kaupa titil bókarinnar en Marie neitaði að semja um slíkt, hún vildi því aðeins semja ef saga fjölskyldunnar yrði sögð í slíkri mynd. Árið 1956 keypti þýskur kvikmyndaframleiðandi framleiðsluréttinn og gerði sama ár kvikmyndina The Trapp family og tveimur árum síðar aðra mynd, sú bar heitið The Trapp family in America. Báðar urðu þessar myndir mjög vinsælar í Þýskalandi og víðar. Tónlistin í báðum myndunum samanstóð af austurrískum þjóðlögum.
Sound of Music – Söngvaseiður – á svið
Leikstjórinn Vincent J. Donehue sá báðar kvikmyndirnar um Trapp fjölskylduna og sá fyrir sér að hægt væri að setja söguna á svið. Eftir að hafa fengið samþykki Trapp fjölskyldunnar samdi hann við tvo þekkta handritshöfunda, Lindsay og Cruise, um að skrifa leikrit byggt á bókinni, þótt mörgu væri breytt, og nota nokkur lög úr kvikmyndunum. Samkvæmt upphaflegri áætlun átti saga Trapp fjölskyldunnar að vera leikrit, með söngvum. Síðar var ákveðið að bæta við eins og einum eða tveimur lögum við „kannski eftir Rodgers og Hammerstein“ eins og leikstjórinn orðaði það, þegar hann samdi við leikkonuna Mary Martin um að leika titilhlutverkið. Þeir Richard Rodgers og Oscar Hammerstein II voru mjög þekktir, höfðu samið fjöldann allan af lögum við þekkta söngleiki, meðal annars Oklahoma!, The King and I og South Pacific.
Fljótlega eftir að samið hafði verið við þá félaga, um eitt eða tvö lög var ákveðið að verkið, sem ekki hafði enn fengið nafn, yrði söngleikur og þeir Rodgers og Hammerstein myndu semja alla tónlistina. Þeir Lindsay og Cruise sömdu handritið, eins og áður hafði verið ákveðið og Rodgers og Hammerstein settust við og sömdu lög og texta.
Hlaut frábærar viðtökur
Þann 16. nóvember 1959 var söngleikurinn, sem nú hafði fengið nafnið Sound of Music frumsýndur á Broadway í New York eftir nokkrar forsýningar í New Haven og Boston. Skemmst er frá því að segja að verkið sló rækilega í gegn og þegar sýningum lauk árið 1963 voru þær orðnar 1443. Gagnrýnendur voru sammála um að allt hefði lagst á eitt, söguþráðurinn, frammistaða leikaranna, dansatriðin og ekki síst tónlistin. Oft hafði þeim félögum Rodgers og Hammerstein tekist vel upp en að mati gagnrýenda aldrei jafn vel og í þetta sinn. Hljómplata með söngvunum úr sýningunni seldist í rúmlega þremur milljónum eintaka. Reyndar fór svo að Sound of Music varð síðasta samstarfsverkefni þeirra Rodgers og Hammerstein því sá síðarnefndi lést nokkrum mánuðum eftir frumsýninguna á Broadway.
Sound of Music eða Söngvaseiður eins og verkið er nefnt á íslensku var fyrst sýnt í Lundúnum 1961, sýningarnar urðu samtals 2.385. Uppsetningin byggði að mestu á sýningunni í New York.
Sound of Music hefur verið sett á svið um víða veröld allt frá því að verkið kom fyrst fram, þar á meðal nokkrum sinnum hér á Íslandi, bæði í Þjóðleikhúsinu og Borgarleikhúsinu og ennfremur hjá nokkrum leikfélögum á landsbyggðinni.
Kvikmyndin og Julie Andrews
Velgengni Sound of Music á Broadway fór ekki framhjá kvikmyndaframleiðendum vestanhafs og í árslok 1962 réði 20th Century Fox fyrirtækið Ernest Lehman til að skrifa kvikmyndahandrit, byggt á söngleiknum vinsæla. Lehman hélt sig við söguþráðinn en breytti þó ýmsu, einkum með það fyrir augum að auka á sjónræn áhrif áhorfenda. Útisenur myndarinnar voru að mestu leyti teknar í nágrenni Salzburg í Austurríki. Leikstjórinn Robert Wise var ekki nýgræðingur, hafði meðal annars leikstýrt West Side Story nokkrum árum fyrr.
Óhætt er að segja að myndin standi og falli með frammistöðu leikkonunnar í hlutverki Marie. Nokkrar komu til greina en dag nokkurn, meðan á undirbúningnum stóð kom handritshöfundurinn Ernest Lehman til leikstjórans Robert Wise og þeir fóru í Disney kvikmyndaverið og fengu að líta á nokkra búta úr kvikmyndinni Mary Poppins sem átti bráðlega að frumsýna. Eftir að þeir félagar höfðu horft í nokkrar mínútur sagði leikstjórinn: „Semjum við þessa áður en einhver annar uppgötvar hana.“ Þessi var breska leikkonan Julie Andrews. Leikstjórinn hafði séð Christopher Plummer á sviði á Broadway og þótti hann rétti maðurinn til að leika Captain von Trapp.
Tökur hófust í mars 1964 og lauk 1. september. Útisenur myndarinnar voru að mestu leyti teknar í Salzburg og nágrenni í Austurríki en nánast allt annað í Fox kvikmyndaverinu í Los Angeles. Julie Andrews var tiltölulega lítið þekkt þangað til Mary Poppins birtist á hvíta tjaldinu en þegar Sound of Music kom svo í kvikmyndahúsin ári síðar varð hún heimsfræg, frumsýningin var 2. mars 1965, í New York.
Viðtökurnar
Bandarískir gagnrýnendur voru ekki á einu máli varðandi myndina. Sumir sögðu hana alltof væmna og sykursæta, aðrir hrósuðu henni í hástert. Dómur áhorfenda var hins vegar afgerandi; Sound of Music sló algjörlega í gegn og er ein vinsælasta og mest sótta kvikmynd allra tíma. Hljómplata með lögunum úr kvikmyndinni hefur selst í meira en 20 milljónum eintaka.
Þótt nú séu liðin 60 ár frá frumsýningu söngleiksins og 54 ár síðan kvikmyndin birtist á hvíta tjaldinu er ekkert lát á vinsældunum. Leikhús víða um heim sviðsetja söngleikinn með reglulegu millibili og milljónir sjá kvikmyndina á hverju ári. Á sínum tíma þegar myndin var sýnd í Suður – Kóreu brá einn kvikmyndahúseigandi á það ráð að klippa alla söngvana burt, til að geta haft fleiri sýningar á hverjum degi.
Fyrirtæki í Salzburg býður upp á skoðunarferðir í rútubíl á Slóðir Sound of Music, þar er myndin sýnd á skjá meðan á ferðinni stendur, leiðsögumaðurinn leiðir fjöldasöng og þarf ekki að útbýta textunum, þá kunna allir. Árlega fara um 50 þúsund manns í þessar ferðir. Skrifari þessa pistils fór í svona ferð fyrir tveimur árum. Af um það bil 30 farþegum í rútunni voru pistilshöfundur og sessunautur hans (eiginkonan) þeir einu sem aðeins höfðu séð kvikmyndina einu sinni. Nokkrir í hópnum höfðu séð hana oftar en 20 sinnum, einn oftar en 30 sinnum. Leiðsögumaðurinn sagði að þetta væri síður en svo einsdæmi.
Það má svo í lokin geta þess að þegar sýningar á söngleiknum hófust í London árið 1961 mætti 13 ára drengur með boðsmiða. Hann hafði skrifað Richard Rogers aðdáendabréf og fékk miðann að launum. Drengurinn hét, og heitir, Andrew Lloyd Webber.