Kaupþing felldi niður bótamál gegn fyrrverandi stjórnendum
Kaupþing ehf. samdi í september í fyrra við tryggingafélög vegna stjórnendaábyrgða sem bankinn hafði keypt fyrir bankahrun til að tryggja sig fyrir atferli stjórnenda. Í kjölfarið, seint á árinu 2018, felldi félagið niður fimm dómsmál sem það hafði höfðað gegn fyrrverandi stjórnendum Kaupþings. Núverandi stjórnendur félagsins neita að tjá sig um dómsmálin sem voru felld niður.
Kaupþing ehf., eignarhaldsfélagið sem myndað var utan um eftirstandandi eignir Kaupþings banka, náði samkomulagi við vátryggjendur í september 2018 um stjórnendaábyrgðir fyrir árin 2008 og 2009 sem keypt hafði verið af Kaupþingi á árinu 2008. Samkomulagið var í tengdum „ við margvíslegan ágreining aðila varðandi umfang og gildi vátryggingarinnar.“
Þetta kemur fram í ársreikningi Kaupþings ehf. fyrir árið 2018.
Í ársreikningnum segir að í kjölfar samkomulagsins hafi fimm dómsmál milli Kaupþings og vátryggjenda felld niður. Þar segir enn fremur að Kaupþing hafi jafnframt fellt niður þrjú mál á hendur fyrrverandi stjórnendum félagsins sem rekin voru fyrir héraðsdómi Reykjavíkur.
Kjarninn sendu fyrirspurn á Kaupþing og bað um upplýsingar um annars vegar um hvað hafi falist í samkomulaginu við vátryggjendurna og hins vegar um hvaða mál gegn hvaða fyrrverandi stjórnendum hefðu verið felld niður.
Í svari starfsmanns félagsins sagði: „Kaupþing er ekki reiðubúið að tjá sig um þau dómsmál sem felld hafa verið niður né að veita nánari upplýsingar um samkomulagið við vátryggjendur.“
Ágreiningur sem staðið hefur yfir árum saman
Á vef Héraðsdóms Reykjavíkur má hins vegar finna dóm í alls fjórum málum sem þingfest voru 25. september 2014 þar sem Kaupþing stefndi nokkrum erlendum tryggingafélög til greiðslu hárra upphæða vegna stjórnendaábyrgðartrygginga sem keyptar hefðu verið í gegnum vátryggingarmiðlarann Howden insurance Brokers Ltd. snemma árs 2008. Dómarnir eru frá því í mars 2017.
Um var að ræða tryggingu vegna brota starfsmanna, tryggingu vegna tölvuglæpa og starfsábyrgðartryggingu. Eftir að Fjármálaeftirlitið tók yfir Kaupþing haustið 2008 reyndi vátryggingarmiðlarinn að fella tryggingarnar úr gildi og endurgreiða þau iðgjöld sem greidd höfðu verið. Það var gert með ávísun sem send var til Kaupþings í apríl 2012.
Kaupþing hafnaði þessu og gerði þess í stað bótakröfu vegna nokkurra fyrrverandi stjórnenda Kaupþings og eins hluthafa. Samhliða rak félagið mál gegn þessum sömu aðilum fyrir dómstólum. Kaupþing tapaði málinu á þeim forsendum að krafa félagsins gagnvart tryggingafélögunum væri fyrnd. Ástæðan væri m.a. sú að fyrningarfrestur hefði hafist þegar skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis, sem opinberaði flest allt sem átti sér stað inni í bönkunum fyrir hrun, kom út í apríl 2010 en krafan hefði ekki verið sett fram fyrr en seint á árinu 2014.
Ljóst er þó á upplýsingunum sem fram komu í ársreikningi Kaupþings fyrir árið 2018 að dómsmálin voru enn lifandi þegar samkomulag náðist um þau í september í fyrra.
Lán og greiðslur til einkahlutafélags forstjóra
Í niðurstöðum Héraðsdóms Reykjavíkur í ofangreindum fjórum málum kemur fram hvaða mál Kaupþing hafði höfðað, og rekið fyrir dómstólnum, gegn fyrrverandi stjórnendum og stjórnarmönnum bankans, vegna þeirrar háttsemi sem Kaupþing taldi sig eiga rétt á bótum fyrir, annað hvort frá tryggingafélögunum eða einstaklingunum sem sýndu af sér þá háttsemi.
Þar sagði að eitt málið hafi snúist um lánveitingar Kaupþings til Kjalars, félags Ólafs Ólafsson, eins stærsta eiganda bankans fyrir hrun. Kaupþing ehf. höfðaði á sínum tíma skaðabótamál á hendur sjö fyrrverandi stjórnendum og stjórnarmönnum í bankanum vegna þessarar lánveitingar og krafðist 381 milljón evra greiðslu. Þeir voru fyrrverandi stjórnendurnir Bjarki H. Diego, Guðmundur Þór Gunnarsson og Hreiðar Már Sigurðsson og fyrrverandi stjórnarmennirnir Gunnar Páll Pálsson, Hjörleifur Þór Jakobsson, Bjarnfreður Ólafsson, og Sigurður Einarsson. Fallið var frá málarekstri geng Hjörleifi Þór Jakobssyni með bréfi sem sent var til hans 18. mars 2013.
Annað málið snerist um háttsemi Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, og eiginkonu hans vegna lánveiting til félagsins Hreiðars Más Sigurðssonar ehf. Kaupþing taldi að hjónin hefðu með saknæmum og ólögmætum hætti bakað Kaupþingi tjóni með því að koma því til leiðar að bankinn ráðstafaði fjármunum beint til forstjórans fyrrverandi án þess að hann bæri persónulega ábyrgð á því að endurgreiða þá. Bótakrafan í málinu var 933 milljónir króna auk vaxta.
12,8 milljarða lán og greiðsla á kostnaði vegna húsnæðis
Þriðja málið sem Kaupþing höfðaði, með stefnu sem var útgefin 1. október 2012, snerist um 12,8 milljarða króna lánveitingu til félagsins Gerland, sem var í eigu Ólafs Ólafssonar. Þar var Hreiðari Má og Ólafi upphaflega stefnt til að greiða Kaupþingi tæpa 12,9 milljarða króna auk vaxta. Málið var upphaflega fellt niður árið 2014 en ný stefna gefin út síðar það sama ár þar sem sömu kröfur voru settar fram. Árið 2017 var fallið frá kröfum á hendur Ólafi í málinu.
Fjórða málið snerist síðan um greiðslur til Sigurðar Einarssonar, sem var starfandi stjórnarformaður Kaupþings fyrir bankahrun, vegna greiðslna á kostnaði vegna húsnæðis sem hann bjó í í London. Nánar tiltekið keypti Sigurður fasteign í London sem bankinn greiddi svo skatta, gjöld og annan kostnað af auk þess sem hann fékk greidda leigu fyrir eigin afnot af fasteigninni. Kaupþing taldi að þessar greiðslur hefðu ekki verið samþykktar í stjórn bankans áður en hann féll og hefðu því ekki átt rétt á sér. Alls snerist málið um 80 milljónir króna.
Leiðrétting:Við fréttaskýringuna hefur verið bætt upplýsingum um að skilanefnd Kaupþings hefði fallið frá stefnu gegn Hjörleifi Þór Jakobssyni þann 18. mars 2013 eftir að upplýsingar bárust um það.
Lestu meira:
-
4. ágúst 2020Rannsókn á Lindsor-málinu í Lúxemborg lokið og því vísað til saksóknara
-
9. júlí 2020Lindsor-rannsóknin nær til nýrra grunaðra og á að ljúka fyrir haustið
-
15. maí 2020Annað opið bréf til Ármanns Þorvaldssonar
-
11. nóvember 2019Opið bréf til Ármanns Þorvaldssonar
-
21. október 2019Deutsche Bank taldi „skaðlega umfjöllun“ um samkomulag valda kerfisáhættu fyrir heiminn
-
15. október 2019Kaupþing felldi niður bótamál gegn fyrrverandi stjórnendum
-
14. september 2019Breska ríkið búið að selja síðustu kröfuna á Kaupþing
-
24. maí 2019Skýrsla um neyðarlánið kemur á mánudag klukkan 16
-
24. maí 2019Skýrsla um neyðarlánið frestað í þriðja sinn á örfáum vikum
-
13. maí 2019Enn frestast birting skýrslu um neyðarlánið