Þann 8. október árið 2010 tilkynnti norska nóbelsnefndin að kínverska skáldið og andófsmaðurinn Liu Xiaobo fengi friðarverðlaun Nóbels það árið. Í tilkynningu nóbelsnefndarinnar sagði að Liu Xiaobo fengi verðlaunin fyrir langa baráttu fyrir grundvallarmannréttindum almennings í Kína. Liu Xiaobo hefði árum saman verið í fararbroddi friðsamlegrar baráttu og að mati nefndarinnar væri enginn betur að þessum verðlaunum kominn.
Liu Xiaobo, sem var fæddur 1955, stundaði nám í bókmenntum og lauk meistaraprófi frá Beishida háskólanum í Beijing árið 1984 og fékk í framhaldinu kennarastöðu við skólann. Hann var eftirsóttur fyrirlesari og var gestaprófessor, meðal annars við Columbia háskólann í New York, Háskólann í Ósló og fleiri háskóla í Evrópu. Árið 1989 sneri Liu Xiaobo heim til Kína og tók þátt í mótmælunum sem kennd eru við Tiananmen torgið (Torg hins himneska friðar) í Beijing.
Kínversk stjórnvöld töldu Liu Xiaobo einn hugmyndafræðinganna að baki mótmælanna og hann var dæmdur til tveggja ára fangelsisvistar. Hann hlaut aftur dóm árið 1995, sat þá inni í sex mánuði og ári síðar var hann dæmdur til þriggja ára betrunarvinnu (eins og það er nefnt) fyrir að trufla stöðugleikann í samfélaginu. Eftir að Liu Xiaobo hafði lokið afplánun fylgdust kínversk yfirvöld grannt með honum en 8. desember árið 2008 var hann handtekinn ásamt félaga sínum. Þeir voru sakaðir um að safna undirskriftum á skjal sem nefnist Kafli 08 og til stóð að birta tveimur dögum síðar. Liu Xiaobo var síðar sakaður um að hafa að miklu leyti skrifað textann í Kafla 08.
Kafli 08
Þetta skjal, Kafli 08, er í stuttu máli ákall, krafa og áskorun til stjórnvalda um mannréttindi og aukið frelsi almennings. Liu Xiaobo var strax eftir handtökuna settur í einangrun. Þar var hann fram að réttarhöldum ári síðar, 23. desember 2009. Ákæran hljóðaði upp á ,,ógnun við öryggi ríkisins og brot á kínverskum lögum.“
Sjálfur fékk Liu Xiaobo ekki leyfi til að tala við réttarhöldin en fjölda erlendra sendiráðsstarfsmanna í Beijing var meinað að vera í réttarsalnum. Liu Xiaobo var sekur fundinn og á jóladag 2009 dæmdur í ellefu ára fangelsi og skyldi sviptur öllum borgaralegum réttindum í tvö ár. Víða um heim voru kínversk stjórnvöld harðlega gagnrýnd vegna dómsins en Kínverjar létu það sem vind um eyru þjóta og sögðu sem svo að Liu Xiaobo hefði gerst brotlegur við kínversk lög og slíkt væri refsivert.
Nóbelsverðlaunin og andlát Liu Xiaobo
Þegar norska nóbelsnefndin tilkynnti að Liu Xiaobo myndi hljóta friðarverðlaun Nóbels árið 2010 brugðust kínversk stjórnvöld ókvæða við. Sendiherra Noregs í Beijing var kallaður á fund í kínverska utanríkisráðuneytinu þar sem honum voru afhent mótmæli kínverskra stjórnvalda. Nóbelsnefndin væri með ákvörðun sinni að skipta sér af kínverskum innanríkismálum, Liu Xiaobo hefði brotið gegn kínverskum lögum með skrifum sínum og þátttöku í ólöglegum mótmælum. Norski sendiherrann svaraði því til að norsk stjórnvöld hefðu ekki boðvald yfir nóbelsnefndinni.
Þann 9. október 2010, daginn eftir að nóbelsnefndin tilkynnti um val sitt flutti eiginkonan, Liu Xia, honum tíðindin í fangelsið. Hún sagði að hann hefði tárast en sagt að verðlaunin væru til allra sem berðust fyrir umbótum á sviði mannréttinda í Kína.
Þann 9. desember 2010 voru friðarverðlaun Nóbels afhent við hátíðlega athöfn í Ósló. Verðlaunaþeginn sjálfur, Liu Xiaobo, var hins vegar víðs fjarri, sat í fangelsinu heima í Kína. Eiginkona hans, Liu Xia, sem ekki fékk að fara til Noregs, og sat í raun í stofufangelsi á heimili sínu, hafði komið ávarpi eiginmannsins til nóbelsnefndarinnar. Leikkonan Liv Ullmann las ávarpið við athöfnina, en auður stóll á sviðinu sýndi með táknrænum hætti fjarveru Liu Xiaobo.
Nóbelsverðlaunin breyttu engu varðandi Liu Xiaobo, hann sat áfram í fangelsinu í Jinzhou.
Í maí árið 2017 kom í ljós að Liu Xiaobo var illa haldinn af krabbameini í lifur. Í júní það ár var hann fluttur á sjúkrahús þar sem hann lést 13. júlí. Hann hafði þá afplánað átta ár og sex mánuði af ellefu ára fangelsisdómi.
Af ekkjunni Liu Xia (fædd 1961) er það að segja að hún sat í stofufangelsi þangað til í júlí 2018. Þá fékk hún leyfi til að fara til Þýskalands til að leita sér lækninga. Þjóðverjar höfðu þrýst mjög á kínversk stjórnvöld í þessu skyni og í lok júlí í hitteðfyrra kom hún til Berlínar. Í apríl á síðasta ári birtist langt viðtal við hana í bandaríska vikuritinu The New Yorker. Í viðtalinu sem var tekið í Berlín, þar sem Liu Xia býr nú, sagðist hún smám saman vera að átta sig á tilverunni, hún er ljóðskáld en hefur einnig lagt stund á málaralist og ljósmyndun.
Heimsóknin í bókabúðina
Allt frá því að Liu Xiaobo voru veitt friðarverðlaun Nóbels árið 2010 hefur ríkt kuldi í samskiptum Kínverja og Norðmanna. Norðmenn hafa reynt ýmislegt til að bæta samskiptin. Það eru ekki síst viðskipti sem Norðmenn horfa til. Viðskiptasambönd við þessa fjölmennu þjóð eru mikilvæg fyrir Norðmenn, sem eins og margar aðrar þjóðir vilja gjarna fá „gott veður“ hjá kínverskum ráðamönnum. Í því skyni hefur nokkrum háttsettum kínverskum stjórnmálamönnum að undanförnu verið boðið til Noregs og Haraldur V Noregskonungur fór í opinbera heimsókn til Kína árið 2018.
Fyrir skömmu var 40 kínverskum skíðamönnum, ásamt 15 þjálfurum boðið að koma til Noregs til æfinga. Hér er rétt að geta þess að Vetrarólympiuleikarnir fara fram í Kína árið 2022. Kínverjarnir þáðu boðið en settu ýmis skilyrði. Bókavörðurinn á bæjarbókasafninu í Meráker í Þrændalögum, þar sem fyrirhugað er að kínversku skíðamennirnir æfi, rak upp stór augu þegar kínverskir embættismenn birtust á bókasafninu. Ekki var undrun bókavarðarins minni þegar þeir báru upp erindið: Þeir kröfðust þess að allar bækur, sem ekki væru kínverskum stjórnvöldum þóknanlegar yrðu fjarlægðar úr hillum safnsins. Til dæmis bækur um Falun Gong-hreyfinguna. Bókavörðurinn kiknaði ekki í hnjáliðunum en sagði þessum sjaldséðu gestum á safninu að hér væri það hún (bókavörðurinn er kona) sem réði og úr hillum safnsins yrðu engar bækur fjarlægðar þótt einhverjir skíðamenn kæmu til æfinga í bænum. „Hér í Noregi búum við nefnilega við tjáningarfrelsi.“ Engum sögum fer af viðbrögðum kínversku sendimannanna.
Mörg dæmi um kröfur Kínverja
Þessi litla saga frá Noregi er bara eitt dæmi um framkomu Kínverja og viðkvæmni þeirra gagnvart öllu því sem ekki þóknast þarlendum stjórnvöldum. Fyrir skömmu hélt borgarstjórinn í Prag í Tékklandi móttöku fyrir erlenda diplómata þar í borg. Meðal viðstaddra var fulltrúi Taívans. Þegar kínverski sendiherrann mætti í boðið krafðist hann þess þegar í stað að taívanski embættismaðurinn yrði rekinn á dyr. Því neitaði borgastjórinn. Það svar vakti ekki kátínu í Beijing.
Í júní árið 2012 kom Hu Jintao, þáverandi forseti Kína í opinbera heimsókn til Kaupmannahafnar. Ritari þessa pistils var þá búsettur í borginni og getur borið um að tilstandið í kringum þessa þriggja daga heimsókn var engu líkt. Danska lögreglan fór offari við að halda uppi því sem yfirmennirnir kölluðu „lög og reglu.“ Mikil áhersla var lögð á að koma í veg fyrir að forsetinn sæi nokkurs staðar glitta í fána Tíbets.
Heimsóknin hafði mikla eftirmála, sem raunar sér ekki enn fyrir endann á. Tvær rannsóknarnefndir hafa farið í saumana á framgangi dönsku lögreglunnar og 90 manns hafa fengið greiddar skaðabætur vegna ólögmætrar handtöku. Og búist er við að fleiri slíkar kröfur eigi enn eftir að koma fram.
Um Danmerkurheimsókn forseta Kína árið 2012 og eftirmál hennar, ekki síst framgang dönsku lögreglunnar hefur áður verið fjallað um hér í Kjarnanum, í tveimur pistlum: „Ekki benda á mig og hver sagði hvað við hvern“ árið 2016 og ári síðar „Enginn vill sitja uppi með apann.“