Með landið að láni
Páll Skúlason var brautryðjandi þegar kemur að umræðu um umhverfismál en hann taldi meðal annars mikil mistök vera falin í því viðhorfi að líta á náttúruna sem eign manna og að leyfilegt væri að gera hvað sem er undir því yfirskini. Við ættum ekki landið í þeim skilningi og gætum hreinlega ekki gert það sem okkur lystir.
Náttúruumræða á Íslandi hefur verið fyrirferðarmikil síðustu áratugi. Hún hefur einkennst af mismunandi sjónarmiðum og hafa hagsmunaárekstrar verið áberandi. Umræðan náði hámarki í aðdraganda byggingar Kárahnjúkavirkjunar árið 2002 og þar til virkjunin var gangsett árið 2007. Þjóðin var að vissu leyti klofin í tvennt, mörg álitamál kölluðust á og oft og tíðum vantaði upp á vandaða umfjöllun um málefnið.
Ýmsar raddir heyrðust um að nýting náttúrunnar í þágu fólksins vægi meira en ásýnd landslagsins og áhrif röskunar á lífríkið á Austurlandi. Margar spurningar sputtu upp um gildi náttúru, gagnvart mönnum en einnig óháð þeim. Umræðan einkenndist oft af skilningsleysi gagnvart andstæðum skoðunum. Það sama má sjá í umræðu um fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir í dag.
Þegar þannig er komið fyrir umræðunni er nauðsynlegt að fjalla um náttúrusiðfræði, þar sem gildi náttúru er skeggrætt og staða mannsins í náttúru einnig. Þetta á ekki síður við núna; við erum stöðugt í þessum dansi nýtingar og varðveislu þegar íslensk náttúra er annars vegar.
Að upplifa sig sem hluta af heild
Páll Skúlason heitinn, prófessor í heimspeki og fyrrverandi rektor, var frumkvöðull í náttúruumræðu á Íslandi og framlag hans til náttúruhugsunar og siðfræði verður ekki dregið í efa. Kjarninn fer hér yfir Náttúrupælingar hans sem komu út árið 2014 en bókin er samansafn hugleiðinga, greina og erinda um heimspeki náttúrunnar.
Árið 1998 gaf hann út bókina Umhverfing sem var vel tekið og segir í grein í Morgunblaðinu frá árinu 1999: „Landsvirkjun auglýsti á dögunum eftir rökum í stað tilfinninga. Umhverfing Páls Skúlasonar heimspekings er næstum því eins og svarið við þeirri auglýsingu, enda hefur Páll fyrr en hér véfengt skiptingu mannsandans í skynsamlega rökvísi annarsvegar og óreiðukenndar, óskynsamlegar tilfinningar hinsvegar. Hann hefur haldið á lofti gildi rökstuddra tilfinninga.“
Páll gaf út Náttúrupælingar árið 2014 sem er samansafn hugleiðinga, greina og erinda um heimspeki náttúrunnar. Að vissu leyti má taka undir ritdóminn hér að framan í sambandi við Náttúrupælingar Páls. Um leið og hann færir rök fyrir skoðunum sínum með greinargóðum hætti, þá er umhyggja og tilfinning fyrir lífinu aldrei langt undan. Hann reynir eftir fremsta megni að orða það sem ómögulegt er að setja í orð; að lýsa tilfinningum sem manneskja finnur fyrir þegar hún upplifir sjálfa sig sem hluta af heild, það sem lífið er.
Hvort okkur auðnast að lifa áfram á þessari jörð í sambýli við aðrar lífverur er öllu öðru fremur komið undir því að við sigrumst á þeirri heimskulegu tilhneigingu að skoða lífið og náttúruna eingöngu út frá sjónarhorni okkar sjálfra.
Frumforsenda siðferðis felst í hversdagslegri umhyggjusemi
Elsta erindið er frá árinu 1989 og nefnist Siðfræði náttúrunnar. Þar fjallar hann um gæði lífsins, afstöðu mannfólksins til náttúrunnar og skyldur okkar gagnvart dýrunum. Hann tekur fram strax í byrjun hversu mikilvægt það sé að ræða þessi mál. Hann gagnrýnir harðlega þá mannhverfu hugsun að „við höfum rétt til að ráðskast með aðrar lífverur eftir því sem okkur sýnist og við teljum samræmast best okkar eigin hagsmunum.“ Það sé brýnt verkefni siðfræðinnar að sýna fram á mikilvægi þess að hafa fleira í huga en þessi mannhverfu viðhorf.
Páli er umhugað að finna út hvað sé siðferðislega rétt að gera og hvað ekki, þrátt fyrir að hann setji þá varnagla að þessir siðferðisdómar séu ekki endanlegir og geti aldrei orðið það. „Hvort okkur auðnast að lifa áfram á þessari jörð í sambýli við aðrar lífverur er öllu öðru fremur komið undir því að við sigrumst á þeirri heimskulegu tilhneigingu að skoða lífið og náttúruna eingöngu út frá sjónarhorni okkar sjálfra,“ skrifar hann. Páll endar greinina á þeirri staðhæfingu að frumforsenda alls siðferðis felist í hversdagslegri umhyggjusemi og tillitssemi gagnvart öllu sem lifir. Hann lýsir af miklu innsæi sýn sinni á lífið og með mikilli nærgætni. Þessi orð gefa tóninn fyrir náttúrusiðfræði Páls Skúlasonar sem liggur eins og rauður þráður í gegnum alla bókina.
Hugleiðingar við Öskju er stutt bók eftir Pál sem kom út árið 2005 og er fyrsta hugleiðingin í Náttúrupælingum. Hún er hvalreki fyrir íslenska heimspeki og hugsun og er löngu orðin skyldulesning fyrir alla þá sem áhuga hafa á náttúruumræðu. Í þessu stutta riti lýsir hann á einlægan hátt upplifun og reynslu sinni í sinni fyrstu ferð á eldstöðina Öskju. Á tímum þar sem nýting náttúru er hjá sumum alltaf talin réttlætanleg og ofuráhersla er á skynsemi og framfarahugsun, þá er þessi hugleiðing kærkomið innlegg.
Þessi lýsing Páls ber með sér djúpa virðingu fyrir lífinu og náttúrunni sem býr í öllu. Í stað þess að lýsa dvölinni í Öskju þá byrjar hann á því að lýsa tilfinningunni og spurningunum sem vöknuðu. Hann veltir því fyrir sér hvernig heildir verði til og hvers konar heildir séu til. Hvernig myndast tengsl og hvers konar tengsl eru til?
Að vera jarðarbúi er að finna líf sitt bundið jörðinni
Páll veltir fyrir sér nokkrum möguleikum og viðurkennir að ekki sé auðvelt að fá endanleg svör og að jafnvel séu þau ekki til. Kjarni reynslunnar sé því líklegast eitthvað sem hægt væri að kalla andlega reynslu og það sem skáld og listamenn basla við að lýsa í sínum störfum. „Að koma til Öskju hefur því – í mínum huga – einfalda og skýra þýðingu: Að uppgötva jörðina og sjálfan sig sem jarðarbúa. Að vera jarðarbúi er að finna líf sitt bundið jörðinni, ef ekki beinlínis sprottið af henni, finna að hún er forsenda lífsins,“ skrifar hann. Páll segir að með því að öðlast slíka reynslu sé maðurinn að staðsetja sig í veruleikanum og þá sjái hann jafnvel um hvað lífið snúist.
Páll fylgir eftir Hugleiðingum við Öskju með erindunum Náttúran í andlegum skilningi, Andi og óbyggðir og Bréf til Gerdien. Viðtal með yfirskriftinni „Við þurfum að kenna börnunum okkar að skynja og hugsa“, sem Þröstur Helgason tók við hann árið 2005, rekur svo lestina. Þar má fá nokkurs konar útskýringar á fyrri skrifum og reynslunni við Öskju. Fyrir þá sem halda upp á Hugleiðingar við Öskju er þetta kærkomin viðbót við það rit.
Framtíð lífs á jörðinni undir því komið að mennirnir tileinki sér heilsteypta hugsun
Í síðari hluta Náttúrupælinga er skipt um áherslur, þrátt fyrir að svipuð heildarhugsun skjóti upp kollinum í næstsíðasta erindinu, Að ganga og að hugsa, þar sem Páll fjallar um þá upplifun sem ganga er. Í fyrstu hugleiðingu seinni hluta bókarinnar, Hvað er siðfræði náttúrunnar?, byrjar hann að skilgreina siðfræði náttúrunnar með einföldum og skýrum hætti.
Páll telur að ástæðan fyrir því að gott sé að skilgreina þessa tegund siðfræði sérstaklega sé sú að vaninn sé að tengja siðfræði við reglur sem fólk setur sér í samskiptum við aðra og lifnaðarhætti. Röng og rétt breytni er iðulega tengd menningarsamfélögum en síður við náttúruna sjálfa. Þannig hefur umhverfi mannsins og náttúra staðið fyrir utan þetta siðferði mannanna. Þetta er þó ekki svona einfalt og útskýrir Páll skorinort hvaða þýðingu hann telur náttúruna hafa fyrir mennina.
Náttúran er í senn móðir alls lífs á jörðinni, uppspretta þeirra gæða sem menn þurfa til að lifa og svo býr hún í okkur sjálfum. „Um þetta fjallar siðfræði náttúrunnar. Hún leitast við að skýra boð og bönn, dygðir og lesti, verðmæti og gildi sem eru í húfi í hegðun manna gagnvart náttúrunni og fyrirbærum hennar,“ skrifar hann.
Páll endar þessa litlu hugleiðingu á að benda á mikilvægi siðfræði náttúrunnar, að framtíð lífs á jörðinni sé undir því komið að mennirnir tileinki sér heilsteypta og siðferðislega hugsun. Í þessum orðum felst mikil ábyrgð fyrir mannkynið og skyldur mannanna liggja ljósar fyrir.
Merking hinnar dauðu náttúru og gildi felst einmitt í þessu: að vera grunnur og umgjörð hinnar lifandi náttúru – bera uppi lífið, umvefja það – og taka svo við leifum þess þegar það lygnir augunum í hinsta sinn.
Er hægt að gera illt gagnvart „dauðri“ náttúru?
Páll veltir fyrir sér gildi náttúru á nokkrum stöðum í bókinni en það er eitt af höfuðviðfangsefnum náttúrusiðfræðinnar. Hann veltir fyrir sér í erindi frá árinu 1995, Að búa á landi, hvort land eða staðir, fjöll og melar, holt og hólar hafi siðferðisgildi, þ.e. hvort hægt sé að gera illt gagnvart „dauðri“ náttúru og hugsanlega gera henni rangt til.
„Merking hinnar dauðu náttúru og gildi felst einmitt í þessu: að vera grunnur og umgjörð hinnar lifandi náttúru – bera uppi lífið, umvefja það – og taka svo við leifum þess þegar það lygnir augunum í hinsta sinn,“ skrifar hann. Mönnum beri því siðferðileg skylda til dauðrar náttúru af þessum sökum, þeir séu af jörðu komnir og háðir henni.
Þess vegna finnst Páli mikil mistök vera falin í því viðhorfi að líta á náttúruna sem eign manna og að leyfilegt sé að gera hvað sem er undir því yfirskini. Við eigum ekki landið í þeim skilningi og getum hreinlega ekki gert það sem okkur lystir. Hann lítur svo á að við séum með landið að láni frá forfeðrum okkar og að okkur beri að skila því í góðu ásigkomulagi fyrir komandi kynslóðir. Heiti erindisins er lýsandi fyrir það viðhorf að mennirnir eigi ekki landið, heldur séu þeir íbúar þess. „Siðferðislögin gildi ekki bara í samskiptum milli manna eða í tengslum þeirra við dýr eða aðrar lífverur, þau gildi ekki síður í samskiptum þeirra við landið og jörðina alla, fossana og fjöllin, melana og móana,“ skrifar hann.
Skrif Páls skipta miklu máli fyrir alla þá sem nema þessi fræði og þá sem leggja áherslu á þessi málefni. Og flestir sem fjallað hafa um siðfræði náttúrunnar eru sammála um að við þurfum að endurskoða margar hugmyndir og kenningar sem í dag ráða mestu um afstöðu okkar til umhverfis og náttúru.
Lesa meira
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Möguleg ljós- og lyktmengun af nýju landeldi við Þorlákshöfn þurfi nánari skoðun
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
5. janúar 2023Skipulagsstofnun dregur fram kosti Miðleiðar að Fjarðarheiðargöngum
-
30. desember 2022Áskorun til þingmanna: Takið þátt í Veganúar!
-
30. desember 2022Árið sem Íslendingar hentu minna af fötum en kínverskur tískurisi hristi upp í hlutunum
-
30. desember 2022Veikleikar og brotalamir í skipulagsmálum á Íslandi
-
29. desember 2022Vindmyllur við Lagarfoss þurfa í umhverfismat
-
28. desember 2022Vilja nota kopar á kvíar í Arnarfirði – eitrað og jafnvel skaðlegt segir Hafró
-
26. desember 2022Framtíðin er núna