Bára Huld Beck

Með landið að láni

Páll Skúlason var brautryðjandi þegar kemur að umræðu um umhverfismál en hann taldi meðal annars mikil mistök vera falin í því viðhorfi að líta á náttúruna sem eign manna og að leyfilegt væri að gera hvað sem er undir því yfirskini. Við ættum ekki landið í þeim skilningi og gætum hreinlega ekki gert það sem okkur lystir.

Nátt­úru­um­ræða á Íslandi hefur verið fyr­ir­ferð­ar­mikil síð­ustu ára­tugi. Hún hefur ein­kennst af mis­mun­andi sjón­ar­miðum og hafa hags­muna­á­rekstrar verið áber­andi. Umræðan náði hámarki í aðdrag­anda bygg­ingar Kára­hnjúka­virkj­unar árið 2002 og þar til virkj­unin var gang­sett árið 2007. Þjóðin var að vissu leyti klofin í tvennt, mörg álita­mál köll­uð­ust á og oft og tíðum vant­aði upp á vand­aða umfjöllun um mál­efn­ið.

Ýmsar raddir heyrð­ust um að nýt­ing nátt­úr­unnar í þágu fólks­ins vægi meira en ásýnd lands­lags­ins og áhrif rösk­unar á líf­ríkið á Aust­ur­landi. Margar spurn­ingar sputtu upp um gildi nátt­úru, gagn­vart mönnum en einnig óháð þeim. Umræðan ein­kennd­ist oft af skiln­ings­leysi gagn­vart and­stæðum skoð­un­um. Það sama má sjá í umræðu um fyr­ir­hug­aðar virkj­ana­fram­kvæmdir í dag.

Þegar þannig er komið fyrir umræð­unni er nauð­syn­legt að fjalla um nátt­úrusið­fræði, þar sem gildi nátt­úru er skegg­rætt og staða manns­ins í nátt­úru einnig. Þetta á ekki síður við núna; við erum stöðugt í þessum dansi nýt­ingar og varð­veislu þegar íslensk nátt­úra er ann­ars veg­ar.

Að upp­lifa sig sem hluta af heild

Páll Skúla­son heit­inn, pró­fessor í heim­speki og fyrr­ver­andi rekt­or, var frum­kvöð­ull í nátt­úru­um­ræðu á Íslandi og fram­lag hans til nátt­úru­hugs­unar og sið­fræði verður ekki dregið í efa. Kjarn­inn fer hér yfir Nátt­úr­upæl­ingar hans sem komu út árið 2014 en bókin er sam­an­safn hug­leið­inga, greina og erinda um heim­speki nátt­úr­unn­ar.

Árið 1998 gaf hann út bók­ina Umhverf­ing sem var vel tekið og segir í grein í Morg­un­blað­inu frá árinu 1999: „Lands­virkjun aug­lýsti á dög­unum eftir rökum í stað til­finn­inga. Umhverf­ing Páls Skúla­sonar heim­spek­ings er næstum því eins og svarið við þeirri aug­lýs­ingu, enda hefur Páll fyrr en hér véfengt skipt­ingu manns­and­ans í skyn­sam­lega rök­vísi ann­ars­vegar og óreiðu­kennd­ar, óskyn­sam­legar til­finn­ingar hins­veg­ar. Hann hefur haldið á lofti gildi rök­studdra til­finn­inga.“

Páll gaf út Nátt­úr­upæl­ingar árið 2014 sem er sam­an­safn hug­leið­inga, greina og erinda um heim­speki nátt­úr­unn­ar. Að vissu leyti má taka undir rit­dóm­inn hér að framan í sam­bandi við Nátt­úr­upæl­ingar Páls. Um leið og hann færir rök fyrir skoð­unum sínum með grein­ar­góðum hætti, þá er umhyggja og til­finn­ing fyrir líf­inu aldrei langt und­an. Hann reynir eftir fremsta megni að orða það sem ómögu­legt er að setja í orð; að lýsa til­finn­ingum sem mann­eskja finnur fyrir þegar hún upp­lifir sjálfa sig sem hluta af heild, það sem lífið er. 

Hvort okkur auðnast að lifa áfram á þessari jörð í sambýli við aðrar lífverur er öllu öðru fremur komið undir því að við sigrumst á þeirri heimskulegu tilhneigingu að skoða lífið og náttúruna eingöngu út frá sjónarhorni okkar sjálfra.
Birgir Þór Harðarson

Frum­for­senda sið­ferðis felst í hvers­dags­legri umhyggju­semi

Elsta erindið er frá árinu 1989 og nefn­ist Sið­fræði nátt­úr­unn­ar. Þar fjallar hann um gæði lífs­ins, afstöðu mann­fólks­ins til nátt­úr­unnar og skyldur okkar gagn­vart dýr­un­um. Hann tekur fram strax í byrjun hversu mik­il­vægt það sé að ræða þessi mál. Hann gagn­rýnir harð­lega þá mann­hverfu hugsun að „við höfum rétt til að ráðskast með aðrar líf­verur eftir því sem okkur sýn­ist og við teljum sam­ræm­ast best okkar eigin hags­mun­um.“ Það sé brýnt verk­efni sið­fræð­innar að sýna fram á mik­il­vægi þess að hafa fleira í huga en þessi mann­hverfu við­horf. 

Páll SkúlasonPáli er umhugað að finna út hvað sé sið­ferð­is­lega rétt að gera og hvað ekki, þrátt fyrir að hann setji þá varnagla að þessir sið­ferð­is­dómar séu ekki end­an­legir og geti aldrei orðið það. „Hvort okkur auðn­ast að lifa áfram á þess­ari jörð í sam­býli við aðrar líf­verur er öllu öðru fremur komið undir því að við sigrumst á þeirri heimsku­legu til­hneig­ingu að skoða lífið og nátt­úr­una ein­göngu út frá sjón­ar­horni okkar sjálfra,“ skrifar hann. Páll endar grein­ina á þeirri stað­hæf­ingu að frum­for­senda alls sið­ferðis felist í hvers­dags­legri umhyggju­semi og til­lits­semi gagn­vart öllu sem lif­ir. Hann lýsir af miklu inn­sæi sýn sinni á lífið og með mik­illi nær­gætni. Þessi orð gefa tón­inn fyrir nátt­úrusið­fræði Páls Skúla­sonar sem liggur eins og rauður þráður í gegnum alla bók­ina.

Hug­leið­ingar við Öskju er stutt bók eftir Pál sem kom út árið 2005 og er fyrsta hug­leið­ingin í Nátt­úr­upæl­ing­um. Hún er hval­reki fyrir íslenska heim­speki og hugsun og er löngu orðin skyldu­lesn­ing fyrir alla þá sem áhuga hafa á nátt­úru­um­ræðu. Í þessu stutta riti lýsir hann á ein­lægan hátt upp­lifun og reynslu sinni í sinni fyrstu ferð á eld­stöð­ina Öskju. Á tímum þar sem nýt­ing nátt­úru er hjá sumum alltaf talin rétt­læt­an­leg og ofurá­hersla er á skyn­semi og fram­fara­hugs­un, þá er þessi hug­leið­ing kær­komið inn­legg.

Þessi lýs­ing Páls ber með sér djúpa virð­ingu fyrir líf­inu og nátt­úr­unni sem býr í öllu. Í stað þess að lýsa dvöl­inni í Öskju þá byrjar hann á því að lýsa til­finn­ing­unni og spurn­ing­unum sem vökn­uðu. Hann veltir því fyrir sér hvernig heildir verði til og hvers konar heildir séu til. Hvernig mynd­ast tengsl og hvers konar tengsl eru til?

Að vera jarð­ar­búi er að finna líf sitt bundið jörð­inni

Páll veltir fyrir sér nokkrum mögu­leikum og við­ur­kennir að ekki sé auð­velt að fá end­an­leg svör og að jafn­vel séu þau ekki til. Kjarni reynsl­unnar sé því lík­leg­ast eitt­hvað sem hægt væri að kalla and­lega reynslu og það sem skáld og lista­menn basla við að lýsa í sínum störf­um. „Að koma til Öskju hefur því – í mínum huga – ein­falda og skýra þýð­ingu: Að upp­götva jörð­ina og sjálfan sig sem jarð­ar­búa. Að vera jarð­ar­búi er að finna líf sitt bundið jörð­inni, ef ekki bein­línis sprottið af henni, finna að hún er for­senda lífs­ins,“ skrifar hann. Páll segir að með því að öðl­ast slíka reynslu sé mað­ur­inn að stað­setja sig í veru­leik­anum og þá sjái hann jafn­vel um hvað lífið snú­ist.

Páll fylgir eftir Hug­leið­ingum við Öskju með erind­unum Nátt­úran í and­legum skiln­ingi, Andi og óbyggðir og Bréf til Gerdien. Við­tal með yfir­skrift­inni „Við þurfum að kenna börn­unum okkar að skynja og hugs­a“, sem Þröstur Helga­son tók við hann árið 2005, rekur svo lest­ina. Þar má fá nokk­urs konar útskýr­ingar á fyrri skrifum og reynsl­unni við Öskju. Fyrir þá sem halda upp á Hug­leið­ingar við Öskju er þetta kær­komin við­bót við það rit.

Fram­tíð lífs á jörð­inni undir því komið að menn­irnir til­einki sér heil­steypta hugsun

Í síð­ari hluta Nátt­úr­upæl­inga er skipt um áhersl­ur, þrátt fyrir að svipuð heild­ar­hugsun skjóti upp koll­inum í næst­síð­asta erind­inu, Að ganga og að hugsa, þar sem Páll fjallar um þá upp­lifun sem ganga er. Í fyrstu hug­leið­ingu seinni hluta bók­ar­inn­ar, Hvað er sið­fræði nátt­úr­unn­ar?, byrjar hann að skil­greina sið­fræði nátt­úr­unnar með ein­földum og skýrum hætt­i. 

Páll telur að ástæðan fyrir því að gott sé að skil­greina þessa teg­und sið­fræði sér­stak­lega sé sú að van­inn sé að tengja sið­fræði við reglur sem fólk setur sér í sam­skiptum við aðra og lifn­að­ar­hætti. Röng og rétt breytni er iðu­lega tengd menn­ing­ar­sam­fé­lögum en síður við nátt­úr­una sjálfa. Þannig hefur umhverfi manns­ins og nátt­úra staðið fyrir utan þetta sið­ferði mann­anna. Þetta er þó ekki svona ein­falt og útskýrir Páll skor­in­ort hvaða þýð­ingu hann telur nátt­úr­una hafa fyrir menn­ina. 

Nátt­úran er í senn móðir alls lífs á jörð­inni, upp­spretta þeirra gæða sem menn þurfa til að lifa og svo býr hún í okkur sjálf­um. „Um þetta fjallar sið­fræði nátt­úr­unn­ar. Hún leit­ast við að skýra boð og bönn, dygðir og lesti, verð­mæti og gildi sem eru í húfi í hegðun manna gagn­vart nátt­úr­unni og fyr­ir­bærum henn­ar,“ skrifar hann. 

Páll endar þessa litlu hug­leið­ingu á að benda á mik­il­vægi sið­fræði nátt­úr­unn­ar, að fram­tíð lífs á jörð­inni sé undir því komið að menn­irnir til­einki sér heil­steypta og sið­ferð­is­lega hugs­un. Í þessum orðum felst mikil ábyrgð fyrir mann­kynið og skyldur mann­anna liggja ljósar fyr­ir.

Merking hinnar dauðu náttúru og gildi felst einmitt í þessu: að vera grunnur og umgjörð hinnar lifandi náttúru – bera uppi lífið, umvefja það – og taka svo við leifum þess þegar það lygnir augunum í hinsta sinn.
Bára Huld Beck

Er hægt að gera illt gagn­vart „dauðri“ nátt­úru?

Páll veltir fyrir sér gildi nátt­úru á nokkrum stöðum í bók­inni en það er eitt af höf­uð­við­fangs­efnum nátt­úrusið­fræð­inn­ar. Hann veltir fyrir sér í erindi frá árinu 1995, Að búa á landi, hvort land eða stað­ir, fjöll og mel­ar, holt og hólar hafi sið­ferð­is­gildi, þ.e. hvort hægt sé að gera illt gagn­vart „dauðri“ nátt­úru og hugs­an­lega gera henni rangt til. 

„Merk­ing hinnar dauðu nátt­úru og gildi felst einmitt í þessu: að vera grunnur og umgjörð hinnar lif­andi nátt­úru – bera uppi líf­ið, umvefja það – og taka svo við leifum þess þegar það lygnir aug­unum í hinsta sinn,“ skrifar hann. Mönnum beri því sið­ferði­leg skylda til dauðrar nátt­úru af þessum sök­um, þeir séu af jörðu komnir og háðir henni.

Þess vegna finnst Páli mikil mis­tök vera falin í því við­horfi að líta á nátt­úr­una sem eign manna og að leyfi­legt sé að gera hvað sem er undir því yfir­skini. Við eigum ekki landið í þeim skiln­ingi og getum hrein­lega ekki gert það sem okkur lyst­ir. Hann lítur svo á að við séum með landið að láni frá for­feðrum okkar og að okkur beri að skila því í góðu ásig­komu­lagi fyrir kom­andi kyn­slóð­ir. Heiti erind­is­ins er lýsandi fyrir það við­horf að menn­irnir eigi ekki land­ið, heldur séu þeir íbúar þess. „Sið­ferð­is­lögin gildi ekki bara í sam­skiptum milli manna eða í tengslum þeirra við dýr eða aðrar líf­ver­ur, þau gildi ekki síður í sam­skiptum þeirra við landið og jörð­ina alla, foss­ana og fjöll­in, mel­ana og móana,“ skrifar hann. 

Skrif Páls skipta miklu máli fyrir alla þá sem nema þessi fræði og þá sem leggja áherslu á þessi mál­efni. Og flestir sem fjallað hafa um sið­fræði nátt­úr­unnar eru sam­mála um að við þurfum að end­ur­skoða margar hug­myndir og kenn­ingar sem í dag ráða mestu um afstöðu okkar til umhverfis og nátt­úru. 

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar