Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, telur sér ekki heimilt að birta nöfn þeirra sem fluttu fjármagn til Íslands í gegnum fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands. Í svari við fyrirspurn Ólafs Ísleifssonar, þingmanns Miðflokksins, um málið segir ráðherrann að samkvæmt ákvæðis um þagnarskyldu í lögum um Seðlabanka Íslands megi ekki birta upplýsingarnar opinberlega. Við vinnslu svarsins aflaði ráðuneytið sér upplýsinga frá Seðlabankanum.
Máli sínu til stuðnings vísar Bjarni í úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingarmál vegna kæru Kjarnans á synjun Seðlabanka Íslands um aðgang að upplýsingunum frá því í janúar 2019. Í þeim úrskurði sagði meðal annars að fortakslaus þagnarskylda Seðlabanka Íslands gagnvart viðskiptamönnum sínum komi í veg fyrir að slíkar upplýsingar séu gerðar opinberar „óháð hagsmunum almennings af því að fá að kynna sér þær.“
Kjarninn hefur á undanförnum árum ítrekað farið fram á að fá upplýsingar um þá einstaklinga og lögaðila sem nýttu sér fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands og hversu háar fjárhæðir hver og einn flutti til landsins. Seðlabanki Íslands hefur ætið hafnað þessari beiðni og vísað í þagnarskylduákvæði þeirra laga sem gilda um starfsemi bankans.
Hluti opinberaður í fjölmiðlum
Þótt stjórnvöld hafi ekki viljað upplýsa um hverjir það voru sem nýttu sér leiðina hingað til þá hafa fjölmiðlar getað upplýst um félög í eigu aðila sem það gerðu. Á meðal þeirra sem hafa nýtt sér þessa leið eru félög í eigu bræðranna Lýðs og Ágústs Guðmundssona, Hreiðars Más Sigurðssonar, Jóns Ólafssonar, Jóns Von Tetzchner, knattspyrnumannsins Gylfa Þórs Sigurðssonar, Ólafs Ólafssonar, Hjörleifs Jakobssonar, Ármanns Þorvaldssonar, Kjartans Gunnarssonar, Skúla Mogensen, rekstrarfélags Iceland Foods, Alvogen, Karls og Steingríms Wernerssona og danskra eigenda Húsasmiðjunnar.
794 aðilar fóru í gegn
Alls fóru fram 21 útboð eftir fjárfestingarleiðinni frá því í febrúar 2012 til febrúar 2015, þegar síðasta útboðið fór fram. Allt í allt komu um 1.100 milljónir evra til landsins á grundvelli útboða fjárfestingarleiðarinnar, sem samsvarar 206 milljörðum króna.
794 innlendir aðilar komu með peninga inn í íslenskt hagkerfi í gegnum útboð fjárfestingarleiðar Seðlabanka Íslands. Peningar þeirra námu 35 prósent þeirrar fjárhæðar sem alls komu inn í landið með þessari leið, en hún tryggði allt að 20 prósent afslátt á eignum sem keyptar voru fyrir peninganna á Íslandi. Alls fengu þessir aðilar 72 milljarða króna fyrir þann gjaldeyri sem þeir skiptu í íslenskar krónur samkvæmt skilmálum útboða fjárfestingarleiðarinnar.
Afslátturinn, eða virðisaukningin, sem þeir fengu með þessu umfram það ef þeir hefðu skipt gjaldeyrinum á skráðu gengi Seðlabankans er um 17 milljarðar króna.
Í skýrslu starfshóps um eignir Íslendinga á aflandssvæðum, sem birt var í byrjun janúar 2017, var fjallað um fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands og því meðal annars velt upp hvort hún hafi orðið til þess að hluti af fjármagninu frá aflandssvæðum, sem orðið hafi til með ólögmætum hætti, hafi skilað sér Íslands með gengisafslætti í gegnum fjárfestingarleiðina. Sú skýrsla er gerð fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið.
Orðrétt sagði í skýrslunni: „Miðlun upplýsinga um fjármagnsflæði inn og út úr landinu, t.d. aflandskrónur sem fluttar hafa verið til landsins og eins þátttaka í fjárfestingarleið Seðlabankans er ekki til staðar. Sér í lagi hefur skattyfirvöldum ekki verið gert viðvart af hálfu Seðlabankans þegar um grunsamlegar fjármagnstilfærslur er að ræða. Æskilegt má telja að samstarf væri um miðlun upplýsinga á milli þessara stofnana.“
Reynt að skipa rannsóknarnefnd
Seðlabanki Íslands birti skýrslu um fjárfestingarleiðina í fyrrasumar. Þar sagði að Seðlabankinn teldi að fjárfestingarleiðin og ríkisbréfaleiðin sem hann stóð fyrir á árunum 2011 til 2015 til að vinna á þeim aflandskrónuvandanum og stuðla að afnámi hafta, hafi þjónað tilgangi sínum.
Í skýrslu Seðlabankans var einnig viðurkennt að flestar efnahagslegar ráðstafanir sem gripið sé til hafi einhver óæskileg hliðaráhrif. Líklegt væri að það hafi einnig átt við um fjárfestingarleiðina. Meðal annars hafi leiðin sett þá sem áttu óskilaskyldan erlendan gjaldeyri í betri stöðu til að kaupa kaupa innlendar eignir á lágu verði og gengi. „Áhrif þess á eignaskiptingu kunna að vera neikvæð. Í kjölfar efnahagskreppu geta aðilar sem eru í sterkri lausafjár- og eiginfjárstöðu jafnan eignast eignir á hagstæðu verði[...]Þótt deila megi um sanngirni þess var fátt sem Seðlabankinn gat gert til þess að stuðla að sanngjarnari útkomu innan þess lagaramma sem hann starfar undir og án þess að ganga gegn því markmiði aðgerðanna að stuðla að stöðugleika. Í stöðugleikanum felast afar brýnir almannahagsmunir sem vega verður á móti óæskilegum tekjuskiptingaráhrifum.“
Seðlabankinn viðurkenndi einnig að gagnrýni á heimild félaga með heimilisfesti í þekktum skattaskjólum til þátttöku í fjárfestingarleiðinni hafi verið eðlileg í ljósi sögunnar.
Um miðjan nóvember 2019 lögðu allir þingmenn Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar sameiginlega fram þingsályktunartillögu um að skipuð yrði þriggja manna rannsóknarnefnd af Alþingi til að rannsaka fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands.
Í tillögunni var farið fram á að nefndin gerði grein fyrir því hvaðan fjármagnið sem flutt var til landsins með fjárfestingarleiðinni kom, hvaða einstaklingar eða félög voru skráð fyrir fjármagninu sem flutt var til landsins, hvernig fénu sem flutt var inn til landsins var varið og hver áhrif þess voru á íslenskt efnahagslíf.
Tillagan hefur enn sem komið er ekki komist á dagskrá þingsins og bíður efnislegrar meðferðar.
Grunur um undanskot
Kjarninn greindi frá því í nóvember í fyrra að embætti skattrannsóknarstjóra hefði um nokkurt skeið haft eitt mál tengt einstaklingi sem nýtti sér fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands til formlegrar rannsóknar. Meðferð þess máls er langt komin og ákvörðun um refsimeðferð verður tekin í nánustu framtíð. Í því máli er grunur um undanskot fjármagnstekna er nemur á þriðja hundrað milljóna króna.
Embættið hefur alls aflað gagna í um tíu málum einstaklinga eftir að það fékk afhent gögn um þá sem nýttu sér fjárfestingarleiðina sem leiddi til hinnar formlegu rannsóknar á málinu sem nú er beðið ákvörðunar um refsimeðferð í.
Umrædd gögn voru afhent embætti skattrannsóknarstjóra í apríl 2016. Þegar þau voru samkeyrð við gögn sem embætti skattrannsóknarstjóra keypti sumarið 2015 á 37 milljónir króna, og sýndu eignir Íslendinga í þekktum skattaskjólum, kom í ljós að 21 einstaklingar fór fjárfestingarleiðina var einnig í skattaskjólsgögnunum. Þeir einstaklingar nýtt sér umrædda leið á árunum 2012 til 2015.