Tveir sérfræðingar frá Lýðræðis- og mannréttindaskrifstofu ÖSE, Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, munu heimsækja Alþingi dagana 3. til 4. febrúar næstkomandi í tengslum við vinnu sem nú stendur yfir við endurskoðun siðareglna fyrir alþingismenn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá skrifstofu Alþingis í dag.
Þá segir að drög að breyttum siðareglum hafi farið til umsagnar siðanefndar Alþingis og Lýðræðis- og mannréttindaskrifstofu ÖSE í nóvember síðastliðnum. Í kjölfar þess hafi ÖSE sent bréf í desember þar sem vakin hafi verið athygli á reynslu og sérþekkingu stofnunarinnar á málum sem varða siðferðileg viðmið fyrir þjóðkjörna fulltrúa. Ýmiss konar aðstoð hafi verið boðin, meðal annars að fá til Íslands sérfræðinga ÖSE til að ræða við þingmenn og skrifstofu Alþingis um endurskoðunina á siðareglum fyrir alþingismenn.
Úr varð að tveir sérfræðingar, Marcin Walecki, forstöðumaður skrifstofu lýðræðisvæðingar, og Jacopo Leone, sérfræðingur á sviði lýðræðisstjórnunar, munu koma til landsins og heimsækja þingið. Samkvæmt skrifstofu Alþingis munu þeir hitta og eiga fundi meðal annars með forseta Alþingis, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, forsætisnefnd og lagaskrifstofu þingsins, formönnum þingflokka og ráðgefandi siðanefnd Alþingis.
Langur aðdragandi tillögunnar
Alþingi Íslendinga samþykkti nýjar siðareglur fyrir þingmenn í mars 2016 en meðal þess sem stendur í þeim er að þeir skuli ekki kasta rýrð á Alþingi eða skaða ímynd þess með framkomu sinni. Tilgangurinn með siðareglunum var að efla gagnsæi í störfum þingmanna og ábyrgðarskyldu þeirra, og jafnframt að efla „tiltrú og traust almennings á Alþingi.“
Allir forsetar Alþingis og þingflokksformenn allra flokka stóðu að tillögunni, sem átti sér langan aðdraganda. Alþingi samþykkti breytingar á þingsköpum í júní árið 2011, og þar kom meðal annars fram að leggja ætti fram tillögu að siðareglum fyrir þingmenn. Forsætisnefnd hóf vinnu við slíkar reglur og skilaði tillögum rétt fyrir þinglok árið 2013, þá var þegar ljóst að ekki myndi nást samkomulag um að afgreiða málið. Ný forsætisnefnd fjallaði um siðareglur strax sumarið 2013 og var meðal annars horft til siðareglna Evrópuráðsþingsins.
Samkvæmt siðareglunum eiga þingmenn að rækja störf sín af ábyrgð, heilindum og heiðarleika, taka ákvarðanir í almannaþágu, ekki nýta opinbera stöðu sína til persónulegs ávinnings fyrir sig eða aðra og efla og styðja siðareglurnar með því að sýna frumkvæði og fordæmi. Þingmenn skulu í öllu hátterni sínu sýna Alþingi, stöðu þess og störfum virðingu.
Viðbætur samþykktar
Viðbætur við siðareglur þingmanna voru samþykktar á Alþingi 5. júní 2018 með öllum greiddum atkvæðum. Í fyrsta lagi var lagt til að nýjum staflið yrði bætt við sem segir að alþingismenn verði að leggja sig fram um að skapa í störfum sínum heilbrigt starfsumhverfi innan þings sem utan og hvarvetna þar sem þeir sinna störfum sínum, þar sem hafnað er hvers konar kynferðislegri eða kynbundinni áreitni, einelti eða annarri vanvirðandi framkomu.
Í öðru lagi var lagt til að á eftir sjöundu grein siðareglnanna kæmi ný grein sem hljóði svo: „Þingmenn skulu ekki sýna öðrum þingmönnum, starfsmönnum þingsins eða gestum kynferðislega eða kynbundna áreitni, leggja þá í einelti eða koma fram við þá á annan vanvirðandi hátt.“
Umdeild fyrsta niðurstaða
Fyrsta niðurstaðan var kunngjörð í lok júní á síðasta ári en þá féllst forsætisnefnd á niðurstöðu siðanefndar í máli Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingflokksformanns Pírata. Siðanefnd taldi að ummæli sem hún lét falla í Silfrinu þann 25. febrúar 2018 hefðu ekki verið í samræmi við siðareglur fyrir alþingismenn.
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, óskaði eftir því við forsætisnefnd þann 10. janúar síðastliðinn að tekið væri til skoðunar hvort þingmenn Pírata Björn Leví Gunnarsson og Þórhildur Sunna hefðu með ummælum sínum á opinberum vettvangi um endurgreiðslur þingsins á aksturskostnaði Ásmundar brotið í bága við siðareglurnar.
Niðurstaða siðanefndar var sem fyrr segir að ummæli Þórhildar Sunnu frá 25. febrúar 2018 væru ekki í samræmi við a- og c-lið 1. mgr.,. 5. gr. og 7 gr. siðareglna fyrir alþingismenn. Í þeim segir að alþingismenn skuli sem þjóðkjörnir fulltrúar rækja störf sín af ábyrgð, heilindum og heiðarleika, ekki kasta rýrð á Alþingi eða skaða ímynd þess með framkomu sinni. Þingmenn skuli í öllu hátterni sínu sýna Alþingi, stöðu þess og störfum virðingu. Siðanefnd komast aftur á móti að þeirri niðurstöðu að ummæli Björns Levís hefðu ekki brotið í bága við siðareglurnar.
Niðurstaða siðanefndar var vægast sagt umdeild og mótmælti Þórhildur Sunna henni sjálf á Facebook-síðu sinni. „Siðanefnd Alþingis telur alvarlegra að benda á samtryggingu og sjálftöku heldur en að taka þátt í leiknum. Ég sætti mig ekki við það og mun nýta minn andmælarétt til þess að fá þessu hnekkt,“ skrifaði hún.
Þórhildur Sunna sagði að fengi þessi niðurstaða að standa væru skilaboðin til okkar allra þau að það væri verra að benda á vandamálin en að vera sá sem skapar þau. „Ég er algerlega búin að fá nóg af slíkri meðvirkni.“ Forsætisnefnd féllst, eins og áður segir, á niðurstöðuna.
Tveir Klaustur-þingmenn gerðust brotlegir
Annað umdeilt mál kom á borð forsætisnefndar en í byrjun ágúst á síðasta ári staðfesti hún álit siðanefndar þess efnis að Bergþór Ólason og Gunnar Bragi Sveinsson, þingmenn Miðflokksins, hefðu brotið siðareglur alþingismanna með ummælum sínum á Klaustur bar þann 20. nóvember síðastliðinn.
Aðrir þingmenn sem tóku þátt í téðu samtali, þau Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Anna Kolbrún Árnadóttir úr Miðflokki og Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson, sem voru í Flokki fólksins þegar samtalið átti sér stað en gengu síðar til liðs við Miðflokkinn, brutu ekki gegn siðareglum alþingismanna, samkvæmt nefndinni.
Bergþór og Gunnar Bragi þóttu með ummælum sínum hafa brotið gegn c- og d-lið 1. mgr. 5. gr. og 7. og 8. gr. siðareglna alþingismanna, en þar segir m.a. að alþingismenn skuli sem þjóðkjörnir fulltrúar „leggja sig fram um að skapa í störfum sínum heilbrigt starfsumhverfi innan þings sem utan og hvarvetna þar sem þeir sinna störfum sínum þar sem hafnað er hvers konar kynferðislegri eða kynbundinni áreitni, einelti eða annarri vanvirðandi framkomu“. Segir einnig í reglunum að þingmenn skuli ekki kasta rýrð á Alþingi eða skaða ímynd þess með framkomu sinni. Siðanefnd Alþingis taldi aftur á móti að ummæli Önnu Kolbrúnar Árnadóttur, þingmanns Miðflokksins, um Freyju Haraldsdóttur hafi ekki brotið gegn siðareglum Alþingis.
Skoða framkvæmd reglnanna og farveg kvartana
Fram kom í fréttum í kjölfarið að Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, undirbyggi endurskoðun siðareglna fyrir alþingismenn í samvinnu við Helgu Völu Helgadóttur, þáverandi formann stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins.
Í samtali við Vísi þann 3. ágúst síðastliðinn sagði hann að þau væru búin að kasta á milli sín hugmyndum og hefðu verið að sanka að sér gögnum. „Nú er komin ákveðin reynsla á framkvæmdina og búið að reyna á ýmislegt og það er nú aðallega sú umgjörð sem við erum að skoða og framkvæmd reglnanna,“ sagði hann. Steingrímur sagðist ekki eiga von á því að sjálfar hátternisreglurnar yrðu teknar upp heldur aðallega framkvæmd þeirra og farvegur kvartana.
Alþingi ræður ekki við hlutverkið
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði í kjölfar niðurstöðu siðanefndar í máli Þórhildar Sunnu að það fyrirkomulag sem stuðst er við á Alþingi í tengslum við siðamál væri fullkomnlega ótækt – og Alþingi réði ekki við það hlutverk eitt og sér að lagfæra það.
Hann sagðist jafnframt ætla að fara fram á það að Alþingi kallaði eftir aðstoð Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu við að koma þessum málum í sómasamlegt horf.