Mynd: Bára Huld Beck

Algjörlega tilbúinn í hið pólitíska at sem fylgir því að stýra RÚV

Stefán Eiríksson segist að sjálfsögðu hafa sínar pólitísku skoðanir og lífsviðhorf, en sé ekki tengdur neinum stjórnmálaflokkum og með góða reynslu af því að takast á við stjórnmálamenn. Hann segist því algjörlega tilbúinn að takast á við það mögulega pólitíska at sem getur fylgt því að vera útvarpsstjóri, en hann sest í þann stól 1. mars næstkomandi.

Nýr útvarps­stjóri hefur verið skip­að­ur. Þar til fjórum dögum áður en til­kynnt var um hver myndi hreppa starfið hafði nafn hans vart verið nefnt í sam­hengi við það. Enda fáum sem datt í hug að lög­fræð­ingur sem starf­aði síð­ast á fjöl­miðlum árið 1996, tveimur árum áður en mbl.is fór í loft­ið, væri að sækj­ast eftir því að stýra stærsta fjöl­miðla­fyr­ir­tæki lands­ins. 

Aðspurður segir Stefán Eiríks­son enda sjálfur að það sé ágætis spurn­ing af hverju fyrr­ver­andi lög­reglu­stjóri höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins og borg­ar­rit­ari vilji verða útvarps­stjóri RÚV. 

„Ég hef haft þá trú og skoðun eftir að ég fór að vinna í stjórn­un­ar­stöðum innan stjórn­sýsl­unnar að því ætti að vera afmark­aður tími. Að stjórn­endur ættu að vera í til­tek­inn tíma, fimm til tíu ár, á hverjum stað. Ég gaf það skýrt til kynna þegar ég tók við sem lög­reglu­stjóri að þannig horfði ég á þetta og þannig er það enn. Ég er búinn að vera núna rúm fimm ár hjá Reykja­vík­ur­borg. Það hefur verið frá­bær tím­i. 

En svo opn­að­ist þarna tæki­færi þegar ég las aug­lýs­ing­una um starf útvarps­stjóra RÚV og ég ákvað að láta á þetta reyna. Ég hef mik­inn áhuga á fjöl­miðlum og þróun á því sviði, fyrir utan að vera sér­stakur aðdá­andi Rík­is­út­varps­ins.“

Það voru ekki allir sáttir með valið á Stef­áni í stöð­una. Að minnsta kosti tveir hinna rúm­lega 40 umsækj­end­anna hafa kallað eftir rök­stuðn­ingi fyrir val­inu, þær Kristín Þor­steins­dótt­ir, fyrr­ver­andi rit­stjóri Frétta­blaðs­ins, og Kol­brún Hall­dórs­dótt­ir, fyrr­ver­andi umhverf­is­ráð­herra, sem var ásamt Stef­áni sú síð­asta úr hópi umsækj­enda sem stóð eft­ir. Stjórn RÚV kaus svo á milli þeirra. Kol­brún sagði nýlega í sam­tali við Stund­ina að hún teldi líkur á því að hún væri órétti beitt og að hennar per­sónu­lega mat væri „að þarna hafi minna hæfur karl­maður verið tek­inn fram yfir hæf­ari kon­u“.

Í þessu sam­hengi hefur mikið verið bent á ætlað reynslu­leysi Stef­áns af fjöl­miðla­störf­um. Hann kippir sér þó ekk­ert upp við að vera beð­inn um að rök­styðja hvað það sé sem geri það að verkum að það hafi verið rétt­læt­an­legt að taka hann fram yfir aðra umsækj­end­ur. „Ég horfði á þær kröfur sem stjórn RÚV gerði í sinni aug­lýs­ingu og sá að þar var verið að kalla eftir ein­stak­lingi sem hefði mikla stjórn­un­ar­reynslu. Hefði reynslu af mótun og inn­leið­ingu stefnu og hefði sýn á það hvernig væri hægt að takast á við þá þróun sem er framund­an. En það var auð­vitað líka verið að kalla eftir þekk­ingu og reynslu á sviði fjöl­miðl­un­ar, menn­ing­ar­mála og fleiri atriða. 

Ég taldi ein­fald­lega að ég hefði eitt og annað fram að færa. Minn styrk­leiki felst auð­vitað í því að ég hef verið stjórn­andi hjá opin­berum stofn­un­um, stjórn­ar­for­maður í opin­beru hluta­fé­lagi, verið í eig­anda­hlut­verki fyrir hönd Reykja­vík­ur­borgar gagn­vart hluta­fé­lögum í eigu borg­ar­innar og svo fram­veg­is. Þetta greini­lega vóg þungt í mati stjórnar RÚV, myndi ég halda. Þó svo að fólk með mjög mikla reynslu af fjöl­miðlum hafi auð­vitað mjög margt fram að færa þá skor­uðu þau kannski ekki jafnt hátt þegar kom að þess­ari stjórn­un­ar­reynslu.“

Stefán hefur verið var­fær­inn á yfir­lýs­ingar um þær áherslu­breyt­ingar sem kunni að fylgja honum þegar hann hefur störf á RÚV 1. mars næst­kom­andi. Þegar hann er spurður hvort að RÚV hafi aðlag­ast þeim breyt­ingum í neyslu­hegðun og miðlun efnis sem kúvent hefur fjöl­miðla­heim­inum á örfáum árum, og hvort hann sé þegar búinn að sjá tæki­færi fyrir rík­is­fjöl­mið­il­inn að gera betur í þeim efn­um. þá seg­ist hann telja að RÚV hafi staðið sig nokkuð vel í aðlög­un­inni hingað til. „En ég held að við þurfum að gera okkur grein fyrir því að RÚV er, í sam­an­burði við þessar erlendu streym­isveit­ur, pínu­lít­ill aðili. Þetta er örmið­ill í sam­an­burði við þessa stóru. Ef að RÚV á ekki að týn­ast þá er klárt mál í mínum huga að það þarf að hlúa mjög vel að þessu. Að öllum þessum málum sem snúa að hug­bún­aði og hvernig efn­inu er miðlað og vera á tánum hvað það varð­ar.“

Ef það á að draga saman hjá RÚV þurfa stjórn­mála­menn að segja hvernig

Tekjur RÚV á árinu 2018 voru 6,7 millj­arðar króna. Þar af komu 4,3 millj­arðar króna úr opin­berum sjóðum vegna inn­heimtu á útvarps­gjaldi og tæpir 2,4 millj­arðar króna vegna sam­keppn­i­s­tekna, sem eru að uppi­stöðu sala á aug­lýs­ingum í sjón­varpi og útvarpi. 

Sú fram­þróun sem átt hefur sér stað í fjöl­miðlum hefur að mestu átt sér stað í ólínu­legri dag­skrá þar sem neyt­endur geta valið sér hvað þeir horfa eða hlusta á þegar þá langar til. Sú miðlun á sér að stóru leyti stað í gegnum efn­isveitur og á inter­net­inu, á sviðum sem RÚV má ekki afla sér tekna sam­kvæmt lög­um. 

Stefán telur að línu­leg dag­skrá sé ekki á und­an­haldi þótt RÚV verði að mæta ofan­greindri þróun eins og aðrir fjöl­miðl­ar. Hann gerir sér grein fyrir því að það séu tölu­verðar tak­mark­anir á því hvernig RÚV getur aflað sér sam­keppn­i­s­tekna en finnst hins vegar engin ástæða til að víkka út þann ramma sem RÚV hefur á því sviði. „ Þetta er auð­vitað ein af þeim áskor­unum sem Rík­is­út­varpið mun standa frammi fyrir á næstu fimm til tíu árum. Það er alveg fyr­ir­sjá­an­legt að tekjur af aug­lýs­ingum munu í meira mæli fara í gegnum nýja miðla og nýjar leiðir til miðl­unar þar sem RÚV hefur ekki heim­ild, sam­kvæmt lög­um, að afla sér tekna, heldur verður að halda sig við, eins og ramm­inn er í dag, þessa hefð­bundnu línu­lega dag­skrá í þeim efn­um.

RÚV er stærsta fjölmiðlafyrirtæki landsins og þrátt fyrir mikið traust almennings til þess þá er RÚV einnig afar umdeilt í mörgum kreðsum.
Mynd: Þórður Snær Júlíusson

Í mínum huga er það áskorun og ef að tekjur RÚV munu drag­ast umtals­vert sam­an, af hvaða ástæðu svo sem sem það er, þá er það eitt­hvað sem þarf að mæta með minna umfangi eða færri tæki­færum til að koma efn­inu á fram­færi. Það segir sig bara sjálft. Þetta snýst um hvaða rammi er settur utan um RÚV og það eru stjórn­mála­menn sem gera það á hverjum tíma.“

Hann segir að sú þróun sem orðið hefur á fjöl­miðlaum­hverf­inu á síð­ustu tíu árum sé sér­lega áhuga­verð. Hvernig miðl­un­ar­mögu­leikar hafi breyst, hvernig eigi að koma fréttum og öðru efni sem fjöl­miðlar séu að fram­leiða til þeirra sem nota þjón­ust­una. „Svipað og þegar að Kjarn­inn var að hefja sína starf­semi og gaf út sín fyrstu tölu­blöð á spjald­tölvu. Mér fannst það vera áhuga­verð nýj­ung inn í ansi staðnað fjöl­miðlaum­hverfi. Ég skrif­aði pistla í þessi fyrstu tölu­blöð sem lög­reglu­stjóri og nýtti mér þann vett­vang til að koma ýmsum málum á fram­færi og inn í umræð­una.“

Algjör­lega til­bú­inn í atið

RÚV er sjá fjöl­mið­ill á land­inu sem nýtur mest trausts. Og það hefur vaxið frekar en hitt á und­an­förnum árum. Þótt staða fyr­ir­tæk­is­ins sé sterk á meðal þjóð­ar­innar sem heildar þá velk­ist heldur eng­inn í vafa um að RÚV er umdeilt fyr­ir­tæki. Fram­ganga frétta­stof­unnar og ein­stakra dag­skrár­gerð­ar­manna er oft til almennrar umræðu og ratar jafn­vel inn á hið póli­tíska svið. 

Það liggur ein­fald­lega fyrir að til staðar eru margir stjórn­mála­menn sem vilja leggja RÚV niður eða hið minnsta tak­marka starf­semi fyr­ir­tæk­is­ins veru­lega, þó þeir séu lík­ast til sem stendur fjarri því að vera í meiri­hluta. Nán­ast dag­lega má sjá umræður á sam­fé­lags­miðlum þar sem þekktir álits­gjaf­ar, fólk tengt stjórn­mála­flokkum eða aðrir sem halda á gjall­ar­horn­inu hverju sinni, opin­bera mein­ingar um ætl­aða slag­síðu RÚV í hinum og þessum mál­um. Fólk til vinstri ætlar frétta­stof­unni að vera mál­pípa íhalds­ins og skil­greindir hægri­menn segja hana margir hverjir vera óop­in­bera deild félags­hyggju­flokka. 

Hvort sem Stef­áni Eiríks­syni líkar betur eða verr þá var hann að ráða sig í stöðu sem fylgir mikið póli­tískt at. Er hann til­bú­inn í það?

„Ég er algjör­lega til­bú­inn í það. Ég hef starfað í þessu umhverfi innan stjórn­sýsl­unnar þar sem það hefur verið mikið nálægð við póli­tík­ina. Kannski fyrst og síð­ast í ráðu­neyt­inu og í Reykja­vík­ur­borg þar sem ég hef unnið mjög náið með kjörnum full­trúum að ýmsum mál­um. Ég held að sumu leyti sé meiri fjar­lægð frá póli­tík­inni hjá Rík­is­út­varp­inu þótt það sé oft í umræð­unni. Þetta jafn­vægi, að gagn­rýnin kemur úr öllum átt­um, frá hægri til vinstri, frá frjáls­lyndum og íhalds­sömum og svo fram­veg­is, held ég að sýni að RÚV gangi, og hefur geng­ið, nokkuð vel á liðnum árum og ára­tugum að finna jafn­vægi þarna á milli.“

Með sínar skoð­anir og lífs­við­horf

Stefán er ekki reynslu­laus þegar kemur að átökum við kjörna full­trúa. Hann var lög­reglu­stjóri þegar leka­málið stóð yfir og Hanna Birna Krist­jáns­dótt­ir, þáver­andi dóms­mála­ráð­herra, hót­aði honum að þegar mál­inu yrði lokið þyrfti „að rann­saka rann­­sókn lög­­­reglu og rík­­is­sak­­sókn­­ara“. Hanna Birna baðst síðar afsök­unar á þeim ummælum en þurfti samt sem áður að segja af sér emb­ætti vegna máls­ins í lok árs 2014. 

Sem borg­ar­rit­ari skrif­aði Stefán stöð­u­­­upp­­­­­færslu í lok­aðan Face­book-hóp ­starfs­­­manna Reykja­vík­­­­­ur­­­borgar þann 21. febr­­­úar 2019 þar sem hann sagði fáeina borg­­­ar­­­full­­­trúa ítrekað hafa vænt starfs­­­fólk borg­­­ar­innar um óheið­­­ar­­­leika og vegið með ýmsum öðrum hætti að starfs­heiðri þeirra, bæði beint og óbeint. Sagði hann þessa hegð­un, atferli og fram­komu vera til skammar og um leið til mik­ils tjóns fyrir Reykja­vík­­­­­ur­­­borg, starfs­­­fólk hennar og íbúa alla. Stefán nefndi hins vegar engan borg­­­ar­­­full­­­trúa í færslu sinn­i, en nokkuð víst er að hann átti þar við full­­trúa úr minn­i­hluta borg­­ar­­stjórn­­­ar, sem höfðu gagn­rýnt starfs­­menn borg­­ar­innar opin­ber­­lega. Þar fór fremst í flokki Vig­dís Hauks­dótt­ir, borg­ar­full­trúi Mið­flokks­ins, sem brást við ráðn­ingu Stef­áns í stól útvarps­stjóra með því að segja á Face­book: „Eru allir búnir að gleyma því að hann kall­aði okkur í minn­i­hlut­­anum „tudda á skóla­lóð“. Þetta eru mjög slæmar fréttir fyrir okkur verð ég að segja – hlut­­leysi hvað?“.

Stefán Eiríksson hefur verið bæði lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu og borgarritari.
Mynd: Bára Huld Beck

Það fór enda mik­ill sam­kvæm­is­leikur í gang strax og til­kynnt var um ráðn­ingu Stef­áns þar sem reynt var að setja á hann ákveð­inn póli­tískan hatt og sá hattur rök­studdur með ein­hverri vísun í fyrri störf hans. 

Hann segir að það skipti örugg­lega máli, nú þegar hann sest í stól útvarps­stjóra, að hafa þá reynslu sem hann hefur af sam­skiptum við stjórn­mála­menn, og rakin er hér að ofan. „En þetta er ekk­ert sem truflar mig eða ég ótt­ast eða er kvíð­inn fyrir því að að takast á við þetta sam­tal. Það góða við þetta, eins og með Rík­is­út­varp­ið, er að ég hef verið stað­settur á öllum stöðum á hinum póli­tíska kvarða. Ég hef að sjálf­sögðu mínar póli­tísku skoð­anir og mín lífs­við­horf þó að ég hafi ekki verið í flokkspóli­tísku starfi eða komið nálægt því, nema á síð­ustu árum í ein­staka próf­kjörum til að styðja vini mína, á ung­lings­árum og í háskóla og eitt­hvað slíkt. Ég hef engar sér­stakar áhyggjur af þessu póli­tíska umhverfi og það er bara hluti af Rík­is­út­varp­inu, eðli máls­ins sam­kvæmt, að þar er mikil póli­tík og miklar bolla­leng­ingar um ýmsa hlut­i.“

RÚV ekki of stórt

Rekstr­ar­um­hverfi einka­rek­inna fjöl­miðla á Íslandi hefur verið ansi skraut­legt á und­an­förnum árum. Síð­ustu tíu ár sér­stak­lega, sam­hliða því að helstu hefð­bundnu tekju­stoðir þeirra, aug­lýs­inga- og áskrift­ar­sala, hafa gefið veru­lega und­an. Margir stærstu miðl­arnir hafa til að mynda verið reknir í botn­lausu tapi árum sam­an. 

Á meðan má færa rök fyrir því að starf­semi RÚV hafi verið að styrkj­ast umtals­vert. Þar skiptir mestu máli að fyr­ir­tækið seldi bygg­inga­lóðir í kringum höf­uð­stöðvar sínar í Efsta­leiti fyrir hátt í tvo millj­arða króna og samdi síðan um að ýta ógreiddum líf­eyr­is­skuld­bind­ingum inn í fram­tíð­ina með því að lengja í greiðslu­ferli þeirra til árs­ins 2057. Með þessu var skapað mun skap­legra rekstr­ar­um­hverfi fyrir stjórn­endur RÚV á síð­ustu árum. Og það rekstr­ar­um­hverfi mun Stef­án, að ein­hverju leyti, ganga inn í. Að minnsta kosti að óbreyttu.

Hann seg­ist ekki hafa neinar áhyggjur af því að RÚV sé í betri rekstr­ar­stöðu en sam­keppn­is­að­ilar þess. „Ég upp­lifi það ekki þannig að RÚV sé of stórt í vissum skiln­ingi, en það er vissu­lega stórt. Hlut­verkið sem að Rík­is­út­varp­inu er ætlað lögum sam­kvæmt og sam­kvæmt þjón­ustu­samn­ingi hefur mjög víð­tæku og fjöl­breyttu hlut­verki í sam­fé­lag­inu að gegna. Ég held satt best að segja að það sé mik­ill meiri­hluti almenn­ings og stjórn­mála­manna sem vilja að Rík­is­út­varpið haldi áfram að sinna því hlut­verki en að sama skapi er mik­il­vægt að það séu starf­andi sjálf­stæðir aðrir óháðir fjöl­miðlar og að þeir fái stuðn­ing, eins og mennta­mála­ráð­herra er búin að teikna upp með ákveðnum hætti í sínu frum­varpi, til þess að sinna sínum störfum með góðum hætti.

En að saman skapi verða allir fjöl­miðl­ar, Rík­is­út­varp­ið, sem er á aug­lýs­inga­mark­aði að hluta, og síðan aðrir fjöl­miðlar að aðlaga sig að þessu breytta sam­fé­lagi. Og aðlaga sig að breyttu umhverfi um miðlun og sölu aug­lýs­inga og slíks efn­is. Ef að við­kom­andi er ekki á tánum hvað það varðar þá verður hann hratt og örugg­lega und­ir. Og við höfum séð alveg gríð­ar­legar svipt­ingar á þessum mark­að­i.“

Stefán minnt­ist á frum­varp mennta- og menn­ing­ar­mála­ráð­herra um stuðn­ing við einka­rekna fjöl­miðla, sem mælt var fyrir í des­em­ber í fyrra og situr nú fast inni í alls­herj­ar- og mennta­mála­nefnd. Staða RÚV, og sér­stak­lega þátt­taka þess á aug­lýs­inga­mark­aði, er ítrekað tengd við umræðu um það frum­varp og jafn­vel því að það fái fram að ganga. 

„Ég held að það sé mjög mikilvægt að ef að til stendur að gera einhverjar takmarkanir á því hvernig RÚV vinnur á auglýsingamarkaði þá verði að fylgja með mjög skýr skilaboð um úr hverju eigi að draga, segir Stefán Eiríksson.
Mynd: Bára Huld Beck

Stefán seg­ist ekki hafa sett sig neitt inn í það póli­tíska umhverfi sem fylgi frum­varp­inu né umræð­unni sem því fylgir um RÚV umfram það sem hann hafi lesið í fjöl­miðl­um. „Ég er ekki tek­inn við sem útvarps­stjóri og hef ekki fengið inn­sýn í þau mál frá þeim sjón­ar­hóli. En ég held að það sé mjög mik­il­vægt að ef að til stendur að gera ein­hverjar tak­mark­anir á því hvernig RÚV vinnur á aug­lýs­inga­mark­aði þá verði að fylgja með mjög skýr skila­boð um úr hverju eigi að draga. Hvað eigi þá að láta undan í rekstri RÚV. Það hlýtur þá að kalla á breyt­ingar á lög­unum sem um Rík­is­út­varpið gilda því þú getur ekki á sama tíma sett kröfu um það að þú sinnir ein­hverju hlut­verki en dregið svo úr tekj­unum án þess að taka stefnu­mark­andi ákvörðun um það hvað eigi að gera. Það er í höndum stjórn­mála­manna.“

Hefur mik­inn áhuga á að auka sér­hæf­ingu

RÚV, og sér­stak­lega frétta­stofu fyr­ir­tæk­is­ins, er gert að vera með frétta­þjón­ustu allan sól­ar­hring­inn. Þar eru því gengnar vakt­ir. Annað veifið hafa yfir­menn frétta­deild­ar, þar með talin núver­andi frétta­stjóri Rakel Þor­bergs­dótt­ir, greint frá því opin­ber­lega að það sé tak­markað hvað frétta­menn sem „séu í mokstri allan dag­inn“, eins og hún orð­aði það í bók­inni Þján­ing­ar­frelsið sem kom út árið 2018, geti sér­hæft sig. 

Aðspurður hvort það sé eitt­hvað sem hann muni leggja áherslu á, að auka tæki­færi starfs­manna RÚV, sér­stak­lega innan frétta­stof­unn­ar, til að sér­hæfa sig, svarar Stefán því ját­andi. „Al­veg tví­mæla­laust. Ég held að það sé eitt af þessum mik­il­vægu hlut­verkum sem RÚV sinnir í sam­bandi við fréttir og miðlun þeirra að sinna dýpri frétta­mennsku. Að gefa þeim sem að starfa á frétta­stof­unni og í sér­hæfðum þáttum tæki­færi til að helga sig til­teknum mál­um, eða mála­flokkum jafn­vel. Eins og hefur raunar verið gert á und­an­förnum árum, með nokkrum góðum árangri myndi ég segja. Ég held að það  sé alveg klárt mál að sér­staða Rík­is­út­varps­ins hlýtur að liggja þarna. Þess vegna hef ég mik­inn áhuga á því að leggja mikla áherslu á þetta.“

Hefur áhyggjur af falsfréttum og upplýsingabjögun

Við lifum á tímum upplýsingabjögunar og falsfrétta og svartsýnustu greinendur telja að slíkir hlutir, blandað saman við samfélagsmiðla án nokkurrar ritstýringar og takmarkaðs eftirlits með sannleika, sé uppskrift að falli lýðræðisins. Stefán viðurkennir að hann hafi áhyggjur af þessum málum þótt hann sjái, engu að síður, ýmisjákvæð merki hjá þjóðum heims til þess að takast á við þessi verkefni.

Hann telur að RÚV geti leikið mikilvægt hlutverk til að berjast gegn þessari þróun hérlendis. „RÚV hefur lýðræðishlutverki að gegna og það er hægt að sinna því með fjölbreyttum hætti. Til dæmis með aukinni samvinnu við grunnskóla, menntaskóla jafnvel háskóla. Ég sé það, í gegnum fjölskyldutengsl þar sem konan mín er grunnskólakennari, og veit það frá Reykjavíkurborgar að það er gott samstarf milli borgarinnar, Skóla- frístundasviðs, og RÍkisútvarpsins við framleiðslu á ýmsu efni sem grunnskólarnir nota svo í kennslu og fræðslu og þjálfun.“

Hann segir þó að allir fjölmiðlar verði að leggja sín lóð á vogarskálarnar. „Það sama á við um alla fjölmiðla hér á landi sem vilja taka þátt í því að dreifa réttum upplýsingum. Það þarf umhverfið allt saman. Bæði Ríkisútvarpið en líka aðra frjálsa og vandaða gæðafjölmiðla sem þarf auðvitað að styrkja með fullnægjandi hætti þannig að þeir gæti allir sinnt þessu hlutverki.“

RÚV er auð­vitað ekki venju­legt fjöl­miðla­fyr­ir­tæki. Það hefur til að mynda víð­tækum örygg­is­skyldum að gegna sam­kvæmt sér­lögum þess, þar sem stendur m.a.: Rík­is­út­varpið skal í sam­vinnu við til þess bær stjórn­völd tryggja nauð­syn­lega örygg­is­þjón­ustu með upp­lýs­inga­miðlun um útvarp og þegar við á eftir öðrum boð­leið­um. Rík­is­út­varpið skal í því skyni setja sér örygg­is­stefnu um órof­inn rekstur hljóð­varps­þjón­ustu um land allt og á næstu mið­u­m.“

Stefán þekkir almanna­varna­hlut­verki vel úr annarri átt, frá því að hann var lög­reglu­stjóri. Þegar hann er spurður hvort að RÚV sé að beita réttum miðl­un­ar­leiðum til að full­nægja þessu örygg­is­hlut­verki sem fyr­ir­tæk­inu er ætlað sam­kvæmt lögum segir að það sé hlutur sem hann hafi velt tölu­vert fyrir sér. „Sér­stak­lega þegar ég var hinum megin við borðið hjá lög­regl­unni og var þar í ákveðnu hlut­verki í almanna­varnar­á­standi til dæm­is. Mér þótti það á þessum tíma að RÚV héldi sig á þessum tíma, kannski af til­lit­semi við aðra fjöl­miðla, örlítið til baka, þrátt fyrir mjög skýrt hlut­verk sam­kvæmt lögum þegar að slíkt ástand er upp­i. 

Ég held að RÚV eigi ekk­ert að vera feimið við það að sinna þessu hlut­verki og sinna því í þágu alls almenn­ings í land­inu og í raun­inni í þágu allra fjöl­miðla í land­inu. Ég held að það sé atriði sem ég myndi vilja skoða og ræða innan veggja Rík­is­út­varps­ins hvernig við getum nálg­ast örygg­is­hlut­verkið og fleiri hlut­verk með það fyrir augum að við séum ekki að búa alltaf til ein­hver mis­mun­andi lið, við og þið, heldur að Rík­is­út­varpið hafi það hlut­verk að vera í sam­starfi með öðrum fjöl­miðlum og eftir atvikum fleiri, í slíkum verk­um.“

Vill opna safn RÚV fyrir öllum til afnota

Stefán sér líka tæki­færi í að breyta og þróa þegar kemur að öllu því efni sem er fram­leitt hjá RÚV, og er til staðar í safni fyr­ir­tæk­is­ins. „Ég vil að þetta sé opið og aðgengi­legt öllum almenn­ingi og öðrum fjöl­miðlum til frjálsra nota. Í raun­inni eru einu tak­mark­anir þá rétt­hafa­tak­mark­anir sem tengj­ast þá samn­ingum við lista­menn og eitt­hvað slíkt. En svo­leiðis opnun held ég að geti skipt mjög miklu máli. Þannig að mið­ill eins og til dæmis Kjarn­inn geti nýtt sé efni sem er aðgengi­legt hjá RÚV og hafi í raun­inni fulla heim­ild til að gera það.“

Hann við­ur­kennir að búa ekki per­sónu­lega yfir tækni­legu þekk­ing­unni til að fram­kvæma þessa hug­mynd né átta sig, eins og stend­ur, almenni­lega á umfangi þess að gera allt þetta efni aðgengi­legt. Stefán er hins vegar sann­færður um að ríkið geti fundið leiðir til að sinna þessu hlut­verki sínu með hag­kvæmum hætti, að geyma og miðla efni. „Það er auð­vitað gríð­ar­lega mikið efni sem er verið að fram­leiða á vegum rík­is­ins. Ef þú horfir bara á lög­regl­una, þar sem að allar yfir­heyrslur eru teknar upp og vistaðar á ein­hverjum ákveðnum stað og aðgengi­legar fyrir lög­reglu, ákæru­vald og dóm­stóla ef svo ber und­ir. Allt sem ger­ist inni hjá dóm­stól­unum er tekið upp. Og ýmsir fleiri opin­berir aðilar sem eru í þessu svo ég tali ekki um opin­ber söfn eins og Þjóð­skjala­safn­ið, Borg­ar­skjala­safn­ið, bóka­söfnin í land­inu og allt það. 

Af hverju búum við ekki til ein­hvern einn stað þar sem við getum vistað þetta efni? Og gert það aðgengi­legt að teknu til­liti til að það þarf auð­vitað að tak­marka aðgang að ýmsu af þessu efni með ýmsum hætti, en þetta ætti að vera hægt að gera með ákveðnum hætti.

Rík­is­út­varpið er auð­vitað að starfa í þágu allra lands­manna. Það efni sem þar hefur orðið til á að vera aðgengi­legt öllum lands­mönn­um. Ég held að það væri rétt og eðli­legt að stiga það skref að aðrir fjöl­miðlar geti nýtt sér þetta.“



Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar