Seðlabanki Íslands leggst ekki sérstaklega gegn því að fram fari rannsókn á flutningi fjár til landsins á grundvelli fjárfestingarleiðar Seðlabankans telji Alþingi líklegt að slík rannsókn bæti einhverju við þá rannsókn sem þegar hefur farið fram á vegum ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra á leiðinni. Seðlabankinn telur þó ekki líklegt að slík rannsókn, sem myndi fara fram á grundvelli laga um rannsóknarnefndir Alþingis, mundi bæta miklu við.
Þetta kemur fram í umsögn Seðlabanka Íslands um þingsályktunartillögu um rannsókn á fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands sem allir þingmenn Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar lögðu fram í nóvember síðastliðnum. Ásgeir Jónsson, sem tók við stöðu seðlabankastjóra í ágúst í fyrra, skrifar undir umsögnina ásamt Guðrúnu Sóleyju Gunnarsdóttur, aðstoðarframkvæmdastjóra hjá bankanum. Henni var skilað inn í lok síðustu viku.
Seðlabankinn segir í umsögn sinni um tillöguna að slík rannsókn yrði að framkvæma á grundvelli laga um rannsóknarnefndir eða sérstakra laga, þar sem markmið þyrftu að vera afar skýr og heimildir ríkar. „Jafnvel þótt í lögunum sé kveðið á um að rannsóknarnefnd geti birt upplýsingar sem annars væru háðar þagnarskyldu ef nefndin telur slíkt nauðsynlegt til að rökstyðja niðurstöður sínar [...] þá verður að hafa í huga að nefndin skal aðeins birta upplýsingar um persónuleg málefni einstaklinga, þ.m.t. fjármál þeirra, að almannahagsmunir af því að birta upplýsingarnar vegi þyngra en hagsmunir þess einstaklings sem í hlut á. Því er ekki ljóst, hvort slík rannsóknarnefnd hefði svigrúm til að birta ítarlegri upplýsingar en þær sem Seðlabankinn hefur þegar birt, þótt mögulega gæti hún metið jafnvægið á milli einkahagsmuna og almannahagsmuna með eitthvað öðrum hætti en Seðlabankinn hefur gert.“
Nefndin, verði tillagan samþykkt, á að skila niðurstöðum sínum í skýrsluformi svo fljótt sem verða má og eigi síðar en 1. október 2020.
Hundruð milljarðar ferjaðir inn í landið
Fram fóru 21 útboð eftir fjárfestingaleiðinni frá því í febrúar 2012 til febrúar 2015, þegar síðasta útboðið fór fram. Leiðin gerði þeim sem vildu kleift að skipta á gjaldeyri fyrir íslenskrar krónur og fá um leið allt að 20 prósent virðisaukningu fyrir að koma til landsins með gjaldeyri. Hún var því opin á meðan að Már Guðmundsson, fyrirrennari Ásgeirs, sat í stóli seðlabankastjóra. Þetta er í fyrsta sinn sem Ásgeir tekur afstöðu til rannsóknar á leiðinni.
Alls komu um 1.100 milljónir evra til landsins á grundvelli útboða fjárfestingarleiðarinnar, sem samsvaraði um 206 milljörðum króna. 794 innlendir aðilar komu með peninga inn í íslenskt hagkerfi í gegnum útboð fjárfestingarleiðar Seðlabanka Íslands. Alls fengu þessir aðilar 72 milljarða króna fyrir þann gjaldeyri sem þeir skiptu í íslenskar krónur samkvæmt skilmálum útboða fjárfestingarleiðarinnar. Virðisaukningin sem þeir fengu með þessu umfram það ef þeir hefðu skipt gjaldeyrinum á skráðu gengi Seðlabankans var um 17 milljarðar króna.
Dæmdir brotamenn á meðal þeirra sem nýttu sér leiðina
Margir þeirra aðila sem nýttu sér leiðina voru stórtækir í íslensku viðskiptalífi fyrir bankahrun en höfðu komið fé fyrir utan landsteinana áður en höft voru reist síðla árs 2008. Þessir aðilar gátu því leyst út mikinn gengishagnað til viðbótar við virðisaukninguna sem þeim stóð til boða.
Sumir þeirra hafa hlotið þunga dóma fyrir stórfelld efnahagsbrot vegna brota sem voru framin í aðdraganda hrunsins.
Seðlabanki Íslands hefur ekki viljað upplýsa um hverjir það voru sem nýttu sér leiðina, og borið fyrir sig þagnarskylduákvæði laga um bankann. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, svaraði fyrirspurn um málið á Alþingi í síðasta mánuði og tók sama pól í hæðina og Seðlabankinn. Hann taldi sér ekki heimilt að birta nöfn þeirra sem fluttu fjármagn til Íslands í gegnum fjárfestingarleiðina.
Máli sínu til stuðnings vísar Bjarni í úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingarmál vegna kæru Kjarnans á synjun Seðlabanka Íslands um aðgang að upplýsingunum frá því í janúar 2019. Í þeim úrskurði sagði meðal annars að fortakslaus þagnarskylda Seðlabanka Íslands gagnvart viðskiptamönnum sínum komi í veg fyrir að slíkar upplýsingar séu gerðar opinberar „óháð hagsmunum almennings af því að fá að kynna sér þær.“
Þær upplýsingar sem liggja fyrir um nöfn þeirra sem ferjuðu fé í gegnum leiðina hafa því verið opinberuð af fjölmiðlum sem hafa rannsakað þær fjármagnstilfærslur. Á meðal þeirra sem hafa nýtt sér þessa leið eru félög í eigu bræðranna Lýðs og Ágústs Guðmundssona, Hreiðars Más Sigurðssonar, Jóns Ólafssonar, Jóns Von Tetzchner, knattspyrnumannsins Gylfa Þórs Sigurðssonar, Ólafs Ólafssonar, Hjörleifs Jakobssonar, Ármanns Þorvaldssonar, Kjartans Gunnarssonar, Skúla Mogensen, rekstrarfélags Iceland Foods, Alvogen, Karls og Steingríms Wernerssona og danskra eigenda Húsasmiðjunnar.
Eftirliti ábótavant og brotalamir í peningaþvættisvörnum
Í skýrslu Seðlabankans um fjárfestingaleiðina, sem hann vann sjálfur og birti í fyrrasumar, segir að „staðfestingin skyldi gerð af hálfu milligönguaðila eða annars aðila sem fullnægði kröfum laganna eða laut að mati Seðlabankans bæði sambærilegum kröfum og lögin gera og eftirliti sambærilegu því sem íslensk fjármálafyrirtæki lúta. Fjármálafyrirtæki báru því einnig þá skyldu að kanna fjárfesta, þ.e. viðskiptamenn sína, með tilliti til laga[...]um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, og staðfesta áreiðanleika þeirra gagnvart Seðlabankanum. Eftirlit með því að fjármálafyrirtæki sinni skyldum sínum varðandi peningaþvættisathuganir er í höndum Fjármálaeftirlitsins.“
Þetta ferli fór því þannig fram að fjárfestir leitaði til íslensks banka og bað hann um að vera millilið í að færa peninganna sína í gegnum fjárfestingarleiðina. Hann undirritaði síðan peningaþvættisyfirlýsingu um að hann væri raunverulegur eigandi fjármunanna sem verið var að færa og staðfestingu á því að hann hefði ekki verið ákærður fyrir brot á lögum um gjaldeyrismál.
Á síðustu árum hefur hins vegar komið í ljós að peningaþvættiseftirlit íslenskra banka, og stjórnvalda, hefur verið óviðunandi. Það fékk falleinkunn hjá samtökunum Financial Action Task Force (FATF) í apríl 2018 og þess krafist að umfangsmiklar úrbætur yrðu gerðar, annars yrði Ísland sett á óæskilegan lista. Ísland var svo sett á gráan lista samtakana í október í fyrra.
Fjármálaeftirlitið framkvæmdi athuganir á því hvernig fjármálafyrirtæki hafi staðið sig í vörnum gegn peningaþvætti á árunum 2018 og 2019. Niðurstaðan var að hjá öllum fjórum viðskiptabönkunum voru brotalamir í peningaþvættisvörnum þeirra, þótt þær væru mismunandi miklar. Innan þeirri allra skorti á að upplýsingar um raunverulega eigendur félaga eða fjármuna hafi almennt verið metnar með sjálfstæðum hætti.
Ekki hægt að útiloka blekkingar
Í greinargerð sem fylgdi þingsályktunartillögunni þegar hún var lögð fram sagði að fjárfestingarleiðin hafi verið gagnrýnd af ýmsum ástæðum, en telja verði sérstaklega mikilvægt í ljósi umræðu um aflandseignir og skattaundanskot á síðustu misserum að leitast verði við að rannsaka og fjalla um hvort fjárfestingarleiðin hafi stuðlað að því að fjármagn vegna skattaundanskota, sem geymt var í skjóli á aflandseyjum, hafi verið fært til landsins í gegnum fjárfestingarleiðina með afslætti.
Í svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Björns Levís Gunnarssonar, þingmanns Pírata, á Alþingi hafi til að mynda komið fram að ekki væri hægt að útiloka að í einhverjum tilvikum hafi ekki verið farið í einu og öllu að ákvæðum fjárfestingarleiðarinnar.
Í skýrslu sem Seðlabanki Íslands birti um fjárfestingarleiðina í fyrrasumar kom fram aflandsfélög frá lágskattasvæðum hefðu flutt inn 2,4 prósent af heildarfjárfestingu í gegnum leiðina. Eðlilegt væri, í ljósi sögunnar, að gagnrýna að það hefði verið gerlegt að ferja fjármuni frá slíkum svæðum í gegnum hana.