Konurnar tvær sem Harvey Weinstein hefur verið sakfelldur fyrir að nauðga og brjóta gegn með öðrum kynferðislegum hætti voru ekki „fullkomin fórnarlömb“. Þær áttu báðar í samskiptum við hann eftir að ofbeldið átti sér stað, jafnvel kynferðislegum. Verjendur kvikmyndaframleiðandans töldu það sýna sakleysi hans en saksóknarinn sagði það einmitt til marks um hið gagnstæða: Að valdaójafnvægi hafi gert það að verkum að konurnar töldu það sér fyrir bestu að halda áfram vinalegum samskiptum enda hafi hann hótað þeim með ýmsum hætti fengi hann ekki sínu framgengt.
Sérfræðingur í kynferðisbrotamálum sagði í vitnisburði sínum við réttarhöldin yfir Weinstein í New York að það væri mýta að konur slitu öllum samskiptum sínum í kjölfar ofbeldis. Flest kynferðisbrot ættu sér stað milli fólks sem þekktist og að það væri algengara en hitt að samskipti af einhverjum toga héldu áfram.
Ofbeldisfull hegðun Harvey Weinstein, eins valdamesta manns Hollywood síðustu áratugi, hefur verið kölluð „verst geymda leyndarmál“ bandarísku kvikmyndaborgarinnar. Árið 2017 hófu konur að stíga fram og segja frá samskiptum sínum við hann og markaði það upphaf metoo-byltingarinnar.
Yfir hundrað konur hafa síðan þá ásakað hann um ósæmilega hegðun í gegnum árin og áratugina. Mörg málanna voru hins vegar fyrnd. Sumar kvennanna treystu sér ekki til að kæra hann og svo fór að saksóknari New York-borgar ákærði hann fyrir brot gegn tveimur konum. Ákæran var í nokkrum liðum. Hann var ákærður fyrir nauðgun og önnur alvarleg kynferðisbrot gegn þeim og að auki fyrir kynferðislega og kerfisbundna misneytingu gegn fleiri en tveimur konum.
Réttarhöldin hófust 22. janúar í dómshúsi á Manhattan. Þeim lauk nú í vikunni með því að Weinstein var fundinn sekur um að hafa brotið gegn konunum tveimur en sýknaður af alvarlegasta ákæruliðnum um kerfisbundið ofbeldi gegn fleiri konum.
Sex meint fórnarlömb báru vitni við réttarhöldin, m.a. konur sem áttu með framburði sínum að styðja þá fullyrðingu saksóknarans að Weinstein hefði oft og ítrekað nýtt völd sín, áhrif og yfirburði til að ná til kvenna og beita þær svo ofbeldi, eins og Jackie Lacey saksóknari orðaði það í opnunarræðu sinni.
Allar konurnar sem báru vitni sögðu sömu sögu: Þær hefðu kynnst Weinstein og treyst honum þar til hegðun hans hafi breyst og orðið kynferðisleg. Þær sögðu hann hafa haft framtíð þeirra í höndum sér, að hann hefði getað rústað starfsferli þeirra og fjölskyldu ef þær færu ekki að óskum hans. Ein konan greindi frá því að Weinstein hefði á fundi þeirra veifað skjölum sem hann sagði samninga um aðkomu hennar að næstu þremur kvikmyndum hans. Ef að hún stundaði hópkynlíf með honum myndi hann skrifa undir þá.
Þetta var tekið sem dæmi um hvernig hann beitti völdum sínum gagnvart konunum.
Aðalverjandi Weinsteins, Donna Rotunno, er þekkt fyrir að verja karlmenn sem sakaðir eru um kynferðisbrot. Hún hefur lýst því yfir að hún telji metoo-byltinguna hafa gengið of langt. Í viðtali áður en réttarhöldin hófust sagðist hún aldrei hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi af því að hún hefði „aldrei komið sér í“ þær aðstæður.
Rotunno sótti hart að konunum tveimur og lagði fram tölvupósta og textaskilaboð sem fóru milli þeirra og Weinstein sem hún sagði sanna að kynferðismökin hefðu verið með samþykki beggja. Áhersla var einnig lögð á það að þær hefðu af fúsum vilja verið einar með honum.
Weinstein nauðgaði annarri konunni á hótelherbergi í New York. Verjendurnir spurðu hana spjörunum úr í þrjá daga. Einn daginn brotnaði hún algjörlega niður og dómarinn varð að fresta réttarhöldunum til næsta dags. Rotunno hafði meðal annars spurt út í tölvupóst sem hún sendi Weinstein þar sem hún sagðist ánægð með að hafa kynnst honum.
Sagði Weinstein fórnarlambið
Konan sagðist hafa haldið sambandinu áfram í gegnum tölvupóst því það hefði hún talið örugga leið. Hún átti mikið undir því að halda honum góðum. Við réttarhöldin sagði hún að Weinstein ætti sér góðar hliðar. Hann gæti byggt upp sjálfstraust fólks en svo mulið það niður ef það þóknaðist honum ekki. Persónuleikinn væri í anda Dr. Jekill og Mr. Hyde.
Verjendurnir héldu því fram í gegnum öll réttarhöldin að Weintein væri fórnarlambið, konurnar hefðu verið í kynferðislegu sambandi við hann þrátt fyrir að þær hefðu ekki laðast að eða hrifist af honum. Þær hefðu notað hann til að ná frama. „Þú misnotaðir Harvey Weinstein í hvert skipti sem þú hélst áfram að hitta hann,“ sagði Rotunno við aðra konuna.
Saksóknarar leiddu Barböru Ziv, geðlækni og sérfræðing í afleiðingum kynferðisofbeldis, fyrir dóminn til að ræða ranghugmyndir um fórnarlömb. Hún sagði mýtuna þá að fórnarlömb hefðu ekki samband við gerendur eftir að brot eru framin. Það væri rangt, almennt gerðu þau einmitt það vegna þess að flest kynferðisbrot eru framin af þeim sem fórnarlömbin þekkja.
Þetta er sögð ein ástæðan fyrir því að margar konur sem upplifðu ofbeldi af hendi Weinsteins þögðu þunnu hljóði í fjölda ára.
Fullkomið fordæmismál
Kviðdómurinn, sem skipaður var sjö körlum og fimm konum, tók sér nokkra daga til að komast að niðurstöðu. Á mánudagsmorgun lá ákvörðunin fyrir. Weinstein var sakfelldur fyrir að brjóta gegn konunum tveimur.
Vissulega eru þetta tíðindi fyrir alla sem komu að málinu með einum eða öðrum hætti en niðurstaðan markar að margra mati stórmerkileg tímamót í meðferð kynferðisbrotamála fyrir dómstólum.
Konur sem höfðu átt í flóknu sambandi við geranda sinn eftir að hann braut á þeim voru teknar trúanlegar. Þó að hluti samskiptanna hafi verið með þeirra vilja breytti það ekki því að hann braut á þeim. „Að því leyti snérust þessi réttarhöld um einn helsta boðskap metoo-byltingarinnar; um hver hefur valdið og hversu algengt það er að valdi sé misbeitt með kynferðisofbeldi,“ segir Lauren Aratani, blaðamaður Guardian, sem fylgst hefur náið með réttarhöldunum í Bandaríkjunum. Kviðdómurinn hafi trúað konunum og það segi mikið um hversu langt metoo-hreyfingin hefur náð.
„Þetta er fullkomið fordæmismál um hvað gerist þegar viðtekin viðhorf taka að breytast,“ segir Deborah Tuerkheimer, lagaprófessor við Northwestern-háskóla við New York Times. Hingað til hafi það sjaldan gerst að saksóknarar leggi í að sækja mál þegar fórnarlömbin eru ekki „fullkomin“, þ.e. ef þau hafa átt í frekara sambandi við meintan geranda.
„Þessar konur trúðu því mjög lengi að hann væri ósnertanlegur og að það væri ekki hægt að draga hann til ábyrgðar en nú hefur hann verið sakfelldur,“ segir Tarana Burke, einn af stofnendum metoo-hreyfingarinnar. „Það sendir gríðarlega sterk skilaboð.“
Harvey Weinstein gæti átt 5-29 ára fangelsisdóm yfir höfði sér. Refsing yfir honum verður ákveðin 11. Mars. Þangað til þarf hann að dúsa í varðhaldi sem verjendur hans hafa mótmælt. Eftir uppkvaðningu refsingar er mál Weinsteins ekki frá. Saksóknari í Los Angeles hefur einnig ákært hann fyrir brot gegn tveimur konum og gera má ráð fyrir því að þau réttarhöld hefjist áður en langt um líður.