Undirbúningur vegna áttræðisafmælis drottningar hófst snemma á síðasta ári. Í mörg horn er að líta við undirbúning slíkra tímamóta. Starfsfólk hallarinnar ásamt embættismönnum ráðuneyta, lögreglunnar, hersins, bæja-og sveitastjórnarfólki víða um land, fjölmiðlum, listamönnum og fleirum hafa annast þennan undirbúning. Ótal viðburðir um allt land höfðu verið skipulagðir út í ystu æsar, allt í samráði við drottninguna.
Tvær ástæður fyrir tilstandinu
Þótt iðulega fylgi mikið tilstand stórafmælum í dönsku konungsfjölskyldunni stóð óvenjulega mikið til að þessu sinni. Fyrir því voru tvær ástæður. Önnur var sú að þegar drottningin varð sjötug, árið 2010 kom gosið í Eyjafjallajökli í veg fyrir að margir af hinum tignu gestum sem boðið hafði verið til veislunnar komust ekki til Kaupmannahafnar. Meðal þeirra sem fjarri voru góðu gamni var forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson. Veislan fór fram eins og ráð var fyrir gert þótt langtum færri væru viðstaddir en til stóð. Af þessum sökum stóð til að veislan nú yrði sérlega vegleg.
Hin ástæða þess, og kannski sú veigameiri, að til stóð að svo mikið skyldi lagt í afmælisfagnaðinn að þessu sinni er að kannski hefði þetta orðið síðasti stóri afmælisfagnaður Margrétar Þórhildar. Að minnsta kosti ef marka má orð drottningar sjálfrar. Í viðtali sem birtist í nýjasta tölublaði vikuritsins Alt for damerne, og var tekið skömmu áður en kórónaveiran blossaði upp, sagðist drottningin ekki sjá fyrir sér tíu ár framundan (jeg tror ikke der er ti år foran mig). Þrátt fyrir að hún væri hraust og fyndist ekki halla undan fæti yrði þó að líta með raunsæi á hlutina og út frá því sjónarmiði met ég það svo að ekki séu tíu ár eftir. Hún sagðist ekki vera upptekin af aldrinum „ég er alltaf með 117 hluti í gangi og hugsa ekki um aldurinn.“
Frá 2. apríl og fram á haust
Ráðgert var að viðburðir vegna áttræðisafmælis drottningar hæfust með opnun myndlistarsýningarinnar „Dronningens portrætter“ í Friðriksborgarhöllinni í Hillerød á Sjálandi. Þarna stóð til að sýna margar myndir af drottningunni, frá ýmsum tímum, og eftir fjölmarga listamenn. Við opnun sýningarinnar átti jafnframt að afhjúpa nýtt málverk af drottningunni.
Í kjölfar þessarar opnunar átti svo hver viðburðurinn að reka annan, hápunkturinn auðvitað afmælisdagurinn sjálfur, 16. apríl.
Ætlunin var að fjölskylda Margrétar Þórhildar kæmi út á svalir hallar Kristjáns IX á Amalienborg, en ekki á höll Kristjáns VII, eins og venjan er. Ekki mikil breyting (hallirnar fjórar á Amalienborg líkjast hver annarri) en átti þó að sýna að þessi afmælisdagur skæri sig úr.
Að þessu loknu stóð til að drottningin æki í hátíðarvagni hirðarinnar, gullvagninum svonefnda, um götur borgarinnar og að Ráðhúsi Kaupmannahafnar. Þar yrðu ræðuhöld og skemmtiatriði (eins og það var orðað í tilkynningu) og drottningin myndi koma fram á svalir Ráðhússins. Sérstakur hátíðarkvöldverður var svo ráðgerður í höllinni á Fredensborg, að eigin sögn eftirlætisbústað Margrétar Þórhildar.
Hin árlega sumarsigling drottningar á skipi hennar hátignar Dannebrog, þar sem komið er við á nokkrum stöðum, átti að vera í tveimur áföngum í ár (nokkrir dagar í senn) og ljúka í byrjun september og marka þar með lok afmælisviðburðanna.
Svo kom COVID-19
11. mars tilkynnti Mette Frederiksen forsætisráðherra að ákveðið hefði verið að loka Danmörku (lukke Danmark ned) vegna kórónufaraldursins. Ekki þarf að útlista hvað þessi ákvörðun þýddi, samfélagið meira og minna lamað.
12. mars, daginn eftir yfirlýsingu forsætisráðherrans sendi drottningin frá sér tilkynningu um að öllum viðburðum sem tengdust afmæli hennar væri aflýst. Danska útvarpið, DR, verður hinsvegar með viðamikla dagskrá í kringum afmælið og sömuleiðis sjónvarpsstöðin TV2
17. mars flutti drottningin útvarps- og sjónvarpsávarp til þjóðarinnar. Það að þjóðhöfðinginn ávarpi þjóðina, fyrir utan hefðbundið áramótaávarp, er mjög fátítt. Hafði raunar ekki gerst í Danmörku frá stríðslokum, en 5. maí 1945 (befrielsesdagen) ávarpaði kóngurinn, Kristján X, þjóð sína.
Danskir stjórnmálaskýrendur voru á einu máli um að það hefði verið rétt ákvörðun hjá drottningunni að tala til þjóðarinnar við þessar aðstæður. Margrét Þórhildur nýtur mikilla vinsælda hjá dönsku þjóðinni og orð hennar við aðstæður sem þessar vega þungt, mun þyngra en orð stjórnmálamanna.
Ávarpið var stutt en boðskapurinn til þjóðarinnar var að allir yrðu að sýna ábyrgð og fara að fyrirmælum yfirvalda. Gildir um okkur öll sagði sagði drottningin. Fréttir hefðu borist af því að ekki fylgdu allir fyrirmælunum, væru jafnvel að halda fjölmennar veislur. Slíkt væri mikið ábyrgðarleysi.
Drottningin leggur sjaldan orð belg í þjóðfélagsumræðunni. Helst þó í nýársræðum sínum og í ræðu hennar um síðustu áramót ræddi hún um hve viðkvæm jörðin er og ábyrgðin er okkar.
Ummæli hennar í löngu viðtali sem birtist í dagblaðinu Politiken í gær (11.4. 2020) hafa hinvegar vakið talsverða athygli. Þar sagði drottningin orðrétt „Jamen, at mennesker spiller en rolle i klimaforanandringer, det er der nok ingen tvivl om. Men om de er skabte – direkte – det er jeg ikke ganske overbevist om.“
Danskir stjórnmálamenn hafa verið spurðir út í þessi ummæli. Álit þeirra skiptist í tvö horn, sumir segja að auðvitað hafi hún rétt til að segja skoðun sína, aðrir segja undarlegt að drottningin lýsi efasemdum um álit vísindamanna.
Einn stjórnmálaskýrandi komst svo að orði að kannski hefði drottningin átt að sleppa þessari setningu. Stjórnmálaskýrandi danska útvarpsins sagði að drottningin væri svo vinsæl að ummæli sem þessi breyttu engu.
Drottning í 48 ár
Margrethe Alexandrine Þórhildur Ingrid, eins hún heitir fullu nafni hefur verið drottning Danmerkur í 48 ár. Nafnið Þórhildur er íslenskt og ástæða þess að þar eru tveir stafir (þ og ó), sem ekki er að finna í danska stafrófinu er að þegar Margrét Þórhildur fæddist var afi hennar, Kristján X konungur konungsríksins Íslands.
Hún er elst þriggja dætra Friðriks IX (1899-1972) og Ingiríðar drottningar (1910-2000), þau eignuðust ekki son. Fram til ársins 1953 gerðu lögin um konungsdæmið ráð fyrir að þjóðhöfðinginn væri væri karlmaður en lagabreyting sem þá var gerð þýddi að Margrét Þórhildur yrði þjóðhöfðingi að föður sínum gengnum. Árið 2009 var gerð önnur breyting á þessum lögum, í henni fólst að elsta barn, óháð kyni, skyldi erfa krúnuna en breytingin frá 1953 var takmörkuð við Margréti Þórhildi.
Friðrik IX lést 14. janúar 1972. Hann hafði verið konungur frá árinu 1947. Margrét Þórhildur hefur í viðtölum sagt að þótt faðir sinn hefði ekki verið heilsuhraustur síðustu árin hefði fráfall hans, eftir nokkurra daga veikindi, komið á óvart.
Í viðtalsbók, sem kom út skömmu eftir síðustu aldamót, sagði drottningin að hún hafi verið nokkuð vel undirbúin að taka við krúnunni „þótt maður sé kannski aldrei algjörlega tilbúinn“.
Margrét Þórhildur lagði stund á heimspeki við Hafnarháskóla og fornleifafræði við Háskólann í Cambridge. Á árunum 1961-1965 las hún stjórnmálafræði við Háskólann í Árósum, Sorbonne í París og við London School of Economics, LSE. Auk dönsku er drottningin altalandi á sænsku, ensku, frönsku og þýsku.
Árið 1967 giftist Margrét Þórhildur Frakkanum Henri Marie Jean André greve de Laborde de Monpezat. Við brúðkaupið fékk hann nafnið Prins Henrik af Danmark. Henrik, sem var fæddur 1934 og lést 2018, var alla tíð ósáttur við að hann skyldi ekki vera konungur, en danska stjórnarskráin leyfir ekki að kóngur sé lægra settur en drottning. Henrik varð því að sætta sig við að vera prins eða prinsgemal (drottningarmaður).
Þau hjónin voru bæði áhugasöm um listir, drottningin hefur myndskreytt bækur, gert leikmyndir og búningateikningar fyrir leiksýningar. Henrik gaf út nokkrar ljóðabækur, með eigin myndskreytingum. Hann var áhugamaður um mat og garðrækt og skrifaði margar matreiðslubækur, hann samdi einnig nokkur lög og var ágætur píanóleikari. Stundaði um árabil nám í höggmyndalist og eftir hann liggja mörg slík verk. Árið 2014 héldu hjónin sameiginlega sýningu á verkum sínum á AROS listasafninu í Árósum, 300 þúsund gestir sóttu sýninguna.
Margrét Þórhildur hefur alla tíð notið mikilla vinsælda meðal Dana en Henrik var ætíð umdeildur. Flestir eru þó sammála um að hann hafi verið konu sinni stoð og stytta, bæði í opinberum störfum og einkalífi. Margrét Þórhildur og Henrik eignuðust tvo syni, krónprinsinn Friðrik, og Jóakim. Barnabörnin eru átta.
Hér í Kjarnanum birtist 18.2. 2018 langur pistill um Henrik prins „Litríkur og fjölhæfur Frakki látinn“. Ennfremur má benda á pistilinn „Friðrik krónprins fimmtugur“ frá 27.5. 2018 og „Þegar Danadrottning vildi ekki hitta Trump“ frá 26.8. 2019.