Orkustofnun hefur að ósk verkefnisstjórnar fjórða áfanga rammaáætlunar sent henni gögn um 43 nýja virkjunarkosti, sem bætast þar með við þá kosti sem skilgreindir voru í þriðja áfanga. Kallað var eftir gögnum frá aðilum í tveimur áföngum. Fyrsti hlutinn með gögnum um tólf kosti var sendur í febrúar og sá síðari með gögnum um 31 kost nú í apríl.
Af þessum 43 virkjunarkostum eru sjö í vatnsafli, tveir í jarðhita og 34 í vindorku. Samanlagt afl allra þessara virkjanahugmynda er um 3.675 MW en til samanburðar þá er Kárahnjúkavirkjun, langstærsta virkjun landsins, 690 MW að afli.
Níu vindorkuver eru fyrirhuguð af fyrirtækinu Quadran Iceland Development, HS orka áformar þrjú vindorkuver, sex hugmyndir að slíkum verum eru skráð undir nafni Langanesbyggðar og tíu eru á vegum fyrirtækisins Zephyr Iceland.
Landsvirkjun fyrirhugar stækkun á þremur virkjunum sínum, eins og fjallað var um í Kjarnanum nýverið sem og eitt vindorkuver.
Í yfirliti Orkustofnunar um virkjanakostina 43 er greint frá tveimur virkjanaáformum á svipuðum slóðum sem „útiloka hvor aðra“ eins og það er orðað. Þar er um að ræða hugmynd Orkubús Vestfjarða, Tröllárvirkun, og hugmynd Vesturverks, Hvanneyrardalsvirkjun.
Vesturverk sækist eftir því að reisa þrjár virkjanir; fyrrnefnda Hvanneyrardalsvirkjun, Skúfnavatnavirkjun og vindorkuver sem nefnt er Nónborgir í yfirliti Orkustofunnar.
Orkuveita Reykjavíkur óformar eina nýja virkjun, jarðhitavirkjun í Ölfusdal.
Átján kostir í nýtingarflokki: 1421 MW
Þriðji áfangi rammaáætlunar var afgreiddur frá verkefnisstjórn með lokaskýrslu í ágúst árið 2016, fyrir rúmlega fjórum árum síðan. Þingsályktunartillaga byggð á þeirri niðurstöðu hefur í tvígang verið lögð fram á Alþingi en vegna endurtekinna stjórnarslita er hún enn óafgreidd. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hugðist leggja tillöguna fram í þriðja sinn nú á vorþingi og í óbreyttri mynd en af því verður ekki vegna kórónuveirufaraldursins.
Í þriðja áfanganum lagði verkefnisstjórnin til að átta nýir virkjunarkostir bættust í orkunýtingarflokk áætlunarinnar; Skrokkölduvirkjun, Holtavirkjun, Urriðafossvirkjun, Austurgilsvirkjun, Austurengjar, Hverahlíð II, Þverárdalur og Blöndulundur.
Um er að ræða fjórar vatnsaflsvirkjanir með uppsett afl upp á alls 277 MW, þrjár jarðhitavirkjanir með uppsett afl allt að 280 MW og eitt vindorkuver með uppsett afl allt að 100 MW. Ekki voru lagðar til breytingar á flokkun þeirra virkjunarkosta sem fyrir voru í orkunýtingarflokki en þeir eru alls tíu talsins. Samtals var því lagt til að átján virkjunarkostir yrðu flokkaðir í orkunýtingarflokk og hafa þeir samtals 1421 MW uppsett afl.
Með sjálfbæra þróun að leiðarljósi
Verkefnisstjórn fjórða áfanga rammaáætlunar var skipuð af Björt Ólafsdóttur, þáverandi umhverfisráðherra, í apríl árið 2017. Formaður er Guðrún Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Stofnunar Sæmundar fróða. Hlutverk verkefnisstjórnar er að veita umhverfisráðherra ráðgjöf um vernd og orkunýtingu landsvæða.
Samkvæmt lögunum um rammaáætlun ber verkefnisstjórninni að sjá til þess að „… nýting landsvæða þar sem er að finna virkjunarkosti byggist á langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati … með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.“
Verkefnisstjórnin hefur tvö verkfæri til að sinna þessari skyldu sinni: Hún sækir ráðgjöf til svokallaðra faghópa sem skipaðir eru sérfræðingum á ýmsum sviðum og hún leitar samráðs við hagsmunaaðila, stofnanir hins opinbera, almenning og frjáls félagasamtök á ýmsum stigum vinnunnar.
Verndar- og orkunýtingaráætlun tekur til landsvæða og virkjunarkosta sem verkefnisstjórn hefur fjallað um og hafa uppsett rafafl 10 MW eða meira eða uppsett varmaafl 50 MW eða meira.
Frestur framlengur um óákveðinn tíma
Samkvæmt frétt Orkustofnunar í október á síðasta ári var frestur til móttöku virkjunarhugmynda í fjórða áfanga settur 1. mars í ár. Í ljósi þess að Alþingi mun ekki taka 3. áfanga rammaáætlunar til afgreiðslu á yfirstandandi þingi telur Orkustofnun að fyrri áætlanir um endanleg tímamörk fyrir skil á virkjunarkostum í fjórða áfanga rammaáætlunar þarfnist endurskoðunar. Því hefur Orkustofnun ákveðið að framlengja frest til móttöku virkjunarhugmynda, að sinni um óákveðinn tíma.