Embætti ríkislögmanns hefur afhent ritstjórn Kjarnans stefnur sjö sjávarútvegsfyrirtækja á hendur íslenska ríkinu þar sem þau fóru fram á samtals 10,2 milljarða króna skaðabætur vegna fjártjóns sem þau töldu sig hafa orðið fyrir vegna makrílkvóta sem fór ekki til þeirra á árunum 2011 til 2018. Útgerðirnar ákváðu að höfða mál eftir að tveir dómar féllu í Hæstarétti í desember 2018 sem sögðu að ekki hefði verið rétt haldið á úthlutun á makrílkvóta. Alls hafa liðið tæplega níu mánuðir frá því að Kjarninn óskaði fyrst eftir gögnunum og þar til að þau fengust afhent.
Fyrirtækin sem stefndu ríkinu eru Ísfélag Vestmannaeyja, Eskja, Gjögur, Loðnuvinnslan, Skinney-Þinganes, Huginn og Vinnslustöðin.
Öll nema þau tvö síðastnefndu hafa nú dregið stefnur sínar til baka.
Upplýsingarnar birtar á vef Alþingis
Embættinu hafði verið gert að afhenda stefnurnar eftir að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafði komist að því, í úrskurði sem féll 1. apríl, að hagsmunir „almennings að aðgangi að upplýsingum um málatilbúnað einkaaðila á hendur íslenska ríkinu vegi í þessu tilviki þyngra en hagsmunir þeirra síðarnefndu af því að þær fari leynt.“ Áður hafði ríkislögmaður hafnað beiðni Kjarnans um aðgengi að stefnunum. Sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndar um upplýsingamál með áðurnefndum afleiðingum.
Í millitíðinni, þann 11. apríl, birtist helsta inntak stefnanna í fyrsta sinn opinberlega í svari Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, við fyrirspurn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar, á Alþingi. Í svarinu kom fram að heildarumfang stefnanna hafi numið 10,2 milljörðum króna auk þess sem að þær fóru fram á hæstu mögulegu vexti sem hefði þýtt nokkra milljarða króna kostnað í viðbót fyrir ríkissjóð, ef málin hefðu tapast.
Fimm af sjö hættu við
14. apríl rataði málið inn í sal Alþingis, og í ræður helstu ráðamanna, þar sem þeir ræddu áhrif COVID-19 faraldursins og um viðbrögð stjórnvalda við honum. Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra sagði þá að ef svo ólíklega færi að ríkið myndi tapa málinu þá væri það einfalt mál í hans huga að reikningurinn vegna þess yrði ekki sendur á skattgreiðendur. „Reikningurinn vegna þess verður þá að koma frá greininni. Það er bara svo einfalt,“ sagði hann.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagðist verða reið þegar „fyrirtæki í sjávarútvegi gera kröfu á ríkið upp á ríflega tíu milljarða vegna makrílúthlutunar.“ Hún hvatti útgerðirnar sjö í kjölfarið til að draga stefnur sínar til baka.
Daginn eftir greindu fimm af sjö útgerðum frá því að þær væru hættar við. Tvær, Vinnslustöðin og Huginn, sem bæði eru úr Vestmannaeyjum ætla hins vegar að halda málum sínum til streitu. Vinnslustöðin vill fá tæpan milljarð króna í skapabætur og Huginn, sem er að hluta til í eigu Vinnslustöðvarinnar, vill 839 milljónir króna.
Fengu Deloitte til að reikna út „hagnaðarmissi“
Í stefnunum er meðal annars farið yfir hvernig skaðabótakröfurnar voru reiknaðar út. Það var gert með því að fá endurskoðunarfyrirtækið Deloitte til að reikna út „hagnaðarmissi“ útgerðanna sjö. Við þann útreikning var stuðst við svokallaða jaðarframlegð makríls. Í hluta stefnanna er búið að strika yfir þá útreikninga sem stuðst var við í kröfugerðinni, en þeir eru sýnilegir í öðrum. Það var gert með þeim rökum að þar væri um að ræða „virkar viðskiptaupplýsingar“.
Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði, komst að þeirri niðurstöðu, með því að reikna út frá meintum hagnaðarmissi útgerðanna sjö, að hreinn hagnaður þeirra vegna makrílveiða væri 55,5 milljarðar króna. Þá niðurstöðu birti hann í grein á Kjarnanum 15. apríl síðastliðinn.
Í öllum málunum er Bjarna Benediktssyni eða Kristjáni Þór Júlíussyni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, stefnt fyrir hönd íslenska ríkisins.
Í stefnu Vinnslustöðvarinnar, annars þeirra útgerða sem ætla að halda áfram málarekstri sínum gegn íslenska ríkinu, kemur fram að Vinnslustöðin hafi verið í sambærilegu máli og Ísfélagið og Huginn þegar dómar Hæstaréttar féllu í desember 2018, þar sem krafist var viðurkenningar á skaðabótaskyldu. Í stefnunni segir að því „máli lyktaði með sátt við íslenska ríkið sem var gerð 28. maí 2019[...]Með sáttinni viðurkenndi íslenska ríkið að bera skaðabótaábyrgð á fjártjóni, sem stefnandi kynni að hafa beðið vegna þess að fiskiskipum stefnanda hafi á árunum 2011 til 2014 verið úthlutað minni aflaheimildum í makríl en skylt var skv. lögum“.
Í sáttinni kom þó fram fyrirvari íslenska ríkisins að með gerð hennar væri ekki „viðurkennt að stefnandi ætti fjárkröfu á hendur stefnda, heldur takmarkaðist sáttin við niðurstöður Hæstaréttar í sambærilegum málum. Ekki var viðurkennt að tjón hefði orðið og sérstaklega tekið fram að sáttin takmarkaði ekki varnir stefnda gagnvart hugsanlegum fjárkröfum að neinu leyti“.
Hægt er að lesa stefnurnar hér að neðan.
Stefna Vinnslustöðvarinnar 10. desember 2019.