Til stendur að leggja fyrir frekari efnahagsaðgerðir fyrir ríkisstjórnarfund á þriðjudagsmorgun. Samkvæmt heimildum Kjarnans verðum þeim sérstaklega beint að fyrirtækjum innan ferðaþjónustunnar sem hafa orðið fyrir algjöru tekjufalli. Mörg þeirra eru föst í þeirri stöðu að geta vart haldið áfram að greiða 25 prósent laun starfsmanna sinna sem eru á hlutabótaleiðinni, né sagt þeim upp vegna þess að fyrirtækin eiga ekki eigið fé til að borga uppsagnarfrest. Flestir viðmælendur Kjarnans segjast vissir um að hlutabótaleiðin verði framlengd með einhverjum breytingum.
Annar aðgerðapakkinn ríkisstjórnarinnar, sem kynntur var í síðustu viku, þótti heilt yfir valda miklum vonbrigðum. Umfang hans er að sögn ráðamanna um 60 milljarðar króna en uppistaðan í því er fyrirgreiðsla í formi stuðningslána og frestunar á skattgreiðslum af hagnaði sem gagnast helst mjög litlum fyrirtækjum með litla veltu, svokölluðum örfyrirtækjum.
Segja fjöldagjaldþrot nær óumflýjanleg
Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) skiluðu inn umsögn um síðasta aðgerðapakka sem birt var á mánudag. Þar segir að hlutabótaleiðin muni ekki duga fyrirtækjum í ferðaþjónustu sem standi frammi fyrir algjöru tekjufalli.
Fyrirtækin eigi við mjög alvarlegan lausafjárvanda að stríða og ljós sé að þau geta ekki greitt starfsfólki jafnvel hluta launa um margra mánaða skeið. „Af sömu orsökum er ljóst að fyrirtækin ráða ekki við að greiða starfsfólki fullan uppsagnarfrest eins og tilgangur laga um hlutabótaleiðina gerir ráð fyrir og félagsmálaráðherra og VMST hafa nýverið áréttað. Áframhaldandi áhersla á hlutabótaleiðina sem lausn á vanda ferðaþjónustufyrirtækja mun því gera það að verkum að lausafé þrýtur og fjöldagjaldþrot í greininni verða nær óumflýjanleg.“
SAF leggja því þunga áherslu á að aðgerðir stjórnvalda komi til móts við þessa stöðu hið fyrsta á þann hátt að losa fyrirtækin undan þeirri skyldu að greiða starfsfólki uppsagnarfrest. „Með þeim hætti má leysa bráðavanda fyrirtækjanna vegna launakostnaðar og skapa svigrúm til að vinna að lausnum varðandi annan kostnað fyrirtækja, s.s. fasteignagjöld og -skatta, kostnað vegna fjárfestinga, viðhalds búnaðar o.fl.“
Ekki eins og skopparabolti sem skoppar strax aftur upp
Í umsögninni segir að Ísland sé einstakur áfangastaður og mikilvægt sé að þegar þjóðir hætta að vera uppteknar við sóttvarnir og að bjarga mannslífum verði fyrirtækin tilbúin að þjónusta erlenda ferðamenn. „Það verður ekki gert ef aðgerðir stjórnvalda verða til þess fallnar að keyra fyrirtækin í gjaldþrot. Rétt er að vekja athygli á að flest fyrirtæki í ferðaþjónustu, eins og í atvinnulífi landsmanna almennt, eru einkafyrirtæki eða einkahlutafélög þar sem eigendur eru að mestu sjálfir í ábyrgð.“
Kalla eftir þolinmóðu fjármagni til langs tíma
SAF kallar því eftir að aðgerðir stjórnvalda tryggi sem hraðasta efnahagslega uppbyggingu og verðmætasköpun til að takmarka samfélagslegan kostnað til lengri tíma. „Skýrasta leiðin til þess er að tryggja að ferðaþjónusta verði til sem heildstæð atvinnugrein en ekki aðeins fyrirtæki á stangli í kjölfar fjöldagjaldþrota. Einnig er þörf á að þær taki mið af þeim aðgerðum sem helstu samkeppnislönd Íslands eru að grípa til að styrkja samkeppnisstöðu atvinnugreinarinnar þegar hagkerfi heimsins taka við sér á ný.
SAF leggja hér áherslu á að atvinnugreinin er í kapphlaupi við tímann. Greinin þarf þolinmótt fjármagn til langs tíma til að leggjast í var til lengri tíma svo fyrirtækin verði tilbúin að hefja starfsemi á ný og skapa verðmæti fyrir samfélagið strax og tækifæri gefst til.“