Mynd: Bára Huld Beck Lilja Alfreðsdóttir

Greiða á út styrki til einkarekinna fjölmiðla fyrir 1. september

Efnahags- og viðskiptanefnd vill afmarka það frelsi sem mennta- og menningarmálaráðherra hafði til að útdeila rekstrarstyrkjum til einkarekinna fjölmiðla með því að setja skilyrði fyrir þeim. Formaður Miðflokksins telur afgreiðsluna fráleita og veita ráðherranum heimild til „að verðlauna þá fjölmiðla sem kunna að vera ráðherra að skapi umfram aðra með vísan til fjölbreytileika.“

Efnahags- og viðskiptanefnd telur nauðsynlegt að afmarka heimild Lilju D. Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, til að ákveða hvernig greiðslu sérstaks rekstarstuðnings til einkarekinna fjölmiðla verði háttað. Greiða á styrkina út í síðasta lagi 1. september næstkomandi.

Þegar tilkynnt var um framlagið, sem á að nema 350 milljónum króna, átti Lilja að fá að útfæra hvernig þeim fjármunum yrði ráðstafað með því að semja reglugerð þess efnis. Stjórnvöld sögðu þá að gripið væri til aðgerðanna til að styðja við fjölræði og fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði. Það þurfi að tryggja einkareknum fjölmiðlum sérstakan rekstrarstuðning „á yfirstandandi ári, en þeir hafa tapað miklum tekjum á sama tíma og eftirspurn eftir þjónustu þeirra hefur aukist.“

Heimildir Kjarnans herma að hart hafi verið tekist á um málið við vinnslu þess. Hluti þingmanna Sjálfstæðisflokksins og þingmenn Miðflokksins eru mótfallnir þeirri aðferðarfræði sem ráðherrann vill innleiða varðandi styrkjakerfi einkarekinna fjölmiðla, og birtist í fjölmiðlafrumvarpi hennar sem situr fast í allsherjar- og menntamálanefnd. Sú aðferðarfræði snýst um að endur greiða ákveðið hlutfall af kostnaði við rekstur ritstjórna þeirra fjölmiðla sem uppfylla þau skilyrði að miðla fréttum og fréttatengdu efni.

Auglýsing

Vilji hluta þingmanna Sjálfstæðismanna hefur staðið til þess að styrkirnir yrðu fremur ákvarðaðir út frá greiddu tryggingagjaldi. Sá vilji birtist meðal annars í frumvarpi sem fjórir þeirra lögðu fram í desember síðastliðnum. Með þeim hætti myndi uppistaða styrkjanna fara til þriggja stærstu fjölmiðlafyrirtækja landsins: Árvakurs, Torgs og Sýnar. Með hinni leiðinni dreifast þeir víðar og þak er sett á greiðslur til stærstu fjölmiðlafyrirtækjanna. 

Skorður settar á hvernig ráðherra megi útdeilda styrkjunum

Í breytingartillögu efnahags- og viðskiptanefndar um þann hluta bandormsins svokallaða, frumvarps um margháttaðar lagabreytingar sem þarf að gera til að lögfesta annað aðgerðarpakka stjórnvalda vegna COVID-19, segir að nefndin telji „nauðsynlegt að tímabundin heimild ráðherra til greiðslu sérstaks rekstrarstuðnings til einkarekinna fjölmiða verði afmörkuð nánar“ en gert var í frumvarpinu. Það verði gert með bráðabirgðaákvæði sem bætt verði í lög um fjölmiðla. 

Í nefndarálitinu segir að það ákvæði feli í sér að kveðið verði á um skilyrði þess að geta notið sérstaks rekstrarstuðnings. Þannig megi fjölmiðill til dæmis ekki vera í vanskilum með opinber gjöld, skatta eða skattasektir og þær upplýsingar sem lagðar verða fram með umsókn um rekstrarstuðning þurfa að vera staðfestar af löggiltum endurskoðanda. „Í samræmi við framangreind skilyrði skuli ráðherra í reglugerð tilgreina sérstaklega hvaða upplýsingar skuli fylgja umsóknum fjölmiðla um rekstrarstuðning, þ.m.t. að umsóknum fylgi upplýsingar um greitt tryggingagjald, meðalfjölda stöðugilda, fjölda verktaka og heildarfjárhæð greiðslna til starfsmanna og verktaka vegna miðlunar á fréttum og fréttatengdu efni árið 2019.“

Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, var einn þeirra fjögurra þingmanna Sjálfstæðisflokks sem lagði fram tryggingagjaldsleiðarfrumvarpið í desember í fyrra.
Mynd: Bára Huld Beck

Við ákvörðun um fjárhæð sérstaks rekstrarstuðnings skuli meðal annars litið til launa, fjölda starfsmanna og verktakagreiðslna vegna miðlunar á fréttum og fréttatengdu efni á ritstjórnum árið 2019, útgáfutíðni og fjölbreytileika fjölmiðla. Endanlegt hlutfall skuli ráðast af fjölda umsókna og að setja skuli hámark á stuðning til einstakra fjölmiðla. Margt í þessum skilyrðum er samhljóma þeim sem sett voru fram í fjölmiðlafrumvarpi mennta- og menningarmálaráðherra, sem legið hefur óafgreitt í allsherjar- og menntamálanefnd frá því í desember 2019. 

Í tilkynningu sem mennta- og menningarmálaráðuneytið sendi út eftir kynningarfundinn um annan aðgerðarpakka ríkisstjórnarinnar þann 21. apríl, sagði að gert væri ráð fyrir því að fjölmiðlar myndu sækja um stuðning með formlegum hætti og stuðningurinn tæki mið af launakostnaði fjölmiðla vegna fréttamiðlunar. Þak yrði sett á fjárhæð styrkja til einstakra fjölmiðla, svo stuðningurinn nýtist bæði stórum og litlum miðlum.

Auglýsing

Úthlutun sérstaks rekstrarframlags á að fara fram eigi síðar en 1. september 2020. 

Sigmundur Davíð verulega ósáttur

Allir nefndarmenn í efnahags- og viðskiptanefnd skrifa undir nefndarálitið, þótt nefndarmenn úr röðum stjórnarandstöðuflokka geri það allir með fyrirvara. Sérstaklega er gert grein fyrir þeim fyrirvörum í álitinu sem birtist í kvöld. Þar kemur fram að Einn nefndarmaður, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins, gerir sérstakar athugasemdir við fyrirkomulag greiddra rekstrarstyrkja til fjölmiðla í fyrirvara sínum.

Sigmundur segir afgreiðslu þess þáttar frumvarpsins sem snýr að fjölmiðlum fráleita og „verulegum vafa undirorpið að hún geti talist til eðlilegra stjórnsýsluhátta.“

Hann telur mikilvægt að veita einkareknum fjölmiðlum stuðning og jafna stöðu þeirra gagnvart ríkismiðlinum RÚV en telur það að ráðherra fjölmiðlamála skuli „veitt heimild til að útdeila fjármagni til fjölmiðla nánast að geðþótta gengur gegn grundvallarviðmiðum um fjárreiður ríkisins og valdheimildir ráðherra. Annmarkar afgreiðslunnar eru slíkir að efast má um að forsvaranlegt sé að skrifa undir álitið.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði þann þátt frumvarpsins sem snúi að fjölmiðlum fráleita og veita ráðherra geðþóttavald.
mynd: Bára Huld Beck

Sigmundur telur viðbæturnar sem kynntar eru í áliti efnahags- og viðskiptanefndar síður en svo til þess fallnar að lagfæra málið. „Kvöð um hámarksstuðning gengur gegn markmiðinu um að vernda störf og vandaða „framleiðslu“ fjölmiðla. Heimild til ráðherra um að líta til fjölbreytileika fjölmiðla er algjörlega óútskýrð og getur orðið til þess að ráðherra telji sér heimilt að verðlauna þá fjölmiðla sem kunna að vera ráðherra að skapi umfram aðra með vísan til fjölbreytileika.“

Smári McCarthy, þingmaður Pírata, er á annarri skoðun. Hann segir að kostnaður lítilla fyrirtækja við að sækja fé í opinbera sjóði sé vitanlega hærri sem hlutfall af heildarveltu en hjá stærri fyrirtækjum, og því hefði verið gott að koma til móts við minni einkarekna fjölmiðla þar. „Þegar efnahagsáföll verða bitna þau alltaf mest á smæstu og verst settu aðilunum, sem jafnframt njóta síst góðs af eðlilegu árferði. Það væri því ágætis tilbreyting ef aðgerðir ríkisstjórnarinnar endurspegluðu áhyggjur af afkomu þeirra, frekar en að leggja alltaf aðaláherslu á stærri eða fjársterkari aðila sem hafa eðli málsins samkvæmt betri bjargir.“

Kjarn­inn er einn þeirra fjöl­miðla sem upp­fyllir þau skil­yrði sem sett eru fyrir stuðn­ings­greiðslum eins og frum­varpið er í dag.

Vilt þú vera með?

Frjálsir, hugrakkir fjölmiðlar eru ómetanlegir en ekki ókeypis. Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda og með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og við ætlum að standa vaktina áfram og bjóða almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Fyrir þá lesendur sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar