Hætti sem forstjóri Brims vegna Samkeppniseftirlitsins og upplifir ekki spillingu í sjávarútvegi
Guðmundur Kristjánsson segir að hann langi að berjast við Samkeppniseftirlitið en að skynsemin hafi sagt honum að gera það ekki. Hann sér ekki þá spillingu í sjávarútvegi sem hann les um í fjölmiðlum.
Guðmundur Kristjánsson, aðaleigandi Brims, segist hafa hætt sem forstjóri félagsins 30. apríl síðastliðinn vegna þess að Samkeppniseftirlitið hefði tilkynnt honum tveimur dögum áður að það ætlaði rannsaka meint yfirráð hans og tengdra félaga yfir Brim.
Hann segir að eftirlitið hafi verið að gera athugasemdir við stöðu mála hjá Brim alveg frá því að hann tók við forstjórastólnum í júní 2018. Guðmundur upplifir það þannig að Samkeppniseftirlitið sé að eltast við hann persónulega og hann langi til að berjast við það. En skynsemin hafi sagt honum að gera það ekki. „Það er ekki hægt að stöðva þróun fyrirtækis út af einum manni.“
Þetta kom fram í viðtali við Guðmund í Kastljósi í kvöld. Þar sagðist hann enn fremur hafa haldið að Samkeppniseftirlitið ætti að vera fyrir neytendur á Íslandi, ekki til að eltast við útflutningsfyrirtæki eins og þau sjávarútvegsfyrirtæki sem hann stýrir. „Ég hef aldrei skilið þetta af hverju samkeppniseftirlitið er að eyða svona mikilli orku í íslenskt útflutningsfyrirtæki.“
Guðmundur tjáði sig einnig um stefnur sjö útgerðarfélaga sem stefndu íslenska ríkinu og fóru fram á 10,2 milljarða króna vegna þess að þau töldu sig ekki hafa fengið úthlutað nægjanlegum makrílkvóta um nokkurra ára skeið. Eftir að málið komst í hámæli í síðasta mánuði drógu fimm útgerðanna stefnur sínar til baka. Guðmundur segir að málið hafi verið rætt ítarlega í stjórn Brim en að honum hafi ekki þótt skynsamlegt að höfða mál.
Aðspurður hvort hann teldi að það væri spilling í sjávarútvegi sagðist Guðmundur oft lesa það í fjölmiðlum. Hann upplifði hins vegar ekki spillingu í greininni. Flestir sem stýrðu útgerðarfélögum væru máttarstólpar í sínum samfélögum og gagnsæi ríkti um það hverjir héldu á nýtingarrétti, hvernig hann væri nýttur og hvernig þeir ráðstöfuðu arðinum af honum.
Lokuðu rannsókn og opnuðu rannsókn
Í gær var birt ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um samruna Brims og tveggja minni sjávarútvegsfyrirtækja, Kambs hf. og Grábrókar ehf. Tilkynnt hafði verið um kaup Brims á hinum síðarnefndu í október í fyrra. Þær voru báðar að stærstum hluta í eigu Hjálmars Þórs Kristjánssonar, bróður Guðmundar.
Með ákvörðuninni var rannsókn þess á þeim samruna lokið en tilkynnt var um aðra og mun stærri rannsókn á því hvort að þeir bræður, Guðmundur og Hjálmar Þór, og félög þeirra hefðu í raun yfirráð yfir einu stærsta sjávarútvegsfyriræki landsins, Brim í skilningi samkeppnislaga.
Niðurstaða frummats eftirlitsins er að slík yfirráð séu til staðar. Þ.e. að Útgerðarfélag Reykjavíkur, stærsti einstaki eigandi Brims, og tengdir aðilar hefðu stofnað til yfirráða í Brimi. Það hafi gerst í síðasta lagi 8. september 2019.
Samkeppniseftirlitið taldi kaup Brims á Kambi og Grábrók ekki kalla á frekari aðgerðir að sinni hálfu en boðaði þess í stað að það myndi hefja sjálfstæða rannsókn á því hvort að Útgerðarfélag Reykjavíkur og tengdir aðilar hefðu í raun myndað yfirráð í Brimi í skilningi samkeppnislaga, líkt og frummat þess hefði leitt í ljós.
Umræddir tengdir aðilar eru, samkvæmt frummati eftirlitsins, áðurnefnt Útgerðarfélag Reykjavíkur, Fiskitangi ehf., KG Fiskverskun og FISK- Seafood eignarhaldsfélag, sem í dag heitir RE-13 ehf.
Öll ofangreind félög eru að uppistöðu í eigu Guðmundar og Hjálmars Þórs. Í byrjun september í fyrra áttu bræðurnir báðir hlut í Útgerðarfélagi Reykjavíkur, sem hafði þá nýverið fest kaup á FISK-Seafood eignarhaldsfélagi. Guðmundur átti síðan Fiskitanga og Hjálmar átti KG fiskverkun.
Ekkert bendi til vatnskila í sameiginlegum hagsmunum bræðranna
Dagsetningin 8. september 2019 vísar til þess að þann dag keypti Útgerðarfélag Reykjavíkur Fisk-Seafood, sem átti 10,78 prósent hlut í Brimi, af Kaupfélagi Skagfirðinga. Það hafði keypt hlutinn að mestu af lífeyrissjóðnum Gildi nokkrum vikum fyrr eftir að sjóðurinn ákvað að selja sig út úr Brimi. Ástæða þess voru ítrekuð viðskipti Brims við stærsta hluthafa félagsins, Útgerðarfélag Reykjavíkur. Þann 8. september hvarf Kaupfélagið svo út úr hluthafahópi Brims jafn skjótt og það birtist þegar Útgerðarfélag Reykjavíkur keypti allan hlut þess á tæplega átta milljarða króna.
Eftir þessi viðskipti fór sameiginleg eignarhlutdeild félaga í eigu bræðranna Guðmundar og Hjálmars Þórs í Brimi í 49,29 prósent. Ef tekið var tillit til hlutafjárhækkunar í Brimi sem nota átti til að kaupa ákveðnar eignir af Útgerðarfélagi Reykjavíkur var samanlögð hlutdeild þeirra 52,76 prósent, samkvæmt Samkeppniseftirlitinu.
Að mati Samkeppniseftirlitsins væri ekkert sem benti til þess að „vatnskil hefðu orðið í viðskiptatengslum og sameiginlegum hagsmunum bræðranna Guðmundar og Hjálmars Þór Kristjánssona, enda þótt gripið hefði verið til ráðstafana til að breyta ásýnd tengslanna. Þá benti rannsókn Samkeppniseftirlitsins til þess að þótt einungis væri horft til hlutdeildar Útgerðarfélags Reykjavíkur, Fiskitanga, Guðmundar Kristjánssonar og FISK-Seafood eignarhaldsfélags í Brimi, þá kynni hún ein og sér að hafa verið nægjanleg til að viðhalda yfirráðum aðilanna.“
Þær ráðstafanir sem gripið var til, og Samkeppniseftirlitið taldi að hefðu breytt ásýnd tengsla bræðranna, voru framkvæmdar í desember 2019. Þá var greint frá því að Guðmundur og Hjálmar Þór hefðu rofið fjárhagsleg tengsl sín. Í því fólst að Útgerðarfélag Reykjavíkur keypti 33,3 prósent hlut KG fiskverkunar í eignarhaldsfélaginu Kristján Guðmundsson ehf., sem átti 37 prósent í Útgerðarfélagi Reykjavíkur.
Þessi gjörningur átti að aðskilja eignarhald bræðranna á hlutafé í Brimi.
Upplýstir um málið 28. apríl
Athugasemdir Brims og Útgerðarfélags Reykjavíkur vegna frummatsins bárust Samkeppniseftirlitinu 13. mars 2020. Þar var frummati Samkeppniseftirlitsins um stofnun yfirráða Útgerðarfélags Reykjavíkur og tengdra aðila í Brimi mótmælt.
Þau mótmæli hafa ekki talið mikið þar sem Samkeppniseftirlitið taldi ekki vera forsendur til að taka endanlega afstöðu til mögulegra yfirráða Útgerðarfélags Reykjavíkur og tengdra aðila í Brimi. Aðilar málsins voru upplýstir um þetta á símafundi 28. apríl, eða á þriðjudag í síðustu viku. Þar var þeim greint frá því að afstaða yrði tekin til þess hvort raunveruleg yfirráð hefðu skapast í Brim í sérstöku máli þar rannsakað yrði hvort að við mögulega myndun yfirráða í Brimi hafi verið framkvæmdur samruni af hálfu aðila í andstöðu við samkeppnislög. Í þeirri rannsókn verður aflað frekari sjónarmiða og gagna frá hlutaðeigandi aðilum.
Tveimur dögum síðar, 30. apríl, var greint frá því að Guðmundur Kristjánsson hefði sagt af sér sem forstjóri Brims. Hann situr þó enn í stjórn félagsins.
Sú útgerð sem heldur á mestu kvóta
Brim er sú útgerð sem heldur á mestum kvóta allra á Íslandi, eða 10,13 prósent, samkvæmt uppfærðum lista Fiskistofu um samþjöppun aflaheimilda frá 31. mars síðastliðnum. Útgerðarfélag Reykjavíkur, sem á 44,65 prósent hlut í Brim beint og í gegnum dótturfélag sitt RE-13 ehf, hefur fengið úthlutað 3,51 prósent af öllum aflaheimildum.
Til viðbótar heldur útgerðarfélagið Ögurvík, að fullu í eigu Brims, á 1,55 prósent af úthlutuðum kvóta. Þessi hópur útgerða sem tengjast Guðmundi er því með 15,19 prósent af úthlutuðum kvóta. Þá heldur KG Fiskverkun, að fullu í eigu Hjálmars Þórs, á 1,04 prósent alls kvóta.
Samkeppniseftirlitið telur að félög tengd bræðrunum Guðmundi og Hjálmari Þór haldi sameiginlega á um 16,91 prósent af heildaraflamarki miðað við þorskígildi, þar af 0,68 prósentustig krókaaflamark af heildaraflamarki miðað við 31. mars 2020.
Hámark þess sem tengdir aðilar mega halda á samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða er tólf prósent.
Unnið hefur verið að úrbótum um þann hluta laganna sem snýr að skilgreiningu á tengdum aðilum frá því í byrjun árs í fyrra. Verkefnastjórn var mynduð og frumvarp um hluta tillagna hennar kynnt í samráðsgátt stjórnvalda fyrr á þessu ári. Til stóð að leggja það fram á yfirstandandi þingi en það hefur nú verið tekið út af þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar vegna COVID-19. Hagsmunasamtök útgerða gagnrýndu frumvarpið harðlega, töldu það langt umfram efni og að það gengi gegn ákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu.
Lestu meira:
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
7. janúar 2023Dreifing Fréttablaðsins fer úr 80 þúsund í 45 þúsund eintök á dag eftir breytingarnar
-
7. janúar 2023Tæknispá 2023: Tími gervigreindar er kominn og samfélagsmiðlar verða persónulegri
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
4. janúar 2023Hálfgerð Eurovision-stigagjöf hjá matsnefnd Hörpu sögð óhefðbundin
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
1. janúar 2023Þrennt sem eykur forskot Íslands
-
30. desember 2022Verslun í alþjóðlegu umhverfi