Hvarf Anne Elisabeth Hagen (68 ára) í lok október árið 2018 er eitt umtalaðasta mannshvarf í sögu Noregs. Að minnsta kosti á síðari tímum. Anne Elisabet og Tom Hagen kynntust ung að árum og gengu í hjónaband innan við tvítugt. Þau eignuðust þrjú börn og eiga nokkur barnabörn. Hún sinnti börnunum og heimilinu en hann hefur lengi verið umsvifamikill í fasteignaviðskiptum og stofnaði árið 1992 ásamt fleirum raforkufyrirtækið Elkraft AS. Nafn hans hefur birst á listum yfir 200 efnuðustu menn Noregs (númer 172) en Hagen hjónin hafa aldrei verið áberandi og ekki borist á. Þau hafa um árabil búið í Fjellhamar, skammt frá Ósló.
31. október 2018
Um níuleytið að morgni 31. október 2018 hélt Tom Hagen frá heimili sínu til vinnustaðarins í Lørenskog, tæplega fjögurra kílómetra leið. Stundarfjórðungi síðar hringdi einn úr fjölskyldunni í Anne Elisabeth, símtalið var stutt og ekkert gaf til kynna að eitthvað óvenjulegt væri á seyði.
Rétt uppúr klukkan hálftvö kom Tom Hagen heim. Þá var eiginkonan horfin, hvolpur hjónanna innilokaður og á baðherberginu var bréf, skrifað á bjagaðri norsku. Þar var farið fram á níu milljónir evra (1.426 milljónir íslenskar) sem greiddar skyldu í rafmyntinni Monero. Engin leið var að hafa samband við mannræningjana nema með því að millifæra upphæðina sem krafist var.
Um tvöleytið hafði Tom Hagen samband við lögregluna og tilkynnti um hvarf eiginkonu sinnar. Lögreglan hóf þegar í stað rannsókn og yfirheyrði meðal annars nokkra iðnaðarmenn sem höfðu skömmu fyrir hvarf Anne Elisabeth unnið að viðgerðum á íbúðarhúsi Hagen hjónanna. Lögreglan hefur margoft lýst eftir manni sem sást á eftirlitsmyndavél við vinnustað Tom Hagen klukkan 7:36 að morgni 31. október, daginn sem Anne Elisabeth hvarf, sá maður hefur ekki gefið sig fram. Nokkrum mínútum síðar sást annar maður á sömu eftirlitsmyndavél, sá hefur ekki heldur látið heyra frá sér.
Fyrst greint frá málinu 9. janúar 2019
Þótt fólk í nágrenninu hefði orðið vart við að eitthvað væri á seyði við íbúðarhús Hagen hjónanna var það ekki fyrr en 9. janúar 2019 að ljóst var um ástæðuna. Þann dag hélt lögreglan fréttamannafund og greindi frá því að Anne Elisabeth Hagen væri horfin. Ástæða þess að fjölmiðlar höfðu ekki greint frá málinu var að lögreglan hafði hótað þeim öllu illa ef svo mikið sem stafkrókur birtist á prenti um hvarfið eða frá því yrði greint í ljósvakamiðlum. Á þessum fundi greindi lögreglan frá því að hún teldi að Anne Elisabeth hefði verið rænt og ræningjarnir hótað að lífláta hana ef lausnargjald yrði ekki greitt. Þegar fréttamenn spurðu hvers vegna lögreglan hefði nú valið að greina opinberlega frá hvarfinu var því til svarað að lögreglan vonaðist eftir ábendingum frá almenningi. Sama dag og áðurnefndur fréttamannafundur var haldinn óskaði fjölskylda Anne Elisabeth eftir að mannræningjarnir láti frá sér heyra og sýni fram á að hún sé á lífi og að allt sé í lagi með hana, eins og það var orðað.
Ýmislegt undarlegt
Í norskum fjölmiðlum hefur, af skiljanlegum ástæðum, verið fjallað mikið um hvarf Anne Elisabeth Hagen og þar hefur ýmislegt komið fram sem vekur spurningar. Það þykir til að mynda undarlegt að mannræningjunum virtist ekki liggja mikið á að fá peningana. Oftast vilja mannræningjar fá lausnargjaldið strax, áður en lögreglan kemst hugsanlega á sporið. Margir mánuðir liðu frá því að krafan um lausnargjald var endurnýjuð og þá var upphæðin allt önnur og lægri en í upphafi, eða 1,3 milljónir evra (206 milljónir íslenskar) í rafmynt. Lögreglan ráðlagði Tom Hagen að greiða ekki þetta lausnargjald. Hann ákvað eigi að síður að borga án þess að fá sannanir fyrir að kona hans væri á lífi. Þetta gerðist í ágúst 2019.
Ástæða þess að Tom Hagen var ráðlagt að greiða ekki lausnargjaldið var sú að lögreglan taldi þegar þarna var komið sögu að Anne Elisabeth væri ekki lengur á lífi.
Var hún myrt 31. október 2018?
Í byrjun september 2019 kom fram að lögreglan teldi að Anne Elisabeth hefði verið myrt á heimili sínu 31. október 2018. Þar hefði einn, eða fleiri verið að verki og líkið strax verið flutt á brott. 22. janúar á þessu ári tilkynnti lögreglan að mál Anne Elisabeth væri nú flokkað sem óupplýst morð. Þrátt fyrir þessa yfirlýsingu hafði lögreglan ekki lagt árar í bát. Sjónir hennar beindust nú að eiginmanni hinnar horfnu, Tom Hagen.
Tom Hagen handtekinn
Fyrir tæpum hálfum mánuði, að morgni 28. apríl, var Tom Hagen handtekinn þegar hann var á leið i vinnuna. Við handtökuna var honum tilkynnt að hann væri grunaður um að bera ábyrgð á dauða konu sinnar. Komið hefur fram að í húsi Hagen hjónanna hafði fundist blóð, merki um átök og spor eftir skó, sem ekki passa við skó sem voru á heimilinu. Það telur lögreglan benda til að fleiri en einn hafi verið að verki. Áður hafði komið fram að Anne Elisabeth hefði rætt um það við einn eða fleiri vini sína að hún íhugaði skilnað. Upplýst hefur verið að lögreglan hóf sumarið 2019 að fylgjast sérstaklega með Tom Hagen, hleraði síma hans og kom hlustunartækjum fyrir á heimili hans og vinnustað.
Grunaði að lögreglan hefði hann í sigtinu
Upplýst hefur verið að lögreglan hóf sumarið 2019 að fylgjast sérstaklega með Tom Hagen, hleraði síma hans og kom hlustunartækjum fyrir á heimili hans og vinnustað. Tom Hagen fékk veður af því að hann væri undir smásjá lögreglu, grunaður um morð á eiginkonu sinni. Hann fór margoft til lögreglu og vildi fá að vita hvort hann lægi undir grun. Svarið var ætíð hið sama, hann væri ekki grunaður. Þrátt fyrir þessi svör lögreglunnar beindust böndin í æ ríkari mæli að Tom Hagen.
Michael Green
Meðal þess sem komið hefur fram síðan Tom Hagen var handtekinn er að í ágúst í fyrra fékk Michael Green formaður danskra samtaka fyrrverandi félaga í mótorhjólasamtökum, TBM, tölvupóst frá ókunnum sendanda. Spurt var hvort samtökin, sem hefðu mikil sambönd, gætu aðstoðað við leitina að Anne Elisabeth Hagen. Michael Green hafði samband við Svein Holden, lögmann Tom Hagen og þeir tveir hittust í Ósló 29. ágúst. Tæpum mánuði síðar var Michael Green aftur á ferð í Ósló og hitti þá Tom Hagen sjálfan. Norska lögreglan hafði eftir fundinn samband við Michael Green og bað hann að lýsa hvernig Tom Hagen hefði komið honum fyrir sjónir. Ekki hefur verið upplýst hvað nákvæmlega var rætt á þessum fundi.
Norska blaðið VG (Verdens Gang) birti, eftir óþekktum heimildamanni, að Michael Green hefði verið mjög undrandi á mörgu því sem hann komst að á fundinum með Tom Hagen. Michael Green er sjálfur fyrrverandi félagi í glæpasamtökunum Hells Angels og Bandidos og þekkir mjög vel til vinnubragða „atvinnumanna“. Hann sagði norsku lögreglunni að hann teldi útilokað að einhverjir slíkir hefðu verið að verki „alvöru menn vinna ekki eins og þarna var lýst“ sagði Michael Green. Það sem vakti mesta undrun Michael Green var framkoma Tom Hagen. „Hann líktist ekki manni í sárum vegna horfinnar eiginkonu. Talaði um þetta eins og utanaðkomandi myndi kannski gera, án tilfinninga“ sagði Michael Green. Hann sagði jafnframt tilfinningu sína að fundurinn hafi verið „málamyndafundur“ sem engin alvara hefði fylgt. Þessi yfirlýsing og ýmislegt fleira sem Michael Green sagði styrkti til muna grun lögreglunnar um að Tom Hagen hefði óhreint mjöl í pokahorninu.
Tom Hagen látinn laus, annar maður handtekinn
Eins og áður var nefnt var Tom Hagen handtekinn 29. apríl og úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald. Áfrýjunarréttur felldi þann úrskurð úr gildi 7. maí en lögreglan áfrýjaði samstundis þeim úrskurði. Rúmum sólarhring síðar, 8. maí staðfesti Hæstiréttur Noregs úrskurð Áfrýjunarréttarins um að Tom Hagen skyldi látinn laus. Lögregla íhugaði að handtaka hann þegar eftir að honum hafði verið sleppt en ríkislögmaður lagðist gegn því. Slík handtaka gæti ekki farið fram nema ný gögn væru komin fram.
Fulltrúi lögreglu sagði úrskurð Hæstaréttar, um að Tom Hagen skyldi sleppt, vonbrigði. En sagði jafnframt að hann væri áfram grunaður og rannsóknin héldi áfram.
Síðdegis sl. fimmtudag 7. maí handtók norska lögreglan mann á fertugsaldri. Honum er gefið að sök að tengjast hvarfinu á Anne Elisabeth Hagen. Maðurinn er sagður þekkja Tom Hagen og kunnugur aðferðum við meðferð rafmyntar. Til stóð að leiða manninn fyrir dómara á morgun, 11. maí, en honum var sleppt úr varðhaldi í gærkvöldi, laugardag. Hann er þó áfram grunaður um aðild að hvarfi Anne Elisabeth Hagen.