Engin sátt um hlutdeildarlánin hjá stjórnarmeirihlutanum
Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, setti fram marglaga gagnrýni á hin svokölluðu hlutdeildarlán á þingi á föstudag. Formaður VR hefur sagt að ef frumvarpið verði ekki samþykkt, og banni á 40 ára verðtryggðum lánum komið á, séu lífskjarasamningarnir fallnir.
Í upphafi þingfundar á föstudag var tekist á um fundarstjórn forseta Alþingis. Stjórnarandstæðingar mættu hver á fætur öðrum og gerðu athugasemd við hvernig dagskrá þingsins þennan dag væri. Helst gerðu þeir athugasemdir við að frumvarp Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, um svokölluð hlutdeildarlán, væri síðast á dagskrá þennan dag, eða 16. mál.
Um væri að ræða umfangsmikið mál, sem hefði verið kynnt sem hluti af lífskjaramningsgerðinni í apríl í fyrra, en hefði ekki verið lagt fram sem frumvarp fyrr en á miðvikudaginn í síðustu viku, 14 mánuðum síðar og skömmu fyrir ætluð þinglok.
Frumvarp Ásmundar Einars er sannarlega stórt mál. Hlutdeildarlánin voru kynnt sem eitt af lykiltilögum starfshóps ráðherrans, sem leiddur var af Frosta Sigurjónssyni, sem lagðar voru fram í aðdraganda þess að skrifað var undir lífskjarasamninganna svokölluðu. Mikilvægi málsins fyrir hluta verkalýðshreyfingarinnar var undirstrikað í orðum Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, fyrr í þessum mánuði þegar hann sagði við Morgunblaðið að ef ekki yrði staðið við fyrirheit um að koma hlutdeildarlánunum og banni við 40 ára verðtryggðum lánum á, þá væru lífskjarasamningarnir fallnir, en þeir eiga að gilda fram í nóvember 2022. Sérstök forsendunefnd mun fara yfir það hvort forsendur samninganna séu enn til staðar í september næstkomandi.
Standi Ragnar Þór við þá hótun gætu því kjarasamningar stórs hluta íslensk vinnumarkaðar losnað rúmum tveimur árum áður en þeir eiga að renna út, í miðri djúpri efnahagskreppu.
Ríkið lánar vaxtalaust til 25 ára
Frumvarpið sem Ásmundur Einar lagði fram í síðustu viku felur í sér að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun fær heimild til að veita fyrstu kaupendum sem hafa tekjur undir ákveðnum viðmiðunarmörkum svokölluð hlutdeildarlán.
Lánin geta numið allt að 20 prósentum af kaupverði húsnæðis. Þau bera enga vexti og ekki er borgað af láninu fyrr en íbúð er seld. Hámarkslánstími hlutdeildarlána er 25 ár og að þeim tíma liðnum skal endurgreiða ríkinu lánið hafi íbúðin ekki verið seld.
Verði frumvarpið að lögum mun ríkissjóður því lána hluta landsmanna vaxtalaust fjármagn til að kaupa húsnæði, og verða þar með nokkurs konar „þögull meðfjárfestir“ þar til að 25 ár eru liðin, íbúðin er seld eða að viðkomandi lántaki ákveður að einhverjum ástæðum að endurfjármagna vaxtalausa lánið án þess að þurfa þess.
Lánin má einungis nota til að kaupa nýjar „hagkvæmar íbúðir“. Líkt og Kjarninn greindi frá í síðustu viku þá hefur þó enn ekki verið útfært endanlega hvernig hagkvæmar íbúðir verða skilgreindar af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
Í greinargerð frumvarpsins kom fram að heildarframboð nýrra íbúða árið 2018 hafi verið 1.520 íbúðir og af þeim megi flokka 18 prósent, alls 280 íbúðir, sem hagkvæmar. Í þessum tölum eru nýjar íbúðir í póstnúmerinu 101 undanskildar því þær eru of dýrar til að flokkast sem hagkvæmar íbúðir. Í áætluninni er gert ráð fyrir að árlegt framboð nýrra íbúða muni aukast um 20 til 80 prósent miðað við árið 2018.
„Líklegast er þó að umfangið verði um það bil 3,7 milljarðar kr. á ári, eða rétt rúmar 400 lán,“ segir enn fremur í greinargerð frumvarpsins.
Með ónot í maganum
Umræða um frumvarpið hófst loks seint á föstudag, eða nánar tiltekið klukkan 18:43, með því að Ásmundur Einar mælti fyrir frumvarpinu. umræður stóðu síðan til tæplega tíu á föstudagskvöld áður en að kosið var um að hleypa málinu til velferðarnefndar til frekari meðferða.
Á meðal þeirra sem tók til máls var Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður efnahags-og viðskiptanefndar. Í ræðu hans kom skýrt fram að því fer fjarri að eining sé innan stjórnarliðsins um hlutdeildarlánin.
Óli Björn sagði að á alla mælikvarða væri málið stórt. „Það er stórt fjárhagslega, við erum að tala um 40 milljarða eða svo á tíu árum. En það er líka stórt á þann mælikvarða að það getur haft veruleg áhrif á íbúðamarkaðinn og í rauninni hvernig hann þróast í náinni framtíð. Það er einmitt þess vegna sem ég vil kveða mér hér hljóðs og aðallega til að brýna háttvirta velferðarnefnd til þess að huga vel að því hvað er verið að gera hér. Það skal alveg viðurkennt og sagt hér að ég hef pínulítil ónot í maganum gagnvart þessu frumvarpi þegar kemur að þeim hraða sem mér virðist vera á frumvarpinu. Vegna þess að þetta er stórmál.“
Greiðslubyrði hækkar verulega
Óli Björn sagðist ekki í grundvallaratriðum vera ósammála þeirri hugmyndafræði sem að það kynni, í einhverjum undantekningartilfellum, að vera í einhverjum tilvikum skynsamlegt að ríkið veitti hlutdeildarlán. Það væru hins vegar atriði í frumvarpinu sem gerði athugasemdir við, þótt markmið þess væri gott.
Síðan hófst upptalning. Fyrst varaði Óli Björn eindregið við því að hlutdeildarlánin verði til 25 ára. Hann teldi skynsamlegra að þau væru til fimm ára með möguleika á framlengingu. „Það stingur mjög að það sé verið að lauma inn banni á lán sem séu lengri en til 25 ára,“ sagði Óli Björn. Það sé þá í fyrsta sinn sem slíkt yrði lögfest. Það vinni beinlínis gegn markmiði frumvarpsins, sem er að reyna að hjálpa tekjulágu fólki að geta eignast húsnæði. Mánaðarleg greiðslubyrði þessa hóps muni augljóslega hækka, og þar af leiðandi muni stærri hluti af ráðstöfunartekjum þessa tekjulága hóps fara í húsnæðiskostnað ef heimilaður lánstími er styttur úr 40 í 25 ár. „Sem hlutfall af útborguðum launum hækkar greiðslubyrðin upp í 39 prósent, tæplega 40 prósent, úr 29 prósentum. Þegar menn hafa þetta í huga þá hljóta menn að átta sig á því að það er verið að búa til mekanisma inni í þessu frumvarpi sem vinnur beinlínis gegn yfirlýstum tilgangi frumvarpsins. Sem var að létta undir með þeim sem höfðu lægri tekjurnar.“
„Fyrstur kemur, fyrstur fær“
Hann telur vafasamt að binda hlutdeildarlánin einungis við kaup á nýjum íbúðum. „Þetta þýðir háttvirtir þingmenn, í raun, að öll hlutdeildarlánin munu renna til þeirra sem búa hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég fullyrði það.“ Óli Björn sagðist fullyrða að á mörgum stöðum úti á landi verði ekki neinar nýjar íbúðir byggðar í nánustu framtíð.
Það væri rangt að skylda umsækjanda til að verja skattfrjálsum séreignarsparnaði sínum inn á íbúðalán, þótt öll fjárhagsleg skynsemi væri vissulega á þann veg að eyða séreigninni með þeim hætti. „Mér finnst fráleitt að ríkið skuli ætla sér að skylda einstakling til að verja sínum séreignarsparnaði með ákveðnum hætti líkt og gert er í þessu frumvarpi.“
Óli Björn telur hlutdeildarlánafrumvarpið ekki standast jafnræðisreglu stjórnarskráarinnar. „Ég sé ekki að í þessu frumvarpi sem liggur fyrir sé jafnræðisreglan tryggð. Þvert á móti. Það segir sig eiginlega sjálft að þegar um takmarkaða fjármuni er að ræða.[...]Það er alveg augljóst að sú staða getur komið upp að það eru mun fleiri sem óska eftir því að fá hlutdeildarlán, uppfylla öll skilyrði laganna til þeirra en munu ekki fá. En enginn veit hver, hvernig eða með hvaða hætti verður tekin ákvörðun um hver fær já og hver fær nei annað en að það er hægt að leiða líkur að því að það verði svona „fyrstur kemur, fyrstur fær“.
Gagnrýni frá Vinstri grænum líka
Á mánudag ræddi Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og formaður atvinnuveganefndar, líka hlutdeildarlánin í þingræðu með gagnrýnum hætti. Þar sagði hún að áhyggjur hennar lúti að því að hlutdeildarlán séu bundin við nýbyggingar. Það geti leitt til þess að ekki verði „möguleiki að fjárfesta í nýbyggingu á mörgum svæðum úti um allt land þar sem trúlega er ekki mikill grundvöllur fyrir því að fara að byggja slíkt húsnæði eða að viðkomandi einstaklingar hafi að eigin frumkvæði burði til þess að byggja sjálfir[...]Mér finnst að gæta verði jafnræðis hjá tekjulágu fólki, hvar sem það býr í landinu, gagnvart þessu úrræði, sem er vissulega mjög gott og þarft og er hluti af lífskjarasamningum.“
Ásmundur Einar sagði í svörum sínum að hann væri fylgjandi því að skerpt yrði á aðgerðum „gagnvart landsbyggðinni í húsnæðismálum og að það verði gert í þessu frumvarpi sem og öðrum sem tengist húsnæðismálum[...]ég er talsmaður þess að gera allt sem hægt er til að styrkja landsbyggðina í sessi og að byggt sé upp allt í kringum landið, það er ekki bara mikilvægt gagnvart landsbyggðinni heldur er það þjóðhagslega mikilvægt.“
Þegar frumvarpið var kynnt í síðustu viku birtist tilkynning á vef félags- og barnamálaráðuneytisins, þar sem haft var eftir Ásmundi Einari að það væri „virkilega ánægjulegt að hlutdeildarlánin séu orðin að veruleika.“
Ljóst er á umræðunum um málið, og gagnrýni stjórnarliða á það, að hlutdeildarlánin eru ekki enn orðin að veruleika þrátt fyrir að frumvarp um þau hafi verið lagt fram. Málið virðist, samkvæmt viðmælendum Kjarnans úr hópi þingmanna, þvert á móti eiga töluverðan veg eftir í að sátt ríki um að afgreiða það sem lög frá Alþingi.
Lestu meira:
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði
-
24. desember 2022Segja verðtryggða íbúðalánavexti mögulega vera orðna hagkvæmari en óverðtryggða
-
23. desember 2022Allir helstu lánveitendur búnir að hækka íbúðalánavexti eftir ákvörðun Seðlabankans
-
20. desember 2022Hvers vegna Efling þarf öðruvísi samning
-
17. desember 2022Ríkasta 0,1 prósentið skuldaði nánast ekkert en átti eignir upp á 330 milljarða
-
14. desember 2022Biðst afsökunar á að tilkynning um 30 prósent leiguhækkun hafi ekki verið nærgætnari
-
12. desember 2022Borgin eignast og endurselur 19 íbúðir af 81 í nýju fjölbýli í Laugarnesi
-
10. desember 2022Umdeilt leigufélag ratar enn og aftur í fréttir vegna frásagna af okri á leigjendum
-
30. nóvember 2022Leigufélagið Bríet gefur 30 prósent afslátt af leigu í desember