Talið er að alls séu 306 atvinnuhúsnæði nýtt undir óleyfisbúsetu á höfuðborgarsvæðinu öllu. Þar af eru flest í Reykjavík, eða 130.
Þetta kemur fram í nýjum tölum sem Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur tekið saman fyrir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) og Kjarninn hefur fengið.
Samkvæmt svari sem Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, veitti við skriflegri fyrirspurn á Alþingi í upphafi júnímánaðar er áætlað að um fjögur þúsund manns hafi búið í atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt nýlegri endurskoðun á tölum sem safnað var í vettvangskönnun árið 2017. Í þeirri könnun var áætlað að 312 atvinnuhúsnæði væru nýtt undir óleyfisbúsetu. Fjölgun á slíkri nýtingu á atvinnuhúsnæði var 84 prósent frá árinu 2008. Áætlað var að 3.646 manns byggju í slíku húsnæði árið 2017, þar af 860 börn.
Kastljós eftir bruna
Óboðlegar húsnæðisaðstæður fjölda manns á Íslandi, sem búa annað hvort í atvinnuhúsnæði sem er ekki ætlað til búsetu eða í íbúðarhúsum sem uppfylla ekki skilyrði sem gerð eru til slíks, hafa verið mikið í umræðunni síðustu daga eftir að eldsvoði á Bræðraborgarstíg 1 leiddi til þess að þrír íbúar í húsinu létust.
Grunur leikur á að brunavörnum í húsinu, þar sem leigð voru út 18 herbergi og ein tveggja herbergja íbúð að mestu til erlends verkafólks, hafi verið ábótavant en í alls voru 73 einstaklingar skráðir með lögheimili þar.
Athugasemdir voru gerðar við bágborið ástand hússins í kjölfar umfjöllunar Stundarinnar um það í desember 2015. Samkvæmt frétt RÚV frá því í upphafi viku var þeim athugasemdum ekki svarað og þeim ekki fylgt eftir.
Þess í stað höfðu eigendur hússins óskað eftir því að fá að breyta fyrstu hæð Bræðraborgarstígs 1, sem er skráð sem leikskóli og þar af leiðandi atvinnuhúsnæði. í litlar íbúðir og gistiheimili. Sú umsókn hafði ekki verið afgreidd hjá Reykjavíkurborg þegar húsið brann, og fólkið lést.
Farið í átak og störfum fjölgað á Sauðárkróki
Ásmundur Einar fól HMS í lok maímánuðar síðastliðins að fara í sérstakt átak á sviði brunamála. Í átakinu felast ýmsar aðgerðir. Ein þeirra felur í sér að fjölga starfsmönnum sem sinna brunavörnum. Sú fjölgun verður öll á starfsstöð HMS á Sauðárkróki, þar sem brunavarnaeftirlit stofnunarinnar verður staðsett, þar sem átta ný störf verða til.
Í kjölfar brunans á Bræðraborgarstíg fundaði HMS með með slökkviliðsstjóranum á höfuðborgarsvæðinu Jóni Viðari Matthíassyni og Nikulási Úlfari Mássyni, byggingarfulltrúa í Reykjavík þar sem farið var yfir stöðu brunaeftirlits og brunavarna.
Í tilkynningu sem send var út í kjölfar þess fundar sagði meðal annars: „Samhljómur var á fundinum um mikilvægi brunavarna og að fullt tilefni sé til að vinna saman að frekari úrbótum á regluverki og verklagi. Þá var rætt að fyrirhuguð skráning leigusamninga væri mikilvægt skref og samkeyrsla leiguskrár við lögheimilisskráningar. Einnig voru ræddar auknar heimildir til slökkviliða og byggingafulltrúa við eftirlit og aukið samstarf við tryggingafélög. Þá kom fram að nýta mætti árangur í öðrum málaflokkum líkt og umferðaröryggi þar sem gengið hefur vel að draga úr alvarlegum slysum með samstilltu átaki. Einnig var rætt að leggja þyrfti áherslu á að byggingaröryggisgjaldið sem innheimt er af ríkinu skili sér til brunavarna.“
Næstu skref í kjölfar fundarins yrðu að hefja vinnuna og fá fleiri aðila að borðinu til að ræða úrbætur. Sérstaklega yrði horft til Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og félagsmálaráðuneytisins en Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra lýsti því yfir á þriðjudag að hann vilji skoða lagabreytingar til að efla brunaeftirlit.