Þegar bandaríska dagblaðið New York Times greindi frá því í ágúst í fyrra að Donald Trump hefði lýst yfir að Bandaríkin vildu kaupa Grænland af Dönum héldu margir að forsetinn hefði sagt þetta í gríni. Svo var hins vegar ekki og forsetinn staðfesti það í sjónvarpsviðtali. Sagði slíka sölu einfaldlega fasteignaviðskipti og sala á Grænlandi myndi spara Dönum mikið fé. Eftir að Mette Frederiksen forsætisráðherra sló þessa hugmynd Donald Trump útaf borðinu hætti forsetinn við Danmerkurheimsókn sína. „Fór í fýlu,“ sögðu dönsk dagblöð.
Þótt Bandaríkjaforseta hafi ekki orðið að ósk sinni varðandi „fasteignaviðskiptin“ er áhuginn á Grænlandi enn til staðar. Í apríl á þessu ári var tilkynnt að Bandaríkin hefðu ráðstafað rúmum 12 milljónum dollara (1700 milljónum íslenskum) til ýmissa verkefna á Grænlandi. Þetta var gert í tengslum við opnun bandarískrar ræðisskrifstofu í Nuuk, sem var opnuð 10. júní sl.
Danskir fjölmiðlar hafa fjallað ítarlega um þessi mál og stjórnmálaskýrendur þeirra eru allir sammála um að tilgangur Bandaríkjanna sé að „bæta andrúmsloftið“ eins og það er orðað og reyna að hindra aukin samskipti Grænlendinga við Rússa og Kínverja.
Vilja nú vingast við Færeyinga
Í liðinni viku var Carla Sands sendiherra Bandaríkjanna í Danmörku í nokkurra daga heimsókn í Færeyjum. Færeyskir fjölmiðlar greindu ítarlega frá heimsókn sendiherrans sem, auk þess að skoða eyjarnar, hitti færeyska ráðamenn. Vitaskuld er sendiherranum heimilt að ræða við hvern sem er, en ekki um hvað sem er. Til dæmis ekki um varnar- og öryggismál. Slíkt ber að fara eftir formlegum leiðum, í slíkum tilvikum eru það danska utanríkisráðuneytið, og varnarmálaráðuneytið, sem málið heyrir undir. Carla Sands sendiherra kærði sig kollótta um slíkt og hafði ekki samráð við dönsk stjórnvöld vegna þessara viðræðna.
Um hvað var rætt
Bandaríski sendiherrann hefur lítt eða ekki tjáð sig um Færeyjaheimsóknina umfram að segja að það sé fallegt í Færeyjum og fólkið viðkunnanlegt. Færeyskir stjórnmálamenn, þeir sem ræddu við sendiherrann, hafa ekki verið jafn fámálir.
Jenis av Rana, utanríkismálastjóri færeysku landsstjórnarinnar sagði í viðtölum, við færeyska og danska fjölmiðla, að viðræðurnar hafi ekki beinlínis snúist um hernaðarsamvinnu Færeyja og Bandaríkjanna en hins vegar um aukna samvinnu, svona almennt, eins og utanríkismálastjórinn komst að orði. Hann nefndi í því sambandi færeyska sendiskrifstofu í Washington. Færeyski fréttamiðillinn In.fo greinir frá því að Carla Sands hafi lagt áherslu á að Færeyjar séu vel staðsettar með tilliti til Norðurskautssvæðisins. Þess vegna hafi Bandaríkin lýst yfir áhuga á að nota færeyskt hafsvæði. „Þeir eru mjög áhugasamir að gera Færeyjar að einskonar miðstöð fyrir bandaríska flotann,“ sagði Jenis av Rana í viðtali við In.fo.
Carla Sands ræddi einnig við færeyska stjórnmálamenn um samvinnu varðandi 5G háhraðatenginguna, möguleikana á bandarískri ræðisskrifstofu í Færeyjum og samvinnu á sviði menntunar og rannsókna. Svipaðar áherslur og Bandaríkjamenn hafa viðrað við Grænlendinga.
Umhugsunarefni
Danskir hernaðarsérfræðingar segja þá staðreynd að Bandaríkjamenn ræði varnar- og öryggismál við Grænlendinga og Færeyinga, án þess að Danir komi þar nærri, sé umhugsunarefni.
„Er ætlun Bandaríkjamanna að etja okkur í ríkjasambandinu (Grænlandi, Færeyjum og Danmörku) saman?“ Þessa spurningu lagði blaðamaður dagblaðsins Berlingske fyrir Steen Kjærgaard hernaðarsérfræðing og yfirmann hjá danska varnarmálaráðuneytinu. Hann svaraði því til að Bandaríkin hefðu engan hag af því að skapa slíkan klofning. Bandaríkjamönnum stendur stuggur af hernaðarbrölti Rússa ekki síst auknum umsvifum þeirra á Norður-Atlantshafi. Einkum aukinni umferð kafbáta á þessu svæði. Steen Kjærgaard segist í áðurnefndu viðtali ekki telja að Bandaríkin hafi áhuga á að koma upp flota- eða herstöð í Færeyjum. „Þótt Bandaríkin séu stór og sterk geta þau ekki verið alls staðar. Tilgangur þeirra með viðræðum við Færeyinga og Grænlendinga er að mínu mati sá að þrýsta á Dani um aukið eftirlit á dönsku hafsvæði,“ sagði Steen Kjærgaard.