Eftir að endanleg ákvörðun hafði verið tekin um að fresta Ólympíuleikunum, viðburði sem aðeins heimsstyrjaldir hafa haggað fram til þessa, sagði forseti alþjóða Ólympíunefndarinnar að Ólympíueldurinn frægi yrði „ljósið við enda ganganna," og vísaði þar væntanlega í heimsfaraldur kórónuveiru sem heimsbyggðin fetar sig nú gegnum í sameiningu. Afreksfólk hefur ár í viðbót til að undirbúa sig og yfirvöld í Japan bæta á sig kostnaði vegna seinkunarinnar. Allir halda þó haus enda mikið í húfi.
Þegar tilkynnt var að Tókýó í Japan yrði vettvangur Ólympíuleikanna í ár voru fagnaðarlæti japönsku fulltrúanna ósvikin. Þeir grétu og hlógu til skiptis, enda hafði Tókýó sótt um að halda leikana 2016 en laut það skiptið í lægra haldið fyrir Ríó í Brasilíu. Í þetta skipti skyldi Tókýóborg og Japan baða sig í athygli heimsins.
Leikarnir áttu að fara fram 24. júlí til 9. ágúst en hefur verið frestað um ár og hefjast þess í stað 23. júlí 2021 og lýkur þann 8. ágúst. Ef ekki tekst að halda leikana þá, ef kórónuveiran verður enn of mikil ógn, verður hætt við leikana. Enginn vill þó alveg hugsa þá hugsun til enda.
Ólympíuleikar eru engin venjuleg íþróttakeppni. Ekkert er til sparað, sýningin á alltaf að vera stórkostleg og leitast í við að toppa síðustu leika. Valið á borg fyrir Ólympíuleika byggir á mati valnefndar á kynningum borganna. Því stórfenglegri sem kynningin er - því meiri líkur á að hljóta hnossið.
30 milljarðar króna í umsóknir
Tókýó varði 150 milljónum dala í að reyna að fá að halda Ólympíuleikana 2016 eða sem nemur ríflega 20 milljörðum króna. Í seinna skiptið, þegar sótt var um leikana 2020, voru 75 milljónir dala, um tíu milljarðar króna, settir í kynninguna.
Árið 2013, þegar ákveðið var að Tókýó fengið leikana í ár, höfðu japönsk yfirvöld þannig þegar varið sem nemur 30 milljörðum króna til verkefnisins.
En sú upphæð er þó bara dropi í hafið miðað við hvað það kostar að byggja Ólympíuþorp, leikvanga og almennt að styrkja innviði landsins til að ráða við svona mót, undirbúa það og halda sjálfa leikana.
Skipuleggjendur í Japan hafa sagt að Ólympíuleikarnir í Tókýó, sem hefðu átt að vera í gangi þessa dagana en hefur verið frestað um eitt ár vegna kórónuveirunnar, myndu hafa kostað 12,6 milljarða dala. Í skýrslu frá ríkisendurskoðanda í Japan sem út kom í lok síðasta árs kom þó fram að nær væri að kostnaðurinn væri tvöföld sú tala.
Líklega verður ekki hægt að leggja fyllilega mat á kostnaðinn við að fresta leikunum en áætlað hefur verið að það geti kostað á bilinu tvo til sex milljarða dala til viðbótar við upphaflegan kostnað.
Heildarkostnaður fyrir japönsku Ólympíunefndina og japanska skattgreiðendur gæti því hlaupið á bilinu 15 til 30 milljörðum dala. Það eru svo háar tölur að allar skatttekjur íslenska ríkisins dygðu aðeins fyrir um tæplega hálfum Ólympíuleikum, miðað við lægsta mögulega kostnað.
Er eitthvað upp úr þessu að hafa?
Ólympíuleikar eru viðburður af þeirri stærðargráðu að þeir hafa gjarnan orðið umfjöllunarefni hagfræðinga, sem reyna að rýna í tölur og skoða ávinning og ábata af leikunum.
Í sem stystu máli virðast ansi margir hafa komist að þeirri niðurstöðu að áhrif Ólympíuleikanna séu síður en svo jákvæð fyrir efnahag þeirra borga sem halda þá. Skammtímaáhrif eru einhver, til dæmis fjölgar störfum mjög mikið til skamms tíma, en til lengri tíma sitja borgir gjarnan uppi með skuldahala og ógnarháan rekstrarkostnað lítið notaðra mannvirkja.
Ríó í Brasilíu situr uppi með verulegar skuldir vegna leikanna 2016 og hefur verið í vandræðum með að kosta viðhald á öllum þeim stóru íþróttamannvirkjum sem byggð voru fyrir leikana. Rýnt hefur verið í tölur eftir leikana í London 2012 en þar hefur komið í ljós að aðeins 10 prósent þeirra sem fengu atvinnu tengda Ólympíuleikunum í borginni voru atvinnulaus áður. Það þýðir að ekki var um að ræða ný störf nema að litlu leyti.
Almennt hafa borgir ekki komið sérlega vel út úr því fjárhagslega að halda Ólympíuleika vegna þess sligandi kostnaðar sem fylgir mannvirkjunum sem byggð eru fyrir leikana. Ávinningur er þó gjarnan talinn felast í aukinni umferð ferðamanna sem vilji heimsækja Ólympíuborgirnar í kjölfar leikanna, sem þó er mikil óvissa um varðandi leikana 2021. Einnig er óvíst hvort hægt verður að taka við öllum þeim fjölda áhorfenda sem vanalega sækja leikana.
Aðalmálið er þó heiðurinn sem borgunum hlotnast að vera valdar, en hann er erfitt að meta til fjár. Því þrátt fyrir gríðarlegan kostnað þá má líka að segja að gleðin sem leikarnir færa sé ekki þess eðlis að hægt sé að setja á hana verðmiða.
Kasólétt 2020 en í keppnisformi 2021
En þótt sýningin sé gjarnan mikilfengleg og hvergi sé til sparað þá snýst þetta auðvitað ekki bara um peninga. Það eru íþróttahetjurnar sem eru í forgrunni.
Fyrir sumt afreksfólk er það óvart bara kærkomið að fresta leikunum. Ástralska fimmþrautarkonan og gullverðlaunahafi í sinni grein á síðusu Ólympíuleikum, Chloe Esposito, er til dæmis kasólétt og hefði verið fjarri góðu gamni í sumar en eygir von um að vera komin í keppnisform fyrir leikana 2021.
Hún er því meðal þeirra íþróttamanna sem er bara frekar ánægð með frestunina, af skiljanlegum ástæðum.
Fyrir þá íþróttamenn sem ætluðu sér að hætta eftir leikana í ár, hefðu þeir verið haldnir á réttum tíma, þýðir frestun leikanna í einhverjum tilvikum að þeir hætta keppni áður en leikarnir eiga sér stað. Treysta líkama sínum einfaldlega ekki til þess að fara í gegnum ár í viðbót af ströngum æfingum.
Biles veit ekki hvort hún verður enn á toppnum 2021
Fáir íþróttamenn komu sér jafn rækilega fyrir í hjörtum áhorfenda á Ólympíuleikunum í Ríó 2016 og fimleikastjarnan Simone Biles. Hún kom heim með fjögur gull um hálsinn og eitt brons. Biles hefur mætt í nokkur viðtöl í heimalandi sínu Bandaríkjunum undanfarið til að ræða Ólympíuleikana. Hún ætlar sér á leikana 2021 en hún er þó ekkert endilega viss um að hún nái að vera enn á toppnum á leikunum á næsta ári, enda verður hún þá orðin 24 ára. Þótt það sé almennt ekki talinn hár aldur er það í hærra lagi fyrir fimleikakonu í fremstu röð.
„Þetta er viðkvæmt málefni,” segir Biles en brosir þó út í annað í viðtali sem birt var á Instagram-síðu Ólympíunefndarinnar spurð að því hvort hún ætli sér að ná jafnlangt á leikunum 2021 og hún gerði í Ríó 2016.
„Ég hreinlega veit ekki hvort ég verð enn á toppnum eftir heilt ár í viðbót af æfingum,” segir Biles. Hún hefur áður talað um að líkami hennar þoli ekki álagið sem fylgir fimleikaþjálfun mikið lengur. Engu að síður æfir hún af kappi fyrir Ólympíuleikana 2021.
Biles viðurkennir að það hafi verið óþægileg tilfinning að þurfa að hætta skyndilega að æfa þegar heimsfaraldurinn stóð sem hæst og fimleikasalnum var lokað. Engar undanþágur voru fyrir Biles frekar en aðra meðan öllum íþróttamannvirkjum var lokað í sjö vikur. Öll hennar Ólympíugull gátu ekki keypt neinn aðgang umfram hina, hún þurfti að finna ýmsar leiðir til að halda sér í formi líkt og aðrir. Grunnformið vissulega ögn betra en hjá flestu fólki.
Æfa miðað við að leikarnir verði haldnir
„Við erum með stífa áætlun núna. Það var erfitt að byrja að æfa fyrst aftur eftir að fimleikasalurinn opnaði. Við byrjuðum hægt en erum komin á fullan skrið að nýju og ég mun auka við æfingarnar jafnt og þétt eftir því sem líður á árið. Við vitum auðvitað ekki alveg hvernig þessir leikar verða eða hvort þeir verða haldnir en við æfum samt miðað við að þeir verði, getum ekki annað. Ég er búin að leggja of mikið á mig til að yfirgefa íþróttina núna,” segir Biles.
Með henni líkt og fleirum blundar efi eða kannski frekar meðvitund um að sú staða geti komið upp að leikarnir verði alls ekki haldnir 2021 heldur. Að spá fyrir um það er þó vonlaust. Enginn getur vitað hvernig staðan á heimsfaraldri kórónuveirunnar verður í júlí 2021 og ekkert annað að gera en að undirbúa sig fyrir Ólympíuleikanna miðað við að þeir verði haldnir að ári. Kannski verður Ólympíueldurinn ljósið við enda Covid-ganganna.