Þegar skólastjóri einn í San Francisco frétti af því að foreldrar nemenda hefðu reynt að bjóða vinsælum kennurum skólans störf við sína eigin örskóla ákvað hún að samhliða fjarkennslu verði nemendum boðið að hittast í litlum hópum utandyra, þrátt fyrir að yfirvöld í ríkinu boði að kennt skuli gegnum netið en skólarnir sjálfir ekki opnaðir. Þetta gerir hún til að reyna að hindra brottfall úr skólanum.
Aukin útbreiðsla kórónuveirunnar í Bandaríkjunum hefur gert það að verkum að skólayfirvöld í grunn- og gagnfræðaskólum í mörgum ríkjum hafa tekið ákvörðun um að kennsla í haust fari alfarið fram gegnum netið, í það minnsta fyrri hluta annarinnar en sums staðar verða skólar ekki opnaðir fyrr en um áramót í fyrsta lagi. Ekki er þó alveg ljóst hvernig opnun skólanna verður háttað, hvernig verður kennt, hve margir mega vera í stofu eða hvort fjárveitingar fást til að ráða fleiri kennara til að hægt sé að kenna færri nemendum í einu og halda uppi smitvörnum. Mikil óvissa ríkir og foreldrar kannanir hafa sýnt að margir foreldrar eru smeykir við að senda börn sín í skóla meðan kórónuveirufaraldur er enn í gangi. En þeim finnst heldur ekkert spennandi að þau fái ekki að læra nema í gegnum netið.
Nýjar leiðir í kennslu að frumkvæði foreldra
Öll þessi ringulreið hefur orðið til þess að foreldrar leitast við að finna nýjar leiðir til að styðja við nám barna sinna utan skólakerfisins. Svokallaðir skólahópar (e. School pods) og örskólar (e. Microschools) hafa sprottið upp í mörgum ríkjum á síðustu vikum. Hugmyndin að baki þeim er að kenna börnum heima í stað þess að senda þau í fjarkennsluna sem ríkisskólarnir bjóða upp á. Þróunin er nokkuð hröð og áhuginn virðist mikill, ótal hópar hafa verið stofnaðir á samfélagsmiðlum þar sem foreldrar reyna að finna lausnir í sameiningu og ná saman um stofnun smærri hópa eða lítilla foreldrarekinna skóla. Nokkur fyrirtæki hafa líka orðið til á skömmum tíma sem hafa þróað nokkurs konar leitarvélar til að hjálpa foreldrum við að koma börnum sínum í réttan hóp og bjóða einnig upp á hugbúnað sem aðstoðar við skólahaldið.
Ótti við einangrun og lélega kennslu
Það sem rekur foreldra í Bandaríkjunum af stað í þessa vinnu eru áhyggjur af því að börn þeirra einangrist um of, fái ekki nægilega félagslega örvun og læri ekki samskipti á sama hátt og ef þau færu í skóla í raunheimum, þegar þeim er kennt svo lengi gegnum fjarkennslu. Þá snúa áhyggjurnar einnig að gæðum kennslu gegnum fjarfundabúnað dag eftir dag.
Ólíkt heimakennslu (e. Home schooling) þá er hugmyndin með skólahópunum og örskólum að samnýta kennslukrafta, þannig að til dæmis geti eitt foreldri fjórum til átta börnum í einu í sama skólahópnum eða ráðinn verði einkakennari til að kenna hópnum. Þannig verði til litlir örskólar inni í hverfum sem börnin gangi í í stað þess að fara í sinn gamla skóla aftur í haust. Foreldrar deila svo kostnaði við það að koma upp aðstöðu, greiða laun kennara ef sú þjónusta er keypt, kaupa námsgögn og fleira.
Skólastjórinn í San Francisco sem minnst var á í upphafi greinarinnar taldi að foreldrar hefðu nokkuð til síns máls og vill því skipuleggja skólahópa á vegum skólans frekar en að þeir verði til hjá foreldrum. Þannig sé hægt að sinna félagslega þættinum samhliða fjarkennslunni og börnin einangrist síður. Rooftop-skólinn ætlar því að bjóða upp á slíka hópa í þeirri von að foreldrar ákveði að halda börnum sínum í skóla í stað þess að koma þeim í skólahóp eða örskóla. Skólastjórinn, Nancy Bui, er nefnilega sannfærð um að það verði aðeins börn þeirra vel stæðu sem hafi kost á því að komast í slíka hópa, brotthvarf úr skólanum yrði því til að minnka fjölbreytnina, og það vill hún ekki. Þá vill hún vitanlega ekki missa góða kennara, og greip því til sinna ráða þegar foreldrar reyndu að bjóða kennurum ný störf við einkakennslu í örskóla. Foreldrarnir höfðu meira að segja leigt íbúð til að nota undir kennsluna.
Ekki skóli fyrir alla
Fræðimenn í menntavísindum hafa svipaðar áhyggjur og benda á að líkur séu til þess að svona hópar verði aðeins fyrir þá sem vel standa fyrir, bæði fjárhagslega og félagslega.
Börn sem nú þegar eru jaðarsett af einhverjum ástæðum eða eiga erfitt uppdráttar í skóla eru ekki talin líkleg til að eiga gott aðgengi að skólahópum eða vera vel tekið í örskóla sem foreldrar stýra. Þetta eru til dæmis börn með hegðunarvandamál, fatlanir eða námsörðugleika, líkt og bent er á í grein New York Times um málið.
Þá er talin hætta á að hópar verði einsleitir þegar horft er til stöðu í samfélaginu. Í grein Bloomberg er bent á að t.d. í fínni hverfum í San Francisco sé verð fyrir það að vera með barn í skólahóp eða örskóla á bilinu 1.200 dalir upp í 2.500 dali eða sem nemur 160.000 til 340.000 krónum á mánuði. Það gefur auga leið að börn sem koma frá tekjulitlum heimilum geta ekki tekið þátt. Sums staðar mun þó kostnaður vera lægri, þó ekki mikið lægri en sem nemur um 80 þúsund krónum á mánuði.
Flótti úr ríkisskólum gæti skapað fjárhagsvanda
Á bak við þau fyrirtæki sem bjóða þjónustu fyrir skólahópana og örskólana eru gjarnan foreldrar, sem sjálfir hafa verið að vandræðast með hvað eigi að gera í skólamálum barna sinna. Áhyggjur foreldranna eru skiljanlegar og margir telja sig standa frammi fyrir vonlausum valkostum. Enginn vill að barnið sitt einangrist félagslega, það gæti haft slæm áhrif á það fyrir lífstíð. En þó svo að skólarnir opni þegar líður á önnina, þá spyrja foreldrar sig líka: vil ég senda barnið mitt í skólann, er það öruggur staður útfrá sóttvörnum? Klemma foreldra hefur því leitt þá að þessari lausn, að kenna börnum í smærri hópum. En þeir sem reka þessar skólahópaleitarvélar vilja gjarnan vinna með skólayfirvöldum, frekar en að flótti verði úr skólakerfinu. Óvíst er þó nákvæmlega með hvaða hætti það verður, en mögulega er hægt að finna lausnir í sameiningu.
Til mikils er að vinna fyrir skólana að hafa hraðar hendur og forða því að börn flykkist úr skólunum. Í mörgum ríkjum fylgir fjármagn hverju barni og því minnka framlög til þeirra skóla sem fækkar í.
Bent hefur verið á að nær væri að auka framlög til skólanna svo þeir geti ráðið fleiri kennara og jafnvel bætt við sig húsnæði til að geta boðið kennslu í smærri hópum. Þannig verði hægt að gæta ítrustu varúðar með smitvarnir en börnin fái þá félagslegu örvun sem þau þurfa án þess að foreldrar þurfi að óttast smit meira en í smærri kennsluhóp utan skóla.