Íslandsbanki, sem er að öllu leyti í eigu íslenska ríkisins, mun áfram bera ábyrgð á því að greiða 63,47 prósent af því fjártjóni sem Landsbankinn, einnig að nánast öllu leyti í eigu íslenska ríkisins, telur sig hafa orðið fyrir vegna sölu á 31,2 prósent eignarhlut sínum í Borgun síðla árs 2014, þrátt fyrir að Íslandsbanki hafi selt eignarhlut sinn í Borgun 7. júlí síðastliðinn.
Landsbankinn áætlar að fjárhagslegt tjón sitt af viðskiptunum, og því að stjórnendur Borgunar hafi meðal annars leynt upplýsingum um virði eignarhlutar fyrirtækisins í Visa Europe, sé rúmlega 1,9 milljarður króna. Því gæti ríkisbankinn Íslandsbanki þurft að greiða ríkisbankanum Landsbankanum rúmlega 1,2 milljarða króna ef dómstólar komast að þeirri niðurstöðu að málshöfðun Landsbankans sé á rökum reist.
Frá þessu er greint í árshlutauppgjöri Íslandsbanka sem birt var í síðustu viku.
Íslandsbanki seldi hlut sinn í Borgun til alþjóðlega greiðslumiðlunarfyrirtækisins Salt Pay 7. júlí síðastliðinn. Eignarhaldsfélagið Borgun, sem keypti hlut Landsbankans í viðskiptunum umdeildu árið 2014, seldi líka sinn 32,4 prósenta hlut. Stærstu eigendur þess eru gamla útgerðarfyrirtækið Stálskip og félagið P126 ehf. (eigandi er félag í Lúxemborg og eigandi þess er Einar Sveinsson).
Áður en að gengið var frá sölunni á Borgun var hlutafé í félaginu lækkað. Sú lækkun fór fram þannig að forgangshlutabréf í Visa Inc, sem Borgun eignaðist árið 2016 við að selja hlut sinn í Visa Europe, voru færð inn í félagið Borgun-VS ehf. Fráfarandi eigendur Borgunar eignuðust svo það félag. Virði forgangshlutabréfanna er sagt vera rúmlega 3,1 milljarður króna í árshlutauppgjöri Íslandsbanka.
Sala síðla árs 2014 dregur áfram dilk á eftir sér
Í árshlutauppgjörinu kemur einnig fram að Íslandsbanki mun áfram bera ábyrgð á því að greiða 63,47 prósent af því fjártjóni sem Landsbankinn, einnig að nánast öllu leyti í eigu íslenska ríkisins, telur sig hafa orðið fyrir vegna sölu á 31,2 prósent eignarhlut sínum í Borgun síðla árs 2014, þrátt fyrir að Íslandsbanki hafi selt eignarhlut sinn í Borgun 7. júlí síðastliðinn. Því ber ríkisbanki ábyrgð áfram ábyrgð á því að greiða stærstan hluta af mögulegu fjártjóni annars ríkisbanka, þrátt fyrir að eiga ekki lengur Borgun.
Forsaga málsins er sú að Landsbankinn seldi hlut sinn í Borgun, í nóvember 2014 til Eignarhaldsfélagsins Borgunar. Kaupin áttu sér þann aðdraganda að maður að nafni Magnús Magnússon, með heimilisfesti á Möltu, setti sig í samband við ríkisbankann og falaðist eftir eignarhlutnum fyrir hönd fjárfesta. Á meðal þeirra sem stóðu að kaupendahópnum voru þáverandi stjórnendur Borgunar.
Hópurinn fékk að kaupa 31,2 prósent hlut Landsbankans á tæplega 2,2 milljarða króna án þess að hann væri settur í opið söluferli. Í fyrstu vörðu stjórnendur Landsbankans söluna og það að hluturinn hafi ekki verið boðinn út í opnu söluferli. Það breyttist þó fljótlega, sérstaklega þegar í ljós kom að á meðal eigna Borgunar var hlutur í Vísa Europe, sem var keyptur af Visa Inc. skömmu síðar. Þessi eignarhlutur var marga milljarða króna virði en hafði ekki verið metin þannig við söluna á eignarhlut Landsbankans.
Enn fremur var ekki gerður neinn fyrirvari í kaupsamningnum um viðbótargreiðslur vegna valréttar Borgunar vegna mögulegrar sölu Visa Europe til Visa Inc.
Þrír stærstu aðilarnir sem stóðu að Eignarhaldsfélaginu Borgun voru gamla útgerðarfyrirtækið Stálskip, félagið P126 ehf. (eigandi er félag í Lúxemborg og eigandi þess er Einar Sveinsson), og félagið Pétur Stefánsson ehf. (Í eigu Péturs Stefánssonar). Einhver viðskipti hafa síðan verið með hluti í Borgun frá því að Landsbankinn seldi sinn hlut.
Hörð gagnrýni Ríkisendurskoðunar
Í nóvember 2016 birti Ríkisendurskoðun skýrslu um fjölmargar eignasölur Landsbankans á árunum 2010 til 2016 og gagnrýndi þær harðlega. Á meðal þeirra er salan á hlut í Borgun. Tíu dögum síðar var Steinþóri Pálssyni, bankastjóra Landsbankans, sagt upp störfum. Sú ákvörðun var rakin beint til Borgunarmálsins.
Haukur Oddsson hætti störfum hjá Borgun í október 2017. Við starfi hans tók Sæmundur Sæmundsson. Hann hætti störfum eftir að Salt Pay tók yfir Borgun í síðasta mánuði. Nýir forstjórar Borgunar eru þeir Eduardo Pontes og Marcos Nunes.
Arðbær rekstur sem súrnaði á síðustu árum
Rekstur Borgunar gekk ótrúlega vel næstu árin eftir kaupin. Hagnaður ársins af reglulegri starfsemi var undir einum milljarði króna árið 2013. Árið 2016 var hann rúmlega 1,6 milljarðar króna. En hlutdeildin í sölunni á Visa Europe skiptir auðvitað mestu máli þegar virðisaukning fyrirtækisins er metin. Hún skilaði Borgun 6,2 milljörðum króna.
Nýju eigendurnir nutu þessa. Samtals voru greiddir 7,7 milljarðar króna í arðgreiðslur til eigenda Borgunar vegna áranna 2014-2016. Ef Landsbankinn, sem er nánast að öllu leyti í eigu íslenska ríkisins, hefði haldið 31,2 prósent hlut sínum í fyrirtækinu hefði hlutdeild hans í umræddum arðgreiðslum numið 2,4 milljörðum króna.
Á árinu 2017 hagnaðist Borgun um 350 milljónir króna og eignir þess voru metnar á 31,7 milljarða króna í árslok. Bókfært eigið fé á þeim tíma var 6,8 milljarðar króna.
Á árunum 2018 og 2019 fór reksturinn hins vegar að versna til muna. Samanlagt tap á þeim árum nam um tveimur milljörðum króna og á fyrri hluta ársins 2020 var tapið, líkt og áður sagði, 635 milljónir króna.
Yfirmat á að liggja fyrir um miðjan október
Mál Landsbankans hefur mallað áfram í dómskerfinu þrátt fyrir breyttar rekstrarforsendur Borgunar og nýtt eignarhald á fyrirtækinu. Matsmenn sem skipaðir voru í því skiluðu inn matsgerð til héraðsdóms 22. október í fyrra.
Þar kom fram að matsmennirnir töldu meðal annars að upplýsingar um tilvist valréttar um kaup og sölu á eignarhlut Borgunar í Visa Europe Ltd til Visa Inc., skilmála hans og mögulegar greiðslur til Borgunar á grundvelli hans hefðu verið mikilvægar við gerð, framsetningu og þar af leiðandi endurskoðun ársreiknings Borgunar árið 2013.
Borgun hefði jafnframt átt að gera grein fyrir valréttinum í ársreikningi 2013 í samræmi við ákvæði alþjóðlegs reikningsskilastaðals og upplýsa um óvissu um hann í skýrslu stjórnar.
Í nýlegum árshlutareikningi Landsbankans, sem er í eigu íslenska ríkisins, segir enn fremur að matsmennirnir telji að „ársreikningur Borgunar fyrir árið 2013 hafi ekki uppfyllt allar kröfur laga um ársreikninga og alþjóðlegra reikningsskilastaðla eins og þeir voru samþykktir af Evrópusambandinu á þeim tíma.“
Landsbankinn lagði matsgerðina fram við fyrirtöku í héraðsdómi 9. desember 2019. Við fyrirtöku málsins 24. janúar 2020 lagði Borgun og annar stefndi, sem er ekki sérstaklega nefndur í árshlutareikningi Landsbankans, fram beiðni um dómkvaðningu yfirmatsmanna. Í reikningnum segir að héraðsdómur Reykjavíkur hafi dómkveðið yfirmatsmenn 29. júní 2020 og að yfirmat skuli liggja fyrir eigi síðar en 15. október 2020.