Mynd: Pexels.com

Telja að upplýsingar hafi vantað í ársreikning Borgunar 2013

Matsmenn í máli Landsbankans gegn Borgun, fyrrverandi forstjóra fyrirtækisins og þeirra sem keyptu hlut bankans í Borgun árið 2014 segja að ársreikningur þess fyrir árið 2013 hafi ekki innihaldið upplýsingar um tilvist valréttar Borgunar í Visa Europe. Landsbankinn telur sig hlunnfarinn um tæpa tvo milljarða.

Matsmenn sem lögðu mat á ársreikning Borgunar hf. fyrir árið 2013 komust að þeirri niðurstöðu að upplýsingar um tilvist valréttar um kaup og sölu á eignarhlut Borgunar í Visa Europe Ltd til Visa Inc., skilmála hans og mögulegar greiðslur til Borgunar á grundvelli hans hafi verið mikilvægar við gerð, framsetningu og þar af leiðandi endurskoðun ársreiknings Borgunar árið 2013. Þá hefði Borgun átt að upplýsa um eignarhlut sinn í Visa Europe Ltd. og að félagið væri aðili að Visa Europe Ltd. í ársreikningnum. 

Borgun hefði jafnframt átt að gera grein fyrir valréttinum þar í samræmi við ákvæði alþjóðlegs reikningsskilastaðals og upplýsa um óvissu um hann í skýrslu stjórnar samkvæmt lögum auk þess sem að matsmenn telja að ársreikningur Borgunar fyrir árið 2013 hafi ekki uppfyllt allar kröfur laga um ársreikninga og alþjóðlegra reikningsskilastaðla.

Þetta er meðal þess sem fram kom í matsgerð matsmanna í máli Landsbankans gegn Borgun hf., fyrr­ver­andi for­stjóra Borg­unar Hauki Odds­syni, BPS ehf. og Eign­ar­halds­fé­lag­inu Borgun slf. Landsbankinn stefndi þeim í janúar 2017 vegna þess að það væri mat bankans að hann hefði orðið af söluhagnaði við sölu á 31,2 prósent hlut sínum í Borgun á árinu 2014. 

Matsmennirnir skiluðu matsgerð sinni 22. október 2019 og greint er frá innihaldi hennar í nýbirtum ársreikningi Landsbankans.

Hún var lögð fram við fyrirtöku í málinu í héraðsdómi 9. desember í fyrra. Við fyrirtöku málsins 24. janúar 2020 lagði Borgun og ónefndur annar stefndi fram beiðni um dómkvaðningu yfirmatsmanna.

Landsbankinn hefur ekki tilgreint þá upphæð sem hann fer fram á að fá greidda vinni hann málið en í níu mánaða uppgjöri Íslandsbanka, stærsta eiganda Borgunar, í fyrra kemur fram að mat Landsbankans á tapi sínu á sölunni sé um 1,9 milljarður króna. Landsbankinn er nánast að öllu leyti í eigu íslenska ríkisins. Því er tap hans tap skattgreiðenda.

Keypt á und­ir­verði

Þegar Lands­bank­inn seldi hlut sinn í Borgun, í nóvember 2014, var kaup­and­inn Eign­ar­halds­fé­lagið Borg­un. Kaupin áttu sér þann aðdrag­anda að maður að nafni Magnús Magn­ús­son, með heim­il­is­festi á Möltu, setti sig í sam­band við rík­is­bank­ann og fal­að­ist eftir eign­ar­hlutnum fyrir hönd fjár­festa. Á meðal þeirra sem stóðu að kaup­enda­hópnum voru þáverandi stjórn­endur Borg­un­ar.

Hópurinn fékk að kaupa 31,2 pró­sent hlut­ Landsbankans á tæp­lega 2,2 millj­arða króna án þess að hann væri settur í opið sölu­ferli. Í fyrstu vörðu stjórn­endur Lands­bank­ans söl­una og það að hlut­ur­inn hafi ekki verið boð­inn út í opnu sölu­ferli. Það breytt­ist þó fljót­lega, sér­stak­lega þegar í ljós kom að á meðal eigna Borg­unar var hlutur í Vísa Europe, sem var keyptur af Visa Inc. skömmu síð­ar. Þessi eign­ar­hlutur var marga millj­arða króna virði en hafði ekki verið metin þannig við söl­una á eign­ar­hlut Lands­bank­ans.

Enn fremur var ekki gerður neinn fyr­ir­vari í kaup­­samn­ingnum um við­­bót­­ar­greiðslur vegna val­réttar Borg­unar vegna mög­u­­legrar sölu Visa Europe til Visa Inc.

Þrír stærstu aðil­arnir sem stóðu að Eign­ar­halds­fé­lag­inu Borgun voru gamla útgerð­ar­fyr­ir­tækið Stál­skip, félagið P126 ehf. (eig­andi er félag í Lúxemborg og eig­andi þess er Einar Sveins­son), og félagið Pétur Stef­áns­son ehf. (Í eigu Pét­urs Stef­áns­son­ar). Ein­hver við­skipti hafa síðan verið með hluti í Borgun frá því að Lands­bank­inn seldi sinn hlut.

Fjöldi fólks mótmælti fyrir utan höfuðstöðvar Landsbankans snemma árs 2016 vegna Borgunarmálsins.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Í nóv­em­ber 2016 birti Rík­­is­end­­ur­­skoð­un  skýrslu um fjöl­margar eigna­­sölur Lands­bank­ans á árunum 2010 til 2016 og gagn­rýndi þær harð­­lega. Á meðal þeirra er salan á hlut í Borg­un. Tíu dögum síðar var Stein­þóri Páls­syni, banka­stjóra Lands­bank­ans, sagt upp störf­um. Sú ákvörðun var rakin beint til Borgunarmálsins.

Haukur Oddsson, sem var forstjóri Borgunar þegar kaupin áttu sér stað og er einn þeirra sem Landsbankinn stefndi í lok árs 2016, hætti störfum hjá Borgun í október 2017. Við starfi hans tók Sæmundur Sæmundsson. 

Arð­greiðslur hærri en kaup­verðið

Rekstur Borg­unar gekk ótrú­lega vel næstu árin eftir kaupin. Hagn­aður árs­ins af reglu­legri starf­semi var undir einum millj­arði króna árið 2013. Árið 2016 var hann rúm­lega 1,6 millj­arðar króna. En hlut­deildin í söl­unni á Visa Europe skiptir auð­vitað mestu máli þegar virð­is­aukn­ing fyr­ir­tæk­is­ins er met­in. Hún skil­aði Borgun 6,2 millj­örðum króna.

Nýju eig­end­urnir nutu þessa. Sam­tals voru greiddir 7,7 millj­­arðar króna í arð­greiðslur til eig­enda Borg­unar vegna áranna 2014-2016. Ef Lands­­bank­inn, sem er nán­­ast að öllu leyti í eigu íslenska rík­­is­ins, hefði haldið 31,2 pró­­sent hlut sínum í fyr­ir­tæk­inu hefði hlut­­deild hans í umræddum arð­greiðslum numið 2,4 millj­­örðum króna.

Í ljósi þess að hlutur Lands­bank­ans var seldur í nóv­­em­ber 2014 fyrir 2.184 millj­­ónir króna voru arð­greiðsl­­urnar sem runnu hafa til nýrra eig­enda að hlutnum frá því að hann var seldur og til loka árs 2016 218 millj­­ónir króna fram yfir það sem greitt var fyrir hlut rík­­is­­bank­ans haustið 2014. Kaupendurnir eru því þegar búnir að fá allt sitt til baka auk 218 millj­óna króna og eiga enn hlut­inn í Borg­un.  

Á árinu 2017 hagn­að­ist Borgun um 350 millj­ónir króna og eignir þess voru metnar á 31,7 millj­arða króna í árs­lok. Bók­fært eigið fé á þeim tíma var 6,8 millj­arðar króna.

Stefnt að sölu fyrir sjö milljarða

Reksturinn versnaði hins vegar til muna á árinu 2018 þegar Borgun tapaði alls tæplega 1,1 milljarði króna. Hreinar rekstrartekjur fyrirtækisins rúmlega helminguðust á því ári, úr um 4,2 milljörðum króna í rúmlega tvo milljarða króna. Í ársreikningi ársins 2018 segir að tapið á því ári skýrist „fyrst og fremst af hratt minnkandi tekjum af erlendum viðskiptum hjá seljendum sem selja vöru og þjónustu eingöngu yfir internetið. Auk þess má rekja lægri hreinar þjónustutekjur til aukins kostnaðar umfram tekjur af innlendri færsluhirðingu sem skýrist fyrst og fremst drætti í innleiðingu á nýjum lögum um lækkun milligjalda. Að síðustu má nefna að hreinar þjónustutekjur hafa lækkað vegna neikvæðrar framlegðar af stórum erlendum seljenda sem félagið tók í viðskipti undir lok árs 2017.“

Birna Einarsdóttir er bankastjóri Íslandsbanka, stærsta eiganda Borgunar.
Mynd: Úr safni

Stærsti eigandi fyrirtækisins er Íslandsbanki með 63,5 prósent eignarhlut. Eignarhaldsfélagið Borgun heldur enn á 32,5 prósentum og BPS ehf. á tveimur prósentum. Aðrir eigendur eiga minna. Þótt Borgun hafi ekki birt ársreikning fyrir árið 2019 kom fram í uppgjöri Íslandsbanka fyrir fyrstu þrjá ársfjórðunga síðasta árs að tap Borgunar á því tímabili hefði verið 759 milljónir króna. Eigið fé fyrirtækisins var um 6,5 milljarðar króna í lok september síðastliðins. Það kemur í ljós síðar í dag, þegar Íslandsbanki birtir uppgjör sitt fyrir allt árið 2019, hvert heildartap Borgunar í fyrra var.

Fréttablaðið greindi frá því í síðustu viku að viðræður við tvö erlend félög um kaup á öllu hlutafé í Borgun væru langt komnar og að áætlað kaupverð væri sjö milljarðar króna. Óvíst væri þó hvort bréf í Visa Inc. myndu fylgja með ef af sölunni yrði. 

Ef rétt reynist mun Eignarhaldsfélagið Borgun, sem fá tæpa 2,3 milljarða króna í sinn hlut. Samanlagt myndi félagið, og eigendur þess, þá hafa rúmlega tvöfaldað fjárfestingu sína í Borgun að teknu tilliti til arðgreiðslna á rúmum fimm árum.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar