Sjóðsfélagar lífeyrissjóða greiddu upp lán hjá þeim fyrir rúmlega 5,1 milljarð króna umfram það sem sjóðirnir lánuðu út í ný lán í júlí mánuði. Þetta er í annað sinn frá því í byrjun árs 2009 sem að uppgreiðslur lífeyrissjóðalána eru meiri en nýjar lántökur, en lánin eru tekin af sjóðsfélögum til húsnæðiskaupa. Hinn mánuðurinn sem þetta hefur gerst var júní 2020, en þá námu uppgreiðslur 333 milljónum krónum umfram ný veitt lán. Uppgreiðslur lána í júlí voru því rúmlega fimmtán sinnum meiri en í júnímánuði.
Þetta kemur fram í nýjum tölum Seðlabanka Íslands, en samantektir hans á nýjum útlánum lífeyrissjóða til heimila ná einungis aftur til janúar 2009.
Alls voru greidd upp verðtryggð lán hjá lífeyrissjóðum fyrir 3.858 milljónum krónum meira en slík lán voru tekin. Í fyrsta sinn frá því að Seðlabankinn fór að halda utan um tölur um útlán lífeyrissjóða greiddu sjóðsfélagar upp meira af óverðtryggðum lánum en þeir tóku hjá sjóðunum. Munurinn var alls 1.270 milljónir króna.
Hröð vaxtalækkun banka
Ástæðan fyrir þessari stöðu er nokkuð einföld, vaxtalækkanir stóru bankana þriggja: Landsbankans, Íslandsbanka og Arion banka, á húsnæðislánum á síðustu mánuðum hafa gert húsnæðislán þeirra þau hagstæðustu, ef frá eru talin húsnæðislán sem Birta lífeyrissjóður býður sjóðfélögum sínum. Lán Birtu eru hins vegar að hámarki fyrir 65 prósent af kaupverði á meðan að bankarnir lána fyrir 70 prósent þess.
Einu lánin í þessum flokki sem bera lægri vexti eru, eins og áður segir, hjá Birtu lífeyrissjóði. Lán með breytilegum óverðtryggðum vöxtum hjá Birtu eru 2,10 prósent. Vaxtakjörin hjá þeim lífeyrissjóðum sem bjóða upp á óverðtryggð lán eru almennt óhagstæðari en hjá bönkunum, en óverðtryggð lán eru nú mun eftirsóknarverðari valkostur en verðtryggð lán. Verðbólga er enda 3,2 prósent og óverðtryggðu lánin mörg hver hagstæðari, að minnsta kosti sem stendur, en þau verðtryggðu sem standa til boða, eftir hraða vaxtalækkun Seðlabanka Íslands undanfarið rúmt ár. Frá því í maí í fyrra hafa stýrivextir hans lækkað um 3,75 prósentustig og eru nú eitt prósent.
Vegna þessa varð júní síðastliðinn umsvifamesti einstaki mánuðurinn, að minnsta kosti frá árinu 2013, í hreinum nýjum íbúðalánum hjá bönkunum. Ný óverðtryggð íbúðalán banka á breytilegum vöxtum námu alls 31 milljarði króna, að frádregnum uppgreiðslum, í þeim mánuði. Óverðtryggð lán á föstum vöxtum til þriggja eða fimm ára voru neikvæð um sem nemur þremur milljörðum króna og uppgreiðslur á verðtryggðum lánum námu einum milljarði umfram ný óverðtryggð útlán.
Lýsti yfir áhyggjum
Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningamála í Seðlabanka Íslands, lýsti yfir áhyggjur af þessari þróun á blaðamannafundi sem haldinn var í lok ágúst í tilefni af nýlegri stýrivaxtaákvörðun. „Það sem maður hefur áhyggjur af, bæði út frá peningastefnunni og fjármálastöðugleika, er að heimilin séu að skuldsetja sig of mikið á breytilegum vöxtum. Vonandi verðum við ekki með svona lága vexti til framtíðar. Það er kannski það sem maður hefur mestar áhyggjur af í dag varðandi miðlunina til heimila.“
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði á sama fundi að það hefði gengið mjög vel að miðla vaxtalækkunum bankans til heimila. Viðbrögð þeirra við hvata til frekari lántöku á skaplegri kjörum hefði verið meiri en bankinn átti von á. Það ýti undir einkaneyslu. „Það hefur verið framar vonum.“