Eigendur sjávarútvegsfyrirtækja hafa fengið rúmlega 100 milljarða í arð á innan við áratug
Á tíu ára tímabili vænkaðist hagur sjávarútvegsfyrirtækja um tæplega 500 milljarða króna. Á sama tímabili hafa þau greitt um 70 milljarða króna í veiðigjöld. Eigið fé geirans var 297 milljarðar króna í lok árs 2018. Til viðbótar högnuðust þau um 43 milljarða króna í fyrra.
Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki högnuðust um 43 milljarða króna á árinu 2019. Það er um 60 prósent meiri hagnaður en var af rekstri þeirra árið á undan þegar hann var 27 milljarðar króna. Alls nemur hagnaður fyrirtækjanna 197 milljörðum króna á fimm ára tímabili, frá byrjun árs 2015 og út síðasta ár. Á sama tíma hafa þau greitt 43 milljarða króna í tekjuskatt.
Frá hruni nemur samanlagður hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja 439 milljörðum króna.
Reiknaður tekjuskattur þeirra hækkaði um 50 prósent milli ára og var níu milljarðar króna í stað sex. Veiðigjöld lækkuðu hins vegar umtalsvert á milli ára og voru 6,6 milljarðar króna, sem er 4,7 milljörðum króna minna en þau voru árið áður.
Þetta kemur fram í Sjávarútvegsgagnagrunni Deloitte fyrir árið 2018 sem kynntur var á Sjávarútvegsdeginum 2020 sem fór fram í morgun. Gagnagrunnurinn inniheldur rekstrarupplýsingar úr 89 prósent sjávarútvegsgeirans en fjárhæðirnar sem settar eru fram í honum hafa verið uppreiknaðar til að endurspegla 100 prósent hans.
Sjávarútvegsfyrirtækin áttu eigið fé upp á 297 milljarða króna í lok árs 2018. Frá hruni og fram að þeim tíma batnaði eiginfjárstaða sjávarútvegsfyrirtækjanna um 376 milljarða króna, en hún var neikvæð í lok árs 2008.
Alls greiddu fyrirtækin sér arð upp á 10,3 milljarða króna í fyrra. Frá árinu 2010 hafa þau greitt 103,2 milljarða króna til eigenda sinna í arðgreiðslur. Hagur sjávarútvegsfyrirtækjanna hefur því vænkast um 479,2 milljarða króna frá hruni.
Tekjur voru 280 milljarðar
Í gagnagrunninum kemur fram að tekjur sjávarútvegsfyrirtækjanna hafi vaxið um 33 milljarða króna milli ára og verið 280 milljarðar króna í fyrra. Þær hafa aldrei áður verið jafn miklar.
EBIDTA-hagnaður þeirra, hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsgjöld og skatta, var 73 milljarðar króna og jókst um 20 milljarða króna. Endanlegur hagnaður var, líkt og áður sagði 43 milljarðar króna.
Skuldir geirans hækkuðu á milli ára í 415 milljarða króna en þegar skuldirnar eru reiknaðar sem hlutfall á móti EBITDA-hagnaði lækka þær. Ný langtímalán umfram afborganir námu 15 milljörðum króna.
Þetta má að hluta rekja til þess að fjárfestingar í sjávarútvegi jukust milli ára. Þær námu 25 milljörðum króna í fyrra en voru 18 milljarðar króna árið áður.
Veiðigjöld lækkuðu umtalsvert
Veiðigjöld voru 6,6 milljarðar króna í fyrra, sem er 4,7 milljörðum krónum minna en þau voru árið 2018. Samtals frá árinu 2011, og út síðasta ár, greiddi sjávarútvegurinn 69,9 milljarða króna í veiðigjöld.
Áætlað er að veiðigjöldin muni hækka á þessu ári samkvæmt því sem kom fram í kynningu á sjávarútvegsgagnagrunninum.
Ný lög um veiðigjald tóku gildi í byrjun árs 2019 þar sem meðal annars var settur nýr reiknistofn sem byggist á afkomu við veiðar hvers nytjastofns. Samkvæmt þeim er veiðigjaldið nú ákveðið fyrir almanaksár í stað fiskveiðiárs.
Bein opinber gjöld sjávarútvegsfyrirtækja sem gagnagrunnur Deloitte nær yfir voru 19,4 milljarðar króna í fyrra að veiðigjöldunum meðtöldum. Það er tveimur milljörðum krónum minna en árið 2018.
Þrjár blokkir halda á 43 prósent af kvóta
Í lok mars síðastliðins héldu tíu stærstu útgerðir landsins á tæplega 53 prósent af úthlutuðum kvóta, samkvæmt samantekt Fiskistofu. Innan þessa hóps eru aðilar sem eru tengdir þótt þeir séu það ekki samkvæmt lögum um fiskveiðar. Brim, Samherji og Kaupfélag Skagfirðinga eru fyrirferðamestu útgerðirnar. Þær halda á, einar og sér og ásamt félögum sem eigendur þeirra eiga í, á tæplega 43 prósent af öllum úthlutuðum kvóta.
Litlar breytingar hafa verið á umfangi kvóta þeirra stóru útgerðarhópa sem tengjast innbyrðis án þess þó að verða tengdir aðilar samkvæmt lögum. Þannig er Brim sú útgerð sem heldur á mestum kvóta, eða 10,13 prósent. Útgerðarfélag Reykjavíkur, sem á 43,97 prósent hlut í Brim beint og í gegnum dótturfélag sitt RE-13 ehf, hefur fengið úthlutað 3,51 prósent af öllum aflaheimildum. Útgerðarfélag Reykjavíkur er að uppistöðu í eigu Guðmundar Kristjánssonar, fyrrverandi forstjóra og stjórnarmanns í Brimi.
Til viðbótar heldur útgerðarfélagið Ögurvík, að fullu í eigu Brims, á 1,55 prósent af úthlutuðum kvóta. Þessi þrjú félög eru því með 15,19 prósent af úthlutuðum kvóta.
Samherji Ísland ehf., félag að öllu leyti í eigu Samherja hf, er með næst mesta aflahlutdeild í íslenskri efnahagslögsögu allra sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi, eða 7,02 prósent. Útgerðarfélag Akureyrar, sem er líka í 100 prósent eigu Samherja, heldur svo á 1,3 prósent kvótans og Sæból fjárfestingafélag, sem það sama gildir um, heldur á 0,64 prósent hans. Síldarvinnslan, sem Samherji á beint og óbeint 49,9 prósent hlut í, er svo með 5,2 prósent aflahlutdeild og Bergur-Huginn, í eigu Síldarvinnslunnar, er með 2,3 prósent af heildarkvóta til umráða. Auk þess á Síldarvinnslan 75,20 prósent hlut í Runólfi Hallfreðssyni ehf., sem heldur á 0,62 prósent af úthlutuðum kvóta. Samanlagt er þessi blokk að minnsta kosti 17,1 prósent aflahlutdeild.
Kaupfélag Skagfirðinga á FISK Seafood, sem heldur á 5,5 prósent heildarkvótans. FISK á 32,9 prósent í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum sem er með 4,5 prósent heildaraflahlutdeild. Þá á Vinnslustöðin 48 prósent hlut í útgerðarfélaginu Huginn í Vestmannaeyjum, sem heldur á 0,76 prósent af útgefnum kvóta.
FISK á til viðbótar allt hlutafé í Soffanías Cecilsson, en það fyrirtæki heldur á um 0,3 prósent kvótans. Samtals nemur heildarkvóti þessara þriggja rétt yfir ellefu prósent, og er því undir 12 prósent markinu þótt þeir yrðu skilgreindir með öðrum hætti.
Samanlagt eru þessir þrír hópar með yfirráð yfir rúmlega 43 prósent af öllum úthlutuðum kvóta á Íslandi.
Lestu meira:
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
30. desember 2022Rammi sameinaður Ísfélaginu og til stendur að skrá nýju risaútgerðina á hlutabréfamarkað
-
29. desember 2022Baldvin Þorsteinsson eignast erlenda útgerð Samherja sem metin er á 55 milljarða króna
-
19. desember 2022Hagnaður sjávarútvegs þrefaldaðist milli ára en afkoma tæknifyrirtækja breyttist lítið
-
13. desember 2022Fallið frá því að hækka gjöld á sjókvíaeldi um mörg hundruð milljónir á ári
-
9. desember 2022Prentsmiðjan og skuldir Árvakurs við hana færðar úr útgáfufélagi Morgunblaðsins
-
6. desember 2022Samherji Holding segist ekki líða mútugreiðslur, fyrirgreiðslur og ávinning í skiptum fyrir óeðlileg áhrif
-
30. nóvember 2022Samherjasamstæðan átti eigið fé upp á tæpa 160 milljarða króna um síðustu áramót
-
28. nóvember 2022SFS styðja frumvarp Svandísar um að hækka veiðigjöld á næsta ári en lækka þau árin á eftir
-
23. nóvember 2022Svandís leggur fram frumvarp sem hækkar veiðigjöld um 2,5 milljarða á næsta ári