Almennt er hægt að segja að fólk á Vesturlöndum búi við aðstæður í sínu daglega lífi sem telja má mun betri og öruggari en fyrr á tímum. Ýmsir hlutir sem ekki voru til staðar, jafnvel aðeins fyrir nokkrum áratugum, eru orðnir ómissandi, hvort sem það eru nútíma þægindi; samgöngur, internet, tölvur og farsímar, eða mannréttindi; lýðræði, kosningaréttur og jafnrétti. Allt þykja þetta nú sjálfsagðir hlutir en voru jafnvel óþekkt eða ómótuð fyrirbæri fyrir aðeins ríflega mannsaldri.
Til þess að þetta flókna samfélag megi ganga áfallalaust er komið upp enn flóknari kerfum til að verja það áföllum. Oftast virka þær varnir eins og til er ætlast en stundum erum við þó minnt óþægilega á hversu varnarlaus heimur okkar er. Nú síðast í yfirstandandi heimsfaraldri, þegar veirusýking sem ekki virðir landamæri setur allt bókstaflega á hliðina. Varnarkerfin duga skammt, allra síst allar hervarnirnar. Landamærum er lokað, samgöngur stöðvast, hagkerfin kólna svo kreppuástand ríkir og heilu samfélögin eru sett í stofufangelsi – allt vegna einnar veiru.
Mörkin milli innri og ytri öyggismála
Mörkin á milli ytri og innri og harðra og mjúkra öryggismála eru því orðin ógreinilegri og öryggishugtakið mun víðtækara. Enda hefur það sem helst raskar gangverki nútíma samfélags; allt frá bilunum í tölvu- og samskiptakerfum til þurrka, uppskerubrests og hungursneyða, nú eða heimsfaraldra, oftast lítið með hefðbundin vopn að gera. Auk þess sem vígvellir hefðbundins hernaðar geta nú færst inn á internetið, þar sem í raun má gera árásir á ríki og samfélög.
Íslendingar hafa sýnt að þrátt fyrir smæð búum við yfir styrk þegar almannaöryggi er ógnað á þennan hátt: samtakamætti, félagslegri samheldni og trausti til stofnana og eru viðbrögð við COVID-19 nærtækt dæmi. Einnig mætti nefna ástandið sem skapaðist í kjölfar fjármálahrunsins 2008 þar sem sannarlega hrikti í stoðum samfélagsins og fólk upplifði mikið óöryggi, jafnvel beinar ógnir. Gagnstætt því sem halda mætti, þá sýndu mótmælin í búsáhaldabyltingunni, sem sumir myndu kalla óeirðir, einmitt styrk íslensks samfélags frekar en veikleika. Það nægði að hrekja ríkisstjórnina frá völdum því treysta mátti á að haldnar yrðu lýðræðislegar kosningar að því loknu.
Þarna geta viðbrögð yfirvalda og ekki síður samfélagsins í heild skipt sköpum, því röng viðbrögð geta farið að ógna samfélaginu innan frá og verða í raun ógn í sjálfu sér. Fólk hættir að treysta yfirvöldum sem og samborgurum sínum, virðing fyrir lögum og reglu þverr og óeirðir og átök geta brotist út. Því er ekki nóg að koma upp tæknilegum varnarviðbúnaði því varnirnar liggja einnig í samfélagsgerðinni sjálfri, að fólk geti treyst viðbrögðum þeirra sem bregðast eiga við, að þrátt fyrir hamfarir, kreppu og jafnvel óeirðir og átök verði öryggi áfram tryggt og réttindi virt.
Aukinn viðbúnaður við nýjum ógnum
Það er því ljóst að ný nálgun á öryggismál eru ekki bara fræðilegar vangaveltur heldur kallar hún á markvissa stefnumótun, skýra umgjörð og aðgerðir. Íslensk stjórnvöld hafa vissulega tekið markverð skref í átt að víðtækari nálgun í öryggismálum og tekur þjóðaröryggisstefnan að einhverju leyti mið af hinum nýjum og breyttu ógnum. Þó hefur verið bent á að Ísland gæti gert meira í netöryggismálum sem sífellt verða viðameiri og flóknari viðfangs.
Norðurlöndin hafa einnig haft uppi áætlanir um umfangsmikið samstarf í öryggis- og varnarmálum og nýlega kom út skýrsla sem Björn Bjarnason vann fyrir utanríkisráðherra Norðurlandanna, þar sem samfélagslegt öryggi er í forgrunni. Skýrslan var gerð í tilefni af því að 10 ár eru liðin frá því sambærileg skýrsla Thorvalds Stoltenberg kom út, en margt af því sem þar var lagt fram hefur komið til framkvæmda. Stefnu- og samstarfsyfirlýsingar eru þó eitt en síðan er mikilvægt að tryggja samræmda lagalega umgjörð hvers ríkis fyrir sig, svo hægt sé að nýta þau úrræði sem tiltæk eru á sameiginlegum vettvangi.
Aðild að NATO ásamt varnarsamningi við Bandaríkin hefur þó lengst af verið þungamiðjan í öryggis- og varnarmálum Íslands. Bandalagið, sem byggt er á hernaðarlegum grunni með skýr grunngildi um frið, frelsi og lýðræði, hefur reynt að endurskilgreina hlutverk sitt með tilliti til aðstæðna síðan það var stofnað fyrir meira en 70 árum. Því fær samfélagslegt öryggi og varnir gegn netárásum og upplýsingafölsun nú meira pláss á þeim vettvangi en áður. Nú sem fyrr liggur mikið við að Ísland tali þar með skýrum hætti, því ýmsar blikur eru á lofti vegna forystuhlutverks Bandaríkjamanna.
Aukin framlög til hermála
Frá lokum kalda stríðsins drógust framlög ríkja til hermála jafnt og þétt saman. Þetta hefur þó verið að breytast því síðustu ár hefur verið talsverður vöxtur í framlögum og árið 2019 var hann sá mesti milli ára síðan 2010. Það má að einhverju leyti má tengja við þá stöðu sem komin er upp með kólnandi samskiptum á milli Bandaríkjanna og Rússlands, og þeirra fyrrnefndu gagnvart Kína. Bandaríkjamenn draga þarna vagninn eins og við má búast, en þeir hafa lengi þrýst mjög á NATO-ríkin um að standa við tveggja prósenta markið af landsframleiðslu til hermála, sem þau höfðu skuldbundið sig til – og sum hver hafa reynt að uppfylla á undanförnum árum.
Þolir NATO annað kjörtímabil Trumps
Sá þrýstingur sem Bandaríkjamenn hafa sett á bandalagsríkin til að auka framlag til hernaðarlegrar uppbyggingar NATO kann að einhverju leyti að vera réttmætur. Hins vegar ættu þau Evrópuríki sem vilja verja frjáls lýðræðissamfélög álfunnar að spyrna við fótum ef Bandaríkin ætla fylgja stefnu forsetans, að gera stórveldastjórnmál og vopnakapphlaup að forgangsmáli. Þar er réttmæt spurning hvort NATO, sem hefur haft að leiðarljósi að tryggja stöðugleika og verja lýðræði og frelsi, eigi að vera undir forystu ríkis hvers forseti gerir sér far um að grafa undan alþjóðasamstarfi og upphefja einræðisherra.
Ætli NATO að takast að viðhalda hlutverki sínu sem öryggis- og varnarbandalag í Evrópu á trúverðugan hátt, þar sem raunverulega eru tekin skref í áttina að því að fást við hinar nýju ógnir, gæti því þurft að endurskoða forystuhlutverk Bandaríkjamanna. Þarna geta úrslit í komandi forsetakosningum í Bandaríkjunum skipt miklu því nái Donald Trump endurkjöri gæti það þýtt varanlegar breytingar á heimsmyndinni. Endurkjör hans þýðir ekki bara fjögur ár til viðbótar fyrir hann og hans stefnu, heldur öðlast málstaður hans og yfirlýsingar, sem hingað til hafa um margt gengið þvert á ríkjandi hefðir í bandarískri utanríkisstefnu, ákveðið lögmæti. Fátt fær hann þá stöðvað.
Heimurinn stendur frammi fyrir ýmsum sameiginlegum ógnum sem ekki virða landamæri. Í því samhengi má líta til Bandaríkjanna og hversu illa hefur tekist þar til með að tryggja almannaöryggi í baráttunni við COVID-19. Þar er ljóst að öflugustu hervarnir heims duga ákaflega skammt – að Bandaríkin sem eyða jafn miklu og öll ríki heimsins samanlagt til hermála standa vanmáttug og sundruð í baráttunni við veiruna.
Oft er spurt hvert framlag hins herlausa smáríkis Íslands geti verið í alþjóðlegu öryggismálasamstarfi, sérstaklega til varnarbandalags eins og NATO. Þarna gæti einmitt verið gott tækifæri til að sýna í raun hvernig rétt viðbrögð, félagsleg samheldni og vel skipulagðar almannavarnir í samfélagi sem upphefur lýðræði, geta skipt mun meira máli en öflugur her, þegar hinar nýju ógnir kveða dyra og almannaöryggi er annars vegar.