Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar vegna ársins 2021, sem kynnt var í morgun, er gert ráð fyrir 310 milljón króna lækkun á framlögum til RÚV. Gert er ráð fyrir að rekstrarframlag til fjölmiðlafyrirtækisins verði 4.515 milljónir króna á næsta ári. Þau voru 4.825 milljónir króna á yfirstandandi ári.
Þessi lækkun á framlögum til RÚV kemur ofan í það að fyrirtækið sér fram á allt að 300 milljóna króna tekjusamdrátt vegna samkeppnisreksturs síns, sem felst aðallega í sölu auglýsinga, á starfsárinu 2021. Á árinu 2020 höfðu rauntekjur vegna samdráttar í auglýsingasölu þegar verið 150 milljónum króna undir áætluðum tekjur.
Þetta kom fram í bréfi sem Stefán Eiríksson útvarpsstjóri sendi á starfsfólk RÚV 26. júní síðastliðinn sem Kjarninn greindi frá.
RÚV hagnaðist um 6,6 milljónir króna á árinu 2019. Tekjur fyrirtækisins voru 6,9 milljarðar króna. Þar af komu 4,7 milljarðar króna úr ríkissjóði í formi þjónustutekna af útvarpsgjaldi, en 2,2 milljarðar króna voru tekjur úr samkeppnisrekstri, sem er að uppistöðu sala auglýsinga og kostaðs efnis.
Afkoma RÚV á árunum 2013 til 2018 var jákvæð um 1,5 milljarða króna, en sú afkoma skýrðist fyrst og fremst af hagnaði vegna sölu byggingaréttar á lóð félagsins við Efstaleiti. Ef litið er á afkomu félagsins fyrir tekjuskatt og söluhagnað hefði heildarafkoma félagsins á þessu tímabili var hún neikvæð um 61 milljón króna. Án lóðasölunnar hefði RÚV ohf. orðið ógjaldfært.
392 milljónir til einkarekinna fjölmiðla
Heildarfjárheimild til fjölmiðla er áætluð fimm milljarðar króna. Það þýðir að 484 milljónir króna munu fara í eitthvað annað RÚV. Þar af fara 92 milljónir króna í rekstur Fjölmiðlanefndar en það sem út af stendur, 392 milljónir króna, er ætlaður stuðningur við einkarekna fjölmiðla.
Slíkur stuðningur hefur verið í deiglunni árum saman og drög að frumvarpinu voru fyrst kynnt af Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningamálaráðherra, í lok janúar 2019. Það komst hins vegar ekki á dagskrá vorþings þess árs vegna mikillar andstöðu við málið hjá hluta þingflokks Sjálfstæðisflokks.
Í kjölfarið voru gerðar breytingar á frumvarpinu til að koma til móts við þá andstöðu. Í þeim fólst aðallega að stærstu fjölmiðlar landsins myndu fá hærri styrkjagreiðslur en minni fjölmiðlar myndu skerðast á móti.
Gert ráð fyrir stuðningsgreiðslum til fjölmiðla í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2020.
Nýtt frumvarp, sem átti að leggjast fram í september 2019, lét þó á sér standa. Lilja mælti á endanum ekki fyrir frumvarpi um að lögfesta slíkt styrkjakerfi fyrr en í desember 2019. Frumvarpið var hins vegar svæft í nefnd, aftur að mestu fyrir tilstilli þingmanna Sjálfstæðisflokks, og fékk ekki afgreiðslu.
Breytt í COVID-19 stuðning
Þess í stað var ákveðið að taka þá fjármuni sem búið var að heita í styrkina og breyta þeim í einskiptis neyðarstyrk vegna COVID-19. Lilju var falið að útfæra greiðslu þeirra í reglugerð. Það gerði hún í byrjun júlí.
Í reglugerðinni var sú breyting gerð á upprunalegri úthlutunaraðgerð að sú upphæð sem stærstu fjölmiðlafyrirtæki landsins gátu sótt í ríkissjóð var tvöfölduð, úr 50 milljónum króna í 100 milljónir króna. Fyrir vikið skertust greiðslur sem upprunalega voru ætlaðar 20 smærri fjölmiðlafyrirtækjum um 106 milljónir króna en sama upphæð fluttist til þriggja stærstu einkareknu fjölmiðlafyrirtækja landsins, Árvakurs, Sýnar og Torgs. Árvakur, sem gefur út Morgunblaðið og tengda miðla, fékk mest allra, eða hámarksstyrk upp á 99,9 milljónir króna.
Ráðherra væntir samstöðu
Lilja ritaði grein í Morgunblaðið í morgun þar sem hún fjallar um styrki til einkarekinna fjölmiðla. Þar boðar hún að frumvarp hennar um styrki til einkarekinna fjölmiðla, sem tvívegis hefur verið stöðvað af stjórnarþingmönnum, verði lagt fram í þriðja sinn.
Í greininni segir Lilja að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar séu fyrirheit um bætt rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla. Því verki sé ekki lokið. „Ég vænti þess að samstaða náist um frumvarpið, enda hefur málið lengi verið á döfinni og þörfin brýn. Reynslan af COVID-19-stuðningi við fjölmiðla á þessu ári sýnir líka að hægt er að útfæra stuðning af þessu tagi á sanngjarnan hátt. Fjölmiðlar gegna mikilvægu hlutverki við að efla samfélagslega umræðu. Stuðningur gerir fjölmiðlum kleift að efla ritstjórnir sínar, vera vettvangur skoðanaskipta og tjáningarfrelsis og rækja hlutverk sitt sem einn af hornsteinum lýðræðisins.”
Kjarninn er einn þeirra fjölmiðla sem uppfyllir þau skilyrði sem sett eru fyrir stuðningsgreiðslum.