Félagið HFB-77 ehf. sem á fjölmiðlasamsteypuna Torg, keypti hlutabréf fyrir 592,5 milljónir króna í fyrra. Torg, sem gefur meðal annars út Fréttablaðið og tengdra miðla, er eina þekkta eign félagsins og var keypt á síðasta ári.
Þetta kemur fram í ársreikningi HFB-77 ehf. sem var nýverið birtur í ársreikningaskrá.
Torg tapaði 212 milljónum króna á síðasta ári, samkvæmt frétt um uppfjör samsteypunnar sem birtist í Fréttablaðinu í byrjun ágúst. Ársreikningi Torgs hefur enn ekki verið skilað inn til ársreikningaskrár þrátt fyrir að frestur til að gera slíkt sé liðinn fyrir rúmum mánuði síðan.
Rekstrartekjur Torgs voru 2,3 milljarðar króna en höfðu verið 2,6 milljarðar króna árið áður og drógust saman um yfir tíu prósent milli ára. Hjá Torgi starfa um 100 manns.
Hringbraut rennt inn
Fréttablaðið og tengdir miðlar voru lengi vel hluti af stærstu einkareknu fjölmiðlasamsteypu landsins, 365 miðlum, sem var að uppistöðu í eigu Ingibjargar Pálmadóttur og stýrt af henni og eiginmanni hennar, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni. Árið 2017 voru ljósvakamiðlar 365 miðla, ásamt fréttavefnum Vísi.is, seldir til Sýnar. Eftir stóðu Fréttablaðið og tengdir miðlar, sem voru færðir inn í Torg ehf.
Í október keyptu Helgi og samstarfsmenn hans hinn helminginn auk þess sem sjónvarpsstöðinni Hringbraut var rennt inn í reksturinn. Aftur var kaupverðið sagt trúnaðarmál.
Hringbraut hafði þá verið rekin í umtalsverðu tapi og var skilgreind sem á fallandi fæti. Rekstrartap Hringbrautar var 84,3 milljónir króna í fyrra og 70 milljónir króna árið þar áður. Áður en að Hringbraut var tekin yfir af nýjum eigendum var hlutafé í félaginu lækkað úr 220 milljónum króna í 500 þúsund krónur til jöfnunar á taprekstri þess árum saman.
Þau kaup voru gerð í gegnum nýstofnað félag, HFB-77 ehf.
Bættu DV og tengdum miðlum við
Helgi á 82 prósent í HFB-77 ehf. en aðrir eigendur eru Sigurður Arngrímsson, fyrrverandi aðaleigandi Hringbrautar og viðskiptafélagi Helga til margra ára, með tíu prósent hlut, Jón G. Þórisson, ritstjóri Fréttablaðsins, með fimm prósent hlut, og Guðmundur Örn Jóhannsson, fyrrverandi sjónvarpsstjóri Hringbrautar og nú framkvæmdastjóri sölu, markaðsmála og dagskrárgerðar hjá Torgi, með þriggja prósenta hlut.
Torg eignaðist síðan DV og tengda miðla af Frjálsri fjölmiðlun í desember 2019. Þeirri sameiningu var formlega lokið 1. apríl 2020.
Ástæðan fyrir kaupunum var sögð vera erfitt rekstrarumhverfi, en Frjáls fjölmiðlun tapaði 317,6 milljónum króna í fyrra. Alls tapaði félagið 601,2 milljónum króna frá því að það keypti fjölmiðlanna haustið 2017 og fram að síðustu áramótum, eða 21,5 milljónum króna að meðaltali á mánuði.
Það var fjármagnað með vaxtalausu láni frá Novator, fjárfestingafélagi sem er að mestu í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar. Innborgað hlutafé á árinu 2019 var 120 milljónir króna en það hafði verið 190 milljónir króna árið áður. Alls nam hlutafé í félaginu 340,5 milljónum króna sem þýðir að um 900 milljónir króna hafa runnið inn í reksturinn í formi hlutafjár og vaxtalausra lána.
Heimildir Kjarnans herma að ekkert hafi verið greitt fyrir DV og tengda miðla, heldur reksturinn einfaldlega yfirtekinn. Fyrrverandi aðaleigendur Hringbrautar fengu svo lítinn hlut í HFB-77 ehf. þegar því fjölmiðlafyrirtæki var rent inn í Torg. Helstu kaup á hlutabréfum voru því þegar að HFB-77 ehf. keypti Torg.
Í ársreikningi HFB-77 ehf. kemur fram að hlutabréfaeign félagsins sé metin á 592,5 milljónir króna og að félagið skuldi ónafngreindum tengdum aðila nákvæmlega sömu upphæð. Í reikningnum kemur fram að kaupverð hlutabréfa hafi verið 592,5 milljónir króna á síðasta ári.
Lestur í sögulegri lægð
Fréttablaðið, fríblað sem dreift er ókeypis í 80 þúsund eintökum á heimili á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri, er flaggskip Torgs. Það kemur nú út fimm sinnum í viku. Útgáfudögum þess var fækkað um einn í apríl síðastliðnum, þegar ákveðið var að blaðið myndi ekki lengur koma út á mánudögum. Síðasta breyting á útgáfutíðni fyrir það hafði verið í janúar 2009, skömmu eftir bankahrunið, þegar Fréttablaðið hætti að koma út á sunnudögum.
Blaðið var fyrst gefið út árið 2001 og náði fljótt mikilli fótfestu á dagblaðamarkaði með tilheyrandi sneið af auglýsingatekjukökunni. Vorið 2007 sögðust 65,2 prósent landsmanna lesa Fréttablaðið.
Undir lok árs 2015 fór lestur blaðsins í fyrsta sinn undir 50 prósent og tæpum þremur árum siðar fór hann undir 40 prósent. Nú mælist lestur Fréttablaðsins 35,1 prósent.
Lesturinn hefur að mestu dregist saman hjá yngri lesendum. Vorið 2010 lásu um 64 prósent landsmanna í aldurshópnum 18 til 49 ára blaðið. Nú lesa 25 prósent landsmanna undir fimmtugu það.
Þegar 400 milljónum króna var útdeilt í rekstrarstuðning til einkarekinna fjölmiðla í síðasta mánuði, til að mæta efnahagsáhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, fékk Torg alls tæplega 65 milljónir króna í sinn hlut.