Frá því að kórónuveirufaraldurinn, sem veldur COVID-19 sjúkdómnum, skall á Íslandi seint í febrúar á þessu ári hafa stjórnvöld gripið til margháttaðra aðgerða til að reyna að fyrirbyggja eða bregðast við neikvæðum efnahagslegum áhrifum hans.
Gallup hefur reglulega mælt skoðun almennings á þeim aðgerðum frá því í byrjun mars. Í fyrstu könnuninni, sem gerð var áður en að helstu takmarkanir á frelsi til atvinnu, leiks og ferðalaga tóku gildi, töldu um 22 prósent landsmanna að stjórnvöld væru að gera of lítið til að bregðast við efnahagslegu stöðunni. Hægt og rólega breyttist sú afstaða og í byrjun apríl, þegar sóttvarnaraðgerðir stjórnvalda hér heima og víða erlendis voru farnar að bíta verulega á íslenska efnahagskerfinu, var hlutfall þeirra sem töldu íslensk stjórnvöld gera of lítið komið upp í tæplega 38 prósent.
Þegar sú mæling var gerð höfðu stjórnvöld þó kynnt fyrsta efnahagspakka sinn vegna efnahagslegra áhrifa kórónuveirufaraldursins. Heildarvirði hans var sagt vera 230 milljarðar króna.
Samhliða því að smitum tók að fækka hratt í íslensku samfélagi í apríl, og að samfélagið opnaðist á ný í maí, og landsmenn ferðuðust innlands og nutu meira einstaklingsfrelsis en flestar aðrar þjóðir, fækkaði þeim sem töldu að stjórnvöld væru að gera of lítið. Í lok júní sögðu um 27 prósent að þeir teldu svo vera.
Það hafa aldrei fleiri verið á þeirri skoðun að ríkisstjórnin væri að gera of lítið til að fyrirbyggja eða bregðast við neikvæðum efnahagslegum áhrifum af kórónuveirufaraldrinum og það þarf að fara aftur til byrjun apríl til að sjá jafn stórt stökk í vaxandi óánægju og varð nú á fyrri hluta októbermánaðar.
Flestar aðgerðirnar hittu ekki eins og þeir áttu að gera
Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur kynnt nokkra „efnahagspakka“ frá því að kórónuveirufaraldurinn skall á. Sá fyrsti var, líkt og áður sagði, kynntur í Hörpu 21. mars. Þar var því haldið fram að pakkinn væri metinn á 230 milljarða króna og þar af áttu um 60 milljarðar króna að vera bein innspýting úr ríkissjóði.
„Þetta eru stærstu einstöku efnahagsaðgerðir sögunnar,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, á blaðamannafundi sem haldinn var vegna þessa.
Um var að ræða tíu aðgerðir sem áttu að tryggja varnir, vernd og viðspyrnu. Hluti þeirra var þess eðlis að langur tími mun líða þangað til að hægt verður að mæla árangur aðgerðanna. Það á til dæmis við 20 milljarða kóna fjárfestingaátak og aðgerðir til að greiða fyrir innflutningi með niðurfellingu tollafgreiðslugjalda og frestun á greiðslu á aðflutningsgjöldum. En aðrar aðgerðir áttu að hafa mikil mælanleg áhrif fljótt. Flestar þeirra hafa ekki skilað þeirri árangri sem reiknað var með, líkt og farið var yfir í fréttaskýringu í Kjarnanum í lok ágúst. Sú sem hefur lukkast best er hin svokallaða hlutabótaleið.
Mánuði síðar, 21., apríl, voru tíu aðgerðir í viðbótar kynntar til leiks. Heildarkostnaður við þann aðgerðarpakka átti að vera um 60 milljarðar króna. Þar skiptu mestu máli aðgerðir fyrir lítil fyrirtæki, bónusgreiðslur til framlínustarfsmanna og sértækur styrkur til fjölmiðla. Auk þess voru í pakkanum aðgerðir sem er erfitt að mæla eins og er, líkt og jöfnun tekjuskatts, sértækur stuðningur við sveitarfélög og ýmiskonar framlög til meðal annars geðheilbrigðismála og fjarþjónustu.
Heildarkostnaður við þennan pakka hefur verið langt frá því sem lagt var upp með.
Þegar frumvarp um uppsagnarstyrki var lagt fram um miðjan maí var gert ráð fyrir því að bein útgjöld ríkissjóðs vegna úrræðisins yrðu 27 milljarðar króna. Frestur til að sækja um styrkina rann út 20. ágúst og enn sem komið er hefur kostnaðurinn verið rúmlega þriðjungur af þeirri upphæð.
Nýr 25 milljarða króna pakki
29. september síðastliðinn kynnti ríkisstjórnin svo átta aðgerðir, nokkurs konar pakka fjögur, sem hún telur að muni kosta skattgreiðendur 25 milljarða króna. Aðgerðarpakkinn var kynntur til að höggva á þann hnút sem var á vinnumarkaði eftir að Samtök atvinnulífsins (SA) boðuðu atkvæðagreiðslu um uppsögn Lífskjarasamningsins. SA féll frá áformunum eftir að pakkinn var kynntur.
Helstu aðgerðir eru þær að tryggingagjald verður lækkað tímabundið í eitt ár, til loka árs 2021, um 0,25 prósent og er kostnaður ríkissjóðs við þetta metin á fjóra milljarða króna. Full endurgreiðsla á virðisaukaskatti undir hatti úrræðisins „Allir vinna“ verður framlengt út árið 2021 og er kostnaður við þá aðgerð metin á átta milljarða króna.
Þá ætla stjórnvöld að beina frekari beinum styrkjum til fyrirtækja sem „orðið fyrir tekjuhruni vegna COVID-19 faraldursins“. Gert er ráð fyrir að styrkirnir geti numið um sex milljörðum króna.
Í síðustu viku var greint frá útfærslu styrkjanna. Fyrirtæki sem eru skylduð til þess að loka dyrum sínum núna í þriðju bylgju faraldursins vegna sóttvarnareglna munu geta sótt um 600 þúsund krónur í lokunarstyrk með hverjum starfsmanni á mánaðargrundvelli. Alls geta styrkirnir numið 120 milljónum króna að hámarki á hvert fyrirtæki.