1. Níu sveifluríki og Texas
Kosið er um 538 kjörmenn í öllum 50 ríkjum Bandaríkjanna og gildir þá sú regla í langflestum tilvikum að sá frambjóðandi sem fær flest atkvæði í hverju ríki taki til sín alla kjörmenn þess. Munurinn á fylgi frambjóðenda er þó mikill á milli ríkja og því eru úrslitin talin nær örugg í flestum þeirra nú þegar.
Vefsíðan 270ToWin, sem tekur saman skoðanakannanir úr ýmsum áttum, spáir að Joe Biden, forsetaefni Demókrata, eigi 183 kjörmenn örugga og að Donald Trump sitjandi forseti eigi 77 kjörmenn örugga. Frambjóðendurnir þurfa að tryggja sér að minnsta kosti 270 kjörmenn til þess að sigra kosningarnar.
Beðið verður hins vegar eftir úrslitum í níu ríkjum með eftirvæntingu, það er í Flórída, Arizona, Pennsylvaníu, Ohio, Michigan, Norður-Karólínu, Wisconsin, Iowa og Georgíu. Þessi ríki, sem í daglegu tali eru kölluð sveifluríki (e. Swing states) munu líklega ráða úrslitum kosninganna.
Til viðbótar við þessi ríki gætu niðurstöðurnar í Texas einnig haft mikil áhrif á lokaniðurstöður kosninganna. Ríkið inniheldur 38 kjörmenn, sem yrði stór biti fyrir hvorn forsetaframbjóðandann. Líklegra er að Trump ná flestum atkvæðum þar, en samkvæmt vefsíðunni FiveThirtyEight eru þó 38 prósenta líkur á að Biden sigri í ríkinu, sem eru meiri sigurlíkur en Trump hefur í sveifluríkinu Flórída.
2. Metkjörsókn fyrir kjördag
Sökum yfirstandandi kórónuveirufaraldurs hefur meirihluti ríkjanna leyft kjósendum að póstleggja atkvæði sín, auk þess sem kjörstaðir hafa verið opnir í lengri tíma en venjulega. Stór hluti bandarískra kjósenda hefur nýtt sér þessar leiðir, en samkvæmt New York Times voru nær 100 milljónir Bandaríkjamanna búnar að greiða atkvæði fyrir kjördag. Til samanburðar kusu alls 137 milljónir í síðustu forsetakosningum þar í landi.
3. Talning póstatkvæða og mannekla gæti seinkað niðurstöðum
Mikill fjöldi póstatkvæða gæti þó leitt til þess að niðurstöður kosninganna komi seinna en í fyrri kosningum, þar sem lengri tíma tekur að telja slík atkvæði. Í mörgum ríkjum skiptir heldur ekki máli hversu snemma atkvæðin bárust, þar sem óheimilt er að telja þau áður en að kjörkössunum er lokað. Einnig mega póstlögð atkvæði í öðrum ríkjum berast kjörstjórninni alveg fram að næstu viku, svo lengi sem þau voru send í gær.
Til viðbótar við mikinn fjölda póstatkvæða hafa fréttir borist af manneklu á kjörstöðum, þar sem eldri sjálfboðaliðar hafa hætt við að bjóða fram krafta sína vegna smithættu. Ýmis ríki hafa brugðist við þeim skorti með ýmsum leiðum, meðal annars með því að virkja þjóðvarðarliðið og borga opinberum starfsmönnum fyrir að telja atkvæði.
4. Óvíst hvort niðurstöður liggi fyrir í nótt
Líklegt er að varúðarráðstafanirnar sem gerðar hafa verið vegna faraldursins leiði til þess að það muni taka marga daga að telja öll atkvæðin. Samkvæmt greiningu Washington Post hefur atkvæðatalning í fylkiskosningum sem haldnar hafa verið í heimsfaraldrinum að meðaltali tekið fjóra daga.
Á heimasíðunni FiveThirtyEight má sjá spá um birtingu talna í hverju ríki fyrir sig. Samkvæmt henni mætti búast við tölum frá Flórída mjög fljótt, en niðurstöðurnar ætti að liggja fyrir aðeins nokkrum klukkustundum eftir að kjörstaðir loka.
Ef staðan er ekki hnífjöfn mætti einnig búast afgerandi niðurstöðum í Georgia, Texas, Arizona, Norður-Karólínu, Ohio og Wisconsin. Aftur á móti gæti endanleg niðurstaða þar ekki borist fyrr en nokkrum dögum seinna póstlögð atkvæði ráða úrslitum.
Búist er við að lokatölur frá Wisconsin muni liggja fyrir undir lok kosninganæturinnar þar Vestra, eða snemma miðvikudagsmorguns á íslenskum tíma. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir að tölur liggi fyrir í Pennsylvaníu eða Michigan fyrr en eftir nokkra daga.
5. Blátt, rautt og svo aftur blátt
Mikill munur er á kosningahegðun þeirra sem kjósa Trump og þeirra sem kjósa Biden. Demókratar eru mun líklegri en Repúblikanar fyrir að hafa kosið fyrir kjördag, hvort sem það var utan kjörfundar eða ekki. FiveThirtyEight spáir því að þessi mismunur muni hafa áhrif á birtingu úrslitanna.
Samkvæmt vefsíðunni eru fyrstu niðurstöðurnar í mörgum ríkjum líklegri til að vera Biden í vil, en svo gætu þær hallað meira í átt að Trump þegar líður á kosninganóttina og atkvæði frá kjördeginum sjálfum eru talin. Póstlögð atkvæði verða svo talin síðast, en líklegt er að niðurstöðurnar muni þá aftur styrkja stöðu Biden á næstu dögum.
6. Fulltrúadeildin örugg en barátta um öldungadeildina
Til viðbótar við forsetakosningarnar kjósa Bandaríkjamenn einnig til beggja deilda þingsins þar í landi. Samkvæmt skoðanakönnunum er nokkuð öruggt að Demókratar vinni neðri deildina, sem kölluð er fulltrúadeildin og inniheldur 435 þingsæti. Samkvæmt spá FiveThirtyEight eru 97 prósenta líkur á því að Demókratar haldi meirihlutanum sínum þar.
Spáin um öldungadeildina er tvísýnni, en samkvæmt FiveThirtyEighteru fjórðungslíkur á að Repúblíkanar nái meirihluta þar. Fari svo myndi myndast pattstaða á þingi (e. Lame duck parliament), þar sem Repúblikanar yrðu líklegir til þess að hafna öllum lagafrumvörpum sem kæmu frá Demókrötum úr neðri deildinni.
7. Þetta er ekki 2016
Í síðustu forsetakosningum Bandaríkjanna fyrir fjórum árum síðan bentu flestar skoðanakannanir til þess að sigurlíkur Hillary Clinton, þáverandi forsetaframbjóðanda Demókrata, væru meiri en hjá Donald Trump. Annað kom svo í ljós þegar talið var úr kjörkössunum, en Trump tryggði sér forsetatilnefninguna með naumum sigri í þremur ríkjum.
Samkvæmt umfjöllun CBC um málið rýrðu úrslit forsetakosninganna árið 2016 traust til kosningaspáa þar í landi. Hins vegar bætir fréttastofan við að miklar breytingar hafi verið gerðar í gerð spáanna, svo að ólíklegra sé að sömu mistök verði gerð aftur.
Stærstu breytingar á skoðanakönnununum eru þær að nú eru viðmælendur vigtaðir eftir menntunarstigi, en með því ætti að vera auðveldara að heimfæra niðurstöður þeirra yfir á alla þjóðina.
Til viðbótar við betri skoðanakannanir er fylgismunurinn á milli Biden og Trump mun meiri en hann var á milli Clinton og Trump rétt fyrir kosningarnar árið 2016. Þess vegna er enn ólíklegra að kosningaspárnar í ár spái fyrir um rangan sigurvegara, jafnvel þótt skoðanakannanirnar væru jafn ónákvæmar og þær voru fyrir fjórum árum síðan.
8. Twitter leyfir sjö fréttaveitum að “kalla” kosningarnar
Samfélagsmiðillin Twitter tilkynnti í gær að hann hygðist leyfa sjö fréttaveitum að lýsa yfir niðurstöðum kosninganna á samfélagsmiðlinum. Þessir miðlar eru ABC News, AP, CBS, Decision Desk HQ, Fox News og NBC. Allir þessir miðlar sammældust um að fylgja ráðum óháðra sérfræðinga til að finna út hvenær úrslitin yrðu ráðin.
Samkvæmt Twitter munu úrslitin verða talin opinber á samfélagsmiðlinum þegar tveir þessara miðla hafa tilkynnt þau. Þangað til megi búast við viðvörun frá miðlinum ef reynt væri að lýsa yfir sigri annars hvors frambjóðandans.
9. Trump gæti lýst yfir sigri
Áform Twitter um að stýra umfjöllun um kosningarnar komu fram degi eftir að miðillinn Axios greindi frá því að Donald Trump hygðist ætla að lýsa yfir sigri á kosninganóttu ef hann teldi það líklegt að hann myndi vinna. Forsetinn sjálfur hefur neitað ásökunum, en Axios heldur því fram að hann hafi viðrað þessar hugmyndir í einkasamtölum við aðra.
Samkvæmt Axios þyrfti Trump þó að vera með sannfærandi forskot í Ohio, Flórída, Norður-Karólínu, Texas, Iowa, Arizona og Georgia til þess að það myndi gerast.
10. Hæstiréttur gæti blandað sér í málin
Trump hefur einnig látið í veðri vaka að kosningaúrslitin gætu verið í höndum hæstaréttar Bandaríkjanna, þar sem hann hefur haldið því fram að póstkosningar bjóði upp á kosningasvindl.
Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur áður úrskurðað niðurstöðu forsetakosninga þar í landi, en Al Gore, forsetaefni Demókrata árið 2000 fór fram á endurtalningu á atkvæðum eftir að hann tapaði gegn George W. Bush með 537 atkvæðum í Flórída.