Bára Huld Beck

Skoða þurfi í hverju og einu tilviki hvort einstaklingur geti talist „sjálfstæður framleiðandi“

Í nýju mati fjölmiðlanefndar er bent á að skilgreiningin á „sjálfstæðum framleiðendum“ í þjónustusamningnum við RÚV sé víðtækari en sú í fjölmiðlalögunum. Útvarpsstjóri telur að þetta þurfi „að sjálfsögðu að vera eins skýrt og kostur er“. Skoða þurfi það í hverju og einu tilviki hvort einstaklingur geti talist sjálfstæður framleiðandi gagnvart RÚV með hliðsjón af ýmsum þáttum. Inn í það mat þurfi að taka ýmis atriði.

Fjöl­miðla­nefnd metur árlega hvort Rík­is­út­varpið (RÚV) hafi upp­fyllt almanna­þjón­ustu­hlut­verk sitt sam­kvæmt þeim gæða­stöðlum sem fram koma í lögum um RÚV. Matið tekur einnig mið af kröfum og við­miðum sem fram koma í samn­ingi mennta- og menn­ing­ar­mála­ráð­herra og RÚV, um fjöl­miðla­þjón­ustu í almanna­þágu, en í dag­legu tali er talað um þjón­ustu­samn­ing milli aðil­anna tveggja sem gerður er til fjög­­urra ára í senn.

Út er komið mat fjöl­miðla­nefndar fyrir árið 2018 en nefndin hefur kom­ist að þeirri nið­ur­stöðu að Rík­is­út­varpið hafi upp­fyllt almanna­þjón­ustu­hlut­verk sitt á rekstr­ar­ár­inu 2018. Nánar til­tekið hafi RÚV upp­fyllt þá gæða­staðla sem fram koma í lögum um RÚV og haldið áfram að stuðla að lýð­ræð­is­legri umræðu, menn­ing­ar­legri fjöl­breytni og félags­legri sam­heldni í íslensku sam­fé­lagi.

RÚV skuli vera virkur þátt­tak­andi í íslenskri kvik­mynda­gerð

Í lögum um Rík­is­út­varpið segir að Rík­is­út­varpið skuli vera virkur þátt­tak­andi í íslenskri kvik­mynda­gerð, meðal ann­ars með kaupum frá sjálf­stæðum fram­leið­end­um. Í þjón­ustu­samn­ingi mennta- og menn­ing­ar­mála­ráð­herra við Rík­is­út­varpið er mælt fyrir um lág­marks­hlut­fall dag­skrár­efnis sem keypt er af sjálf­stæðum fram­leið­end­um.

Auglýsing

Í skýr­ingum við lög um Rík­is­út­varpið segir að sam­kvæmt þessu skuli Rík­is­út­varpið vera vett­vangur nýsköp­unar í dag­skrár­gerð og styrkja og efla sjón­varps­þátta-, kvik­mynda- og heim­ilda­mynda­gerð með því að ger­ast kaup­andi eða með­fram­leið­andi að slíku efni. Litið sé svo á að Rík­is­út­varpið sé veiga­mik­ill aðili að kvik­myndun og kvik­mynda­gerð hér á landi og af því leiði að hlut­verks þess sé getið í sam­eig­in­legri stefnu rík­is­ins og þeirra sem fáist við kvik­mynd­ir. Einnig sé ráð­gert að Rík­is­út­varpið flytji fréttir af og sýni frá íþrótta­við­burðum bæði inn­an­lands og erlend­is. Í umfjöllun sé gert ráð fyrir að fjöl­breytni sé höfð að leið­ar­ljósi og jafn­ræðis gætt milli íþrótta­greina eins og kostur sé.

Á meðal þess sem fjöl­miðla­nefnd skoðar í árlegu mati sínu er hvort til­skildum við­miðum um kaup af sjálf­stæðum fram­leið­end­um, eins og þau eru skil­greind í þjón­ustu­samn­ingi, hafi verið náð.

Gera verður rík­ari kröfur um sjálf­stæði hinna sjálf­stæðu fram­leið­enda 

Í mati fjöl­miðla­nefndar segir að Rík­is­út­varpið hafi upp­fyllt skil­yrði um fram­leiðslu lista- og menn­ing­ar­efn­is, með sér­stakri áherslu á leikið efni sem og skil­yrði um þátt­töku í íslenskri kvik­mynda­gerð, meðal ann­ars með kaupum frá sjálf­stæðum fram­leið­end­um, árið 2018.

Þá er það mat fjöl­miðla­nefndar að við­mið þjón­ustu­samn­ings um að Rík­is­út­varpið verji 10 pró­sent lág­marks­hlut­falli af heild­ar­tekjum til kaupa af sjálf­stæðum fram­leið­endum árið 2018, telj­ist upp­fyllt.

Aftur á móti bendir fjöl­miðla­nefnd á mis­vísandi skil­grein­ingu á hvað „sjálf­stæður fram­leið­andi“ sé ann­ars vegar í þjón­ustu­samn­ingnum og hins vegar í lögum um fjöl­miðla. Einnig telur nefndin að gera verði rík­ari kröfur um sjálf­stæði og óhæði hinna sjálf­stæðu fram­leið­enda sem greiðslur Rík­is­út­varps­ins renna til.

Umræddir starfs­menn ekki laun­þegar hjá RÚV og því ekki starfs­menn RÚV

Óskaði nefndin sér­stak­lega eftir skýr­ingum á því af hverju verk­taka­greiðslur til til­tek­inna ein­stak­linga, sem þá voru skráðir starfs­menn Rík­is­út­varps­ins á vefnum RÚV.is og starfa meðal ann­ars sem mynda­töku­menn, væru taldar með í útreikn­ingum Rík­is­út­varps­ins á greiðslum til sjálf­stæðra fram­leið­enda. Í svörum skrif­stofu­stjóra RÚV kom fram að umræddir starfs­menn væru ekki laun­þegar hjá RÚV og því ekki starfs­menn RÚV. Þá var ítrekað í svörum skrif­stofu­stjór­ans að RÚV teldi mynda­töku­menn geta talist til sjálf­stæðra fram­leið­enda, þar á meðal mynda­töku­menn sem jafn­framt væru „pródúsent­ar“ eða fram­leið­endur dag­skrár­efnis og sem önn­uð­ust meðal ann­ars dag­skrár­gerð sem fæli í sér mynda­töku, klipp­ingu efn­is, hljóð­setn­ingu og fleira.

Stefán Eiríksson útvarpsstjóri.
Bára Huld Beck

Stefán Eiríks­son útvarps­stjóri seg­ist í svari við fyr­ir­spurn Kjarn­ans ekki gera athuga­semdir við þetta atriði og mat nefnd­ar­innar á því „enda ljóst að starfs­fólk RÚV getur ekki flokk­ast á sama tíma sem sjálf­stæður fram­leið­andi í skiln­ingi fjöl­miðla­laga, það er alveg skýrt og kemur einmitt fram í svör­unum frá skrif­stofu­stjóra RÚV“.

Skráðir starfs­menn RÚV á vef Rík­is­út­varps­ins geti trauðla talist óháðir fjöl­miðla­veit­unni

Að mati fjöl­miðla­nefndar getur skil­grein­ing laga um fjöl­miðla um að sjálf­stæðir fram­leið­endur séu lög­að­ilar óháðir við­kom­andi fjöl­miðla­veitu vart talist upp­fyllt ef um er að ræða verk­taka sem hafa að aðal­starfi að sinna íþrótta­f­réttum eða dag­skrár­gerð í sjón­varps­þáttum sem eru fram­leiddir af RÚV og eru hluti af dag­legri eða viku­legri dag­skrá RÚV. Þá geti ein­stak­lingar sem 7. júlí 2020 voru skráðir starfs­menn RÚV á vef Rík­is­út­varps­ins, með eigið net­fang á net­þjóni RÚV, trauðla talist óháðir fjöl­miðla­veit­unni Rík­is­út­varp­inu í skiln­ingi laga um fjöl­miðla, þótt við­kom­andi ein­stak­lingar séu ekki á launa­skrá Rík­is­út­varps­ins, heldur þiggi verk­taka­greiðsl­ur.

Jafn­framt sé ljóst að sam­kvæmt lögum um fjöl­miðla telj­ist ein­stak­lingar ekki til sjálf­stæðra fram­leið­enda, ein­ungis fyr­ir­tæki sem jafn­framt séu sjálf­stæðir lög­að­il­ar.

„Virð­ast þau sjón­ar­mið sem túlkun Rík­is­út­varps­ins byggir á í raun geta leitt til þess að unnt væri að fella allar greiðslur til ein­stak­linga sem starfa við dag­skrár­gerð hjá Rík­is­út­varp­inu undir greiðslur til sjálf­stæðra fram­leið­enda, að því til­skildu að um verk­taka­greiðslur væri að ræða,“ segir í mati nefnd­ar­inn­ar. Að mati fjöl­miðla­nefndar verður ekki séð að lög­gjaf­inn hafi viljað fella fleiri til­vik þar undir en þau sem miða að því mark­miði að Rík­is­út­varpið skuli vera virkur þátt­tak­andi í íslenskri kvik­mynda­gerð, meðal ann­ars með kaupum frá sjálf­stæðum fram­leið­end­um.

Þarf að vera eins skýrt og kostur er

Útvarps­stjóri gerir í svari sínu til Kjarn­ans engar sér­stakar athuga­semdir við þetta mat nefnd­ar­inn­ar. „Ég held að það sé alveg rétt að það þarf að skoða það í hverju og einu til­viki hvort að ein­stak­lingur geti talist sjálf­stæður fram­leið­andi gagn­vart RÚV með hlið­sjón af ýmsum þátt­um. Inn í það mat þarf að taka ýmis atriði. Til þess­ara atriða hefur einmitt verið horft hjá RÚV og við­eig­andi breyt­ingar gerðar á und­an­förnum árum á þessum atriðum hjá RÚV þegar þetta hefur verið skil­greint og metið í sam­ræmi við ákvæði þjón­ustu­samn­ings­ins.

Þetta þarf að sjálf­sögðu að vera eins skýrt og kostur er, en að því sögðu er líka mik­il­vægt að hafa í huga að á gild­is­tíma þjón­ustu­samn­ings­ins síð­ast­liðin fjögur ár hefur RÚV keypt efni af sjálf­stæðum fram­leið­endum langt umfram þá skyldu sem skil­greind er í samn­ingn­um. Því eiga allar bolla­legg­ingar um að eitt­hvað vanti þarna upp á ekki við,“ segir Stefán í svari sínu.

Auglýsing

884 millj­ónir til sjálf­stæðra fram­leið­enda árið 2018

Sam­kvæmt þjón­ustu­samn­ingi Rík­is­út­varps­ins við mennta- og menn­ing­ar­mála­ráðu­neytið átti Rík­is­út­varpið að verja að lág­marki 10 pró­sent af heild­ar­tekjum á árinu 2018 til kaupa af sjálf­stæðum fram­leið­end­um, það er til að kaupa eða vera með­fram­leið­andi að leiknu sjón­varps­efni, kvik­mynd­um, heim­ild­ar­myndm eða öðru dag­skrár­efni í miðlum Rík­is­út­varps­ins.

Í grein­ar­gerð Rík­is­út­varps­ins um fjöl­miðla­þjón­ustu í almanna­þágu 2018 kemur fram að allt fram­lag Rík­is­út­varps­ins til leik­ins efnis árið 2018 hafi runnið til sjálf­stæðra fram­leið­enda og fram­leiðslu­fyr­ir­tækja, eins og á fyrra ári. Í grein­ar­gerð­inni segir jafn­framt að kaup Rík­is­út­varps­ins af sjálf­stæðum fram­leið­endum árið 2018 hafi verið 884 millj­ónir króna eða 13,24 pró­sent af heild­ar­tekjum Rík­is­út­varps­ins það ár, sem er vel yfir því lág­marki sem miðað er við í þjón­ustu­samn­ingi fyrir árið 2018 sem var 10 pró­sent.

Sam­kvæmt list­anum sem afhentur var Frétta­blað­inu námu kaup af sjálf­stæðum fram­leið­endum hins vegar 796.306.285 krónur eða 11,93 pró­sent af heild­ar­tekjum Rík­is­út­varps­ins 2018, sem einnig er vel yfir því lág­marki sem skil­greint er í þjón­ustu­samn­ingi fyrir það ár. Sam­kvæmt Rík­is­út­varp­inu skýrist það af því að listi Frétta­blaðs­ins hafi tak­markast við sjón­varps­efni (þar með talið tal­setn­ingu og tækja­leigu) en talan sem birt­ist í grein­ar­gerð RÚV og árs­skýrslu hafi tekið til allra miðla. Þá hafi listi Frétta­blaðs­ins grund­vall­ast á svari ráð­herra vegna fyr­ir­spurnar til Alþing­is. Fram kemur í skýr­ingum RÚV að í sam­ráði við ráðu­neytið hafi verið ákveðið að miða aðeins við sjón­varps­efni sem RÚV hafi keypt eða verið með­fram­leið­andi að í svörum við fyr­ir­spurn Alþing­is. Talan í grein­ar­gerð RÚV bygg­ist á þjón­ustu­samn­ingn­um.

Skil­grein­ing á hug­tak­inu sjálf­stæður fram­leið­andi ekki að finna í lögum um RÚV eða í þjón­ustu­samn­ingi

Fram kemur í mati fjöl­miðla­nefndar að hvorki í lögum um Rík­is­út­varpið né í samn­ingi um fjöl­miðla­þjón­ustu í almanna­þágu 2016 til 2019 sé að finna skil­grein­ingu á hug­tak­inu sjálf­stæður fram­leið­andi. Hug­takið er skil­greint svo í lögum um fjöl­miðla:

„Sjálf­stæður fram­leið­andi hljóð- eða myndefnis er fyr­ir­tæki sem jafn­framt er sjálf­stæður lög­að­ili, óháður við­kom­andi fjöl­miðla­veitu í þeim skiln­ingi að hann er ekki undir beinum eða óbeinum yfir­ráðum henn­ar, hvorki sér né sam­eig­in­lega með öðrum, og hefur frelsi til að skil­greina sína eigin við­skipta­stefn­u.“

Sam­kvæmt skil­grein­ingu hug­taks­ins „sjálf­stæður fram­leið­andi“ í lögum um fjöl­miðla geta því ein­ungis fyr­ir­tæki sem jafn­framt eru sjálf­stæðir lög­að­ilar talist sjálf­stæðir fram­leið­end­ur. Þá felur hug­takið í sér að hinn sjálf­stæði fram­leið­andi þurfi að vera óháður Rík­is­út­varp­inu í þeim skiln­ingi að hann sé ekki undir beinum eða óbeinum yfir­ráðum þess.

Í mat­inu segir að svo virð­ist sem grein í þjón­ustu­samn­ingnum 2016 til 2019 sé þó ætlað að hafa víð­tæk­ari skírskotun en hug­tak­inu sjálf­stæður fram­leið­andi sam­kvæmt lögum um fjöl­miðla. Í við­auka við samn­ing­inn sé meðal ann­ars fjallað um sér­stök mark­mið á samn­ings­tím­anum vegna kaupa af sjálf­stæðum fram­leið­endum en þar seg­ir: „­Kaup af sjálf­stæðum fram­leið­endum sem hlut­fall af heild­ar­tekj­um. Um er að ræða kaup á dag­skrár­efni af sjálf­stæðum fram­leið­end­um, með­fram­leiðslu, aðkeypta þjón­ustu, þ. á m. vegna tal­setn­ing­ar, leigu á bún­aði og fleira.“

Breyta skil­grein­ingu í nýjum þjón­ustu­samn­ingi

Elfa Ýr GylfadóttirElfa Ýr Gylfa­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri fjöl­miðla­nefnd­ar, segir í sam­tali við Kjarn­ann að nefndin sé í mat­inu að benda á það að skil­grein­ingin á „sjálf­stæðum fram­leið­end­um“ í þjón­ustu­samn­ingnum við RÚV sé víð­tæk­ari en sú í fjöl­miðla­lög­un­um. „Við erum að skoða þetta út frá þessum ákvæðum um það hvort RÚV hafi upp­fyllt þjón­ustu­samn­ing­inn eða ekki – og lög um RÚV. Það sem við erum að benda á er að það er ekki sam­ræmt orða­lag og ástæð­una fyrir því.“

Hún segir enn fremur að nefndin hafi fengið þær upp­lýs­ingar að breyta eigi skil­grein­ingu til sam­ræm­ingar í nýjum þjón­ustu­samn­ingi sem von er á innan tíð­ar. Í mati nefnd­ar­innar kemur einmitt fram að mennta- og menn­ing­ar­mála­ráðu­neytið hafi upp­lýst hana um að fram­an­greindu samn­ings­á­kvæði verði breytt í drögum að nýjum þjón­ustu­samn­ingi, með þeim hætti að aðeins verði gerð krafa um kaup af sjálf­stæðum fram­leið­end­um. Verði lág­marks­hlut­falli og fjár­hæðum breytt til sam­ræmis við það.

Gamli samn­ing­ur­inn gildir áfram – önnur mál hafa fengið for­gang

Kjarn­inn greindi frá því um miðjan des­em­ber á síð­asta ári að Lilja Alfreðs­dóttir mennta- og menn­ing­­ar­­mála­ráð­herra hefði kynnt drög að nýjum þjón­ust­u­­samn­ingi við RÚV fyrir rík­­is­­stjórn­inni en sá samn­ingur hefur enn ekki verið und­ir­rit­að­ur.

Sam­­kvæmt lögum ber mennta- og menn­ing­­ar­­mála­ráð­herra að gera þjón­ust­u­­samn­ing við RÚV um fjöl­miðlun í almanna­þágu til fjög­­urra ára í senn, eins og áður seg­ir. ­Þjón­ust­u­­­samn­ing­­ur­inn, sem skil­­­greinir hlut­verk, skyldur og umfang RÚV, rann út í lok síð­asta árs. Nýr samn­ingur átti að taka gildi í byrjun þessa árs.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra
Bára Huld Beck

Í svari frá mennta- og menn­ing­ar­mála­ráðu­neyt­inu við fyr­ir­spurn Kjarn­ans segir að samn­ings­að­ilar séu sam­mála um að eldri samn­ingur gildi áfram og hafi önnur mál fengið for­gang. „Drögin sem liggja fyrir eru lík­lega end­an­leg en und­ir­ritun hefur ekki verið tíma­sett,“ segir í svar­inu.

Ekki ein­göngu um greiðslur til lög­að­ila að ræða

Sam­kvæmt lista yfir kaup Rík­is­út­varps­ins af sjálf­stæðum fram­leið­end­um, sem afhentur var Frétta­blað­in­u ­sam­kvæmt úrskurði úrskurð­ar­nefndar um upp­lýs­inga­mál vorið 2020, voru verk­taka­greiðslur til dag­skrár­gerð­ar­fólks, pródúsenta og mynda­töku­manna hjá Rík­is­út­varp­inu á meðal þess sem talið var til kaupa af sjálf­stæðum fram­leið­end­um. Ekki var þar ein­göngu um greiðslur til lög­að­ila að ræða, heldur einnig verk­taka­greiðslur til ein­stak­linga sem, sam­kvæmt upp­lýs­ingum sem sóttar voru 7. júlí 2020 af vefnum RÚV.is, voru starfs­menn ­Ríksút­varps­ins, að því er fram kemur í mati fjöl­miðla­nefnd­ar.

Þar á meðal voru greiðslur til ein­stak­linga sem störf­uðu fyrir íþrótta­deild, við sjón­varps­þætt­ina Menn­ing­una, Land­ann, Gettu bet­ur, Silfrið og Vik­una. Einnig vakti athygli nefnd­ar­innar að Við­skipta­ráð væri á lista yfir sjálf­stæða fram­leið­end­ur.

Fjöl­miðla­nefnd óskaði eftir skýr­ingum á þessu með tölvu­pósti til útvarps­stjóra 28. maí síð­ast­lið­inn. Í mat­inu segir að af svörum skrif­stofu­stjóra Rík­is­út­varps­ins 29. júní hafi mátt ráða að Rík­is­út­varpið teldi samn­ings­á­kvæði upp­fyllt með vísan til fram­an­greinds orða­lags í við­auka samn­ings­ins og þess að í grein­inni sé gert ráð fyrir heim­ild til kaupa á „öðru dag­skrár­efni“ í miðlum Rík­is­út­varps­ins en ekki ein­vörð­ungu leiknu sjón­varps­efni, kvik­myndum og heim­ild­ar­mynd­um. Jafn­framt kom fram að Rík­is­út­varpið líti ekki svo á að ein­göngu lög­að­ilar geti talist til sjálf­stæðra fram­leið­enda:

„Varð­andi „hvort Rík­is­út­varpið telji ein­stak­linga, þ.m.t. verk­taka sem starfa fyrir Rík­is­út­varpið sem mynda­töku­menn eða við aðra dag­skrár­gerð, til sjálf­stæðra fram­leið­enda“, þá voru mynda­töku­menn ekki flokk­aðir sem slíkir fyrir árið 2018. Hitt er rétt að ein­stak­lingar sem koma að dag­skrár­gerð geta talist til sjálf­stæðra fram­leið­anda. Þá er um að ræða ein­stak­linga, sem eru ekki laun­þegar hjá RÚV, og sem hafa með höndum sjálf­stæðan rekstur yfir­leitt í gegnum lög­per­sónu, en stundum á eigin kenni­tölu. Þessir aðilar eru óháðir RÚV í þeim skiln­ingi að þeir eru ekki undir beinum eða óbeinum yfir­ráðum RÚV, hvorki sér né sam­eig­in­lega með öðrum, og hafa frelsi til að skil­greina sína eigin við­skipta­stefnu. Er þetta í sam­ræmi við skil­grein­ingu fjöl­miðla­laga og eðli máls og meg­in­reglur fjár­muna­rétt­ar. Sömu sjón­ar­mið gætu átt við mynda­töku­menn ef því væri að skipta.

Það hefur þannig ekki verið skiln­ingur RÚV, frekar en ráðu­neyt­is­ins, að „ein­yrkjar“ séu und­an­skild­ir, enda eru þeir mik­il­vægur þáttur í flóru sjálf­stæðra aðila á mark­aði rétt eins og lög­að­ilar á borð við stór fram­leiðslu­fyr­ir­tæki,“ segir í tölvu­pósti frá skrif­stofu­stjóra Rík­is­út­varps­ins 29. júní til fjöl­miðla­nefnd­ar. 

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar