„Mikil fjölgun COVID-19-smita á haustdögum og hertar sótt varnir valda því að dregið hefur úr þeirri viðspyrnu í efnahagslífinu sem hófst á þriðja fjórðungi ársins eftir sögulegan samdrátt á öðrum ársfjórðungi. Efnahagshorfur hafa því versnað og gerir nóvemberspá Peningamála ráð fyrir 8,5 prósent samdrætti landsframleiðslu á þessu ári sem er ríflega 1 prósentu meiri samdráttur en spáð var í ágúst.“
Þetta er meðal þess sem fram kemur í yfirlýsingu peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands sem birt var í morgun samhliða ákvörðun hennar um að lækka stýrivexti á Íslandi í fyrsta sinn niður fyrir eitt prósent. Þeir eru nú 0,75 prósent.
Í spá Seðlabankans er auk þess spáð minni hagvexti á næsta ári en áður var gert, að hann verði 2,3 prósent í stað 3,4 prósent líkt og spáð var í ágúst.
Að mati nefndarinnar er óvissa um efnahagshorfur mikil og mun þróun efnahagsmála að töluverðu leyti ráðast af framvindu farsóttarinnar. „Gert er ráð fyrir að hún verði að mestu gengin niður í lok þessa árs og að víðtæk bólusetning hafi náðst hér á landi og í helstu viðskiptalöndum um mitt næsta ár. Efnahagsbatinn verður enn hægari ef erfiðara reynist að ráða niðurlögum farsóttarinnar. Hið sama á við ef heimilin ganga hægar á þann sparnað sem byggst hefur upp í far - sóttinni. Gangi betur í viðureigninni við farsóttina eða ef heimilin ganga hraðar á eigin sparnað verður efnahagsbatinn með sama hætti kröftugri.“
Ferðamenn verða færri en forsendur fjárlaga segja til um
Í ritinu Peningamál, sem Seðlabankinn birti samhliða vaxatáákvörðun sinni í dag, segir að ástæða þess að spá bankans fyrir næsta ár er svartari nú en í ágúst er sú að hann telur horfur á að færri ferðamenn komi til landsins á árinu 2021 en áður var reiknað með, en í forsendum fjárlaga var til að mynda gengið út frá því að þeir yrðu 900 þúsund. „Atvinnuleysi eykst því meira og verður þrálátara. Þótt spáð sé kröftugum hagvexti árin 2022-2023 næst framleiðslustig ársins 2019 ekki fyrr en árið 2023,“ segir í Peningamálum.
Mikil óvissa sé um horfur í ferðaþjónustu um heim allan og um hvenær verði horfið frá hömlum á ferðalög milli heimsálfa, einkum milli Evrópu og Norður-Ameríku.
Seðlabankinn áætlar því að um 750 þúsund erlendir ferðamenn komi til landsins á næsta ári sem eru umtalsvert færri ferðamenn en í ágústspánni sem áætlaði að þá kæmu um ein milljón farþegar, og um 150 þúsund færri en forsendur fjárlaga gerðu ráð fyrir.
Jákvæðu tíðindin eru þó þau að gert er ráð fyrir að framleiðslugeta ferðaþjónustu varðveitist að miklu leyti og því geti efnahagsbatinn orðið hraður þegar fólk fer aftur að ferðast milli landa og að um 1,5 milljónir farþega komi til landsins árið 2022.
Búinn að kaupa fyrir tvo milljarða
Fjármögnunarþörf ríkissjóðs hefur aukist eftir því sem áhrif faraldursins verða langvinnari og vega væntingar um aukna skuldsetningu ríkissjóðs. Seðlabankinn telur að hún vegi þungt í hækkun langtímavaxta að undanförnu ásamt því að erlendir aðilar, meðal annars evrópska skuldastýringarfyrirtækið BluBay Asset Management, hafi selt ríkisskuldabréf fyrir um 45 milljarða króna frá því í byrjun ágúst.
Bankinn hefur verið gagnrýndur fyrir að eiga sinn þátt í þeirri hækkun sjálfur vegna þess að bankinn hefur ekki verið eins virkur í að kaupa ríkisskuldabréf og hann boðaði í vor. Þá tilkynnti bankinn að hann myndi hefja kaup á ríkisskuldabréfum á eftirmarkaði til að tryggja enn frekar að lausara taumhald peningastefnunnar miðlist til heimila og fyrirtækja og að kaupin gætu numið allt að 150 milljörðum króna. Hingað til hefur Seðlabankinn keypt fyrir tvo milljarða króna.
Í greiningu Íslandsbanka á stöðunni, sem birt var í síðustu viku, keom fram að ávöxtunarkrafa langra verðtryggðra ríkisskuldabréfa sé nú tæpu prósentustigi hærra en í lok ágústmánaðar, en hún leiðir af sér hækkun langtímavaxta. Samkvæmt Íslandsbanka á þessi þróun engan sinn líka meðal annarra þróaðra ríkja, þar sem stjórnvöld hafi víðast hvar reynt að halda vöxtum niðri í kórónukreppunni.
Í greiningu sinni bætir Íslandsbanki við að hærri langtímavextir séu farnir að endurspeglast í versnandi lánskjörum heimila og fyrirtækja, en hann hækkaði sjálfur vexti á húsnæðislánum sínum í lok síðasta mánaðar vegna þess.