Íslandi hefur verið tryggður aðgangur að bóluefni Pfizer gegn COVID-19. Sömu sögu er að segja um öll lönd innan Evrópusambandsins sem og Bretland, Bandaríkin og Kanada. Skammtarnir skipta hundruðum milljóna enda hefur samkomulag náðst við fleiri lyfjafyrirtæki sem framarlega eru í þróun bóluefna við sjúkdómnum. Þessi ríki hafa tryggt sér svo marga skammta að þau geta fræðilega séð bólusett hvern og einn íbúa mörgum sinnum. Bandaríkin og Bretland gætu, ef þau fengju alla þá skammta sem samið hefur verið um, bólusett alla íbúa fjórum sinnum. Kanada fimm sinnum.
Samningum við lyfjafyrirtækin sem tryggja okkur bóluefni hefur fylgt léttir. Fyrr en síðar, jafnvel þegar í þessum mánuði, mun bólusetning hefjast. Það sér fyrir endann á faraldrinum.
Eða hvað?
Áskoranirnar við að bólusetja alla heimsbyggðina, 7,7 milljarða manna, eru margar. Þær felast í framleiðslu bóluefnisins, hver eigi að borga hana og hvernig eigi að dreifa því.
Þá er ein helsta áskorunin sú að vinna traust fólks á bóluefninu svo að margir láti bólusetja sig þannig að hjarðónæmi fáist. Fræða þarf almenning um efnið, upplýsa alla um virkni þess og mögulegar aukaverkanir og þar fram eftir götunum.
Þau þrjú bóluefni sem eru hvað næst því að komast á markað þarf að geyma með mismunandi hætti. Bóluefni Pfizer þarf að geyma í 70 stiga frosti, bóluefni Moderna í um 20 stiga frosti og það sem AstraZeneca er að vinna að með Oxford-háskóla þarf einnig að geyma í kulda en þó ekki undir frostmarki. Séu efnin ekki geymd við þessar aðstæður virka þau ekki sem skyldi. Það gefur augaleið að þetta eitt og sér, geymsluaðferðin, er ekki á allra færi. Í mörgum Afríkulöndum, svo dæmi sé tekið, hafa heilbrigðisstofnanir ekki aðgang að tryggu rafmagni. Því er ekki hægt að treysta því að kæling bóluefnanna takist.
Unnið að lausnum
Lyfjaframleiðendurnir og fyrirtæki þeim tengd eru að reyna að finna lausnir til að hægt sé að flytja og geyma efnin án þess að til kælingar á viðtökustað þurfi að koma. Þannig er verið að framleiða kælikassa með þurrís en lítið má þá útaf bregða svo að efnið spillist ekki.
Þá þarf sérhæft starfsfólk á hverjum stað til að meðhöndla bóluefnið. Enn ein hindrunin er svo sú vegalengd sem margir jarðarbúar þurfa að fara til að komast á næstu heilsugæslu. Hér í vestrænum heimi er slíkt sjaldan fyrirstaða en í fjölmörgum löndum er næsta heilsugæsla í mikilli fjarlægð og það getur tekið fleiri klukkutíma og jafnvel daga að komast þangað fótgangandi, á hjóli eða í báti. Þetta hefur svo aftur í för með sér enn eitt vandamálið. Í fátækum löndum skiptir hver vinnudagur öllu máli. Þannig að ef fólk missir úr vinnu í einn eða fleiri daga vegna þess að það þarf að fara í bólusetningu um langan veg þýðir það að fjölskyldan á ekki fyrir mat þann daginn.
Djúp gjá misréttis
Auðugustu ríki heims hafa þegar tryggt sér bróðurpartinn af fyrstu skömmtum bóluefnanna sem þykja lofa hvað bestu. Af þessu hafa hjálparsamtök og stofnanir, m.a. Oxfam, áhyggjur því samhliða þessu hefur myndast djúp gjá misréttis milli iðnríkjanna og fátækari ríkja heims. Þó að vonir séu bundnar við alþjóðlegar skuldbindingar um að tryggja afhendingu bóluefnis til fátækari landa, eru uppi efasemdir um að það gangi eftir. Að minnsta kosti þykir ljóst að mörg þeirra verða ekki í forgangi þegar kemur að bólusetningu gegn COVID-19.
Þrátt fyrir þessa alþjóðasamninga, sem eiga að tryggja jafnan aðgang að bóluefninu, munu íbúar fátækra landa ekki fá sprautuna eftirsóttu fyrr en árið 2023 og jafnvel ekki fyrr en árið 2024, að því er fram kemur í spá vísindamanna við Duke-háskóla sem rýnt hafa í gögn um dreifingu bóluefnisins.
Peningavaldið
Ein skýringin felst í því valdi sem ríkari þjóðir hafa. Getan til að framleiða bóluefnin verður takmörkunum háð og vestræn ríki hafa frá því í október tryggt sér bróðurpartinn af því bóluefni sem hægt verður að framleiða í fyrstu. Í þessum hópi eru einnig Indland, sem hefur tryggt sér 1,6 milljarða skammta og Brasilía sem hefur tryggt sér um 200 milljónir. Innan við 800 milljónir skammta hafa hins vegar verið eyrnamerktir fátækustu ríkjum heims.
Krishna Udayakumar, sem leiddi rannsókn Duke-háskóla, segir að bóluefnin sem eru enn í þróun muni ekki öll virka og koma á markað. Því séu ákveðin lönd í krafti fjármagns sem þau hafa yfir að ráða að reyna að tryggja sér samninga við marga lyfjaframleiðendur í stað þess að veðja aðeins á einn.
Kostir og gallar
Þessi varúðarráðstöfun hefur sína kosti. Hún þýðir að peningar flæða til rannsókna margra sem eru að reyna að þróa bóluefni. Mun meiri peningar en myndu annars fást til slíkra rannsókna.
En hún hefur einnig sína galla. Sá stærsti er sá að líklega mun þetta tefja dreifingu bólefnis meðal íbúa fátækari ríkja. „Við gætum verið að horfa á tvö til fjögur ár þar til almenningur í ríkjum þar sem meðaltekjur eru lágar fær bóluefni,“ segir Udayakumar.
Udayakumar og samstarfsmenn hans komust að þessari niðurstöðu með því að taka saman alla þá samninga sem gerðir hafa verið milli ákveðinna ríkja og lyfjaframleiðendanna. Niðurstaða vísindamannanna er helst sú að mikið misrétti gæti orðið í dreifingu bóluefnis meðal jarðarbúa.
Mun COVAX virka?
Ýmislegt er þó verið að reyna að til hindra að þetta gerist. Þannig hafa mörg lönd, m.a. Ísland, skuldbundið sig til að aðstoða fátækari ríki til að framleiða og/eða dreifa bóluefni. Samkomulagið kallast COVAX og samkvæmt því er gert ráð fyrir að 2 milljarðar skammta verði aðgengilegir í fátækum ríkjum fyrir lok næsta árs. Þegar hafa 740 milljónir skammtar verðir tryggðir með þessum hætti.
Nokkur bóluefni gegn COVID-19 lofa þegar góðu, innan við ári eftir að faraldurinn braust út í heiminum. Tilraunir með fjögur þeirra fara að hluta fram í Suður-Afríku. Afríkubúar hafa í gegnum tíðina oftsinnis orðið fyrir barðinu á bíræfnum lyfjafyrirtækjum og því er víða í álfunni til staðar vantraust gagnvart þeim. Og þar er ekki aðeins verið að tala um skelfilegar aðfarir nýlenduríkja í ýmsum tilraunum á fólki á nítjándu og tuttugustu öld. Árið 1996 gaf lyfjarisinn Pfizer 200 börnum í Nígeríu tilraunalyf án samþykkis foreldra þeirra. Höfðað var mál gegn fyrirtækinu en samið var um skaðabætur utan dómstóla. Þegar faraldur ebólu geisaði í Vestur-Afríku árið 2014 voru blóðsýni úr sjúklingum flutt með leynd og án leyfis til rannsóknarstofa í Bretlandi.
Efasemdir gagnvart aðstoð annarra ríkja er einnig fyrir hendi í Afríku. Þær eiga sér augljósar skýringar í fortíðinni en einnig í nútíðinni. Ríkisstjórn Donalds Trump vildi tryggja að Bandaríkjamenn yrðu fyrst bólusettir áður en að bóluefni sem framleitt yrði þar í landi væri dreift til annarra. Þó að þetta kunni að breytast undir stjórn Joe Bidens er þjóðernishyggja sem þessi langt frá því ný af nálinni. Það þarf ekki að fara lengra aftur en til ársins 2009 þegar svínaflensan geisaði til að finna slík dæmi. Afhjúpað var í rannsókn sem birtist í vísindaritinu The Milbank Quarterly í fyrra að ríkari lönd heimsins neituðu að dreifa bóluefni gegn sjúkdómnum til þeirra fátækari fyrr en að tryggt væri að innanlands þörf væri mætt.
Jaðarsettu fólki verði tryggð bólusetning
Rauði krossinn er meðal þeirra sem hefur áhyggjur af dreifingu bóluefnisins og segir að leggja verði áherslu á að fólki sem búi við átök verði einnig tryggður aðgangur að bólusetningum.
„Fólk sem býr á átakasvæðum hefur oft lítinn sem engan aðgang að grunnheilbrigðisþjónustu en þessi samfélög eru jafn viðkvæm fyrir Covid-19 og önnur samfélög og þurfa vernd gegn þessari skæðu veiru,“ segir í yfirlýsingu frá alþjóðaráði Rauða krossins þar sem bent er á að 60 milljónir manna búi á svæðum sem eru undir stjórn vopnaðra hópa og eru því ekki hluti af opinberum áætlunum ríkja um dreifingu bóluefna.
„Jaðarsett samfélög, þar með talið flóttafólk, innflytjendur, umsækjendur um alþjóðlega vernd og fangar, verða einnig að vera með í bólusetningaráætlunum og hafi aðgang að þeirri heilsuvernd sem bóluefnið veitir.“
Biðlar Rauði krossinn því til ríkja um að tryggja að tekið verði tillit til allra hópa við gerð áætlana um framkvæmd bólusetninga.
„Rauði krossinn er tilbúinn að leggja sitt af mörkum til að dreifa Covid-19 bóluefni með samstarfsaðilum Rauða krossins og Rauða hálfmánans, sérstaklega til átakasvæða, svæða nálægt víglínum og til þeirra sem sitja í haldi,” segir Robert Mardini, framkvæmdastjóri alþjóðaráðs Rauða krossins. „Við munum einnig forgangsraða venjubundnum bólusetningum og vinna að því að veita áreiðanlegar upplýsingar um bóluefni.“
Eina vonin
Þó að margir telji að COVAX-samkomulagið, sem er runnið undan rifjum GAVI-samstarfsins sem bæði opinberar stofnanir og einkaaðilar eiga aðild að, muni tryggja jafna útdeilingu bóluefnis gegn COVID-19 hafa langt í frá allir tröllatrú á að það muni ganga eftir.
Þegar samkomulagið var kynnt var sagt að fátækari þjóðir þyrftu ekki að borga fyrir bóluefnið. Nú er sagt að þær fái hvern skammt á mun lægra verði en þær ríkari og að telji þær sig ekki geta greitt uppsett verð verði reynt að koma til móts við þær. 82 þjóðir hafa skrifað undir COVAX. Bandaríkin eru ekki í þeim hópi.
Þó að markmið sé sett er ekki víst að því verði náð. Engu að síður er COVAX-samkomulagið besta og eina von margra ríkja til að fá bóluefni.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, vakti máls á dreifingu bóluefnis til fátækari ríkja á ráðstefnu 20 stærstu iðnríkja heims á dögunum. Iðnríkin hafa lofað aðstoð og jöfnum aðgangi að efninu fyrir alla en Merkel lýsti yfir áhyggjum sínum af því að ferlið myndi taka of langan tíma og að það væri of skammt á veg komið. Emannuel Macron Frakklandsforseti tók undir með Merkel á ráðstefnunni og sagði að leiðtogar iðnríkjanna yrðu að vinna hraðar og af meiri krafti að því að tryggja fátækum ríkjum aðgang að bóluefninu, að gefa stærri hlut af þeim skömmtum sem þau hafa þegar tryggt sér og að deila þekkingu sinni á framleiðslu þess með fleirum.