Alþingi samþykkti í lok júní að fella nauðsynlegar sálfræðimeðferðir og aðrar klínískar viðtalsmeðferðir undir greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga Íslands. Frumvarpið var samþykkt samhljóða með 54 atkvæðum en níu þingmenn voru fjarstaddir.
Margir fögnuðu frumvarpinu enda er það ekki á allra færi að fara til sjálfstæðs starfandi sálfræðings – en það getur verið mjög kostnaðarsamt. Þrátt fyrir samþykkt frumvarpsins er þó ekki gert ráð fyrir eyramerktu fjármagni í þessa heilbrigðisþjónustu í fjárlagafrumvarpi næsta árs.
Kjarninn spurði Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra í ítarlegu viðtali í vikunni hvað stæði í vegi fyrir því að Sjúkratryggingar Íslands gerðu samninga við sjálfstætt starfandi sálfræðinga.
Svandís sagði að þegar frumvarpið var samþykkt og gert að lögum þá hefði henni fundist eins og fólk hefði haldið að þarna væri málið í höfn. „En þarna er í raun heimild sjúkratrygginga til að semja við sjálfstætt starfandi sálfræðinga eins og aðrar heilbrigðisstéttir.“
Hún telur að næstu skref í málinu séu þau að meta hvert umfang samningsins ætti að vera.
Ríkið sem kaupandi tekur afstöðu til samningsins
Svandís sagði að hún hefði lagt áherslu á það á sínum tíma sem ráðherra að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga og sett í það fjármuni.
„Það eru merktar háar fjárhæðir á fjárlögum næsta árs í að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga. Við höfðum til dæmis áform um það að draga ennþá úr kostnaði aldraðra og öryrkja við tannlækningar. Við til dæmis felldum niður komugjöld þeirra hópa í heilsugæsluna um síðustu áramót. Og við höfum verið að skoða ýmsar leiðir til þess hvar við ættum að bera niður varðandi greiðsluþátttöku og þetta er eitt af því sem er á því borði. Ég vænti þess að það skýrist, að minnsta kosti áður en þingið afgreiðir fjárlagafrumvarpið.“
Samkvæmt ráðherra mun það skýrast hvert umfang samnings sjúkratrygginga við sjálfstætt starfandi sálfræðinga verður. „Það yrði þá eitthvað sem ríkið sem kaupandi slíkrar þjónustu myndi taka afstöðu til. Hversu stór slíkur samningur ætti að vera og þá við hverja og svo framvegis. Þannig að sú skoðun er í gangi ásamt öðru sem er til skoðunar varðandi það að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga.“
Vilji þingsins skýr
Svandís sagði enn fremur að vilji þingsins hefði verið mjög skýr í þessu máli þegar frumvarpið var samþykkt. „Ég hef sjálf verið þeirrar skoðunar að það sé mikilvægt að efla sálfræðiþjónustu almennt, eins og ég hef sýnt með því að stórauka aðgengi að sálfræðingum á heilsugæslunni og koma á þessum geðheilsuteymum. Öll þessi skref lúta að því að efla geðheilbrigðisþjónustu og hafa þau verið mjög ofarlega á dagskrá hjá mér.“
Hún benti á að Sjúkratryggingar Íslands gerðu rammasamning um heilbrigðisþjónustu við hinar ýmsu stéttir, til að mynda sérgreinalækna. Varðandi það að gera samning við sjálfstætt starfandi sálfræðinga þá telur hún að taka verði ákvörðun fyrirfram um hversu margir tímar yrðu keyptir hjá ákveðnum aðilum til þess að fjármunum yrði varið með sem bestum hætti.
„Við þurfum að vita áður en við förum af stað í raun og veru hversu miklum peningum við ætlum að ráðstafa í þennan samning.“
Mikilvægt að fólk fái lausn á vanda sínum sem fyrst
Í greinargerð með frumvarpinu segir að markmiðið sé að almenn sálfræðiþjónusta falli undir greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga Íslands og verði þannig veitt á sömu forsendum og önnur heilbrigðisþjónusta. Sálfræðiþjónusta er nú undanskilin almennri greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga.
„Vaxandi fjöldi fólks greinist með geðraskanir eða önnur andleg veikindi en aðgengi að úrræðum og þjónustu fyrir þennan hóp er takmarkað og kostnaðurinn oft töluverður. Mikilvægt er að tryggja að þeir sem eru með virk einkenni fái lausn á vanda sínum sem fyrst til að koma í veg fyrir vítahring lyfja, þunglyndis og óvirkni. Slíkt getur haft alvarlegar afleiðingar, bæði fyrir þá sem þurfa á hjálp að halda og samfélagið allt. Frumvarpinu er því ætlað að tryggja aðgengi einstaklinga að sálfræðiþjónustu.
Aðgengi að sálfræðiþjónustu er lykilatriði þegar kemur að því að greina kvilla snemma og tryggja nauðsynlega meðferð eftir að greining liggur fyrir. Samkvæmt klínískum leiðbeiningum landlæknis á gagnreynd sálfræðimeðferð (sem er sú meðferð sem hefur í rannsóknum sýnt mestan árangur) að vera fyrsti meðferðarkostur við kvíða, þunglyndi og öðrum sálrænum kvillum. Sálfræðimeðferð í stað lyfjagjafar gerir það að verkum að ráðist er að rótum vandans og getur komið í veg fyrir eða dregið verulega úr lyfjagjöf. Þrátt fyrir það er slík meðferð oftast ekki raunhæfur kostur nema fyrir hluta almennings þar sem framboð er of takmarkað innan heilsugæslunnar, með tilheyrandi biðlistum og töfum á nauðsynlegri meðferð. Þar spilar einnig inn í að ekki er heimild til samninga samkvæmt gildandi lögum um að sjúkratryggingar taki til nauðsynlegrar sálfræðimeðferðar. Ólíkt annarri heilbrigðisþjónustu er því sálfræðiþjónusta fyrst og fremst í boði á starfsstofum sjálfstætt starfandi sálfræðinga, án opinbers stuðnings við þá sem þurfa á þjónustunni að halda,“ segir í greinargerðinni.
Enginn á að neita sér um þjónustu vegna kostnaðar
Enn fremur er bent á að algengi sjálfsvíga og geðrænna veikinda sé alvarlegt vandamál. Orsakir séu margar og mismunandi, en ljóst sé að bregðast verður við þessum vanda. Forvarnir í heilbrigðismálum skipti þar miklu máli, og eigi það jafnt við um líkamlega sjúkdóma sem andlega. Lykilatriði sé að greiða aðgengi fólks að fyrirbyggjandi úrræðum og auka möguleika á því að takast strax á við sjúkdóma eins og þunglyndi og kvíða sem virðist vera að aukast meðal ungs fólks. Slíkt mundi án efa hafa jákvæð þjóðhagsleg áhrif til lengri tíma.
„Koma þarf til móts við ósýnilega sjúkdóma líkt og komið er til móts við þá sem sýnilegir eru. Þannig má auka lífsgæði fólks. Enginn á að neita sér um þjónustu vegna kostnaðar eða skorts á aðgengi, en samkvæmt upplýsingum Hagstofu telja um 33% fólks sig ekki hafa efni á geðheilbrigðisþjónustu. Þetta á sérstaklega við um ungt og tekjulágt fólk. Algengast þykir að einstaklingur þurfi á bilinu 10 til 15 meðferðartíma hjá sálfræðingi til að ná bata. Bein útgjöld vegna slíkrar meðferðar eru því talin í hundruðum þúsunda króna sem ekki er á færi hvers sem er að reiða af hendi,“ segir í greinargerðinni.
Skringilegir tónarnir varðandi forgangsröðun frá ríkisstjórninni
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, var fyrsti flutningsmaður frumvarpsins en með henni voru þingmenn Pírata, Samfylkingar, Miðflokks, Flokks fólksins, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokksins.
Hún spurði heilbrigðisráðherra út í málið í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í vikunni. „Ég verð að viðurkenna að þeir eru svolítið skringilegir tónarnir varðandi forgangsröðun frá ríkisstjórninni. Í miðjum heimsfaraldri er verið að setja fram niðurskurðarkröfu upp á marga milljarða á Landspítalann. Það er ekki hægt að horfa á þetta sem hagræðingarkröfu, ekki ef hún er rýnd. Það þarf m.a. að fresta uppbyggingu innviða, það er ekkert annað en niðurskurðarkrafa. Og korteri eftir Landakotsskýrsluna er þetta afar furðuleg forgangsröðun.“
Vísaði hún í viðtal Kjarnans við ráðherra þar sem Svandís sagði að fara þyrfti yfir það hversu miklum fjármunum ætti að ráðstafa í þennan samning.
Spurði Þorgerður Katrín hversu langt sú vinna væri komin. „Verður sviðsmyndin klár strax á nýju ári? Og við skulum hafa það hugfast að heilsugæslan – ég geri mér grein fyrir því að hæstvirtur ráðherra bendir sífellt þangað – annar ekki því fólki sem er á biðlistunum. Það má kannski segja að eitt af einkennismerkjum þessarar ríkisstjórnar séu biðlistar í heilbrigðiskerfinu. Af hverju? Af því að það má ekki leita til sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólks hér á Íslandi.
Við verðum að horfa á vanda fólksins. Verið er að kalla eftir meðferðum, úrræðum, og þá verðum við einfaldlega að kalla alla á dekk til að svo verði. Það þýðir ekki að útiloka sjálfstætt starfandi sálfræðinga eða annað heilbrigðisstarfsfólk til að taka á þessu. Ég spyr hæstvirtan ráðherra: Munum við sjá skýra sviðsmynd strax á nýju ári þannig að hægt verði að uppfylla þau lög sem samþykkt voru samhljóða hér á þingi fyrir nokkrum vikum?“ spurði hún.
Fjöldamargir samningar í gangi
Svandís svaraði og sagði þetta því miður ekki vera í fyrsta skipti sem farið væri rangt með um að engir samningar væru í gildi við sjálfstætt starfandi aðila á heilbrigðissviði.
„Það eru náttúrlega fjöldamargir samningar í gangi, ég held að þeir séu á annað hundrað. Ég hef sjálf staðið fyrir því að gerðir væru samningar, til að mynda við Ljósið sem aldrei höfðu verið gerðir samningar við fyrr en í minni tíð, vegna þess að ég veit að það þarf margar hendur á dekk og ég hef alltaf talað fyrir því.
Varðandi það hvað háttvirtur þingmaður gerir lítið úr þjónustu heilsugæslunnar vil ég benda honum á að á þessu ári hafa 2.600 manns fengið þjónustu geðheilsuteyma heilsugæslunnar, 2.600 manns sem hv. þingmaður telur ekki ástæðu til að nefna í fyrirspurn sinni hér á Alþingi. Þetta fólk er að fá stuðning og hjálp, faglegan stuðning, sálfræðistuðning, stuðning frá geðlæknum og fleiri stéttum sem það fékk ekki áður. Þetta er breyting,“ sagði Svandís.
Benti heilbrigðisráðherra á að vil ég segja að hún studdi þetta mál vegna þess að hún taldi rétt að heilbrigðisráðherra hefði skýra heimild til að semja við sálfræðinga eins og aðrar heilbrigðisstéttir. „Það er það sem frumvarpið gekk út á og það sem lagabreytingin frá Alþingi gekk út á. Það snerist ekki um að taka ákvörðun um nákvæmlega hvaða upphæð ætti að ráðstafa í slíkan samning. Ég vil fullvissa hv. þingmann um að það er minn vilji að sá rammi liggi fyrir við afgreiðslu fjárlaga nú í desember.“
Langir biðlistar – „Við þurfum allar hendur á dekk“
Þorgerður Katrín sagðist þegar hún kom aftur í pontu frábiðja sér það það að ráðherra skyldi segja að hún væri að tala niður opinbera heilsugæslu. „Það er bara ekki þannig. Hins vegar er staðreyndin sú að fólk er á biðlistum, meðal annars eftir klínískri sálfræðimeðferð og fleira. Því er ekki að leyna að við í Viðreisn höfum ítrekað lagt fram tillögur til þess að leysa biðlistana með því meðal annars að samþætta opinbera þjónustu og sjálfstætt starfandi heilbrigðisþjónustu. Í því er engin ógn svo lengi sem markmiðið er skýrt og markmiðið er að losa fólk undan þjáningum sem hefur verið mánuðum og árum saman á biðlistum. Þess vegna segi ég: Við þurfum allar hendur á dekk.“
Hún sagði að ítrekað hefði ríkisstjórn Vinstri grænna, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks fellt tillögur þeirra sem stuðluðu meðal annars að því að reyna að leysa þennan biðlistavanda, hvort sem talað væri um liðskiptaaðgerðir, mjaðmaaðgerðir eða sálfræðimeðferð.
„Það liggur alveg ljóst fyrir að ungt fólk er á biðlistum eftir sálfræðimeðferð. Verið er að segja að samhliða sóttvarnaaðgerðum þurfum við að huga að lýðheilsu landans. Við þurfum að huga að líðan þjóðar. Eins og staðan er núna munu þau fjárframlög sem eru áætluð í fjárlögum, ekki duga til þess að hjálpa fólki sem er að leita eftir þjónustu,“ sagði hún og spurði Svandísi hvað hún ætlaði að gera til að stuðla að því að allar hendur kæmu raunverulega á dekk til að mæta þörfum fólksins.
„Óþarfi að berja á dyr sem eru opnar“
Svandís svaraði í annað sinn og sagði að einhvern tíma hefði verið sagt við hana að það væri óþarfi að berja á dyr sem væru opnar.
„Það er dálítið það sem mig langar til að segja við háttvirtan þingmann. Við erum sammála um mikilvægi sálfræðiþjónustu. Við erum sammála um að tryggja aðgengi að faglegum stuðningi vegna geðheilbrigðisvanda og að hann sé mikilvægur. Við erum væntanlega sammála um það, ef marka má orð háttvirts þingmanns hér, að það sé mikilvægt að byggja upp sálfræðiþjónustu í opinbera heilbrigðiskerfinu. Ég skil orð háttvirts þingmanns þannig þegar hún frábiður sér það að ég telji hana ekki vera nægilega styðjandi að því er varðar uppbyggingu og fjölgun, tvöföldun, á fjölda sálfræðinga í heilsugæslunni og uppbygging nýrra geðheilsuteyma á landsvísu.“
Taldi Svandís þar með að hún ætti stuðning Þorgerðar Katrínar vísan í því. Jafnframt áréttaði hún að það lægi fyrir við afgreiðslu fjárlaga nú í desember hversu há upphæð gengi til sérstakra samninga við sjálfstætt starfandi sálfræðinga.