Óhætt er að segja að Dönum hafi brugðið í brún þegar frá því var greint, í júní, að kórónavírus hefði greinst í minkum á Norður-Jótlandi. Vitað er að minkar eru sérlega viðkvæmir fyrir alls kyns vírusum og ef vírus finnst á minkabúi er nær öruggt að sá vírus berist á önnur bú. Þótt yfirvöld fyrirskipuðu að öllum dýrum á áðurnefndu búi skyldi þegar í stað lógað dugði það ekki til, smitið barst til Vestur-Jótlands. Öll dýr á viðkomandi búum voru aflífuð.
7. júlí tilkynntu stjórnvöld að ef smit greindist á minkabúi skyldu umgengnisreglur hertar. Skylt yrði að bera grímu, nota spritt, hanska og hlífðarbúnað. Sú breyting var gerð að smituðum dýrum skyldi ekki lógað. Þegar þessi tilkynning var birt höfðu dýr á 125 búum verið skimuð og hvergi fundist smit.
Mikið í húfi
Lang stærstur hluti danskra minkabúa, sem um árabil hafa verið rúmlega eitt þúsund talsins, eru á Norður- og Vestur- Jótlandi. Rekstur minkabús er ekki mannfrekur en um það bil þrjú þúsund manns hafa unnið á þessum rúmlega þúsund búum. Annar eins fjöldi hefur haft atvinnu af störfum sem tengjast minkaeldinu með einum eða öðrum hætti. Á síðustu árum hefur búum fækkað talsvert, breyttur tíðarandi ræður þar miklu.
Dönsk minkaskinn hafa um árabil haft á sér gæðastimpil og um það bil þriðjungur allra seldra minkaskinna í heiminum kemur frá Danmörku. Verð á skinnunum hefur lækkað á allra síðustu árum. Á síðasta ári námu útflutningstekjur vegna sölu á minkaskinnum um það bil fimm milljörðum danskra króna, en voru árið 2013 um það bil 12 milljarðar.
Örlagadagurinn
4. nóvember sl. boðaði Mette Frederiksen forsætisráðherra til fréttamannafundar. Fjölmiðlar höfðu fengið veður af að þar mætti búast við miklum tíðindum. Og sú varð raunin.
Forsætisráðherra tilkynnti að allur minkastofn á öllum búum landsins skyldi felldur. Að sögn ráðherrans væri samtals um að ræða 17 milljónir minka. Ástæðan væri að „nýtt“ afbrigði kórónaveirunnar sem greinst hefði í minkum, og einnig í fólki á Norður-Jótlandi, gæti myndað smitkeðjur meðal íbúa Danmerkur og borist til annarra landa. Áður hafði komið fram að bóluefni sem unnið væri að víða um heim myndi hugsanlega reynast gagnslaust í baráttu við „nýja“ afbrigðið. Forsætisráðherra lagði mikla áherslu á að engan tíma mætti missa og nauðsynlegt væri að hefjast handa við að fella minkastofninn „strax í dag“.
5. nóvember hélt Mette Frederiksen annan fréttamannafund. Þar tilkynnti hún að Norður- Jótlandi yrði „skellt í lás“. Ferðir til og frá þessum landshluta yrðu bannaðar, nema mjög brýna nauðsyn bæri til, allt samkomuhald bannað, kaffihús og matsölustaðir yrðu lokaðir, sömuleiðis íþróttahús og bókasöfn. Einungis nemendur í yngri deildum mættu mæta í skólann og svo framvegis. Engum gat dulist að mikil alvara væri á ferðum.
Lagaheimildina skorti og ráðherra látinn fjúka
Það var stór ákvörðun að fyrirskipa slátrun alls minkastofnsins í landinu og binda þar með endi á atvinnugrein sem á sér áratuga sögu. Þótt ráðherrar hafi talað um að hægt yrði að halda eftir tilteknum lágmarksfjölda, í því skyni að endurreisa minkaræktina síðar, segja bændur það ógerlegt.
Skipun um að lóga minkastofninum þurfti að styðjast við lög. Í ljós kom að slík lög voru ekki til staðar en voru sett eftirá, í miklum flýti. Mogens Jensen matvæla- og landbúnaðarráðherra varð margsaga í viðtölum varðandi lagaheimildina og varð á endanum að segja af sér. Sumir dönsku fjölmiðlanna sögðu að Mette Frederiksen hefði ákveðið að fórna Mogens Jensen til að bjarga eigin skinni, „kastet ham under bussen“ eins og Danir orða það. Mette Frederiksen forsætisráðherra og Nick Hækkerup dómsmálaráðherra hafa síðar sagt að þau orð forsætisráðherrans að aflífa skyldi allan mink í landinu hafi verið tilmæli en ekki tilskipun. „Yfirklór“ sögðu stjórnmálaskýrendur.
Hver skipaði lögreglunni að hringja í bændur?
Eins og áður var nefnt sagði forsætisráðherrann að hafa þyrfti hraðar hendur við að lóga minkastofninum. Ýmsir urðu til að gagnrýna ákvörðunina um að lóga öllum minkum á öllum minkabúum landsins en yfirvöld töldu það einu öruggu leiðina til að koma í veg fyrir útbreiðslu „nýja“ afbrigðisins. Og eins og ráðherrann sagði hófust menn strax handa.
Lögreglan fékk skipun um að hringja í bændur og tilkynna þeim að lóga skyldi öllum minkum. Embættismenn danska ríkislögreglustjórans (Rigspolitiet) skipulögðu símtölin við bændur og lögreglumenn fengu það verkefni að hringja. Þeir fengu sérstakt leiðbeiningablað sem fylgja skyldi. Þeim bændum sem neituðu að lóga stofninum yrði tilkynnt að dýrunum yrði eigi að síður lógað en þá fengju bændur ekki tiltekinn bónus. Í símtölum sem sett hafa verið á netið má heyra tón, sem bændur, og margir aðrir, segja hreina og beina hótun.
Síðastliðinn fimmtudag (26.11.) greindi danska útvarpið, DR, frá bréfi sem varaformaður starfsmannasamtaka ríkislögreglustjóra sendi félagsmönnum. Þar segir að svo virðist sem stjórnmálamenn reyni að gera lögreglumennina að syndaselum. Meðal annars hefði Nick Hækkerup dómsmálaráðherra gagnrýnt að lögreglan hefði fengið það hlutverk að hringja í bændur. Þessi gagnrýni dómsmálaráðherrans vakti mikla athygli enda er hann æðsti yfirmaður lögreglunnar og sá eini, kannski fyrir utan forsætisráðherrann, sem getur sagt lögreglunni fyrir verkum.
Á fréttamannafundi með dómsmálaráðherra þennan sama dag (26.11.) vildu fréttamenn fá svör við því hver hefði skipað lögreglunni að hringja í bændur. Svör fengu þeir ekki, og ráðherrann sagði einfaldlega ,,ekki ég“. En bætti svo við að þetta kæmi í ljós í rannsókn sem þingið hefði ákveðið að færi fram á þessari atburðarás.
Svo var það urðunarklúðrið
Það gekk hratt fyrir sig, og tiltölulega vel, að lóga minkunum. En ekki verður það sama sagt þegar að því kom að urða hræin. 15 milljón hræ (forsætisráðherrann hafði reyndar sagt 17 milljónir) taka mikið pláss og í litlu landi er slíkt pláss ekki auðfundið.
Einn þeirra staða sem ákveðið var að urða hluta hræjanna, samtals um þrjár milljónir, er við æfingasvæði hersins skammt frá Holstebro á Jótlandi. Grafnir voru skurðir sem hræjunum var sturtað í og síðan mokað kalki yfir og jarðvegi þar ofan á. Ekki voru liðnir nema örfáir dagar þegar í ljós kom að eitthvað var ekki eins og það átti að vera. Jarðvegurinn sem mokað hafði verið yfir hræin tók að lyftast. Ástæða þess var gasmyndun í hræjunum. Skurðirnir höfðu að líkindum verið of grunnir og jarðvegurinn sem mokað var yfir hræin of léttur í sér. Talsmenn fyrirtækisins sem sá um urðunarvinnuna sögðu í viðtölum að í einu og öllu hefði verið fylgt leiðbeiningum dönsku umhverfisstofnunarinnar.
Ótti við mengun
En grunnir skurðir og gasmyndun eru ekki það eina varðandi urðun þessara þriggja milljóna minkahræja sem ekki reyndist í lagi. Urðunarsvæðið áðurnefnda er skammt frá litlu vatni, Boutrup Sø. Vatnið og nánasta umhverfi þess er vinsælt útivistarsvæði, einkum á sumrin.
Þegar sveitarstjórnarfólk á svæðinu fékk veður af því að til stæði að urða milljónir minkahræja í nágrenni vatnsins voru strax gerðar athugasemdir við staðarvalið, hræjunum gæti fylgt mikil mengunarhætta.
Dagblaðið Berlinske hefur komist yfir tölvupóstsamskipti Umhverfisstofnunar og sveitarstjórnar á svæðinu. Þar kemur fram að Umhverfisstofnun telur að öruggt sé að urða hræin, og af þeim stafi ekki mengunarhætta ef hvergi sé urðað nær vatninu en í 300 metra fjarlægð.
En, einhverra hluta vegna var þessum leiðbeiningum (eða kröfu) ekki fylgt. Þar sem urðunarsvæðið liggur næst vatninu er fjarlægðin innan við 200 metrar. Sem sagt langt innan þeirra fjarlægðarmarka sem Umhverfisstofnunin mælti fyrir um. Og án þess að formleg leyfi fyrir verkinu lægju fyrir.
Þegar blaðamenn Berlingske reyndu að komast að því hver bæri ábyrgð á því að 300 metra fjarlægarmörkunum var ekki fylgt voru svörin eins og í þekktu íslensku dægurlagi „ekki benda á mig“. Enginn virðist hafa tekið þessa ákvörðun.
Sveitarstjórnarfólk hefur krafist þess að urðunarstaðurinn verði fluttur, öll hræin einfaldlega fjarlægð og þeim fundinn annar staður. Á þessari stundu er ekki vitað hvernig málinu lyktar.