Fátt bendir til þess að pólitískt veðmál Vinstri grænna gangi upp
Vinstri græn hafa ekki mælst með minna fylgi frá vormánuðum 2013. Flokkurinn hefur tapað um 55 prósent af kjósendum sínum frá því að sitjandi ríkisstjórn var sett á laggirnar, en Sjálfstæðisflokkurinn hefur á sama tíma bætt við sig fylgi. Yfirvofandi er frekari ógn frá vinstri sem ýfa upp slæmar minningar úr afhroðinu sem varð í sveitarstjórnarkosningunum 2018. Ef fer sem horfir munu Vinstri græn fá sína verstu niðurstöðu í sögu flokksins í þingkosningum eftir tíu mánuði.
Vinstri græn settust fyrst í ríkisstjórn snemma árs 2009, til að taka til eftir bankahrunið. Eftir kosningarnar það ár sátu þau þar með Samfylkingunni og mynduðu fyrstu hreinu tveggja flokka meirihlutastjórn lýðveldissögunnar. Flokkurinn hafði fengið 21,7 prósent upp úr kjörkössunum í apríl 2009, sem var það mesta sem hann hafði nokkru sinni fengið. Það met stendur enn. Til að setja þann árangur í annað samhengi þá fengu Vinstri græn 3.789 færri atkvæði en Sjálfstæðisflokkurinn í þeim kosningum, og á þeim munaði tveimur prósentustigum.
Þegar komið var að því að kjósa næst, í apríl 2013, var staða önnur. Katrín Jakobsdóttir var nýtekin við Vinstri grænum og Steingrímur J. Sigfússon var sestur aftur í stjórnmálavagninn sem hann átti mestan þátt í að smíða árið 1999, þótt hann ætti enn eftir tvö kjörtímabil þangað til hann lýkur þingferli sem teygir sig inn á fimm mismunandi áratugi.
Breytingarnar virtust ekki ætla að skila miklu, að minnsta kosti fyrst um sinn. Í könnun MMR sem birt var 14. apríl 2013 mældist fylgi Vinstri grænna 6,7 prósent. Afhroð blasti við í kosningunum tveimur vikum áður en gengið var til þeirra.
Staðan batnaði á þeim tíma og í síðustu könnun MMR fyrir kosningarnar 2013 mældist fylgið 11,6 prósent. Niðurstaðan varð á þeim nótum, eða 10,9 prósent fylgi. Nú munaði hins vegar 13,5 prósentustigum og tæplega 26 þúsund atkvæðum á Vinstri grænum og Sjálfstæðisflokknum.
Sá forsætisráðherra sem flestir vildu
Flokkurinn náði vopnum sínum í stjórnarandstöðu og fékk 15,9 prósent þegar kosið var haustið 2016. Hann varð næst stærsti flokkur landsins í fyrsta sinn þótt munurinn gagnvart Sjálfstæðisflokknum væri enn svipaður, eða um 25 þúsund atkvæði. Þar skiptu persónulegar vinsældir Katrínar ekki síst miklu máli. Hún var sá stjórnmálaleiðtogi sem flestir landsmenn vildu sjá sem forsætisráðherra. Stuðningur við það, um 40 prósent í október 2016, var langt umfram mælt fylgi Vinstri grænna.
Margir höfðu bundið miklar vonir við að hún myndi leiða félagshyggjuöfl aftur til valda. Á meðal þeirra var rithöfundurinn Jón Kalman Stefánsson sem skrifaði grein á Kjarnann sem birtist í maí 2015. Þar sagði hann meðal annars að vinstra- og miðjufólk gæti „annaðhvort haldið uppteknum hætti, gengið sundruð til næstu kosninga og þannig tryggt áframhaldandi misskiptingu. Eða fylkt okkur á bak við þann eina stjórnmálamann sem hefur getu og vinsældir til að leiða breiðfylkingu í anda R-listans: Katrínu Jakobsdóttur[...]Ef hún hefur áhuga á að hrifsa samfélagið úr járnklóm hagsmuna, nýfrjálshyggju og lýðskrumara, þá verður hún að stíga fram og sameina vinstri– og miðjumenn að baki sér. Og aðrir forystumenn eiga að víkja. Þeir eiga að taka hagsmuni þjóðar fram yfir persónulegan metnað og verða riddarar í sveit Katrínar Jakobsdóttur. Hennar tími er einfaldlega runninn upp. Hvort sem henni líkar betur eða verr.“
Leiðinlegasti tíminn í stjórnmálum
Í þeim kosningum voru sjö flokkar kjörnir á þing, sitjandi stjórn kolféll og engin sýnileg stjórn var í kortunum. Því þurfti að leita óhefðbundinna leiða til að mynda ríkisstjórn og úr varð stjórnarkreppa sem stóð fram í janúar 2017. Við tók erfið stjórnarkreppa enda erfitt að mynda starfhæfa ríkisstjórn.
Í bókinni Hreyfing rauð og græn – Saga VG 1999-2019 eftir Pétur Hrafn Árnason sagnfræðing, sem kom út fyrir ári i í tilefni af 20 ára afmæli Vinstri grænna, var þetta tímabil gert upp. Þar var haft eftir Katrínu að stjórnarmyndunarviðræðurnar sem áttu sér stað eftir kosningarnar 2016, og drógust í marga mánuði, hafi verið mjög óvenjulegur tími í íslenskri pólitík. „Ég myndi segja að hann hafi verið sá leiðinlegasti sem ég hef upplifað á mínum pólitíska ferli. Ég eiginlega lærði í þessum stjórnarmyndunarviðræðum – í eitt skipti fyrir öll – að maður þarf mjög að gæta þess hverjum maður treystir í pólitík. Þetta er staðreynd sem stjórnmálin standa frammi fyrir eftir hrunið, traust milli manna er af mjög svo skornum skammti.“
Úr varð að ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar, sem skipuð var Sjálfstæðisflokki, Viðreisn og Bjartri framtíð, var mynduð í janúar 2017.
Tími Katrínar var ekki runninn upp. Hún myndi hins vegar fá nýtt tækifæri fyrr en flesta grunaði.
Landsréttarmálið og Uppreist-æru málið ollu stjórninni stórkostlegum erfiðleikum og öllum sem fjölluðu um stjórnmál, eða tóku beinan þátt í þeim, var ljóst að ríkisstjórnin myndi líkast til ekki verða langlíf. Hún sprakk um miðjan september og boðað var til nýrra kosninga.
Í lok október 2017 var svo kosið í annað sinn á einu ári.
Nafnlausi áróðurinn sem virkaði
Fylgi Vinstri grænna var í hæstu hæðum á þessum tíma. Í könnun MMR mánuði fyrir kosningar mældist það um 25 prósent. Það féll hins vegar hratt á þeim mánuði. Í áðurnefndri bók sagði Katrín að hún væri nokkuð viss um að nafnlaus áróður, sem var framsettur af stuðningsmönnum hægri afla með myndböndum á Facebook og Youtube þar sem tugir þúsund sáu, hafi skipt þar máli. „Tillögur VG í skattamálum voru gerðar tortryggilegar og það hafði heilmikil áhrif. Fylgið féll jafnt og þétt og að lenda í slíkri vörn strax í upphafi er þrælerfitt í kosningabaráttu.“
Á endanum fékk flokkurinn 16,9 prósent, sem gerði hann að næst stærsta flokki landsins. Vinstri græn bættu samt einungis við sig einum þingmanni.
Eftir að stjórnarmyndunarviðræðum við Samfylkingu, Pírata og Framsóknarflokk heima hjá Sigurði Inga Jóhannssyni, formanni Framsóknar, í Hrunamannahreppi var slitið eftir fjóra daga fóru af stað þreifingar milli Vinstri grænna, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks. Í bókinni segir enda að áhugi innan allra þeirra flokka á slíku samstarfi hafi verið „verst geymda leyndarmálið í pólitíkinni“ á þeim tíma.
Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttir tók formlega við völdum í lok nóvember 2017.
Afhroð í borgarstjórnarkosningum
Tveir þingmenn Vinstri grænna, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Andrés Ingi Jónsson, studdu ekki myndun ríkisstjórnarinnar né stjórnarsáttmálann og hafa í dag bæði sagt sig úr flokknum.
Ríkisstjórnarsamstarfið við sérstaklega Sjálfstæðisflokkinn, sem margir innan Vinstri grænna líta á sem höfuðandstæðing flokksins í stjórnmálum, var risastórt pólitískt veðmál.
Flokkurinn kannaði hvernig samstarfið væri að mælast fyrir í könnun árið 2018. Þar var leitað álits 2.437 einstaklinga úr félagaskrá Vinstri grænna og 2.979 úr handahófskenndu úrtaki. Niðurstaðan var að einungis 44 prósent flokksmanna sem tóku þátt í könnuninni voru ánægðir með störf ríkisstjórnarinnar.
Betri mæling fékkst á stöðuna í lok maí 2018, þegar sveitarstjórnarkosningar fóru fram. Niðurstaðan á höfuðborgarsvæðinu, þar sem fylgi Vinstri grænna mældist mest í aðdraganda þingkosninganna árið áður, var afhroð. Í Reykjavík, þar sem formaður flokksins býður fram, fékk flokkurinn einungis 2.700 atkvæði, eða 4,6 prósent. Í Kópavogi, næst stærsta sveitarfélagi landsins, voru atkvæðin 910 og hlutfallið 5,7 prósent. Í Hafnarfirði fékk flokkurinn 776 atkvæði eða 6,7 prósent.
Steingrímur kveður sviðið
Nú eru rúmir tíu mánuðir til kosninga. Steingrímur J. Sigfússon, sem hefur tryggt að Norðausturkjördæmi hefur verið sterkt vígi, tilkynnti nýverið að hann ætlaði að hætta á þingi í aðdraganda næstu kosninga og því liggur fyrir að nýr oddviti mun leiða í kjördæminu. Óli Halldórsson hefur þegar tilkynnt framboð í það hlutverk. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, sem var í öðru sæti á listanum haustið 2017, sækist líka eftir því hlutverki. Flestir viðmælendur Kjarnans, jafnt innan sem utan Vinstri grænna, eru sammála um að Kolbeinn Óttarsson Proppé, sem hefur setið sem þingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður frá 2016, sé líka að máta sig við oddvitasætið. Hann er frá Siglufirði og festi nýverið kaup á húsnæði þar, sem gaf þeim getgátum byr undir báða vængi. Vinstri græn voru næst stærsti flokkurinn þar í síðustu kosningum, fengu 88 atkvæðum færri en Sjálfstæðisflokkur og alls 19,9 prósent allra greiddra atkvæða. Þar spilar persónufylgi Steingríms, sem hefur á áratugalöngum ferli beitt sér mikið fyrir kjördæmið, til dæmis í stóriðju- og samgöngumálum, stóra rullu. Alls óvíst er að sporgöngufólk hans nái að viðhalda því fylgi.
Vinstri græn eru í ýmis konar öðrum vanda. Í síðustu tveimur könnunum MMR mældist fylgi flokksins annars vegar 7,5 og hins vegar 7,6 prósent. Það er minnsta fylgi sem hann hefur mælst með í könnunum MMR frá því í apríl 2013, eða í sjö og hálft ár. Fylgið er áhyggjuefni fyrir Vinstri græn af nokkrum ástæðum.
Líkt og Kjarninn greindi frá í greiningu um miðjan síðasta mánuð þá hefur stuðningur við Vinstri græn hrunið á höfuðborgarsvæðinu. Í kosningunum 2017 fengu Vinstri græn til að mynda 21,5 prósent atkvæða í Reykjavík norður, þar sem Katrín Jakobsdóttir leiddi listann. Það var mesta fylgi sem flokkurinn fékk í nokkru kjördæmi.
Greining Kjarnans, sem byggði annars vegar á könnunum MMR fyrir og eftir síðustu kosningar og hins vegar á tveimur könnunum sem gerðar voru í október og nóvember 2020, sýndi að fylgið á höfuðborgarsvæðinu er nú tæpur helmingur þess sem það var fyrir rúmum þremur árum síðan.
Þá hefur MMR mælt fylgi Vinstri grænna meira í síðustu könnun fyrirtækisins fyrir síðustu þrjár þingkosningar, þótt það hafi alltaf verið innan skekkjumarka. Sú niðurstaða bendir samt sem áður til þess að fylgi Vinstri grænna sé frekar ofmetið í könnunum MMR en vanmetið.
Enginn tapað meiru en Vinstri græn
Enginn flokkur hefur tapað meira fylgi en Vinstri græn það sem af er kjörtímabili. Alls hafa 9,3 prósentustig horfið. Ef sú staða sem nú mælist kæmi upp úr kjörkössunum yrði það versta niðurstaða Vinstri grænna frá því að flokkurinn var stofnaður árið 1999 og yrði í fyrsta sinn frá árinu 2007 sem flokkurinn fengi ekki yfir tíu prósent stuðning í kosningum.
Þegar staðan er borin saman við hina stjórnarflokkanna tvo er augljóst hver það er sem tapar mestu á þessu ríkisstjórnarsamstarfi. Sjálfstæðisflokkurinn er sem stendur að mælast með 1,9 prósentustigi meira en hann fékk haustið 2017 og með fylgi sitt í hæstu hæðum miðað við síðustu ár, þar sem 27,1 prósent landsmanna segjast styðja flokkinn. Framsóknarflokkurinn á í miklum erfiðleikum og stefnir hraðbyrði á sína verstu niðurstöðu í Íslandssögunni, en fylgið mælist nú 3,1 prósentustigi undir kjörfylgi og einungis 7,6 prósent landsmanna segjast ætla að kjósa flokkinn. Samanlagt hafa þessir tveir flokkar því tapað 1,2 prósentustigi á sama tíma og Vinstri græn hafa tapað 55 prósent af fylgi sínu.
Ógn frá vinstri
Í bókinni eftir Pétur Hrafn sagnfræðing, sem kom út fyrir ári síðan, var meðal annars reynt að leita skýringa á því hvað hefði farið úrskeiðis hjá Vinstri grænum í aðdraganda síðustu kosninga, þegar fylgið fór úr 25 prósentum í 16,9 prósent á mánuði. Ein skýringin sem þar var viðruð er að Flokkur fólksins, sem hafi höfðað til hinna minna megandi, hafi náð umtalsverðum árangri á lokametrunum sem skilaði flokknum í fyrsta sinn inn á þing. Fylgi flokksins hefði, samkvæmt könnunum, lækkað hjá þeim sem höfðu einungis grunnskólapróf en var hærra en hjá nokkrum öðrum flokki hjá þeim sem voru háskólamenntaðir.
Í borgarstjórnarkosningunum 2018 voru Vinstri græn ekki einungis að glíma við að Flokkur fólksins tók til sín atkvæði, sem skilaði þeim flokki inni borgarfulltrúa, heldur líka að komið var róttækt afl vinstra megin við Vinstri græn, Sósíalistaflokkur Íslands, sem gekk mun betur að höfða til vinstrisinnaðra kjósenda.
Sósíalistaflokkurinn mælist nú með fimm prósent fylgi sem myndi skila honum með menn á þing. Hafa verður þann fyrirvara að flokkurinn á eftir að kynna stefnuskrá sína fyrir næstu kosningar og hvaða fólk verður á lista, sem er líklegra til að auka fylgið frekar en hitt. Sú fylgisaukning yrði, að minnsta kosti að hluta, sótt til Vinstri grænna.
Sem stendur virðist því sem hið risastóra veðmál flokksins, að mynda íhaldssama ríkisstjórn með þeim flokkum sem Vinstri græn hafa helst stillt sér upp á móti í pólitískri orðræðu síðustu ára, sé alls ekki líklegt til að ganga upp.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars