Einungis tveimur vikum eftir að heilbrigðisráðuneytið sendi frá sér fréttatilkynningu þar sem sagði að vonast væri til þess að hjarðónæmi yrði náð á fyrsta ársfjórðungi komandi árs, hafa væntingar landsmanna verið dempaðar. Verulega.
Eins og fram kom á Kjarnanum fyrr í dag sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir frá því á upplýsingafundi almannavarna að ekki væri búist við því að hjarðónæmi yrði náð fyrr en á síðari hluta ársins 2021, þar sem minna bóluefni kemur til landsins en áætlað var.
Fram kom í máli Þórólfs að vafalaust þyrftu Íslendingar að búa við áframhaldandi takmarkanir fram eftir næsta ári og halda áfram að viðhalda einstaklingsbundnum sóttvörnum.
„Við vonuðumst til að sjá hraðari bólusetningar strax eftir áramótin en við þurfum að lifa við það að það mun ganga hægar en við vonuðumst til,“ sagði Þórólfur.
Á samfélagsmiðlum hafa vonbrigði fólks ekki leynt sér. „Þessi tíðindi eru náttúrlega agaleg og enn verri vegna þess að sumir hafa talað um að við verðum öll orðin bólusett á fyrstu mánuðum næsta árs,“ sagði Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis, í umræðum um málið á Twitter.
"Sóttvarnalæknir telur að ekki náist gott hjarðónæmi hér á landi fyrr en á seinni hluta næsta árs. Áfram verði kórónuveiruaðgerðir í gildi þar til mitt ár 2021 hið minnsta. Vonast hefði verið til að geta ráðist í umfangsmeiri bólusetningar eftir áramót en raunin verður." pic.twitter.com/Cs3OVvbB48
— Hrafn Jónsson (@hrafnjonsson) December 17, 2020
Þar hélt hann því til haga að heilbrigðisyfirvöld hefðu varað við of mikilli bjartsýni um bólusetningar og hjarðónæmi, sem er rétt. Þórólfur sóttvarnalæknir sagði einmitt 3. desember, í samtali við Vísi, að það væri í hans huga ótímabært að ræða tímasetningar, en fyrr þann sama dag höfðu vonir landsmanna um hjarðónæmi, mögulega fyrir lok marsmánaðar, verið glæddar með tilkynningu heilbrigðisráðuneytisins.
Þessi tíðindi eru náttúrulega agaleg og enn verri vegna þess að sumir hafa talað um að við verðum öll orðin bólusett á fyrstu mánuðum næsta árs.
— Kjartan Hreinn (@kjartanhn) December 17, 2020
„Það sem ég hef sagt er að við erum ekki með neitt í hendi um það hvenær við fáum fyrstu sendingu af bóluefni eða hversu mikið. Í mínum huga er ekki tímabært að ræða tímasetningar nákvæmlega fyrr en við vitum það betur,“ sagði Þórólfur við Vísi.
Lokaspretturinn verður lengri en vonast var eftir
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði þann 8. desember, í tilefni af því að Bretar hófu bólusetningu, að ljóst væri að lokaspretturinn í glímunni væri að hefjast.
„Þetta eru tímamót í baráttunni gegn veirunni og við getum óhikað litið með bjartsýni til nýs árs. Samfélagið okkar mun þá byrja að færast smátt og smátt í eðlilegt horf. Við getum farið að njóta samvista óhindrað og efnahagslífið getur spyrnt kröftuglega við fótum og atvinnuleysi byrjað að ganga niður,“ skrifaði hún.
Miðað við tíðindi dagsins er ljóst að lokaspretturinn hér á landi verður töluvert lengri en vonir stóðu til.
Rautt um að litast í Kauphöllinni
Fjárfestar tóku tíðindunum af upplýsingafundi almannavarna ekki vel og eru nær allar tölur í Kauphöllinni rauðar það sem af er degi.
Verð hlutabréfa í Icelandair tók um það bil 12 prósenta dýfu um hádegisbil en líkt og flest önnur ferðaþjónustufyrirtæki á flugfélagið, sem farið hefur í gegnum miklar hremmingar vegna faraldursins, mikla hagsmuni af því að hjarðónæmi náist hér á landi sem fyrst.
Hlutabréfaverð félagsins hefur hækkað á ný eftir dýfuna í kjölfar tíðindanna og er verðið nú 5 prósentum lægra en þegar viðskipti hófust í morgun.