Tæknispá 2021: Þrír sterkir straumar
Myndavélar, framtíð skrifstofunnar og íslenska sprotavorið eru á meðal helstu umfjöllunarefna í árlegri tæknispá Hjálmars Gíslasonar.
Um áramót hef ég oft gert mér að leik að horfa til komandi árs og reynt að spá í hvað það kunni að bera með sér á vettvangi tækninnar. Í fyrra horfði ég reyndar lengra og velti fyrir mér hvað komandi áratugur kynni að bera með sér. Sjáum hvernig það fer.
Í þetta sinn ætla ég hins vegar að horfa á yfirstandandi þróun í fáeinum málaflokkum og hvert þeir straumar gætu leitt okkur.
Myndavélin er sterkari en sverðið
Sú yfirburðastaða sem ritað mál hefur haft í samskiptum og þekkingarmiðlun síðustu aldirnar er á undanhaldi og myndmálið er hratt að taka við sem mikilvirkasta miðlunarleiðin.
Vinsældir fyrst YouTube, en svo Instagram, Snapchat, TikTok og svo nú síðast „sagna“ (stories) í nánast hverju einasta samskiptaforriti bera þessu vott. Umbreytingin verður enn skýrari þegar horft er til þess hvernig notkun þessarra miðla er eftir aldri. Ungt fólk notast nær eingöngu við myndmálið, meðan eldra fólkið er það sem enn heldur sig að miklu leyti við textann.
Lyndistákn (e. emoticon) og GIF-myndir í samskiptum eru annað merki um þessa þróun. Og þó þeim sé oft beitt í bland við texta segir tákn með apa sem heldur fyrir augun eða þekkt myndbrot úr bíómynd oft meira en mörg orð.
Með þessu er ég ekki að segja að tími textans sé liðinn. En með tilkomu öflugrar myndavélar í vasa hvers manns og hindrunarlausa möguleika til dreifingar á hverskyns efni er mannkynið hratt að tileinka sér fjölbreyttari tjáningar- og samskiptamáta.
Í sannleika sagt er það fólki mun eðlislægara að sýna, segja frá og sjá, en að færa hugsanir sínar í rituð orð og lesa. Fyrir tíma prentsins og raunar löngu eftir að það var komið fram voru frásagnir augliti til auglitis meginaðferðin til upplýsingamiðlunar. Aðgangur að prentuðum upplýsingum – og lestrarkunnátta – hefur ekki verið almenn nema rétt síðustu 50-200 árin (eftir því hvar í heiminum er) og það eru innan við 20 ár síðan internetið færði hverjum manni möguleika á því að setja fram og miðla rituðum skoðunum sínum hindrunarlaust um stóran hluta heimsins.
Nú þarf ekki annað en bregða upp símanum til að sýna heiminum og segja frá því sem fyrir augu ber. Textinn er í mörgum tilfellum orðinn óþarft – og jafnvel hamlandi – milliskref.
Það er erfitt að átta sig á því hvert þessi þróun mun leiða, en rétt eins og með aðra þunga strauma tímans þurfum við að átta okkur á þeim og aðlagast. Við eigum sennilega ekki að slaka á í lestrarkennslu, en kannski ætti ekki síður að auka áherslu á aðra miðlun? Kannski ættum við sem eldri erum að tileinka okkur myndmálið meira og hraðar?
Ég er ekki tilbúinn að slá föstu að svo sé, en er raunverulegur möguleiki að sagan leiði í ljós að almenn þekking á lestri og ritun verði bara 100-200 ára andartak í sögunni?! 🤷
Framtíð skrifstofunnar
2020 leiddi okkur í sanninn um að margt er hægt að gera öðruvísi en áður. Eitt af því er að með aðstoð tækninnar má vinna mörg þau verkefni að heiman (eða hvaðan sem er) sem áður voru unnin á vinnustöðum. Þetta var holl lexía og margir sem þurftu að læra mikið og hratt.
Ég hef hins vegar enga trú á því að skrifstofan sé dauð (með tilliti til fyrsta spádómsins er orðið „skrifstofa“ þá kannski ekki réttnefni lengur – við komum ekki þangað til að skrifa – heldur til að eiga í samskiptum). Hópastarf og þá sérstaklega skapandi vinna er þess eðlis að við þurfum á öllum tiltækum meðulum að halda til að samskiptin verði sem best og liprust. Við slíka vinnu er ekkert sem kemur í stað beinna samskipta með aðgangi að teiknitöflu, sameiginlegum skjá, skriffærum og samveru.
Sömuleiðis eru þau samskipti sem verða á milli samstarfsfólks þegar það hittist fyrir tilviljun á göngunum, sér yfir öxlina á hvert öðru í hverju er verið að vinna, eða heyrir á spjall annarra við úrlausn verkefna sinna ómetanleg – og eitthvað sem ekki verður endurskapað þegar hver vinnur á sínum stað í sínu horni.
Mikilvægasti þátturinn er síðan sá að til að samvinna skili árangri þarf samstarfsfólkið að þekkjast og treysta hvert öðru. Kunningsskapur, traust og skilningur skapast við bein samskipti og ekkert sem kemur í stað þeirra.
Það er hægt að búa til frábær fyrirtæki þar sem allir vinna fjarvinnu – og það hefur verið gert. Í hugbúnaðargeiranum hafa fyrirtæki eins og Automattic (framleiðendur WordPress), InVision og Zapier byggt upp algerlega dreifða vinnustaði. En vegna alls þess sem sagt hefur verið hér að ofan mun fyrirtæki sem á auðvelt með að koma starfsfólki saman í eigin persónu að öðru jöfnu ganga betur en fyrirtæki sem vinnur dreift.
En við höfum líka séð að við rétt skilyrði er margt sem gengur vel – og sumt jafnvel betur – þegar hver og einn starfsmaður getur einbeitt sér að sínu, vinnandi að heiman.
Saman held ég að þessar lexíur eigi eftir að breyta vinnustöðum og vinnumenningu. Skrifstofan er ekki dauð, heldur mun hún breytast. Fyrirtæki munu finna leiðir til besta þessa blöndu. Meira frelsi til að vinna heima þegar við á, jafnvel heilir dagar þar sem allir vinna að heiman – en skrifstofan að sama skapi útbúin til að ýta undir skapandi vinnu og hópastarf. Rými fyrir misstóra hópa til að vinna saman í lengri eða skemmri tíma. Rými til einbeitingar þegar við á. Vinnurými í almenningi nálægt kaffivélinni og kælinum þegar unnið er í verkefnum sem ekki krefjast einbeitingar. Áhersla á framúrskarandi nettengingar og myndavélar til að liðka fyrir fjarfundum. Og meiri áhersla á samstillingu og kunningskap innan hópsins með viðeigandi vinnustofum og slíku.
Fyrirtæki munu líka – og ættu – í auknum mæli taka þátt í að útbúa starfsfólki sínu framúrskarandi vinnuaðstöðu heima fyrir.
2020 mun ekki leiða til þess að við munum öll fara að vinna að heiman. Raunar munum við þurfa að hafa fyrir því að halda í þær breytingar sem voru af hinu góða, en hjá þeim sem gera það mun það sem við lærðum árið 2020 leiða til þess að við munum vinna öðruvísi – og betur.
Íslenska sprotavorið
Það er ekki hægt að skilja við tæknispá þessa árs án þess að minnast á íslenska sprotavorið. Það er nefnilega eitthvað magnað að gerast í íslenskri nýsköpun.
Árið 2020 var þrátt fyrir allar Covid-hindranir – og kannski að einhverju leiti vegna þeirra - einstakt þegar kom að fjárfestingu og vexti íslenskra sprotafyrirtækja. Fjölmörg fyrirtæki sóttu sér mikið fjármagn til uppbyggingar og vaxtar. Má þar nefna Controlant, Sidekick Health, Kerecis, Lucinity, Mainframe og það fyrirtæki sem ég stend að ásamt fleirum – GRID. Þar að auki var fyrirtækið Unity, sem hefur sterkar tengingar við Ísland í gegnum stofnandann Davíð Helgason, skráð á Nasdaq-markaðinn með látum og er, ásamt Spotify, líklega verðmætasta tæknifyrirtæki sem stofnað hefur verið á Norðurlöndum síðustu áratugina.
Þrátt fyrir að óvíst sé að öll þessi fyrirtæki gangi upp, þá er þessi þróun ómetanleg. Hingað er að koma umtalsvert fjármagn og mikil þekking erlendis frá í gegnum fjárfesta og aðstandendur þessarra fyrirtækja. Íslenskir fjárfestar, sjóðir og stofnendur eru að færast nær markmiðum sínum og sumir hafa þegar innleyst verulegan hagnað af sínum fjárfestingum og þátttöku. Hér er að verða til virkilega öflug nýsköpunar-„sena” og óháð gegni einstakra fyrirtækja munu þessi verðmæti sitja eftir.
Það verður fljótlega hægt að telja upp fleira en Össur, Marel og CCP þegar tínd eru til þau fyrirtæki sem hafa gengið upp og hátæknigeirinn mun með tíð og tíma mynda langþráðar nýjar stoðir undir íslenskt efnahagslíf. Það verður mikill og merkilegur áfangi.
Gleðilegt nýtt tækniár!
Höfundur er stjórnarformaður Kjarnans og forstjóri GRID.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði