Nýtt afbrigði kórónuveirunnar SARS-CoV-2, sem fyrst greindist í Bretlandi, hefur nú greinst í að minnsta kosti 33 löndum, þar á meðal á Íslandi. Yfir fjörutíu lönd hafa hert ferðatakmarkanir sínar vegna afbrigðisins og sett hömlur á ferðalög til og frá Bretlandi sem og að krefja fólk sem þaðan kemur um að fara í sóttkví og jafnvel einangrun.
Afbrigðið, sem kallast meðal vísindamanna B.1.1.7., er meira smitandi en önnur þó að enn sé ekki fullvíst hversu mikið meira. Ekki er þó talið að þetta afbrigði kórónuveirunnar valdi meiri veikindum en önnur en þar sem það smitast hraðar manna á milli veikjast fleiri og þar með veikjast fleiri alvarlega. Álag á sjúkrahús, m.a. í Bretlandi og Bandaríkjunum, nálgast þolmörk af þessum sökum.
Annað nýlegt afbrigði veirunnar virðist hafa sambærilega eiginleika. Það greindist fyrst í Suður-Afríku og er þar af leiðandi kennt við landið þó að vísindamenn hafi gefið því heitið 501.V2. Um 90 prósent þeirra kórónuveira sem raðgreindar hafa verið í Suður-Afríku síðan um miðjan nóvember eru af þessum tiltekna stofni.
Danir ákváðu í gær að setja ferðabann á Suður-Afríku af þessum sökum. Í Simbabve, nágrannaríki Suður-Afríku hafa aðgerðir verið hertar, útgöngubann tekið gildi og þess krafist að þeir sem komi til landsins framvísi neikvæðu COVID-prófi.
Það að veiran sem veldur COVID-19 breytist með tímanum kemur vísindamönnum alls ekki á óvart. Veirur stökkbreytast. Það er þeirra „eðli“ – ef svo má að orði komast. Hversu mikið er hins vegar stóri óvissuþátturinn sem og hvaða eiginleikar fylgja breytingunum.
Í flestum tilvikum hafa ný afbrigði veirunnar ekki valdið miklum áhyggjum meðal vísindamanna. En þessi tvö sem á undan er getið og komið hafa upp á síðustu vikum gera það þó einfaldlega vegna þess að þó að ekki hafi enn unnist tími til að rannsaka afbrigðin í þaula virðast þau vera meira smitandi en önnur sem við höfum hingað til verið að fást við.
Arnar Pálsson, erfðafræðingur og prófessor í lífupplýsingatækni við Háskóla Íslands, segir í nýju svari á Vísindavefnum líklegast að SARS-CoV-2 muni þróast í átt að „vægari gerð sem smitast greiðar en núverandi afbrigði. Vísbendingar eru um að breska afbrigðið af veirunni smitist einmitt greiðar, og mögulega einnig annað afbrigði frá Suður-Afríku“.
Breiðist mun hraðar út
Í fyrstu töldu vísindamenn t.d. að breska afbrigðið breiddist 70 prósent hraðar út en önnur. Nú er talið að það sé rúmlega helmingi meira smitandi. Eftir því sem rannsóknum vindur fram er allt eins líklegt að smitstuðullinn eigi eftir að lækka enn frekar. Tíminn er sú breyta jöfnunnar sem mun leiða það í ljós.
Breska afbrigðið er orðið uppistaðan í flestum smitum sem greinast á Bretlandseyjum. Það hefur einnig breiðst hratt út í Danmörku og er ein helsta ástæðan fyrir því að Danir hertu verulega á sínum aðgerðum í byrjun vikunnar. Hið suðurafríska hefur fyrst og fremst greinst í Suður-Afríku en nú einnig í Bretlandi, Noregi, Sviss, Ástralíu, Frakklandi og víðar.
Veiran SARS-CoV-2, sem fyrst greindist í Kína fyrir rúmlega ári, hefur ferðast um heiminn í líkömum fólks. Og í hvert skipti sem hún kemur sér fyrir í nýjum hýsli og fer að fjölga sér breytist hún örlítið. Þannig eru nú til þúsundir afbrigða af henni en aðeins fá þeirra hafa þó vakið sérstakan áhuga og jafnvel áhyggjur vísindamanna.
Talið er ólíklegt að breska afbrigðið setji bólusetningar sem nú eru að hefjast í eitthvað uppnám. Bóluefni sem þegar eru komin á markað og önnur sem eru í þróun eiga að geta komið í veg fyrir sýkingu af völdum þess líkt og annarra. Ekki er hins vegar enn hægt að segja með vissu að bóluefnin veiti góða vörn gegn sýkingu af völdum hins suðurafríska afbrigðis. Veirur af þeim stofni hafa fleiri gaddaprótein en aðrar en það eru þau sem veiran notar til að komast inn í frumur mannslíkamans. Sérfræðinga grunar að vegna þessara breyttu eiginleika eigi veiran auðveldara með að komast hjá ónæmisvörnum líkamans. Bóluefnin verða hins vegar áfram í stöðugri þróun og því ætti að vera hægt að bregðast við stökkbreytingum sem þessum og ná fram góðri virkni efnanna.
Vegna þessara nýju og að því er talið er meiri smitandi afbrigða kórónuveirunnar hefur þrýstingur á að hraða bólusetningum, ekki aðeins í hinum vestræna heimi, heldur einnig í fátækari ríkjum, aukist enn frekar.
Bólusetningum verði hraðað
En þangað til að það gerist hafa nokkur ríki nú brugðist við með því að herða aftur aðgerðir. Í Bretlandi er nú í gildi útgöngubann, í þriðja sinn frá því að faraldurinn hófst. Fleiri liggja nú á sjúkrahúsi í landinu vegna COVID-19 en á toppi fyrstu bylgjunnar. Skólar eru lokaðir, einnig barnaskólar. Það helgast m.a. af því hversu breska afbrigðið smitast hratt.
Kúrfa tilfella á Írlandi og Íslandi hefur hingað til litið mjög svipað út. En nú er uppsveifla á Írlandi vegna hins breska afbriðis og fleiri liggja á sjúkrahúsi þar í landi nú en í fyrstu bylgjunni.
Á upplýsingafundi almannavarna í dag sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir að breska afbrigðið hefði greinst á hjá 22 hér á landi, 19 á landamærum og þrír innanlands. Öll innanlandssmitin tengjast fólki sem hafði greinst á landamærunum.
Nýtt svar á Vísindavefnum um mögulega þróun nýju kórónuveirunnar.